Morgunblaðið - 15.01.2021, Side 22
22 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. JANÚAR 2021
Í dag kveðjum við
Ágúst Herbert Guð-
mundsson bróður-
son minn, eða Gústa
frænda eins og ég kallaði hann
venjulaga. Hann hafði háð hetju-
lega baráttu við NMD-sjúkdóm-
inn illvíga sem hann tókst á við
með óvenjulegri jákvæðni og
æðruleysi en varð að lokum að
játa sig sigraðan. Margs er að
minnast og reikar hugurinn norð-
ur á Strandir í ágúst 1967 þar sem
sveitasíminn hringir á bænum
Kjörvogi. Þar var þá Ágúst afi
Gústa að tilkynna bróður mínum
um að honum væri fæddur sonur.
Kynni okkar frændanna hófust
ekki að marki fyrr en ég flutti til
Akureyrar 1995. Hann var þá þeg-
ar önnum kafinn og vinamargur
en við áttum þó margar ánægju-
legar stundir saman. Við fórum í
veiðiferðir bæði í gæs og rjúpur en
Gústi hafði gaman af skotveiði. Þá
koma í hugann ferðir í sumarbú-
staðinn á Ströndum þar sem við
reyndum fyrir okkur í skotveiði
með misjöfnum árangri. Jeppa-
ferð ásamt föður hans yfir Helj-
ardalsheiði er í fersku minni þótt
tuttugu ár séu síðan og er þá fátt
eitt talið. Gústi sagði mér margar
sögur frá uppvaxtarárum sínum
og varð mér af þeim ljóst að afi
hans og amma á Patreksfirði áttu
mikinn þátt í mótun hans og
þroska. Þar lærði hann að til þess
að ná árangri þyrftu menn að
standa sig. þegar hann hefði verið
14 ára hefði Ágúst afi hans frétt að
laust væri pláss á togaranum á
staðnum og hefði hann ráðið hann
umyrðalaust í plássið. Þannig
fengi hann góðar tekjur fyrir
næsta vetur. Þetta hafi svo sem
verið hið besta mál nema hvað
togarinn átti að sigla daginn eftir
og hann átti að verða kokkur.
Þarna sagðist hann hafa verið
næst því á lífsleiðinni að gefast
upp. Hann hefði farið til ömmu
sinnar og hún kennt honum að
baka brauð og búa til hvíta sósu.
Með þessa menntun í farteskinu
hefði hann farið og keypt kost og
síðan hafi verið siglt.
Það er ljóst af lífshlaupi Gústa
að hann hafði orð afa síns að leið-
arljósi. Hann stóð sig vel á öllum
þeim fjölmörgu sviðum þar sem
hann lagði hönd á plóginn og náði
árangri. Hann varð athafnamaður
í viðskiptum á mörgum sviðum og
gekk vel. Hann stundaði körfubol-
taíþróttina með íþróttafélaginu
Þór á sínum yngri árum og varð
síðan körfuboltaþjálfari eins lengi
og heilsan leyfði. Starf hans með
íþróttafélaginu Þór í körfubolta
mun halda nafni hans á lofti um
ókomin ár. Hann stofnaði ásamt
konu sinni líkamsræktarstöðina
Átak heilsurækt. Þá hafði hann
mikinn áhuga á smávirkjunum og
var gleði hans mikil að geta upp-
lifað gangsetningu á Tjarnarvirkj-
un í Eyjafirði sl. sumar sem hann
var einn aðaleigandi að. Ekki
verða hér upp talin öll þau fjöl-
mörgu verkefni sem Gústi kom að
með einum eða öðrum hætti á
sinni stuttu ævi.
Í einkalífinu var Gústi gæfu-
maður. Hann eignaðist yndislega
konu hana Guðrúnu Gísladóttur
og með henni þrjú mannvænleg
börn. Fjölskyldan átti hug hans
allan og fylgdi hann börnum sín-
um eftir eins lengi og hann gat í
íþróttum þeirra, leik og starfi.
Missir þeirra er mikill.
Elsku Gugga og börn. Við
María sendum okkar dýpstu sam-
úðarkveðjur.
Daníel Guðjónsson.
Ágúst H.
Guðmundsson
✝ Ágúst H. Guð-mundsson
fæddist 26. ágúst
1967. Hann lést 1.
janúar 2021.
Útför hans fór
fram 13. janúar
2021.
„Baráttuglaðir
leikmenn tapa aldr-
ei, þeir falla einungis
á tíma.“ (John Woo-
den)
Kæri Gústi, við
bræðurnir kveðjum
þig með miklum
söknuði og vottum
fjölskyldu þinni okk-
ar dýpstu samúð.
Við erum afar þakk-
látir fyrir að hafa
kynnst þér, samverustundirnar
innan sem utan vallar og vega-
nestið til framtíðar.
Eftir feril þinn sem leikmaður
með Haukum, Þór og UFA komst
þú sem stormsveipur inn í starf
körfuknattleiksdeildar Þórs í
byrjun 10. áratugarins þegar þú
hófst að þjálfa drengi sem fæddir
eru um 1980. Strákarnir þóttu
ekki líklegir til afreka en þú sást
góðan efnivið. Með mikilli vinnu
innrættir þú mönnum aga, metn-
að og trú á sjálfan sig og liðsheild-
ina. Innan fárra ára mótuðust
meistaralið, unglingalandsliðs-
menn og vinir fyrir lífstíð. Dreng-
irnir urðu seinna uppistaðan í
meistaraflokki Þórs í körfuknatt-
leik, sem þú þjálfaðir með góðum
árangri árin 1998 til 2001. Seinna
endurtókstu leikinn með strákum
fæddum 1986 og 1987 og gott bet-
ur með drengjum sem fæddir eru
um 2001. Þú varst máttarstólpi
körfuknattleiksdeildarinnar og
við fullyrðum að enginn hefur
markað dýpri spor í sögu körfu-
boltans á Akureyri og fáir hafa
gert meira fyrir íslenskan körfu-
knattleik.
Þú varst leikmönnum þínum
miklu meira en þjálfari. Þú varst
lærifaðir sem fleyttir mönnum út í
lífið með því að rækta með okkur
vinnusiðferði og seiglu sem erfitt
er að kenna. Þetta veganesti hefur
hjálpað okkur á lífsins braut og
fáum við það þér aldrei fullþakk-
að. Þú varst fyrirmynd okkar og
við gátum ávallt leitað til þín. Þér
þótti vænt um leikmenn þína og
þeim um þig. Ekki síst fyrir þitt
tilstilli mynduðust sterk tengsl í
okkar hópi, ævarandi vinskapur
og virðing. Þú varst ætíð heill í
öllu sem þú tókst þér fyrir hendur
og fyrir vikið nýturðu ómældrar
virðingar leikmanna þinna og ann-
arra.
Sjálfur fékkst þú ekkert upp í
hendurnar en lagðir þeim mun
meira á þig. Það var gaman fyrir
okkur leikmenn að fylgjast með
afrekum þínum þínum utan vallar.
Allt sem þú framkvæmdir leystir
þú svo vel af hendi að eftir því var
tekið. Þú og Guðrún eiginkona þín
eruð sannkallað afreksfólk og haf-
ið komið fjölmörgu góðu til leiðar
og börnunum ykkar frábæru
kippir svo sannarlega í kynið.
Þú varst svo sannarlega í ess-
inu þínu á körfuboltavellinum. Ef
maður lokar augunum sér maður
þig fyrir sér á hliðarlínunni í
íþróttahúsi Glerárskóla að brýna
Þórsliðið þitt til dáða og að sjálf-
sögðu íklæddur Nike-peysunni
góðu. Þannig munum við minnast
þín. Það er sárt að hugsa til þess
að þú féllst á tíma langt fyrir aldur
fram en arfleifð þín og minning
um einstakan mann lifa áfram.
Kæra Guðrún, Jana, Júlíus og
Berglind, hugur okkar er hjá ykk-
ur.
Ásmundur Hreinn Oddsson,
Bjarki Ármann Oddsson,
Guðmundur Ævar Oddsson.
Að tapa var ekki markmið fyrir
mig eða hann. Var ekki til í okkar
orðaforða. Svo mætti þessi fjandi
sem við hvorugur nenntum. „Gaui,
ég nenni ekki þessu MND,“ sagði
hann við mig fyrir tveimur árum.
En núna hefur hann verið leystur
frá þessari hörmung sem rænir
okkur allri getu til að lifa og njóta.
Við höfum öll misst mikið með
þessum höfðingja og eins gott að
minningarnar séu margar og góð-
ar til að fylla tómið sem eftir er.
Virkjunin átti hug hans allan
síðustu mánuði og maður gat ekki
annað en hrifist með áhuganum,
dugnaði og þori hjá honum og fjöl-
skyldunni. Takk fyrir videoin og
frásagnirnar af gangi mála.
18. ágúst 2018 var dagur
kraftaverkamaraþons. Þá hlupum
við fyrir Ágúst og fjölskylda og
vinir söfnuðu metfjárhæðum fyrir
MND á Íslandi. Þetta var gert af
dugnaði, harðfylgi og ástríðu eins
og annað sem þau tóku sér fyrir
hendur. Með þeim gátum við bætt
aðstöðu sjúklinga af öllum gerðum
og fagfólks til að aðstoða okkur.
Slagurinn um lyf sameinaði
okkur í baráttu við kerfið og
lækna sem hafa sér helst til
frægðar unnið undanfarin 20 ár að
horfa á okkur veslast upp og deyja
eða komið með öllum ráðum í veg
fyrir að við fengjum að prófa lyf
sem þó lofa góðu í baráttunni við
MND.
Körfuboltinn var mér fjarlæg-
ur í alla staði, þar til ég kynntist
Ágústi og fjölskyldu. Við hjónin
fórum meira að segja á körfu-
boltaleik í Boston þar sem við
sáum Celtics vinna glæsilega. Ég
hef jafnvel staðið mig að því að
horfa á íslenskan körfubolta og
vakað yfir leikjum Celtics sem er
og verður mitt lið.
Húmorinn hjá okkur var held
ég svipaður. Glettinn og kolsvart-
ur á köflum. Eins og alþjóð veit
gátu stjórnlaus hlátursköst tekið
yfir okkur og allt að því drepið
okkur. Það kom ekki í veg fyrir að
Ágúst gerði margar tilraunir til að
drepa mig með sendingu alls kon-
ar gríns á Facebook. Það seinasta
kom 22. desember sem mér þykir
vænt um. Stundum ofbauð mér
svartleikinn og skammaðist í hon-
um. „Hefur Guðrún séð þetta?“
spurði ég en hann svaraði alltaf
um hæl „Svona vini á ég bara og
áframsendi á þig.“
Ráðagóður, traustur, ljúfmenni
og leiðtogi eru orð sem koma í
huga manns þegar traustur vinur
er nú kvaddur.
Guðrún, Jana, Júlíus og Berg-
lind, megi allir góðir vættir vaka
með ykkur og andrúmið fyllast af
góðum minningum.
Guðjón, Halla og stelpurnar.
Það voru sorglegar fréttir sem
mér bárust í upphafi þessa árs
þess efnis að hann Gústi hefði lát-
ist á nýársdag eftir hetjulega bar-
áttu við erfiðan sjúkdóm.
Það voru mikil forréttindi að
kynnast Gústa þegar við unnum
saman hjá Akureyrarhöfn sem
stráklingar. Annað eins toppein-
tak af manni er erfitt að finna en
Gústi var nokkrum árum eldri en
ég, glæsilegur á velli og því leit ég
mikið upp til hans. Ef ég ætti að
lýsa Gústa í nokkrum orðum þá
koma orð upp í hugann eins og
myndarlegur, áreiðanlegur,
skemmtilegur, jákvæður og góð
fyrirmynd. Smitandi hlátur hans
og kímnigáfa situr sterk í minn-
ingunni.
Þegar ég hitti Gústa sumarið
2018 rifjuðum við upp nokkrar
skemmtilegar sögur af því þegar
við unnum saman hjá Akureyrar-
höfn á okkar unglingsárum og
hlógum mikið.
Við störfuðum saman nokkur
sumur sem hafnarverkamenn
ásamt mörgum snillingum á borð
við Jóa, Silla, Stebba, Kidda,
Manna, Tana, Jónas og að
ógleymdum Luca. Þessi tími var
ógleymanlegur þar sem margt
skemmtilegt var brallað. Ég man
sérstaklega eftir því þegar við
Gústi vorum eitt sinn sendir út í
slipp til að mála hafnarkantinn í
fagurgulum lit. Það var kalt í veðri
og við vorum eitthvað illa upplagð-
ir þennan dag. Við vorum fljótir að
reikna það út að við gætum klárað
þessa einu fötu af málningu á 50
mínútum og næðum þá góðri pásu
þar til verkstjórinn kæmi aftur til
að sækja okkur í mat. Ef við sett-
um vel í rúllurnar og dreifðum
ekkert allt of mikið úr málning-
unni þá myndi planið virka. Við
vorum örugglega ekki nema 40
mínútur að klára málninguna,
máluðum kannski 5 metra af hafn-
arkanti og þá gátum við slakað á.
Norðanáttin var köld þennan dag-
inn þannig að við fórum ofan í
vatnsbrunn til að hlýja okkur og
sátum þar og spjölluðum í myrkr-
inu um heima og geima. Þar sem
ég var yngri þá kom það í minn
hlut að gægjast annað slagið upp
úr brunninum þegar við töldum að
það væri farið að styttast í verk-
stjórann. Svo þegar ég sá glitta í
þann rauða (verkstjórabíllinn), þá
stukkum við upp og tókum rúllur í
hönd. Ég man hvað verkstjórinn
var hæstánægður með hvað við
höfðum afkastað miklu og við
Gústi vorum vel hvíldir og sælir.
Það var mikið áfall þegar fréttir
bárust af erfiðum veikindum
Gústa. Það var ljóst að verkefnið
var stórt en það var aðdáunarvert
að fylgjast með þeim Gústa og
Guggu í þessu erfiða ferðalagi. Ég
hitti Gústa nokkrum sinnum í
veikindunum, aðallega á körfu-
boltaleikjum hjá Þór og alltaf sá
ég gamla góða Gústa, þó að það
sæist að sjúkdómurinn var farinn
að taka sinn toll.
Ég sendi Guggu og börnum
mínar innilegustu samúðarkveðj-
ur. Minning um góðan mann mun
lifa með okkur um ókomin ár.
Einar Már Guðmundsson.
Fallin er frá einn af mínum
traustu vinum, hetja sem alltaf gaf
góð ráð og var til staðar fyrir vini
sína. Hann var hetja í augum fjöl-
skyldu og vina. Ágúst var ákveð-
inn, sanngjarn, frábær fjölskyldu-
maður og vinur sem hugsaði vel
um sína. Mín fyrstu kynni af
Ágústi voru í gegnum körfubolt-
ann þegar við lékum saman með
liðunum okkar KR og Þór Akur-
eyri á síðustu öld og var það klárt í
byrjun að þarna var magnaður
einstaklingur á ferð. Lið Ágústs
spegluðu persónuna hans jafnt
innan sem utan vallar. Smullum
við vel saman um leið og við
kynntumst og þannig trúi ég að
margir hafi kynnst þessum öðlingi
sem fallinn er nú frá langt um ald-
ur fram.
Árið 2000 fórum við á þjálfara-
námskeið, þar sem kóngurinn sló
tvær flugur í einu höggi og flaug
með prinsessurnar sínar þær
Guðrúnu og Ásgerði Jönu í sólina
á Benidorm meðan við brugðum
okkur á námskeið í Valencia. Ég
kynntist þeim hjónum vel í þessari
ferð og þykir mér afar vænt um þá
vináttu sem á milli okkar ríkir.
Þau eru höfðingjar heim að sækja
og iðulega þegar ég átti ferð norð-
ur vegna vinnu eða með fjölskyld-
unni leit ég við hjá þeim hjónum.
Ég var oft það heppinn að frú
Guðrún hafði þá einmitt keypt
fiskiklatta sem eru algjört sæl-
gæti sem við Doktorinn (Júlíus
Orri) snæddum, alltaf var vel tek-
ið á móti manni í mat og drykk og
farið vel yfir stöðu mála. Þetta er
gott dæmi um hvers konar per-
sónur þetta sómafólk er og þess
vegna eru þau rík af vinum og vel
tengd stórfjölskyldu sinni. Ég
kynntist Júlíusi Orra vel í verkefni
18 ára landsliðsins þar sem hann
stóð sig mjög vel sem fyrirliði liðs-
ins, en stuðningur Ágústs við
börnin sín þrjú í þeirra íþróttum
var magnaður og komu þau alls
ekki að tómum kofunum í ráðlegg-
ingum, sama hvort það voru
frjálsar, karfa eða fimleikar.
Ágúst var klókur í viðskiptum líkt
og í íþróttunum og skildi maður
stundum ekkert hvað hann var að
braska en þetta var allt partur af
planinu hjá okkar manni, flest
gekk upp og velgengni var hans
mottó. Fyrirtæki þeirra hjóna var
rekið frá hjartanu og verkefni sem
Ágúst tók að sér voru vel unnin.
Ágúst sýndi styrk sinn í bar-
áttu við MND-sjúkdóminn á
margan hátt, hann tókst á við
veikindin af jákvæðni og æðru-
leysi. Hann sýndi allar sínar bestu
hliðar þegar hann keyrði áfram
Tjarnarvirkjun í Eyjafirði sem í
raun fáir átta sig á hverslags
þrekvirki er nema hans nánustu.
Ágúst var vel kvæntur henni
Guðrúnu og eiga þau saman þrjá
demanta í þeim Ásgerði Jönu, Júl-
íusi Orra og Berglindi Evu. Ég bið
guð að gefa ykkur styrk í þeim
söknuði sem fráfall meistara
Ágústs er og taka vel utan um
ykkur á þessum erfiðu tímum. Ég
kveð einn af okkar allra bestu
mönnum með þessum orðum Þor-
steins Einarssonar úr Hjálmum:
Vertu sæll kæri vinur ég kveð þig nú
Með sorg í hjarta og tár á kinn
Þótt fenni í sporin þín þá lifir lag þitt
enn
Þú löngum spannst þín draumaljóð
Á hverjum morgni rís sólin
Og stafar geislum inn til mín
Hún lýsir upp daginn
Og þerrar öll mín tár
Breiðir úr sér um bæinn og heilar öll
mín sár
Ykkar vinur
Ingi Þór Steinþórsson
Elsku besti vinur, þú ert farinn
og þín er sárt saknað. Ég minnist
allra þeirra góðu stunda sem við
áttum saman. Minningarnar eru
margar og ljúfar, ekki síst frá
uppvaxtarárunum okkar á Pat-
reksfirði. Þú varst maður orða
þinna og það var alltaf hægt að
treysta öllu sem þú sagðir. Ótak-
mörkuð jákvæðni, víðsýni og um-
urðarlyndi gagnvart mönnum og
málefnum voru þér í blóð borin.
Ágúst, þakka þér fyrir brosið,
hláturinn og vinsakapinn.
Ég votta Guðrúnu og börnun-
um ásamt öðrum aðstandendum
samúð mína og bið Guð að veita
ykkur styrk í sorg ykkar.
Minning um góðan dreng
gleymist ei.
Hallgrímur Hallgrímsson.
Haustið 1993 kom inn í líf mitt
ungur myndarlegur maður sem
mig óraði ekki fyrir á þeim tíma að
ætti eftir að hafa jafn mikil áhrif á
líf mitt eins og raun bar vitni. Á
þessum tíma var ég óharðnaður
unglingur sem æfði körfubolta
með vinum mínum. Við vorum þá
undir meðallagi gott körfuboltalið.
Án þess að ég muni hvernig fyrsta
æfing undir stjórn Gústa var þá er
líklegt að hann hafi mætt ákveð-
inn til leiks, blásið þéttingsfast í
flautuna og sagt okkur að koma
saman á endalínu vallarins. Þar
hefur hann lagt línurnar og þaðan
höfum við hafist handa á skipu-
lagðri, erfiðri og skemmtilegri æf-
ingunni.
Gústi var agaður og skipulagð-
ur þjálfari með skýra sýn, krefj-
andi æfingar og með miklar en
raunhæfar kröfur. Okkur fannst
örugglega nóg um á fyrstu æfing-
unum hjá Gústa. Fljótt áttuðum
við okkur þó á því að hann vildi
gera okkur að betri leikmönnum
og ná árangri. Með mikilli vinnu
undir einstakri forystu Gústa náð-
um við þeim árangri sem hann
stefndi að. Við urðum Íslands-
meistarar, tvöfaldir bikarmeistar-
ar og unnum sterkt mót í Noregi
sem lið frá norðurlöndunum tóku
þátt í.
Gústi var ekki einungis þessi
strangi kröfuharði þjálfari sem ég
hef nú þegar lýst. Með tímanum
varð hann náinn vinur okkar allra.
Í samtölum við liðsfélagana nú í
kjölfar andláts Gústa eru það
nefnilega ekki afrekin á körfu-
boltavellinum sem koma fyrst upp
í huga okkar, heldur er það mann-
eskjan sem Gústi hafði að geyma.
Það sem Gústi kenndi okkur mun
nýtast okkur öllum út lífið, en
hann kenndi okkur vinnusemi,
aga, fórnfýsi, samvinnu, þraut-
seigju og virðingu. Gústi bar ávallt
virðingu fyrir mótherjanum, dóm-
urum og öðrum.
Það er erfitt að hugsa til þess
að Gústi er ekki lengur á meðal
okkar. Það verður skrítið fyrir
okkur sem Gústi þjálfaði að hittast
aftur og fá ekki að njóta einstakr-
ar nærveru hans og hlæja með
honum. Gústi hafði frábæran
húmor, alltaf stutt í gleðina og nú í
seinni tíð þegar við höfum hist hef-
ur aldeilis verið hlegið, rifjaðar
upp gamlar minningar af mörgum
glæstum sigrum, bæði innan og
utan vallar. Minningar um ein-
stakan mann munu lifa með okkur
út lífið og munum við heiðra minn-
ingu elsku Gústa með virðingu og
þakklæti.
Ég sendi mínar innilegustu
samúðarkveðjur til Guðrúnar,
Jönu, Júlíusar, Berglindar, fjöl-
skyldu og vina Gústa. Hvíl í friði
elsku vinur.
Magnús Helgason.
Ágúst vinur minn er fallinn frá
eftir yfir þriggja ára baráttu við
hinn illvíga MND-sjúkdóm. Ég
hitti Gústa í fyrsta sinn þegar við
vorum 16 ára á fyrsta ári í VMA á
Akureyri. Það leið ekki langur
tími þangað til vinátta tókst með
okkur og hefur hún vaxið og dafn-
að síðan. Gústi var dags daglega
rólyndur en enginn var glaðlynd-
ari en hann þegar skemmtun var
annars vegar. Ég og vinir hans
eigum ótal minningar um
skemmtilegar stundir með Gústa
og af og til rötuðum við í ævintýri
saman.
Gústi fæddist á Patreksfirði og
ólst upp hjá Ásgerði móður sinni
og Guðmundi stjúpföður sínum en
hann var einnig mikið hjá afa sín-
um og ömmu á Patreksfirði. Gústi
byrjaði snemma að vinna í fiski á
Patreksfirði og fór ungur að
stunda sjóinn með skólanum.
Gústi þurfti snemma að bera
ábyrgð og mótaði það hans per-
sónuleika, það styrkti hann. Gott
fólk stóð að Gústa og skynjaði ég
vel hversu vænt honum þótti um
foreldra sína, afa sinn og ömmu og
Patreksfjörð.
Gústi flutti til Akureyrar þegar
við vorum 15 ára. Gústi var fljótur
að eignast vini á Akureyri og
þekki ég fáa sem eiga jafnmarga
vini og hann. Þegar ég hugsa til
baka held ég að aðalástæðan fyrir
því hve vinamargur hann var hafi
verið áhugi hans á fólki og örlög-
um þess. Gústi var jafnaðarmaður
í hjarta og vildi ávallt aðstoða ef
hann mögulega gat það. Ég og
margir fleiri áttum eftir að njóta
liðstyrks frá Gústa þegar erfið-
leikar steðjuðu að.
Gústi náði miklum árangri í því
sem hann tók sér fyrir hendur,
hvort sem það var í viðskiptum,
íþróttum, félagsstarfi eða þjálfun.
Það lék allt í höndunum á honum
og er nýjasta afrekið að byggja
Tjarnavirkjun frammi í firði. Þeg-
ar ég horfi til baka sé ég vel
hversu þjálfun átti vel við hann.
Hann vildi helst taka að sér þjálf-
un ungra krakka og fylgja þeim
eftir. Liðin hans Gústa voru auð-
þekkjanleg; leikmenn hans voru
grjótharðir inni á vellinum en á
sama tíma mestu ljúflingar utan
vallar. Gústi var vinnusamur og
það féll nánast aldrei niður æfing,
ef það gerðist var alltaf tekin
aukaæfing og engar afsakanir.
Liðin hans unnu öll verðlaun sem
hægt var að vinna. Áhrif hans
voru þó mun meiri en verður talið í
titlum og bikurum. Hann vildi
hafa jákvæð áhrif á strákana sína
og ég veit að strákarnir hans
fengu gott veganesti út í lífið frá
Gústa.
Það hefur verið aðdáunarvert
að fylgjast með Gústa og fjöl-
skyldu hans síðustu árin. Þau hafa
staðið þétt saman og það veitti
Gústa styrk til að takast á við hinn
illvíga sjúkdóm. Eins hefur verið
gaman að sjá hversu mikið vinátta
Gústa við vini hans hefur styrkst
og vil ég þar sérstaklega nefna
vináttu Heimis Guðlaugssonar og
Gústa. Ásamt því að vera hægri
hönd Gústa í byggingu Tjarna-
virkjunar hefur hann staðið eins
og klettur með Gústa í allri hans
baráttu. Í dag er ég þakklátur fyr-
ir vináttuna og allar yndislegu
stundirnar sem ég átti með Gústa.
Gústi var ávallt mikill fjölskyldu-
maður, trúr og hugsaði vel um sitt
fólk. Ég votta Guðrúnu, krökkun-
um þeirra og foreldrum dýpstu
samúð.
Einar Pálmi Sigmundsson.