Fréttablaðið - 31.07.2021, Síða 42

Fréttablaðið - 31.07.2021, Síða 42
Sköpunargleðin er okkur í blóð borin. Og það stafar sjálfsagt af einangrun þessarar fámennu þjóðar um aldir alda. Höfundur er sjónvarpsstjóri Hringbrautar, sem rekin er af Torgi, sem jafn- framt gefur út Fréttablaðið. Sigmundur Ernir Rúnarsson ser@hringbraut.is Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi til síðustu fimm ára, er að halda af landi brott eftir prýðilega þjónustu fyrir hennar hátign hér á landi. Hann kveðst aðspurður munu sakna lands og þjóðar, en hvoru tveggja, náttúran og fólkið, hafi haft mikil áhrif á hann, enda sérstaðan rík í báðum tilvikum – og hún verði honum eftirminnileg. Hann segir að ekki þurfi að fara mörgum orðum um náttúruna, enda verði mönnum orða vant andspænis kenjum hennar sem tali fyrir sig sjálfar, en þegar kemur að mannfólkinu sem hefur byggt þessa eyju úti í norðanverðu Atlantshafi í ríflega þúsund ár standi eitt upp úr. Og það er framtakssemin. Eða öllu heldur hvað fólkið er úrræðagott. Og hvað á Michael Nev in nákvæmlega við? Jú, hann segir að hér á landi sé svo auðvelt að ráðast í hlutina. Menn fái einfaldlega hug­ mynd að morgni og hún verði að veruleika eftir hádegi. Og gott ef ekki bara strax í hádeginu. Það sé nefnilega ekki verið að flækja hlutina á Íslandi. Viðkvæðið sé einfaldlega þetta; gerum það bara. Já, gerum það bara.  Hér talar maður sem heillaðist af sérstæðri þjóð úti á endimörkum álfunnar. Og enn sem fyrr er gests­ augað glöggt. Það er gömul saga og ný.  Okkur eyjarskeggjum hefur lík­ lega fundist þessi eiginleiki okkar svo sjálfsagður og gefinn í gegnum tíðina að við höfum varla eða ekki tekið eftir honum. Við gerum það bara. Altso, það sem okkur langar að gera að morgni. Og það er orðið að veruleika að kveldi. Eða fyrr. Sköpunargleðin er okkur í blóð borin. Og það stafar sjálfsagt af ein­ angrun þessarar fámennu þjóðar um aldir alda. Það gat enginn beðið eftir einhverri utanaðkomandi aðstoð. Hana var hvergi að hafa. Svo ef það þurfti að smíða bát var hann bara smíðaður á staðnum. Og ef það þurfti að matast þar á eftir var bara að bera sig eftir björginni í grennd. Og ef menn vildu eitthvert lesefni eftir vinnu var bara að skrifa bókina sjálfur. Sjálfsþurftarbúskapurinn bjó til þessa þjóð. Og þar á meðal helstu einkenni hennar, að bjarga sér sjálfur – og gilti þar einu hvort starfanum var sinnt úti á akrinum, uppi í skemmu, niðri á kaja, inni í eldhúsinu, ellegar við saumaborðið. Fólk vissi að hverju að gekk. Fólk vissi að það þurfti að stóla á sig sjálft. Alla daga, allan ársins hring, jafnt í sól og sudda, bölvandi gigt­ inni.  Og vinnusemin var dyg gð. Sennilega sú mesta sem til var í mannheimum. Í kveðjuræðum prestanna sem köstuðu rekum yfir vinnulúinni alþýðunni frá einni öld til annarrar var æðsta einkunnin þessi; henni féll aldrei verk úr hendi. Meira gat hrósið ekki verið. Lífshamingjan var mæld í dugn­ aði. Óhamingjan í leti. Það var nú ekki öðruvísi.  Svo er hitt. Og það skiptir miklu máli. Boðleiðirnar hafa alltaf verið stuttar á Íslandi. Og það er af því að maður þekkir mann. Eða hitt, sem er miklu líklegra, að maður sé skyld­ ur honum. Sennilega þremenningur við hann. Og aldrei minna en sjö­ menningur. Þannig að ef það þurfti að spyrja oddvitann eða sýslumanninn ráða, jafnvel um eitthvert smávægilegt leyfi sem varla var annars orð á gerandi, var sú stutta og langa bara slegin inn í sveitarsímann og vart annað að heyra af hinum enda lín­ unnar en að venslamanninum með valdið þætti erindið auðsótt.  Útlendinga rekur stundum í roga­ stans vegna þessa. Aðeins eitt lítið dæmi segir þá sögu á sannfærandi máta. Ætli hún hafi ekki gerst um miðjan níunda áratug síðustu aldar, en þá var sá sem hér klappar lykla­ borðið að klára vist sína á Helgar­ póstinum áður en leiðin lá í sjón­ varpið. Hér á landi var þá staddur félagi minn frá Noregi sem ég hafði kynnst nokkrum árum áður á blaðamennskukúrs í Osló. Hann hafði þá hlotið nokkuð skjótan frama á virðulegu blaði í heima­ landi sínu og var orðinn einn af fréttastjórum þess, rétt ríflega þrí­ tugur maðurinn. Og út kominn til Íslands var hans erindi að fjalla um efnahag og pólitík á eyjunni svölu, en hvoru tveggja var þá í ólagi, enda verðbólgan að sliga fólk og fyrirtæki og flokkarnir með rifin segl, gott ef þeir voru ekki að klofna, margir hverjir, hvort heldur það voru kratar eða íhaldið. Alltént var óstöðugleikinn til staðar. Og ekkert gefið, hvorki í pyngju fólks né pólitík. En sum sé, hvernig næði hann tali af forsætisráðherra þessarar þjóðar, spurði vinurinn næsta viss um vonlaust erindið. Steingrím Her­ mannsson, svaraði ég. Það er ekkert mál, bætti ég við. Hvenær viltu hitta hann? Í dag eða á morgun? Og hann gat ekki einu sinni hikstað upp úr sér svarinu fyrr en ég var kominn með Steingrím í símann, hér væri norskur blaðamaður sem vildi tala við hann um efnahagsástandið, hvort hann mætti koma síðdegis. Og Steingrímur hélt það nú, best svona um fimmleytið, sagði hann við mig, sinni vinalegu röddu. Og þann norska – gáttaðan manninn – keyrði ég niður í Stjórn­ arráð einmitt sama daginn og hug­ myndin að viðtali hafði kviknað. Og ég gleymi ekki orðaskiptum okkar Steingríms á tröppunum í Lækjar­ götu, áður en hann bauð þeim norska inn til sín; Ég bið svo fyrir kveðju til afa þíns. Dæmigert.  Ísland hefur verið krúttlegt sam­ félag. Það stafar ekki síst af því að það hefur verið meira og minna stéttlaust frá því það byggðist á níundu öld. Hér hefur aldrei fest sig í sessi hrokafullur plagsiður eldri herraþjóða sem töldu sig geta eignast önnur lönd og auðæfi þess í óæðri álfum, en hann fólst einmitt í þeim ósköpum að skipta fólki í aðalsmenn og alþýðu, tiginborna og réttlausa, pótintátana og pakkið. Hér á landi hefur dugnaðurinn komið mönnum þangað sem þeir hafa ætlað sér. Fyrir eða eftir hádegi. Allur almenningur hefur verið ráð­ andi. Og lengi vel hefur það einmitt verið svo úti við þessar vogskornu strandir sem skilja okkur frá úthaf­ inu að regluverkið hefur verið fólk­ inu í vil. Það hefur fremur hvatt það til dáða en drepið í dróma. Og það frjálsræði má ekki tapast. ■ Gerum það bara 26 Helgin 31. júlí 2021 LAUGARDAGURFRÉTTABLAÐIÐ

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.