Morgunblaðið - 02.01.2021, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 02.01.2021, Blaðsíða 17
17 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. JANÚAR 2021 Tímamót Ríkisráðsfundur var að venju á Bessastöðum á gamlársdag, þar sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fundaði með forseta Íslands. Öll voru með grímu og lengra var á milli fólks. Árni Sæberg Árið 2020 mun ganga inn í sögubækur sem ár kórónuveir- unnar, bráðsmitandi sjúkdóms sem lagði að velli hundruð þús- unda um allan heim og eru þau kurl þó langt í frá öll til grafar komin. Kórónupestin deilir í hugum okkar margra sessi með spænsku veikinni 1918, stóru- bólu 1707 og svartadauða 1402, sem við höfum lesið um í sögu- bókum. Til samanburðar munu áhrif hennar sem betur fer ekki birtast í fjölda látinna, heldur af hraðri út- breiðslu á heimsvísu, áhrifum á flókið al- þjóðlegt efnahagskerfi og hversdagslega lífshætti fólks. Aðflutt úr dýraríkinu skall hún óvænt á þegar þjóðir heims voru að búa sig til atlögu við loftslagsvána sem er af- drifaríkasta glíma sem mannkynið hefur sameiginlega þurft að horfast í augu við. Þegar nú bóluefni eru talin hafa fundist gegn vágestinum á mettíma er eftir að sjá hversu þau duga til að kveða hann niður. Svo mikið er víst að áhrifanna mun gæta lengi og setja svip sinn á eftirleikinn. Við skulum prófa að spá í þau spil með því að líta á stöðu mála í heimstaflinu og umsagnir úr mismunandi áttum. Uppgjörið eftir Covid tekur mörg ár Flestir sem rýna í heimsbúskapinn virðast sammála um að veiran og viðbrögðin við henni hafi vængstýft hnattvæðinguna, að minnsta kosti í bili. Tímabundinn ríkisstuðn- ingur við fyrirtæki smá og stór hefur gjör- breytt samkeppnisforsendum og gjaldþrot blasir við fjölda fyrirtækja, m.a. í alþjóða- flugi og ferðaiðnaði. Stafræn þróun hefur tekið stökk fram á við og mun að líkindum gjörbreyta vinnumarkaði og alþjóðasam- skiptum. Tæknirisar og mörg fjölþjóðafyrir- tæki munu fleyta rjómann við þessar að- stæður. Hætt er við að ójöfnuður í lífs- kjörum fari vaxandi innan þróaðra ríkja, að ekki sé talað um fátækasta hluta heimsins. Slík öfugþróun mun óhjákvæmi- lega skerpa á stéttaandstæðum og endurspeglast í alþjóðasam- skiptum. Þar verða pólarnir ef- laust áfram Bandaríkin og Kína, þótt Trump sé fallinn fyr- ir borð. Átökin á viðskipta- og tæknisviði milli þessara risa hverfa ekki og gætu átt eftir að skerpast þrátt fyrir nýja hús- bændur vestanhafs. Áfram er Kína í sterkri stöðu eftir að hafa tekist ótrúlega vel í glím- unni við veiruna sem þar átti upptök sín. Landinu er spáð allt að 7% hagvexti á komandi ári, 2021. Sam- hliða þessu hefur Kína undanfarið verið að styrkja stöðu sína í SA-Asíu á kostnað bandarískra og ástralskra áhrifa. Í Japan hefur hins vegar hægt á efnahagsþróun undanfarið og svipaða sögu er að segja um Rússland, þar sem misskipting auðs er nú með því mesta sem gerist. Óvissan innan Evrópusambandsins Í Evrópu hefur útganga Breta úr Evrópu- sambandinu sett mark sitt á umræðu um framtíðarsamskipti. Þeirri óvissu er nú að nokkru eytt með samningi aðila um sam- skipti eftir Brexit. Langvarandi efnahags- erfiðleikar suðurríkja ESB halda áfram með miklu atvinnuleysi, en lánapakkinn stóri upp á 750 milljarða evra sem samþykktur var með semingi á árinu á að bæta þar úr. Í raun snerist hann um framtíð ESB sem greinilega var í hættu vegna viðvarandi kreppu í stórum aðildarríkjum eins og Spáni og Ítalíu. Vandinn er hins vegar ekki úr sög- unni og mun m.a. tengjast ráðstöfun á lán- um og styrkjum úr sjóðnum stóra. Það voru minni ríki sambandsins á borð við Holland, Danmörku og Austurríki sem höfðu efa- semdir um lánapakkann, og þau munu áfram minna á sig um framhaldið. Hlutverk fram- kvæmdastjórnar ESB hefur vaxið með auknum hlut í útdeilingu þessara fjármuna og ímynd hennar hefur skánað út á við með formennsku Ursula von der Leyen. Burðar- ásar í ESB eru eftir sem áður Frakkland og Þýskaland og í þeim báðum ríkir pólitísk óvissa um forystu í kjölfar kosninga innan tíðar. – Macron Frakklandsforseti styðst við losaralegan stjórnmálaflokk (LRME) og sjálfur sætir hann gagnrýni úr ýmsum átt- um. Forsetakosningar verða í Frakklandi vorið 2022 og þá munu tvær konur að lík- indum sækja að Macron hvor úr sinni átt- inni: Marine le Pen frá hægri og Anne Hid- algo borgarstjóri í París frá vinstri. – Í Þýskalandi er styttra í pólitískt uppgjör í þingkosningum næsta haust. Þá mun Angela Merkel hverfa úr kanslaraembætti eftir rösk 16 ár á þeim valdastóli og allt að 30 ár í stjórnmálum í kjölfar sameiningar Þýska- lands. Bakgrunnur hennar sem doktors í eðlis- og efnafræði hefur komið að góðu gagni í flókinni stöðu þarlendis að undan- förnu. Um það bera vitni jákvæð viðbrögð hennar við gagnmerkum rannsóknaniður- stöðum eðlisfræðingsins Viola Priesemann um hegðun veirunnar. (Die Zeit nr. 53, 17. des. 2020). Mikil óvissa ríkir um framhaldið í þýskum stjórnmálum, en nú eru taldar meiri líkur á samstjórn Kristilegra og Græningja en samsteypustjórn til vinstri. Vanþekking margra á náttúru og umhverfi Baráttan á heimsvísu og í einstökum ríkj- um við kórónuveiruna leiddi margt fróðlegt í ljós. Samstaða sem tókst meðal vísinda- og rannsóknastofnana ásamt með Alþjóðaheil- brigðismálastofnuninni (WHO) skipti sköp- um um viðbrögð á alþjóðavísu og skjóta þró- un bóluefna gegn þessum vágesti. Jafn hörmulegt var að horfa upp á Bandaríkin rjúfa þá samstöðu með ákvörðun Trumps forseta. Viðbrögð við veirunni innan ein- stakra ríkja heims hafa verið afar misjöfn og m.a. leitt í ljós ótrúlega fávisku margra for- ystumanna í stjórnmálum og ráðgjafa þeirra. Þegar svo háttar til er ekki að undra að almenningur ruglist í ríminu. Frá þessu eru góðar undantekningar, m.a. hérlendis, þar sem sóttvarnalæknir og hans teymi hef- ur veitt staðfasta forystu og heilbrigðis- ráðherra og aðrir ábyrgðaraðilar borið gæfu til að fylgja hans ráðum. Þessu til viðbótar hefur komið þekking og góður stuðningur frá forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. – Allt önnur sjónarmið hafa heyrst hér, m.a. frá einstökum þingmönnum, sem endur- spegla ótrúlega vanþekkingu og fordóma í garð vísinda. Þegar nú þrengir að umhverfi okkar á mörgum sviðum skiptir miklu að hlúð verði markvisst að kennslu og miðlun í náttúrufræðum jafnt í grunnnámi og fram- haldsskólum. Staða Íslands og framtíð Náttúrufarslega hefur Ísland mikla sér- stöðu sem eyja og eldfjallaland við heim- skautsbaug. Loftslagsbreytingarnar eru lík- legar til að verða meiri hér á norðurslóðum en sunnar í álfu og við horfum á jöklana minnka fyrir augum okkar. Góð umgengni um landið og verndun okkar viðkvæmu nátt- úru er undirstöðuatriði, og skipulag atvinnu- hátta og umferðar þarf að taka mið af því. Reynslan af baráttunni við veiruna undan- farið segir okkur hversu mikilvægt það er að geta haft stjórn og yfirsýn um ferðir til og frá landinu. Ferðaiðnaður sem atvinnugrein þarf að taka mið af þessum aðstæðum og hafa ber í huga þá miklu mengun sem fylgir flugferðum um fyrirsjáanlega framtíð. Skoða ber alþjóðatengsl okkar í þessu samhengi, þar á meðal aðild okkar að Schengen, sem líklegt er að taki breytingum í kjölfar veir- unnar. Meginatriði er að varðveita sjálfstæði okkar sem þjóðríkis samhliða virkri alþjóða- samvinnu. – Gleðilegt ár. Eftir Hjörleif Guttormsson »Reynslan af baráttunni við veiruna undanfarið segir okkur hversu mikilvægt það er að geta haft stjórn og yfirsýn um ferðir til og frá landinu. Hjörleifur Guttormsson Höfundur er náttúrufræðingur. Mannkynið er óaðskiljanlegur hluti af náttúru jarðar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.