Morgunblaðið - 16.04.2021, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. APRÍL 2021
Hafi það verið til-
gangur Vladimirs Pút-
ins Rússlandsforseta
að minna Joe Biden
Bandaríkjaforseta á
hernaðarmátt sinn með
vopnaglamri um 80.000
hermanna við austur-
landamæri Úkraínu og
á Krímskaga undan-
farna daga kann til-
gangi hans að hafa
verið náð þriðjudaginn 13. apríl. Þá
hringdi Biden í Pútin og lagði til að
þeir hittust einhvern tíma á kom-
andi mánuðum. Frá Kreml barst
tilkynning um að Rússlandsforseti
ætlaði að íhuga málið.
Dæmin sanna hve mörgum er
kappsmál að skipa sér við hlið
Bandaríkjaforseta. Ekki síst þeim
sem skortir burði til þess. Sann-
aðist það á eftirminnilegan hátt í
Singapúr um árið, þar hittust Do-
nald Trump forseti og Kim Jong-
un, einræðisherra í Norður-Kóreu.
Fundurinn reyndist með öllu
árangurslaus en Kim taldi þjóð
sinni trú um að hann sæti á stalli
með Bandaríkjaforseta.
Pútin hefur tryggt sér forseta-
embættið til 2036 við síminnkandi
vinsældir heima fyrir. Hann jók
mjög vinsældir sínar á heimavelli
fyrir sjö árum þegar hann lagði á
ólögmætan hátt undir Rússa Krím-
skaga og hóf opinberan stuðning
við aðskilnaðarsinna í austurhluta
Úkraínu. Hernaður þar hefur síðan
kostað um 14.000 manns lífið. Þarf
Pútin slíkan uppslátt aftur?
Nú segja rússneskir áróðurs-
miðlar að sótt sé að rússnesku-
mælandi minnihlutanum í Austur-
Úkraínu, landið lúti stjórn spilltra
ráðamanna í Kænugarði og sé á
barmi borgarastyrjaldar. Rússar
líði ekki slíkt ástand við landamæri
sín.
Samhliða símtali
Bidens við Pútin fór
Antony Blinken,
utanríkisráðherra
Bandaríkjanna, til
Brussel og hitti
Dmíjtro Kuleba,
utanríkisráðherra
Úkraínu, í höfuð-
stöðvum NATO. Blin-
ken lýsti „óbifan-
legum stuðningi við
fullveldi og lands-
yfirráðarétt Úkraínu“.
Þá fór Lloyd Austin, varnarmála-
ráðherra Bandaríkjanna, til Berl-
ínar og sagði að bandarískum her-
mönnum í Þýskalandi yrði fjölgað
um 500.
Loks hefur Bandaríkjastjórn
sent tvo tundurspilla til eftirlits-
starfa á Svartahafi.
Sé það markmið Rússa að hindra
aðild Úkraínu að NATO með her-
útkalli sínu brást Jens Stoltenberg,
framkvæmdastjóri NATO, við með
þeim orðum að það væri NATO-
ríkjanna 30 að ákveða hvenær
kæmi að NATO-aðild Úkraínu og
„enginn annar hefði neinn rétt til
að blanda sér í eða skipta sér af því
ferli“.
Tilgangur þessa mikla hersafn-
aðar Rússa við landamæri Úkraínu
er óljós. Sergei Shoigu varnar-
málaráðherra sagði þriðjudaginn
13. apríl að þetta væri „viðbragðs-
könnun“ og henni lyki innan
tveggja vikna. Sergei Rjabkov
varautanríkisráðherra sagði hins
vegar að Bandaríkjamenn væru
andstæðingar Rússa og best væri
fyrir bandarísku tundurspillana að
halda sig frá Krímskaga og Svarta-
hafsströndinni, annað kynni að
verða þeim hættulegt. Bandaríkja-
menn ætluðu að breyta Úkraínu í
„púðurtunnu“.
Áreiti gagnvart
Bandaríkjamönnum
Stig af stigi leiddu atburðirnir í
Úkraínu árið 2014 til þess að
NATO-ríkin beindu meiri athygli
en nokkru sinni á rúmum 30 árum
að sameiginlegum vörnum sínum í
Evrópu og síðan á Norður-
Atlantshafi og norðurslóðum.
Hvert svo sem markmið Rússa
er núna hefur þeim tekist að valda
uppnámi með hernaðarbrölti sínu á
þessum viðkvæma stað. Sumir telja
að einmitt uppnámið sé markmiðið,
það er að reyna á þanþol nýrrar
stjórnar í Bandaríkjunum.
Bröltið beri að skoða í ljósi at-
burða á Suður-Kínahafi þar sem
220 varaliðsskip kínverska hersins
sigldu sem fiskiskip í var við eyja-
klasa sem Filippseyingar segja
falla undir lögsögu sína. Banda-
ríkjastjórn lýsti stuðningi við
Filippseyinga, sem töldu þetta ögr-
un, og áréttaði andstöðu við yf-
irgang Kínverja með því að senda
flugmóðurskip og fylgdarskip á
vettvang. Þá er kínverskum her-
vélum flogið tugum saman í loft-
varnasvæði Taívana sem njóta ör-
yggistryggingar af hálfu
Bandaríkjamanna.
Áreiti í garð Bandaríkjastjórnar
og bandamanna hennar innan
NATO birtist ekki aðeins í hern-
aðarbrölti Rússa í og við Úkraínu
eða ögrunum kínverska flotans og
flughersins í garð Filippseyinga og
Taívana.
Vegið að utanríkisráðherra
Sérkennilegt atvik varð í sam-
skiptum rússneskra og íslenskra
stjórnvalda í mars 2021. Ber að
halda því til haga meðal annars við
mat á fjölþátta ögrunum af rúss-
neskri hálfu í garð norrænna ríkis-
stjórna.
Guðlaugur Þór Þórðarson utan-
ríkisráðherra ritaði grein sem birt-
ist í Morgunblaðinu 11. mars 2021.
Þar gat hann þess að kjarnorku-
afvopnun væri mikilvægur þáttur í
sögu NATO. Kjarnorkuvopn hefðu
verið mest rúmlega 7.000 frá
Bandaríkjunum í Evrópu þegar
kalda stríðið stóð hæst en væru nú
150-200.
Markmið Atlantshafsbandalags-
ins væri að heimurinn yrði kjarna-
vopnalaus. Rússar hefðu nú þróað
nýjar tegundir kjarnavopna og
endurnýjað þau sem fyrir væru.
Frekari fækkun kjarnavopna þyrfti
að taka mið af alþjóðlegu öryggis-
umhverfi. Á meðan Rússland, Kína,
Norður-Kórea og fleiri ríki byggju
yfir kjarnavopnum yrðu NATO-
ríkin að gera það líka. „Einhliða
kjarnorkuafvopnun er firring og
glapræði. Einungis með gagn-
kvæmri afvopnun er öryggi
tryggt,“ sagði utanríkisráðherra.
Þessi orð urðu til þess að María
Zakharova, upplýsingafulltrúi Ser-
geis Lavrovs, utanríkisráðherra
Rússlands, sendi Guðlaugi Þór tón-
inn á blaðamannafundi í Moskvu
18. mars. Það væri rangt að ríki
Atlantshafsbandalagsins hefðu
komið sér upp kjarnorkuvopnum
sem svari við kjarnorkuvígvæðingu
Sovétríkjanna sálugu.
Vegna fréttar í Morgunblaðinu
um þetta 19. mars hafnaði Guð-
laugur Þór réttilega að hann hefði
sagt eitthvað sem félli að orðum
Zakharovu. Hvergi er minnst á
Sovétríkin og kjarnorkuvopn þeirra
í grein ráðherrans heldur bent á að
Rússar hafi undir stjórn Pútíns
þróað nýjar tegundir kjarnavopna
og endurnýjað eldri gerðir slíkra
vopna frá Sovéttímanum. Vladimir
Pútin hefur hvað eftir annað gortað
sig af nýju ógnarvopnunum.
Morgunblaðið sneri sér til rúss-
neska sendiráðsins í Reykjavík og
óskaði skýringa á orðum Zakha-
rovu.
Svar sendiráðsins birtist 20
mars. Þar segir að ekki þurfi að
vera sérfræðingur í alþjóðastjórn-
málum til að lesa á milli línanna í
grein ráðherra, og að „augljósar“
ályktanir hafi verið dregnar af orð-
um hans, þær séu tilefni ummæla
Zakharovu. Samkvæmt rökum
Guðlaugs Þórs sé Atlantshafs-
bandalagið eini hornsteinn öryggis
og friðar í heiminum, bandalagið
hafi sem sagt vígbúist til að svara
vígbúnaði Sovétríkjanna. Þessi
túlkun sé einhliða, ráðherrann hafi
hvorki getið þáttar Rússa í nær öll-
um afvopnunarsamningum né þess
að Rússar hafi aldrei sagt sig ein-
hliða frá neinum þeirra, ólíkt
Bandaríkjamönnum.
Þetta er skrýtin athugasemd.
Allir sem þekkja sögu evrópskra
öryggismála í kalda stríðinu vita að
á áttunda áratugnum var hart tek-
ist á um hvort svara ætti með-
aldrægum sovéskum kjarnaeld-
flaugum gegn vesturhluta Evrópu
með bandarískum flugskeytum.
Svonefndar friðarhreyfingar sem
margar nutu sovésks stuðnings
urðu undir í þeirri baráttu.
Að rússneska utanríkisráðu-
neytið sjái ástæðu til að lesa á milli
lína í blaðagrein utanríkisráðherra
Íslands til þess síðan að gagnrýna
hann með rangfærslum á blaða-
mannafundi ráðuneytisins er ný-
mæli. Hvaða augum ber að líta slík
afskipti? Er þetta liður í ögrandi
málflutningi rússneskra stjórnvalda
í garð ráðherra og ríkisstjórna á
Norðurlöndunum almennt? Eða er
Ísland undir smásjá í Moskvu?
Hver sem svörin eru við spurn-
ingunum hafa Rússar sýnt andlit
gagnvart Íslandi sem minnir á
kaldastríðsdraug.
Eftir Björn
Bjarnason
» Sérkennilegt atvik
varð í samskiptum
rússneskra og íslenskra
stjórnvalda í mars
2021. Ber að halda
því til haga.
Björn Bjarnason
Höfundur er fv. ráðherra.
Vopnaglamur og áreiti Rússa
Feðgar Þessir þrír labradorhundar eru feðgar og heita Nói, Nínó og Amon og eru hér í stöðugleikaæfingu fyrir veiði og veiðipróf. Nínó, í miðjunni, er pabbinn. Íslenskur veiðimeistari og er sá
hundur sem hefur tekið þátt í flestum veiðiprófum hér á landi, eða alls 59 prófum. Nínó er 10 ára, elsti hundur á Íslandi sem hefur tekið þátt í Retriever-veiðiprófum. Fallegir feðgar á ferð.
Ingólfur Guðmundsson