Morgunblaðið - 02.01.2021, Page 35
MENNING 35
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. JANÚAR 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI.
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
SÝND MEÐ
ÍSLENSKU TALI
FRÁBÆR NÝ JÓLA TEIKNIMYND
JÓLAMYNDIN 2020
Soul er enn eitt stórvirkið úrsmiðju teiknimyndafyrir-tækisins Pixar sem heyrirundir risann Disney. Listinn
yfir þá sem tóku þátt í gerð hennar
rúllar svo lengi undir lokin að þrjú lög
eru leikin á meðan. Og þar af tvö
frekar löng, slíkur er fjöldinn.
Vegna Covid-19, lokaðra bíóhúsa
og fjöldatakmarkana, tók fyrirtækið
þá ákvörðun að frumsýna myndina á
streymisveitu sinni Disney+ og er
hún því aðgengileg Íslendingum. Það
sætir auðvitað tíðindum að kvikmynd
á borð við þessa sé ekki sýnd í kvik-
myndahúsum þar sem hún myndi
sóma sér mun betur á hvíta tjaldinu
en á sjónvarpsskjá. Vonandi verður
hægt að sjá hana í bíó á næsta ári
með öflugu hljóðkerfi því myndin er
veisla fyrir bæði augu og eyru.
Í Sál segir af Joe Gardner, tón-
listarkennara í grunnskóla í New
York sem á sér þann draum að slá í
gegn sem djasspíanóleikari. Djassinn
er köllun hans í lífinu að hann telur og
hann er afar fær píanóleikari. Dag
einn býðst Joe að leysa af píanóleik-
ara í virtri djasshljómsveit saxófón-
leikarans Dorotheu Williams sem
kemur fram í einni af aðaldjassbúll-
um borgarinnar, Half Note Club. Joe
mætir í prufu, stendur sig vel og á að
mæta aftur um kvöldið og spila á tón-
leikum. Fer ekki betur en svo að
hann slasast alvarlega, rankar við sér
í handanheimum og hefur þá tekið á
sig form sálar sinnar. Hundruð sálna
á færibandi þokast nær alhvítri
óvissu, dauðanum þá væntanlega sem
bíður allra sálna að lokinni jarðvist.
Joe tekst að forða sér af þessu færi-
bandi og dvelur um stund í heimi
sálna sem er einhvers konar millistigi
lífs og dauða, heimi sálna sem eiga
eftir að finna sér líkama (af því mætti
halda að við fæðumst sálarlaus). Hon-
um tekst með klækjum að komast
aftur til jarðar en svo óheppilega vill
til að önnur sál er með í för, sál sem
ber heitið 22. Sú hefur flakkað milli
líkama margra sögufrægra manna,
m.a. Abrahams Lincolns, móður Ter-
esu og Múhameðs Alís, en hefur aldr-
ei fundið tilgang með jarðvist sinni,
„neistann“ eins og sá tilgangur er
nefndur í myndinni. 22 hefur verið
hinn óstýriláti og illviðráðanlegi hluti
vitundar þeirra sem hún hefur dvalið
í hverju sinni, eins og sjá má í ansi
spaugilegu atriði. Í stað þess að lenda
aftur í eigin líkama lendir Joe óvart í
sjúkarhúsketti og 22 í líkama Joes.
Upphefst þá mikið fjör og vandræða-
gangur en þegar öllu er á botninn
hvolft snýst sagan um tilgang lífsins
og eilífa leit okkar mannanna að þeim
meinta tilgangi. Já, stórt er spurt og
ákveðinni niðurstöðu er náð undir
lokin og það heldur fyrirsjáanlegri og
sykursætri.
Línudansinn stiginn
Sál er skipt milli tveggja heima,
heims sálnanna og þess sem við
þekkjum og dveljum í þar til sálir
okkar yfirgefa líkamann. Í Sál er ekki
spurt hvort sálin sem fyrirbæri sé
yfirleitt til eða einhvers konar
handanheimur, heldur gefa höfundar
sér það einfaldlega, sem er svo sem
gott og blessað enda margir þeirrar
trúar. Myndin er ætluð börnum jafnt
sem fullorðnum og handritshöfundar
dansa á línunni sem skilur að ólíka
sýn barna og fullorðinna á lífið og til-
veruna. Það sama má segja um grín
og alvöru, gleði og sorg, hamingju og
óhamingju. Þessum boltum er haldið
nokkuð vel á lofti.
Kvikun Pixar er sem fyrr frábær,
persónurnar litríkar og hugmynda-
flugið mikið. Fyrir áhugamenn um
teiknimyndir er gaman að því hversu
ólíkir heimarnir tveir eru og má til að
mynda nefna persónur í sálnaheimi
sem eru flatar, aðeins með glóandi út-
línum (greinileg vísun í teikningar
Pablos Picassos þar) og frumlega
notkun á sandi og kornóttri áferð þar
sem glataðar sálir rísa og hníga upp
úr sandauðn mikilli og er sumum
feykt burt af sterkum vindi. Handan-
heimurinn er í neonlitum en hluti
hans er svarthvítur og sá heimur sem
við þekkjum, þ.e. hér á plánetunni
jörð, er í hlýjum jarðlitum, ef undan
eru skilin tónlistaratriði þar sem Joe
kemst í hugarflæðisástand. Í þessum
atriðum verður Joe einn með píanó-
inu eða flyglinum og svífur um á
neonbleiku skýi á neonbláum himni.
Tónlistaratriðin eru mjög vel kvikuð
og útfærð, djasstónlistin vönduð og
ekki annað að sjá en líkt hafi verið
eftir hljóðfæraleik eins nákvæmlega
og kostur er. Þess má geta að sjálfur
Herbie Hancock er á lista yfir list-
ræna ráðgjafa við gerð myndarinnar.
Nú er íslensk talsetning ekki í boði,
aðeins sú upprunalega bandaríska og
leikarar í henni standa sig með mikilli
prýði. Jamie Foxx smellpassar í hlut-
verk Joes og Tina Fey er eldhress í
hlutverki 22. Senuþjófarnir eru hins
vegar enskir, leikarinn Richard
Ayoade og þáttastjórnandinn Gra-
ham Norton. Spaugileg rödd Ayoad-
es er sem gerð fyrir teiknimyndir og
Norton er litlu síðri.
Líkt og í Up og Inside Out er kafað
í sálarlíf mannsins og tilfinningar í
Sál. Vangaveltur handritshöfunda
gætu mögulega ruglað yngstu áhorf-
endur í ríminu og sagan er helst til
flókin á köflum og jafnvel órökrétt (af
hverju þarf t.d. að þjálfa sálir áður en
þær finna sér líkama?), spurning-
arnar ívið þungar og svarið við þeim
heldur einfalt. „Hver er tilgangurinn
með þessu jarðlífi? Hver er ég? Hvar
endar alheimurinn? Skyld’ann enda
inn’í mér?“ söng Valgeir Guðjónsson
af innlifun í Með allt á hreinu og nógu
erfitt fyrir fullorðna að svara þeim
spurningum, hvað þá börn.
Á heildina litið er Sál fínasta teikni-
mynd fyrir börn jafnt sem fullorðna
með hrífandi tónlist og líflegum
persónum. Að lokum ber að nefna að
þetta er fyrsta teiknimynd Pixar með
þeldökkri aðalpersónu og margar
persónur aðrar eru af öðrum kyn-
þætti en hvítum. Er það vel og tími til
kominn þar sem 25 ár eru nú liðin frá
því fyrsta teiknimynd fyrirtækisins,
Leikfangasaga, var frumsýnd.
Milli tveggja heima
Disney +
Sál/Soul bbbbn
Leikstjórn: Pete Docter og Kemp Pow-
ers. Handrit og saga: Pete Docter, Mike
Jones og Kemp Powers. Aðalleikarar:
Jamie Foxx, Tina Fey, Graham Norton,
Rachel House, Alice Braga og Richard
Ayoade. Bandaríkin, 2020. 100 mínútur.
HELGI SNÆR
SIGURÐSSON
KVIKMYNDIR
Sálnaheimur Sál Joes og 22 með tveimur fulltrúum sálnaheimsins í Sál.
Djassari Joe leikur af fingrum
fram á flygil í einu af frábærum
tónlistaratriðum Sálar.