Jólablaðið - 20.12.1957, Page 3
JÓLAHU GLEIÐING:
FREISARINN KALLAR
Boðskapur jólanna á erindi til allra. Grundvöllur hans er
ákall Frelsarans. Komið til mín.
Sérhver jólahátíð er fæðingarhátíð frelsarans. Hátíð, sem á
að festa í brjósti barnsins og hinna eldri, það sem er dýrðlegt
og ógleymanlegt.
Jólahátíðin segir okkur frá mesta kærleiksverki föðursins
himneska, að hann gaf okkur sinn eingetinn son, svo að hver,
sem á hann trúir, glatist ekki heldur öðlist eilíft líf.
Faðmur föður og sonar stendur opinn öllum, sem trúa vilja,
svo við ekki glötumst heldur öðlumst eilíft líf. Almáttugur
kærleiksfaðmur vill blessa þig og varðveita.
Jólaboðskapurinn lætur englana yfir Betlehemsvöllum segja
og lofsyngja . . . . Sjá! Ég flyt yður mikinn fögnuð. Yður er
í dag frelsari fæddur, sem er Drottinn Kristur i borg Davíðs.
Þetta er boðskapurinn guðlegi og eilífi. Hann er okkur af
himnum sendur. Hann á að vera leiðarljós, trú og vissa í allri
vegferð okkar. Honum getur þú treyst af öllu hjarta. Hann
getur þú elskað sem föður og frelsara. Hann er þér jafnan ná-
lægur, og nálægastur þegar þér liggur mest á. Það er að eins
eitt: Þú verður að trúa og treysta honum án hiks eða efa.
Jólaboðskapurinn, fæðing Jesú, líf hans og kenning varðar
þig þegar í þessu lífi meira en nokkuð annað. Án trúar, án
vonar verður jarðlífið þér kalt og ömurlegt. Engin efnisleg
gæði, þótt vera kunni eftirsótt, geta veitt þér frið og innri
fögnuð, sem er nauðsynlegur til þess að líf þitt verði heilbrigt
og fagurt. Án sambandsins við Guð er líf þitt sjúkt. Skuggar
efasemda og vantrúar naga hug þinn. Eitra líf þitt. Oft reynir
þú að höndla lífsgleði með því að leita hennar í glysi og glaumi
heimsins. Stundum virðist þetta duga um stundarsakir. En það
er aðeins blekking. Þegar þú hugsar alvarlega um líf þitt muntu
viðurkenna, að þar var enga gleði að finna. Þvert á móti margs-
konar vonbrigði, vaxandi svartsýni og lífsleiða.
Veittu því vaxandi athygli birtu jólahátíðarinnar. Innri birtu
jólanna, sem engan fölskva slær á allt frá fyrstu jólahátíð
mannkynsins. Birta jólaljósanna er mikil og fögur. En það er
fyrst og fremst hin innri birta, birta hjartnanna, sem gera jól-
in sanna og heilaga hátíð.
Birtan frá fæðingu, lífi og kenningu Jesú hefir allt af sama
kraptinn. Hún eyðist ekki. Er ávallt ný og fullkomin. Kristur
er fæddur til þess að frelsa þig. Gera þig hluttakanda eilífs
lífs.
Sumir, trúarveikir, álykta þannig, að það sé ekki alvara bak-
við boðskapinn um eilíft líf, þann boðskap þurfi ekki að taka
alvarlega. Því er samt ekki þann veg farið. Allan boðskap
Krists verður að taka í alvöru og sannleika. Slíkt er nauðsyn-
legt vegna okkar sjálfra. Sambandið við frelsara okkar verður
að vera traust. Engar misfellur mega vera á því sambandi.
Vegur föðursins og frelsarans er ekki veraldarvegur. Hann
er ekki af þessum heimi. Vegur sérhvers kristins manns stefn-
ir jafnan til himins. Það er hans framtíðarbústaður fyrir krapt
og kærleika frelsarans.
Jarðvistardagarnir eru ekki jafnt mældir og útdeildir. Sum-
ir fá langan náðartíma, aðrir skamman. öll erum við börn sama
himneska föðursins og frelsarans og eigum að vinna í víngarði
hans meðan náðartíminn varir. Hæfileikum okkar eigum við
að verja til þess, að láta sem mest gott af okkur leiða, í hvaða
stétt eða starfi er við stöndum. Góðvild og hjálpsemi við aðra
er okkur skylt að sýna náungum okkar og bræðrum, sem mestan
kærleika í orði og verki. Með því að iðka sjálfur sem víðtækasta
kærleiksþjónustu við meðbræður þína, opnast þér sífellt nýir
dýrðarheimar, sem endurspegla kærleika Krists. Láttu orð hans,
líf og kenningu vera lampa fóta þinna. Láttu engin vandkvæði,
andleg eða efnisleg, skyggja á samband þitt við Krist.
Það er sjálfsagt að hver og einn geri sitt til að leggja fram
það sem auka má sanna gleði jólahátíðarinnar. En varist að
gleyma eða láta glepjast svo af ytri gæðum, að jólaboðskapur-
inn týnist, eða kall frelsarans heyrist ekki fyrir þruski og um-
svifurn ytri gæða. Ef svo ber til glatar þú friði og fögnuði jól-
anna. Það er mikill missir. Sá mesti skaði, sem þú getur vald-
ið sjálfum þér.
Það er alvara en enginn orðaleikur að gefast guði. Verða
hans barn. Hlýða vilja hans. Lifa honum í verki og orði, en
jafnframt er það helgasta og háleitasta hlutverkið, sem þér
og öðrum getur hlotnast.
Blessuð jólahátíðin á að minna þig rækilega á þetta. Hlýddu
kalli frelsara þíns. Gefðu honum hjarta þitt í trú og von eins
og þú gerðir sem barn. Þú segist hafa þroskast. Barnseðlið
sé þér glatað. Hugur þinn sé fullur efasemda og vantrúar.
Máske er það eins og þú segir, en mundu þá að viðurkenna að
að þú ert villuráfandi barn í viðsjálum heimi, sem vill umfram
allt ná þér í glys og glaum. Hafa þig að leiksoppi dutlunga.
Aldrei er þér nauðsynlegra að hlusta eftir kalli Frelsarans:
Ivomið til mín. Fylgdu honum, þá ertu öruggur. Taktu í út-
rétta hönd Frelsara þíns; leitaðu í náðarfaðminn, sem biður
þín útbreiddur. Finndu kærleiksylinn sem streymir um allan
líkama þinn og veitir þér vellíðan og krapt.
Sértu veikur í trúnni eða freistingar sækja þig heim þá ieit-
aðu Frelsara þíns í hljóðri og einlægri bæn. Sé iðrun þín sönn
mun hann veita þér viðtöku með gleði. Og hvernig sem ástend-
ur mun hann þig ekki burtreka. Enginn á þvílíkan takmarka-
lausan kærleika og slíkan fyrirgefningarmátt. Það mátt þú
breyzkur sjálfur játa. Enginn er þér slíkur faðir og bróðir, sem
Jesú. Hann skilur þig bezt allra.
1 dag er þér Frelsari fæddur. Hann fæddist sem fátækt barn.
Var lagður í jötu vegna þess að hvorki móðir né barn fengu
rúm í gistihúsinu. Gakk þú vinur frelsara þínum á hönd. Hann
er þér einnig vinur og bróðir. Hann einn er nógu sannur og
máttugur til þess að gefa þér frið og fögnuð. Haltu þessi bless-
uð jól, sem guðs barn. Það verður þér og öllum eilíf sæla.
Þá getur þú sagt af hjarta með englunum og fjárhirðunum
á Betlehemsvöllum forðum: Dýrð sé guði í upphæðum. Friður
á jörðu og velþóknan yfir mönnunum.
Gleðileg jól!