Bændablaðið - 11.02.2021, Side 36

Bændablaðið - 11.02.2021, Side 36
Bændablaðið | Fimmtudagur 11. febrúar 202136 Hugleiðingar landeiganda að Svartá vegna möguleika Svartárvirkjunar Svartárvirkjun hefur engin áhrif á Svartá og Suðurá ofan við Ullarfoss, inntaksþrep Svartárvirkjunar er 2 km neðan við Ullarfoss, vatns­ magn neðan inntaksþreps nemur um þremur Elliðaám, ef af virkj­ un verður og mun verða svipað að magni og það vatn sem er í Svartá þegar Suðurá bætist við hana. Svæðið frá Svartárvatni að Suðurá er talið gott silungasvæði og endur kunna þar vel við sig. Grjótá sameinast Svartá 500 m neðan inntaksþreps, hún er hlýrri og bætiefnaríkari og í minna vatni mun hún stuðla að grósku og frjó­ semi Svartár á vatnstökusvæðinu og fiskar og endur blómstra ekki síður en áður og hrygningarskilyrði fyrir urriða yrðu góð. Það svæði sem verður fyrir vatnstapi er um 3 km af 17 km af heildarlengd árinnar, að mestu óveiðanlegir kaststrengir. Fyrirhuguð leið fallpípunnar liggur að mestu leyti um mela, snar­ rótarvallendi og tún, allt þurrt land. Á einum stað þarf að fara yfir 100 m hallamýri, þar verður grafinn skurð­ ur sem ekki er framræsluskurður og fallpípan sett í og skurðurinn fylltur upp á ný og þéttur eftir kúnstarinnar reglum og mýrin heldur áfram að vera mýri. Fallpípan verður grafin í það minnsta 2 m í jörðu niður ef aðstæður leyfa. Það er bara rugl að virkjunin hafi skaðleg áhrif á ferðaþjónustu í Bárðardal, það eru margir sem hafa gaman af að skoða virkjun og tengd mannvirki, það mun verða unun eftir sem áður að líta yfir svæð­ ið af Tunguhamri eða Hagabrún við Svartárgil nema fyrir þá sem ekki mega vita af að steini hafi verið velt, þúfa færð úr stað eða læk fundinn nýr farvegur. Þeir eru haldnir öfgafullri þráhyggju sem kalla má friðunarsýki, virkjun eykur vægi byggðar og líkur á vegbótum sem ekki er vanþörf á, einnig yrði þriggja fasa rafmagn leitt á svæðið. Landeigendur myndu fá arð og ríkið á móti þeim að hálfu af sinni jörð, upphæðin nemur tugum milljóna á ári samtals. Auk þess fengi ríkið skatt af arði landeigenda og sveit­ arsjóður fasteignaskatt af mann­ virkjum á hverju ári eftir að virkj­ un kæmist í gagnið. Auk þess má geta þess að sauðfjárrækt er orðin óarðbær atvinnuvegur og engin batamerki í sjónmáli. Á hverju eiga bændur þá að lifa? Oft hafa breytingar á vötnum haft hagstæð áhrif, dæmi, Blanda og Jökulsá á Dal eru orðnar eftirsótt­ ar laxveiðiár, gufuaflsvirkjun varð upphaf Bláa lónsins í Svartsengi þar sem hrauni var raskað og fáir tala um það. En hraun í Bárðardal, sem meira en nóg er af, eru talin heilög hjá þeim sem haldnir eru ólækn­ andi friðunarsýki. Stuðlagljúfur varð aðgengilegt þegar flaumurinn minnkaði í Jökulsá á Dal, farvegi Öxarár á Þingvöllum var breytt fyrir rúmlega þúsund árum, hverjir vildu breyta því í dag? Rafmagn sem framleitt er í vatns aflsvirkjunum er umhverfis­ vænt og í framtíðinni þarf gríðar­ legt magn af því hér á Íslandi. Bílar, flugvélar og skip verða rafknúin annaðhvort beint af endurhlöðnum rafhlöðum eða því breytt í vetni eða annars konar eldsneyti. Vetni verð­ ur flutt út í skipsförmum, einnig þarf mikið rafmagn í flóðlýsingar í gróðurhúsum, gagnaver og margt fleira. Eftirsóknarvert er á tímum atvinnu leysis að fá fyrirtæki óháð ríkinu til að fjárfesta í arðvænlegum fyrir tækjum, landi og lýð til heilla. Svartárvirkjun tekur að minnsta kosti tvö ár að byggja og mjög líklega þyrfti að fella niður fram­ kvæmdir yfir háveturinn, segjum svo að þrjátíu manns fengju vinnu á vori komanda við verkefnið, í sex mánuði, þeir yrðu glaðir að fá verk að vinna, annars hefði þeim engin vinna staðið til boða, Atvinnuleysistryggingasjóður þyrfti að borga þeim bætur sem næmu rúmlega 55 milljónum á þessum sex mánuðum og þeir gengju á hverju kvöldi áhyggjulausir í háttinn. Jón Gústafsson, bóndi – Rauðfelli Bárðardal SAMFÉLAGSRÝNI Hvers vegna hálendisþjóðgarð? Ég hef verið spurður hvers vegna jeppakallinn ég vilji hálendis­ þjóðgarð. Í 18. gr. í lagafrumvarpi um Hálendis þjóðgarð stendur: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.“ Það er gott og blessað en það eru markmið­ in með stofnun þjóðgarðsins sem koma fram í 3. gr lagafrumvarps um hálendisþjóðgarð sem skipta mig öllu máli. Ég tek heilshugar undir þessi markmið og ég hef enga ástæðu til þess að halda að ekki verði staðið við þau. 1. Vernda náttúru og sögu þjóð­ garðsins, svo sem landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar og tryggja tilvist heildstæðra vistkerfa og náttúrulegra ferla. 2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menn ingar og sögu þjóðgarðs­ ins. 3. Auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist. 4. Stuðla að því að almenning­ ur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar. 5. Leitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnu­ starfsemi í nágrenni þjóð­ garðsins og á landinu öllu, með al annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins. 6. Þjóðgarðurinn verði vett­ vangur umræðu og ákvarðana­ töku um land nýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar. 7. Stuðla að rannsóknum og fræðslu um þjóðgarðinn og ýta undir aukinn skilning al­ mennings á gæðum og sér­ stöðu hans. 8. Endurheimta vistkerfi sem hafa raskast. 9. Varðveita þjóðlendur í þjóð­ garði og viðhalda virði þeirra í náttúrufarslegu og menn­ ingar legu tilliti. 10. Stuðla að samvinnu og sam­ starfi við félög og sjálf boðaliða um málefni land svæðisins. Er einhver ástæða til þess að amast við þessum ítarlegu markmiðum. Liggja þau fyrir annars staðar? Með stofnun hálendisþjóð­ garðs verði skipulag samræmt á hálendinu. Vissulega verður skipulagsvaldi einstakra sveitar­ félaga settur ákveðinn rammi, en samkvæmt 8. gr. frumvarpsins um stjórn hálendisþjóðgarðs kemur fram að af 11 stjórnarmönnum til­ nefna aðliggjandi sveitarfélög 6 og einn fulltrúi tilnefndur af hverjum eftirtalinna aðila: útivistarsam­ tökum, umhverfisverndarsamtök­ um, Bændasamtökum Íslands og einn fulltrúi tilnefndur sameigin­ lega af ferðaþjónustusamtökum á rekstrarsvæðum þjóðgarðsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Sex af 11 eru tilnefndir af kjörn­ um sveitarfélagsfulltrúum og 4 af ýmsum félagasamtökum. Ég sé ekki að ráðherra geti hundsað þess­ ar tilnefningar. Hann velur aðeins formanninn. Gert er ráð fyrir a.m.k sex rekstrar svæðum sem eru sjálf­ stæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðs varðar. Einnig þar hafa fulltrúar sveitarfélaganna meiri­ hluta í stjórn 5 af 9 og hinir 4 eru valdir af félagasamtökum. Sveitarfélögin sem nú hafa skipulags valdið munu hafa hreinan meirihluta, sem þau þurfa að deila sín á milli í stjórn þjóðgarðsins og í svæðisstjórnunum og þau hafa ramma sem þau þurfa að fylgja en þau halda skipulagsvaldinu að mestu leyti. Ég sé ekki að stjórnun þjóð­ garðsins geti orðið öllu lýðræðis­ legri, ólíkt lýðræðislegri og sam­ ræmdari heldur en stjórnun og skipulag hálendisins er núna, þar sem mörg sveitarfélög hafa skipulagsvald hvert á sinni ræmu eða svæði. Vissulega þarf ég sem íbúi í Árborg að nýta mér þátttöku í einhverju áhugamannafélagi, ferðafélagi, náttúruverndarsam­ tökum eða samtökum ferðaþjón­ ustuaðila til að hafa áhrif þangað til Árnesþing verður eitt sveitarfélag og tilnefnir í stjórn og svæðisstjórn. Ég geri ráð fyrir því að sveitarfé­ lögin tilnefni fólk í stjórnir þjóð­ garðsins og svæðanna sem hefur áhuga á að vinna af samviskusemi að markmiðum laganna í 3. gr. Það geta verið sauðfjárbændur, ferða­ þjónustuaðilar, veiðileiðsögumenn eða útivistarfólk. Stjórn og svæðisstjórnum er falið mikið hlutverk, einkum í upphafi í samstarfi við forstjóra og annað starfsfólk þjóðgarðsins. Ráðherra setur reglugerðir sem byggja á þeirri vinnu. Það er talað um heimildir ráð­ herra að setja reglugerðir sem hindra umferð um hálendið. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir að þær heimildir og skyldur ráðherra eru nú þegar í „Lögum um náttúruvernd nr. 60/2013“. Það sem er einnig athyglisvert að þar getur nánast verið geðþóttaákvörðun ráðherra eða Umhverfisstofnunar hvaða takmarkanir eru settar um umferð um óbyggðir og nýtingu á t.d. plöntum. Í lagafrumvarpinu um hálendisþjóðgarð er gert ráð fyrir samráði. Það má ekki gleyma því að enginn ráðherra má setja reglu­ gerð nema hún hafi stoð í lögum. Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði um þjóðgarða í 47. gr. „Í þjóðgörðum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bann­ aðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist. Frjálsa för fólks samkvæmt almannarétti er aðeins hægt að takmarka á afmörkuðum svæð­ um í þjóðgörðum þar sem það er nauðsynlegt til að vernda plöntur, dýr, menningarminjar eða jarðminj­ ar.“ Takið eftir síðustu málsgrein­ inni, hún tekur fram að það eru skil­ yrði fyrir því að takmarka frjálsa för fólks. Þeir sem leggjast gegn stofnun hálendisþjóðgarðs ættu að lesa í gegnum lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ég vil hálendisþjóðgarð vegna þess að með honum verður meira samræmi í skipulagi miðhálendis­ ins. Ég sé fyrir mér svæðisbundn­ ar gestastofur þar sem við getum fengið fræðslu um hvert svæði. Þar sem fyrir liggja upplýsingar um hvernig er best að ferðast um svæðið, hvað er mikilvægt að skoða og hvað ber að forðast, t.d. að fara ekki á jeppling inn í Tjarnarver. Að landverðir stiki bestu gönguleiðirn­ ar að áhugaverðum stöðum og milli áhugaverðra staða, t.d. fossunum í og við Þjórsá. Ég er sannfærður um að með tímanum muni ferðamenn dreifast miklu betur um hálendið og átroðningur minnki á þeim stöðum sem nú liggja undir skemmdum. Fyrirliggjandi frumvarp ber vissulega merki um málamiðlanir t.d. varðandi orkuvinnslu þannig að tekið er tillit til rammaáætlun­ ar, vald sveitarstjórna er mikið, beitar­ og veiðiréttur er virtur. Það þarf að byrja einhvern tíma, nú er heppilegur tími, það er ráðrúm á meðan ferðaþjónustan er að rísa upp á ný. Svona framkvæmd verður aldrei þannig að öllum verði gert til hæfis, en þarna fer af stað langtíma þróunarvinna. Þorsteinn Ólafsson Höfundur er eftirlaunamaður sem býr á Selfossi. Gljúfurleitarfoss, takið eftir manninum sem stendur við fossbrúnina. Myndir / Þorsteinn Ólafsson Þorsteinn Ólafsson. Jón Gústafsson. Fossinn Dynkur í Þjórsá. Þjórsá hún er ei sopasínk, svona Hreppamegin. Vatnið sem að draup úr Dynk, dugði vel á fleyginn. Sturla Friðriksson og Sigrún Laxdal

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.