Bændablaðið - 11.02.2021, Blaðsíða 35

Bændablaðið - 11.02.2021, Blaðsíða 35
Bændablaðið | Fimmtudagur 11. febrúar 2021 35 Farga móttökustöð fyrir sorp var opnuð síðla árs 2020 en opnun stöðvarinnar er mikið framfaraskref varðandi flokkun sorps í dreifbýli Skagafjarðar. Samhliða opnun Förgu móttöku­ stöðvar voru sorpgámar í dreif­ býli vestan Vatna í Skagafirði og í Akrahreppi fjarlægðir. Borið hefur þó á því að sorp hefur verið skilið eftir á þeim stöðum þar sem sorpgámarnir voru áður staðsettir, að því er fram kemur í frétt á vefsíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og tekið fram að það sé með öllu óheimilt. Hvetur sveitarfélagið íbúa til að halda áfram þeirri góðu flokkun á sorpi sem verið hefur og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar til að halda umhverfinu hreinu. /MÞÞ SAMFÉLAGSRÝNI Mýrin – ógnvaldur eða lífgjafi? Það er sagt að fleiri Íslendingar hafi dáið vegna þess að þeir kunnu ekki að gera sér skó heldur en úr öllum drepsóttum og hallærum Íslandssögunnar. Og sá mektarmaður Sigurbjörn Einarsson, fv. biskup og Skaft­ fellingur, sagði í ævisögu sinni að hann hefði verið blautur í fæturna allt fram að fermingu að hann fékk stígvél. Það voru ekki síst mýrarnar sem fólk óð upp í kálfa, jafnvel hné, sem ollu þessum fótakulda Íslendinga. Þess utan voru þær víða farartálmi sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þannig þurftu húsbændur í Skálholti á róstutímum Sturlungaaldar, þegar allir voru í stríði við alla, ekki að víggirðast til suðurs í átt að Iðu enda varði þá ófær mýri. Engin undra þótt Íslendingum sé illa við mýrar og ekki skrítið að helsti glæpasagnahöfundur Íslands gefi út bók undir heitinu Mýrin, um þann ógnarstað. Þannig er og farið með Engilsaxa sem líta á mýrarnar, the moor, sem stað dauðans, jafnvel dautt land þar sem sögur eru sagðar af fólki sem hvarf þar í pytti og hvers svipir eru þar enn á reiki. Þegar ég flutti úr höfuðborginni út í sveit fyrir meira en þrjátíu árum og gerðist prestur og smábóndi í Hruna stóð mér sæmilegur stuggur af mýrinni fyrir neðan staðinn, enda mótaður af þessari íslensku mýrarstyggð. Ekki bætti það álit mitt á mýrum að hafa gengið töluvert um íslenskar heiðar og lent þar ítrekað í mýrarkeldum. Svo gerðist það um vor þegar ég var búinn að koma mér upp örlitlum kindastofni og þurfti að fara kvölds og morguns til gegninga rétt fyrir sauðburð að ég fór að líta mýrina í nýju ljósi, öllu heldur heyra í nýju hljóði. Því vorið kom fyrst í mýrina. Lóan, hrossagaukurinn, spóinn og jaðrakaninn sungu vorið inn. Í mýrinni. Hún var greinilega kjörland lífsins en ekki lævíst og dulúðugt eyðiland. Eftir þetta hlustaði ég á hverju ári eftir vorinu úti í mýri. Þetta hafði ég aldrei upplifað þegar ég var strákur að alast upp í blokk í austurbæ Reykjavíkur. Seinna las ég meira að segja um hið mikilvæga hlutverk mýrinnar að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, en hún er ein af undirstöðum heilbrigðar náttúru, jurta- og dýralífs. Þar kom að ég varð meira að segja „mýrarsár“ þegar grafa þurfti skurði í gegnum mýrina mína þegar lagður var nýr vegur að staðnum. Og þá fyrst fór ég að taka eftir þessum skurðum sem lágu hist og her, tvist og bast úti um allt land án sýnilegs tilgangs annars en að vera sannindamerki að þar hefði eitt sinn verið mýri. Vitnisburður um viðhorf sem töldust góð og gild fyrir nokkrum áratugum en eru það ekki lengur í ljósi nýrrar þekkingar. Og af hverju er ég að mæra hér mýrina, þennan forna fjanda okkar skólausu forfeðra og mæðra? Jú, málflutningur sá sem ég hef rekist á í þessu ágæta blaði, Bændablaðinu. Gegn því að moka ofan í þá tilgangslausu skurði sem eitt sinn voru grafnir á annarri öld, öðrum tíma með annarri þekkingu – eða skorti á þekkingu. Nú vitum við að allt það kolefni sem fellur í mýrina sem dauður jarðargróði þegar haustar, verður að koltvísýringi ef súrefnið kemst að þessu kolefni við skurðgröft og myndar við það koltvísýring. Hann hitar andrúmsloftið. Vatnssósa mýrin hindrar hins vegar þau efnahvörf. Þetta er bara einföld efnafræði, ljóstillífun í öfuga átt. Ef menn vilja vita hvernig heimur baðaður í koltvísýringi lítur út, ættu þeir að kynna sér lífsskilyrði á plánetunni Venusi. Við manneskjurnar stöndum nefnilega nú frammi fyrir stærri vá en sennilega nokkurn tíma fyrr – ef undan er skilið þegar allt stefndi í kjarnorkubál og brand í Kúbudeilunni. Sjálft andrúmsloftið sem við öndum að okkur er að breytast og lífríkið með. Öll okkar þekking og vísindi virðast benda í þessa átt – ofan í kaupið; þessi umturnun lífríkisins er af okkar völdum, mannanna. Við höfum ekki ráð á því, hvorki hér á landi né annars staðar, að rífast um hvaða leiðir eru bestar; á að fara í skógrækt? Eða endurheimt votlendis? Vitaskuld þurfum við hvort tveggja. „Látið hundrað blóm fram spretta!“ sagði Maó formaður og mín kynslóð hlustaði. Og annar og sýnu vitrari maður, Njáll á Bergþórshvoli sagði: „Allt orkar tvímælis þá gert er“. Það er hægt að deila um áhrifasvæði þegar skurður er fylltur. Það er hægt að deila um hversu mörg tonn af kolefni það eru sem endurheimt votlendis bindur á hektara. Sennilega mismikið eftir aðstæðum. En sama má segja um skógræktina. Við heyrum að birki bindi ca 5 tonn af kolefni á hektara en ösp allt að 24 tonn. Á því svæði sem ég stunda skógrækt sýnist mér munurinn á lífmassa góðs birkis s.s. Emblu og lífmassa aspar (C 10) sé ekki næstum því svona mikill. Margt virðist ekki enn þá vera kýrskýrt upp á punkt og kommu, hvorki þegar kemur að skógrækt né votlendisendurheimt. Margt byggir á mati sem alhæft er út frá en staðbundnar aðstæður geta verið breytilegar. En þekkingin er að aukast og hafa skal það sem sannara reynist svo vitnað sé í enn einn vísan mann, Ara fróða. En það er vont þegar fólk fer í skotgrafarhernað, sumir finna endurheimt flest til foráttu, aðrir jafnvel skógrækt. Við þurfum hvort tveggja og sum staðar landgræðslu. Sem stendur vinn ég að gerð áætlunar um skógrækt og endurheimt votlendis á þeim jörðum sem kirkjan á enn þá, en þær eru í kringum 30 úti um allt land. Sú áætlun er sett fram sem framlag Þjóðkirkjunnar sem stórs landeiganda til mótvægis í loftslagsmálum og byggir á þeirri sýn að landið, jarðirnar séu mikilvæg tæki í þessari baráttu við umhverfisvá. Í okkar huga sem vinnum að þessu verkefni sjáum við það fyrir okkur að þessar jarðir – eða þær sem ákveðið verður að halda í eignasafni kirkjunnar – geti verið gott innlegg – og siðferðilegt í baráttunni við loftslagsvána, þar sem saman fer hefðbundin nýting, skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis. Sömu sjónarmið eiga auðvitað við um bændur sem eru í raun ráðsmenn með jarðargæðum og lykilhópur þegar kemur að varðveislu vistkerfa og íslenskrar náttúru. Ég vil hvetja Bændablaðið til að vinna í samhljóðan við slík gildi hinnar góðu baráttu líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsgæða. Og minnumst lífssýnar Fjalla-Bensa eins og hún birtist okkur í Aðventu Gunnars Gunnarssonar: „Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvæntingu, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða“. Halldór Reynisson Höfundur er verkefnastjóri umhverfismála á Biskupsstofu og fv. prestur. Halldór Reynisson. Mín fyrstu skref á almennum vinnu markaði tók ég í Slátur­ húsi Vopnfirðinga. Langdregið kennaraverkfall var í upp sigl­ ingu þegar ég var að hefja nám í tíunda bekk og mér datt ekki í hug að sitja með hend ur í skauti. Sá fyrir mér uppgrip í vinnu. Sá draumur rættist og í byrjun nóvember, þegar skólinn hófst á nýjan leik, mætti ég til leiks reynslunni ríkari og loðinn um lófana (fannst mér þá). Við hliðina á sláturhúsinu er fisk- vinnsla Brims, en á þeim tíma var það bæjarútgerðin Tangi hf. Hún sameinaðist Granda og varð síðar að Brimi. Á þessum sautján árum sem liðin eru hefur milljörðum króna verið fjárfest í að búa til fullkomna vinnslu. Virði aflans, sem dreginn er að landi, hefur aukist og þó að færri vinni nú í „Milljón“ er kaupgjaldið mun hærra en áður var. Sláturhúsið og fiskvinnslan Hvers vegna hefur hið sama ekki átt sér stað í sláturhúsinu? Þar hefur vissulega verið skipt um vinnslulínu og eitt og annað fært til nútímans. Í fiskvinnslunni er það á hinn bóginn magnið sem ræður því að það borgar sig að fjárfesta í afkastamiklum vélum. Það er eitt að landa upp undir 100 þúsund tonnum af fiski og annað að slátra sauðfé í nokkrar vikur á ári. En þar með er ekki öll sagan sögð. Hluti ástæðunnar liggur í því að nýsköpun hefur verið meiri síðustu ár í sjávarútvegi – miklum fjármunum hefur verið varið til þess að auka virði afurða. Raunar held ég að land bún- aðurinn sem heild geti lært það af sjávarútveginum að breikka virðiskeðjuna. Framleiða fjöl- breyttari vörur úr hráefnunum: Fæðubótarefni, heilsufæði, snyrtivörur og fatnað. Í heimi þar sem sífellt er að finnast plastdrasl í smærri og smærri lífverum er framtíð fyrir náttúrulegar vörur. Við höfum það sem heiminn mun skorta næstu áratugi, hreint vatn, gnægð lands og græna orku. Allar grundvallarforsendur eru til staðar. En sauðfjárræktin hefur spólað í hjólförunum óraunhæfra útflutningsdrauma síðustu 5 ár. Það þarf aðstoð til þess að bakka upp úr þeim og fara í nýja átt – auka virði og einblína á breiðari grunn. Gjaldþrot eða sameining? Framfarir verða sjaldnast að sjálfu sér – þær kosta fjár- festingu. Nýsköpun er leiðin fram á við fyrir íslenska sauðfjárrækt. Til þess að afurðastöðvarnar geti fjárfest verður að vera vitrænn rekstrargrundvöllur. Þær glíma við síharðnandi samkeppni við risavaxnar erlendar afurðastöðvar vegna aukins innflutnings – sem að miklu leyti má rekja til af- leitra tollasamninga fyrri rík- isstjórna. Þess vegna sætir það nokkurri furðu hversu stimpill Samkeppniseftirlitsins á samein- ingu Kjarnafæðis og Norðlenska virðist vera torsóttur. Hagræðing þarf að verða og hún mun verða. Annaðhvort verð- ur hún skipulögð í gegnum aukna samvinnu og sameiningar eða hún verður með gjaldþrotum. Þetta blasir við þegar lesin er úttekt KPMG á rekstri afurðastöðva í sauðfjárrækt. Tvímælalaust er það skynsamlegri kostur að auka samvinnu og sameiningu. Öðrum kosti munu störf sogast úr landi og aldrei koma aftur. Það væri ömurleg niðurstaða. Hundruð fjölskyldna eiga sitt undir störfum hjá þessum gam- algrónu norðlensku fyrirtækjum. Leið sameininga gefur möguleika á öflugri fyrirtækjum sem eiga sér viðreisnar von í samkeppninni við risana ytra. Þurfum öflug fyrirtæki Dæmin sýna þetta. Sameiningar í sjávarútvegi byggðu upp sterk fyrirtæki sem hafa fjárfest millj- arða króna í nýsköpun (og borga milljarða í veiðigjöld). En það eru líka nærtæk dæmi úr land- búnaði. Afurðastöðvar í mjólkur- iðnaði sameinuðust og hagræddu. Úr varð öflugt fyrirtæki sem fjár- festir í nýsköpun og vöruþróun. Það styrkir meðal annars doktors- verkefni sem snýr að því að efla ræktun á kúm. Við þurfum öflug fyrirtæki í sauðfjárrækt sem geta gert slíkt hið sama. Kári Gautason Samkeppnisaflið fæst með sameiningu Kári Gautason UMHVERFISMÁL Lely Center Ísland Reykjavík: Krókháls 5f – Sími 414 0000 – www.vbl.is Akureyri: Óðinsnes 2 – Sími 464 8600 ZETOR VARAHLUTIR Bænda bbl.is Facebook Svona var umhorfs í Staðarrétt á dögunum en þar voru áður sorpgámar sem búið er að fjarlægja. Engu að síður hafa menn skilið sorpið eftir á gamla staðnum. Skagafjörður: Sorp skilið eftir við gömlu gámasvæðin

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.