Morgunblaðið - 20.01.2021, Síða 24
24 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. JANÚAR 2021
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Victor Hugo var að deyja, bók
franska rithöfundarins Judith Per-
rignon, kom nýverið út í þýðingu
Rutar Ingólfsdóttur. Rut þýddi einn-
ig bókina Þetta var bróðir minn eftir
Perrignon, sem sama forlag, Ugla
útgáfa, gaf út árið 2018. Í þeirri bók
fjallar Perrignon um samband
bræðranna Vincents og Théos van
Gogh frá sjón-
arhóli Théos og
styðst við bréf
sem bræðurnir
skrifuðu hvor
öðrum og einnig
sjúkraskýrslur.
Victor Hugo var
að deyja er heim-
ildaskáldsaga,
líkt og bókin um
þá bræður og
fjallar Perrignon um andlát hins
fræga skálds Frakka og hvernig
París var gripin hitasótt eftir að af
því fréttist, eins og segir á vef Uglu.
„Allir vilja votta virðingu sína og
taka þátt í opinberu útförinni sem
færa mun hinn Ódauðlega í Pant-
héon. Tvær milljónir manna þjappa
sér meðfram leið líkvagnsins þennan
ástríðufulla og ógleymanlega dag,“
segir þar.
Hrifin af höfundinum
Rut segist hafa uppgötvað þennan
höfund, Perrignon, þegar hún las
hina nýútkomnu bók, Victor Hugo
var að deyja. „Ég rakst á hana í
bókabúð í París fyrir nokkrum árum
og varð mjög hrifin af henni. Ég fór
að leita að fleiri bókum eftir Perrig-
non og fann bókina um Vincent van
Gogh. Ég tók hana fyrst,“ segir Rut
um þýðingar sínar á verkum höfund-
arins. „Ég er mjög hrifin af henni
sem höfundi, a.m.k. þessum tveimur
bókum og finnst þær báðar fjalla um
mannleg efni sem tala til allra. Vin-
cent van Gogh og Victor Hugo eru
heimsþekkt nöfn og hennar aðferð
við að skrifa höfðar til mín. Hún er
upphaflega blaðamaður, hefur uppi á
gögnum í söfnum, bæði skjölum og
bréfum, þetta er allt sannsögulegt en
hún spinnur góða sögu úr efninu.“
Fróðleg lesning
Blaðamaður las bókina um þá van
Gogh-bræður og hreifst mjög af
henni. Er þessi bók í svipuðum stíl?
„Þetta er hennar stíll,“ svarar Rut.
„Hún fer mjög djúpt í hlutina. Í þess-
ari bók er í fyrstu erfitt að átta sig á
öllum nöfnunum sem koma fyrir, en
allt gengur þetta mjög vel upp og
mér finnst dásamlegt hvernig henni
tekst að koma ýmsu að, t.d. uppfinn-
ingum sem komu fram á þessum
tíma og maður fræðist um margt.“
Rut nefnir sem dæmi að áður en
líkfylgdin lagði af stað frá Sigurbog-
anum að Panthéon hafi minningar-
athöfn um Hugo farið fram undir og
við Sigurbogann. Í bókinni kemur
fram að Charles Garnier hafi séð um
sjónrænu hliðina á þeirri athöfn, en
hann teiknaði óperuhúsið í París,
Opéra Garnier. „Eftir að ég fór að
glugga í þessa bók varð ég mjög
áhugasöm um Victor Hugo. Ég trúði
því ekki að jarðarförin hefði verið
svona stórbrotin, að milljón manns
hefði verið á götunum. Ég fékk því
lánaða ævisögu Victors Hugo eftir
André Maurois, 600 blaðsíðna bók.
Þá sá ég að þetta er allt hárrétt og
fræddist mikið um Hugo í leiðinni.
Þetta var áður en ég fór að þýða bók-
ina,“ segir Rut.
–Hugo var og er menningarleg
þjóðhetja Frakka …
„Já, það er hárrétt. Hér á landi er
Hugo þekktastur fyrir söngleikinn
Vesalingarnir. Mér finnst gaman að
geta kynnt hann betur fyrir Íslend-
ingum. Ég vel sjálf þau verk sem ég
þýði og mér fannst þessi bók vera
verðugt verkefni,“ svarar Rut. „Mér
finnst þetta mjög áhugaverð bók,
annars hefði ég ekki þýtt hana.“
Tekist á um jarðarförina
–Er mikil pólitík í bókinni?
„Já, þarna er tekist á og einmitt
um jarðarförina. Nokkrir stjórn-
málaflokkar koma við sögu og í lík-
fylgdinni frá Sigurboganum að Pant-
héon ætla margir að bera fána síns
flokks, t.d rauða fána sósíalista.
Hugo var mjög pólitískur, hann var
þingmaður um tíma og í bókinni er
komið inn á mjög margt úr lífi hans,
t.d. útlegðina í Guernsey.“
–Ráðleggurðu þeim sem vilja lesa
bókina að vera búnir að kynna sér
Victor Hugo vel og þetta tímabil eða
geta lesendur komið að bókinni án
þeirrar vitneskju?
„Það ættu allir að geta lesið bók-
ina án þess að vera búnir að kynna
sér ævi hans. Mér finnst smám sam-
an koma skýrt fram, hvernig líf hans
var. Lestur bókarinnar krefst ekki
undirbúnings og alls ekki 600 blað-
síðna ævisögu,“ svarar Rut.
Nýtur þess að finna orð og flæði
Rut er spurð að því að hverju hún
sé að vinna þessa dagana og segist
hún nýverið hafa fengið þýðingar-
styrk fyrir næstu bók. „Hún heitir
Staðurinn, La place á frönsku, og er
eftir franska höfundinn Annie
Ernaux. Hún gerist í Frakklandi og
er sjálfsævisöguleg. Ernaux hefur
skrifað þó nokkrar bækur og þær
byggjast að mér skilst allar á ævi
hennar. Þessi bók er um föður henn-
ar og hún hefur gefið út aðra bók um
móður sína. „Mér var gefin þessi bók
og ég byrjaði að þýða hana í sumar
eða haust þegar ég beið eftir próf-
arkalestri á bókinni um Hugo. Svo er
ég með fleira að dunda við,“ svarar
Rut og segir að sér þyki afar gefandi
að þýða bækur enda menntuð í þýð-
ingafræðum. „Ég hef gaman af því
að velta íslenskunni fyrir mér. Það er
skemmtilegt að finna orðin sem hæfa
nákvæmlega í þýðinguna og að ná
flæði í textann.“
„Mannleg efni sem tala til allra“
Rut Ingólfsdóttir þýddi bók Judith Perrignon, Victor Hugo var að deyja „Ég trúði því ekki að
jarðarförin hefði verið svona stórbrotin,“ segir hún um jarðarför hins merka og dáða skálds Frakka
Í París Rut Ingólfsdóttir við Sigurbogann í höfuðborg Frakklands.
Skáldið Victor Hugo lést árið 1885.
Fornleifafræðingar sem starfa við rústakjarnann í
Saqqara, skammt sunnan við Kaíró í Egyptalandi, hafa
á undanförnum mánuðum fundið mikinn fjölda merkra
og vel varðveittra fornminja. Fyrr í vetur höfðu ráða-
menn í tvígang sýnt fjölmiðlamönnum tugi fornra kista
og grafarþróa með múmíum sem grafarræningjar hafa
ekki náð að skemma gegnum aldirnar en þær fundust í
grafagöngum nærri þrepapíramídanum fræga sem
gnæfir yfir svæðið. Um helgina var enn einn merkis-
fundurinn kynntur. Helstu tíðindin eru fundur grafar-
hofs Naert drottningar en hún var eiginkona Teti, eins
hinna merku konunga á skeiði svokallaðs Nýja kon-
ungaveldis fyrir meira en 2.500 árum. Þá hafa fundist
þar í kring yfir fimmtíu vel varðveittar múmíur í fagur-
lega skreyttum kistum og grafarþróm auk alls kyns
gripa. Einhverjir munanna og múmíanna verða til sýn-
is í hinu gríðarstóra Egypska safni sem fyrirhugað er
að opna síðar á árinu skammt frá píramídunum í Gíza.
AFP
Trékista Gestur myndar nýfundna múmíukistu og í forgrunni er önnur, um 2.500 ára gömul, fagurlega skreytt.
Merkilegt grafarhof og múmíur
Stjórn Bandalags íslenskra lista-
manna hefur sent frá sér yfirlýs-
ingu í tengslum við fréttaflutning
af málefnum Íslensku óperunnar og
umræðum um kjaramál óperu-
söngvara og annarra listamanna
sem þar starfa. Hún hljóðar svo:
„Stjórn Bandalags íslenskra lista-
manna telur að stjórnvöldum beri
að búa óperustarfsemi á Íslandi
sömu umgjörð og rekstrarskilyrði
og öðrum opinberum sviðslista-
stofnunum. Slíkt verður einungis
tryggt með því að stofna þjóðar-
óperu með stoð í lögum um sviðs-
listir nr. 165/2019. Lagagrundvöll-
ur þjóðaróperu þarf að vera
sambærilegur þeim sem gildir um
Þjóðleikhús og Íslenska dansflokk-
inn, þar sem hlutverkið er skýrt og
fagmennska
tryggð. Stjórn
BÍL telur það
löngu tímabært
að koma óperu-
starfsemi á
traustan kjöl
opinbers rekstr-
ar, enda ljóst að
rekstrarform
einkaréttarlegs
eðlis hentar ekki
jafn viðamikilli menningarstarf-
semi og hér um ræðir. Stjórn BÍL
er þess sannfærð að stofnun þjóðar-
óperu yrði mikið gæfuspor sem
tryggt geti heilbrigt starfsum-
hverfi fyrir óperusöngvara og aðra
listamenn sem koma að óperuflutn-
ingi á Íslandi.“
Yfirlýsing um stofnun þjóðaróperu
Erling Jóhannes-
son, forseti BÍL
Bókin La familia grande eftir lög-
fræðinginn Camille Kouchner, sem
kom út í Frakklandi fyrr í þessum
mánuði, hefur hrundið af stað nýrri
#MeToo-bylgju þar í landi, að þessu
sinni undir heitinu #MeTooInceste
eða #MeTooSifjaspell. Í bókinni
sakar Kouchner stjúpföður sinn,
Olivier Duhamel, sem er þekktur
stjórnmálamaður, um að hafa
nauðgað tvíburabróður hennar frá
því þau voru 14 ára. Aðeins er ár
síðan Vanessa Springora gaf út
bókina Le Consentement þar sem
hún lýsti því hvernig rithöfund-
urinn Gabriel Matzness flekaði
hana þegar hún var aðeins 14 ára
og hann fimmtugur. Bókin leiddi til
heiftúðugra
umræðna um
afstöðu
Frakka til
kynmaka við
börn undir
lögaldri.
Duhamel
hefur ekki viljað tjá sig opinberlega
um bók Kouchner. Í tísti segist
hann líta á bókina sem persónulega
árás og hafa valið að segja sig frá
öllum opinberum störfum til að
engar stofnanir yrðu fyrir skaða
vegna málsins. Samkvæmt frétt
BBC hefur ákæruvaldið í Frakk-
landi ákveðið að rannsaka ásak-
anirnar gegn Duhamel.
Ný #MeToo-bylgja í Frakklandi