Börn og menning - 01.09.2009, Blaðsíða 14
14
Börn og menning
II
Fíasól er gríðarlega sjálfstæð og
uppátektasöm, býsna skapstór og stundum
frek. Sem persóna á hún þannig ýmislegt
sameiginlegt með persónum á borð við Línu
Langsokk, hún fer sínar eigin leiðir og hlustar
ekki á neitt kjaftæði nema hún bókstaflega
neyðist til þess. Eins og Lína ber hún mátulega
virðingu fyrir hinum fullorðnu og lætur ekki
bjóða sér órökstuddar fullyrðingar. Oft hefur
verið kvartað undan því að kvenpersónur
í barnabókum hafi í gegnum tíðina haft
tilhneigingu til hlutleysis, þær séu mun frekar
áhorfendur en gerendur. Oft var það þannig
að stúlkur í skáldskap fyrir börn þurftu
að hafa sterk einkenni stráka til að virka
ævintýragjarnar og sjálfstæðar, nægir þar
að nefna Georgínu í Fimm-bókunum eftir
Enid Blyton sem dæmi en hún var með
stutt hár og gekk í strákafötum og gladdist
aldrei meira en þegar einhver hélt að hún
væri strákur. Stelpur gátu auðvitað komist í
hann krappann og lent í ýmsum ævintýrum
en þurftu iðulega karlkyns hjálp til að koma
sér úr vandanum. Fíasól er svo sannarlega
stelpa sem hefur mikinn áhuga á bleikum
fötum og fíneríi en hún hefur líka gaman að
ýmsu sem frekar er flokkað sem áhugamál
stráka, má þar nefna áhuga hennar á
sjóræningjum en henni finnst ekki leiðinlegt
að hafa svartan lepp fyrir auganu eftir
sundslys. Besti vinur hennar er líka strákur
og það er blessunarlega ekkert tiltökumál.
Myndskreytingar FHalldórs Baldurssonar, sem
hefur myndskreytt allar bækurnar um Fíusól,
ýta einnig undir sjálfstæði persónunnar,
hún er greinilega stelpa, stundum í kjól og
stundum ekki, alltaf með mikið og úfið hár
og alltaf svipbrigðamikil en ekki hlutlaus.
Myndskreytingarnar styðja einnig við húmor
bókanna og eru þannig óaðskiljanlegur hluti
þeirra.
Fíasól er langt frá því að vera feimin, hún
svarar alltaf fyrir sig og lætur fólk hafa það ef
svo ber undir. Hún er oftast réttsýn, en þó ekki
á þann leiðinlega litlausa hátt sem stundum
einkennir persónur barnabókmennta sem
eiga að vera til fyrirmyndar, haga sér alltaf
skynsamlega og eru fáránlega vammlausar.
Fíasól er ekki þannig, hún á stundum í innri
átökum við sjálfa sig, það sem hún vill gera er
nefnilega ekki alltaf það sem er siðferðislega
rétt. Þetta er auðvitað glíman endalausa milli
skyldunnar og viljans og þar fara hlutirnir ekki
alltaf saman eins og allir þekkja væntanlega.
Fíasól er stundum löt og stundum óréttlát og
svo missir hún stundum stjórn á skapi sínu án
mikils tilefnis. Hún vill halda sjálfstæði sínu
gagnvart foreldrunum og þau þurfa oft að
hafa töluvert fyrir því að sannfæra hana um
réttu leiðina í hinum ýmsu málum. Það sem
er einna skemmtilegast við Fíusól er einmitt
það að hún lúffar ekki alltaf fyrir skoðunum
foreldra sinna á þeim einföldu forsendum
að hún sér hlutina stundum hreinlega í öðru
Ijósi en þau. En þá komast þau iðulega að
einhverskonar málamiðlun og það er einmitt
þannig sem lífið virkar, eða ætti að minnsta
kosti að gera það, bæði hjá fullorðnum og
börnum.
III
Lesendur kannast eflaust við margt sem fyrir
ber í daglegu lífi Fíusólar. Hún hefur sterkar
skoðanir á því í hvernig fötum hún vill vera
og framan af verða fötin að vera bleik og
engar refjar. Þegar henni finnst að sér vegið
ákveður hún að fara að heiman en þau eru
ófá börnin sem hafa reynt það eða að minnsta
kosti hótað því, oftast með litlum árangri.
Einna skemmtilegast finnst mér þegar Ffasól
fær þá hugmynd að selja dót á tombólu
til styrktar sjálfri sér en hún vill skiljanlega
selja gamla dótið sitt til að kaupa sér nýtt.
Þegar mamma hennar bendir henni á að
tombólur eigi að halda til styrktar einhverju
góðu málefni (sem er í sjálfu sér umdeilanleg
skoðun) nennir hún ekki að standa í því, sem
er dásamlega raunsæ og skiljanleg afstaða.
Ég man eftir því að hafa haldið tombólu með
krökkunum í blokkinni þegar ég var barn,
og það auðvitað til styrktar einhverju góðu
málefni, en innst inni langaði okkur bara
að hirða peninginn, sem kom auðvitað ekki
til greina (og tombólumenningin gekk líka
öðrum þræði og kannski aðallega út á það
að fá mynd af sér í Mogganum).
Söguefnið er þannig oftast sótt í
hversdagsleikann en hversdagsleikinn breytist
stundum í ævintýri í meðförum höfundarins.
Sögusvið bókarinnar er Grasabær sem
er ímyndaður staður sem hinn fullorðna
lesanda grunar væntanlega að eigi sér stoð
í raunveruleikanum og að fyrirmyndin sé
Garðabær. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu
máli, lesandinn fær tilfinningu fyrir því að
sagan gerist í nokkuð hefðbundnu úthverfi.
Þetta er sumpart lokaður heimur þar sem allir
þekkja alla og ferðalögin út fyrir hverfið árétta
þetta hefðbundna líf. Það er skroppið í sund
eða farið f sumarbústað afa og ömmu og
svo einu sinni til Kaupmannahafnar í tívolífrf.
Fjölskyldulífið í Grænalundi er þannig í raun
ofurvenjulegt á yfirborðinu og ævintýrin eiga
sér stað innan ramma hversdagsleikans og
eru frásagnirnar raunsæjar í þeim skilningi.
Fíasól á frekar auðvelt með að koma auga
á hið ævintýralega í hversdagsleikanum
og það er ábyggilega ekki síst þess vegna
sem sögurnar um hana njóta jafn mikilla
vinsælda hjá börnum og raun ber vitni. Það