Börn og menning - 01.09.2013, Blaðsíða 33

Börn og menning - 01.09.2013, Blaðsíða 33
Mér finnst... 33 Sigríður Geirsdóttir ...nauðsynlegt að kunna að njóta augnabliksins. Um þetta var rætt á foreldrafundí (bekk sonar míns fyrir skömmu þegar reyndur grunnskólakennari sagðist hafa tekíð eftir þeim hæfileika margra barna að gleyma sér og „bara vera til á stað og stund", þess vegna í miklu margmenni. Hann ræddi hversu öfundsverður eiginleiki það er að geta farið inn í augnablikið og dvalið þar og ég verð að taka heilshugar undir með kennaranum. Það er þó því miður ekki tími fyrir slíkar „tilvistarstundir" hvar og hvenær sem er í erli dagsins. Það þarf að sinna heimavinnu og skutli á milli skóla, tómstunda og vinahittinga, að ógleymdum nauðsynlegum samverustundum foreldra og barna. Uppbyggilegar samræður um daginn og veginn eiga sér helst stað meðan hár er kembt því lúsaófétin tröllríða nú skólasamfélaginu og það verður að gefa sér tíma til að leita þeirra. Maður upplifir sig sífellt vera að reka á eftir börnunum og kippa þeim út úr sínum hugarheimi og mér finnst það vera synd hvað maður berst gegn þessum eiginleika barnanna og jafnvel sviptir þau honum. Ég hef velt því fyrir mér hvernig hægt sé að bæta krökkunum það upp að þurfa að drífa sig allan daginn og hef komist að þeirri niðurstöðu að kvöldlesturinn þjóni einna helst þeim tilgangi. Fyrir nokkrum árum áskotnaðist yngstu fjölskyldumeðlimunum hugljúf saga sem fjallar um það hvernig litir auðga líf okkar og tilveru. Bókin er fagurlega myndskreytt og heillaðist eldra barnið svo af myndskreytingunum að það linnti ekki látum fyrr en það hafði sest á skólabekk í myndlistarskóla. Á hverju kvöldi um langt skeið var bókin valin til kvöldlestrar en sagan var augljóslega aukaatriði, það voru myndirnar sem börnin hrifust af. Iðulega þurfti að bíða með að fletta því börnin urðu að skoða myndirnar aðeins lengur. Með þessu þvinguðu börnin, alveg óvart, móður sína til að slaka á. Þó að fyrstu kvöldin hafi einkennst af svolítilli óþolinmæði lærðist mér fljótlega að þegja og fylgjast með þeim skoða myndirnar eins lengi og þau vildu. Ég áttaði mig á því að ég var að gefa þeim tækifæri til að njóta en þau tækifæri eru af afar skornum skammti í daglegu amstri. Mér lærðist sem sagt að þessar hljótlátu stundir hefðu með augnablikið að gera og að í þessum augnablikum væru mikil verðmæti fólgin. Þung áhersla hefur verið lögð á lestur barna og ekki að ósekju. Börn sem lesa sér til ánægju standa sterkari að vígi í námi en önnur börn samkvæmt rannsóknum svo ekki sé minnst á hversu ánægjulegt það er að tengjast barninu sínu í umræðum um bók. Að auki er læsi undirstaða samfélagslegrar þátttöku og farsældar í öllum skilningi. Það hefur svo gildi í sjálfu sér að gefa börnum tækifæri til að heillast svo af sögu að tíminn standi í stað og að hverfa inn í annan heim. Það felast verðmæti í rólegri stund sem börnin eiga ein eða geta deilt með öðrum allt eftir þeirra óskum. Þeim hefur verið gefinn tími til að hugsa og öðlast hvíldina sem felst í því að gleyma sér við lestur. Mikilvægi barnamenningar er sem betur fer flestum Ijóst enda full ástæða til að halda henni á lofti og efla með ráðum og dáð. Börnin eru framtíðin og menningarmál framtíðarinnar eru undir þeim komin. Því skiptir máli að þjálfa þau til að njóta listar og menningar frá unga aldri. Flestar menningastofnanir á borð við leikhúsin, bókasöfn, listasöfn og Sinfóníuhljómsveit Islands, svo einhverjar séu nefndar, bjóða upp á öflugt barnastarf. Barnamenningarhátíðir hafa fest sig í sessi þar sem börnin sjálf eru í aðalhlutverki, bæði sem listamenn og sem listunnendur og má nefna Barnamenningarhátíð í Reykjavík sem dæmi um vel heppnað framtak á því sviði. Börnin sjálf skapa svo sín listaverk í myndlistarskólum, tónlistarskólum og dansskólum sem eru stútfullir. Sú listsköpun, í hvaða formi sem hún er, leyfir þeim að kanna huga sinn og eflir skapandi hugsun. Börnum á íslandi er boðið upp á fjölbreytt menningarstarf sem hefur uppeldislegt gildi, býður upp á dýrmætar samverustundir foreldra og barna og eflir menningarlíf í landinu. Þrátt fyrir allt þetta ætla ég að fullyrða að eitt helsta hlutverk barnamenningar felist alls ekki í framansögðu. Það sem er enn sjaldnar talað um og þykir jafnvel svo léttvægt að á það er ekki minnst í umræðum um barnamenningu er að mínu mati einn allra fallegasti eiginleiki listar. Það sem ólíkir kimar listarinnar eiga nefnilega sameiginlegt er að þar er börnum boðið upp á tækifæri til að heillast. Það er gjöf að geta heillast svo rækilega upp úr skónum að leiksýning er spunnin upp í marga mánuði eftir leikhúsferð, að sama bókin er lesin upp til agna, annaðhvort til að skoða myndirnar eða til að hverfa inn í söguna, og verða svo hugfanginn af einhverju tónverki að það er spilað sí og æ, aftur og aftur. Þetta er gjöf sem við foreldrar verðum að leggja okkur fram við að gefa börnunum okkar því með henni fá þau hlutdeild í fegurð augnabliksins. f því er dýrmæti barnamenningar ekki síst fólgið. Höfundur er tveggja barna móðir, íslenskufræðingur og meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum Mér finnst..." lýsir skoðunum höfunda fremur en ritstjórnar eða stjórnar IBBY samtakanna.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.