Börn og menning - 2016, Page 15
15Ófreskjan innra með þér
veginn lendir Bjartur í því að
passa upp á litla skrímslið. Þau
hitta fyrir dreka og ógnarstóran
tröllkarl og Bjartur áttar sig á
því að þótt litla systir sé skrímsli
vill hann ekki glata henni. Upp-
fullur af eldmóði æðir hann inn
í gin tröllsins, sem hefur gleypt
litlu systur, og frelsar hana úr prísundinni.
Ferðalagið hefur ekki aðeins breytt litlu systur úr
skrímsli í fallega og brosandi stelpu heldur líka Bjarti
sem er glaður að sjá systur sína og er nú orðinn verndari
hennar, sannkallaður stóri bróðir. Þegar Bjartur snýr
aftur úr ferðalaginu hefst hann strax handa við að mála
fallega mynd af systur sinni „sem er áreiðanlega lang-
skemmtilegasta skrímsli í öllum heiminum“.
Passaðu þig að breytast ekki í skrímsli!
Eins og John Stephens bendir á í Language and ideology
in children’s fiction (1992) er að finna innbyggða hug-
myndafræði í myndabókum, alla jafna í tengslum við
félagslegar formgerðir og viðhorf. Tilgangur þeirra er,
meðal annars, að kenna börnum sitthvað um samfélag-
ið – ala þau upp. Á yfirborðinu er Einar Áskell í Einar
Áskell og ófreskjan hræddur við skelfilegt skrímsli undir
rúmi og Bjartur í Skrímslið litla systir mín er hrædd-
ur við skrímslið sem foreldrar hans fullyrða að sé lítil
og sæt spánný systir. Það sem piltarnir eru hins vegar
raunverulega hræddir við eru, í tilfelli Einars Áskels,
eigin gjörðir og tilfinningar og, í tilfelli Bjarts, eigin til-
finningar eða óttinn við að vera ekki einn um athygli
foreldra sinna.
Bæði Bjartur og Einar Áskell vilja að skrímslin hverfi
en til að það gerist þurfa þeir báðir að taka út vissan
þroska, læra ákveðnar reglur samfélagsins og viðmið
þess. Einar Áskell þarf að læra að það er ljótt að ráðast
á minni máttar og hann verði að taka ábyrgð á eigin
gjörðum. Bjartur þarf að læra að deila, vera góður við
systur sína og vera góður stóri bróðir. Þeir þurfa jafn-
framt að læra að það eru ekki skrímslin sem þeir í raun
óttast heldur þeirra eigin tilfinningar.
Skrímslasögur – sögur sem
hræða börn – geta þannig verið
valdeflandi: Börnin læra að það
þarf ekki að óttast ímyndunar-
aflið og læra um leið mikilvæga
lexíu sem færir þau eitt hænu-
skref áfram á þroskabrautinni.4
Það má spyrja sig hvort það sé í
lagi að hræða börn, beina að þeim sögum sem beinlínis
hræða þau en sálfræðingurinn Bruno Bettelheim hélt
því raunar fram að slíkt væri ekki aðeins æskilegt heldur
beinlínis nauðsynlegt. Börn hafa ekki öðlast nógu mik-
inn þroska eða nægilega reynslu til að skilja heiminn
og þeim finnst þau því öruggari ef þau geta varpað ótta
sínum yfir á eitthvað sem þau skilja – til dæmis skrímsli
í sögum.5
Tilvísanir
1 Jones, Gerard, 2002, Killing monsters: Why children need fanta-
sy, super heroes, and make-believe violence, 2002, Basic Books,
New York.
2 Um þetta hafa ótal fræðimenn skrifað, sjá t.d. Bettelheim,
Bruno, 1987, The Uses of Enchantment, Penguin, Harm-
ondsworth, bls. 45-46.
3 Bettelheim, 1987, bls. 45-46. Athugið að þetta er mikil
einföldun á því fyrir hvað skrímsli geta staðið í barnabókum
– stundum geta skrímslin meira að segja verið bestu vinir
barnanna!
4 Stallcup, J. E., 2002, „Power, fear, and children’s picture
books“, Children’s Literature, 30, bls. 125–158. Sótt af http://
search.proquest.com/docview/195583495?accountid=135701
5 Bettelheim, 1987.
Höfundur er doktorsnemi og grunnskólakennari.
Skrímslasögur – sögur
sem hræða börn – geta
þannig verið valdeflandi