Morgunblaðið - 26.04.2021, Síða 28

Morgunblaðið - 26.04.2021, Síða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. APRÍL 2021 Dalvegi 16c | 201 Kópavogur | Sími 568 6411 | rafvorur@rafvorur.is Amerísk heimilistæki rafvorur.isRAFVÖRUR ehf Þvottavélar og þurrkarar sem taka 10-17 kg Moskva trúir ekki á tár Moskva, maí 1999 Vorið 1999 tók ég næturlestina frá Helsinki og kom til Moskvu í fyrsta sinn. Það var hálfóraunveru- legt að standa á Rauða torginu og sjá Kremlið, Basilskirkjuna og Lenín liggjandi í glerkistunni í grafhýsinu. Allt hafði þetta myndað bakgrunn fréttaskota frá því Bresj- nev stóð ofan á grafhýsinu og horfði á Rauða herinn ganga hjá í fyrstu sjón- varpsminningum mínum. Ég fór aðeins einu sinni til Rússlands á Jeltsín-árunum, tíma sem allir sem eftir muna hugsa til með hryll- ingi. Rúbluhrunið hafði sett stóran hluta þjóðarinnar á hausinn árið áður, annað efnahagshrunið á ein- um áratug. Í tíma í Rússlands- fræðum við Háskólann í Helsinki hafði Sergei Medvedev prófessor árið áður lýst ástandinu sem nokk- urs konar varanlegri krísu. Hinir harðgerðu Rússar lærðu með seigl- unni að takast á við umrót sem virtist komið til að vera. Sumir ræktuðu kartöflur í bakgarðinum til eigin neyslu eða sölu, ofurstar í hernum keyrðu leigubíla á kvöldin þegar launin bárust ekki frá ríkinu, frændi einhvers átti sendiferðabíl og saman ráku þeir sendiþjónustu um helgar. Hver einasti bíll er jafnframt leigubíll og hvert auka- herbergi er leigt út, löngu áður en Airbnb og Uber áttu eftir að leiða til hins sama á Vesturlöndum. Útlendingar voru enn fremur sjaldgæf sjón í borginni. Á Sovét- tímanum hafði Intourist séð um að lóðsa gesti um bæinn og passað upp á að þeir sæju ekkert sem þeir áttu ekki að sjá. Stofnunin var reyndar enn til og hafði verið einkavædd en nú var enginn lengur að fylgjast með. Fólk stóð á lestar- stöðinni og beið eftir að sýna út- lendingum bæinn, ekki í von um aura heldur vegna þess hve gaman það var að fá loksins að hitta fólk frá öðrum löndum. Sá sem kom í okkar hlut var eldri gyðingur með gott vald á ensku. Hann mundi enn eftir því þegar menn fóðruðu götótta skó sína með dagblöðum og ef svo óheppilega vildi til að þar var mynd af Stalín voru þeir sendir í gúlagið fyrir að traðka á leiðtog- anum. Í grennd við Rauða torgið fórum við niður í undirgöng þar sem hópur af ungum stúlkum stóð í röð og veifaði feimnislega til okkar. Við hlið þeirra stóð maður og fylgdist með að þær gerðu það sem þeim var sagt. „Þetta eru vændis- konur,“ tilkynnti sá gamli. Það var margt hér sem ég hafði aldrei séð áður. Nýrússarnir, eins og þeir voru þá kallaðir, bárust mikið á. Og að berast á var það sem allir þráðu. Philip Morris gerði tilraun til að flytja inn Marlboro-manninn en það fór fyrir lítið, hér sá enginn rómantíkina í því að vera einn og skítugur í óbyggðum. Ef þú áttir eitthvað áttirðu að sýna fram á það og ef þú áttir ekkert varð samt að þykjast. Allt virtist vera til sölu, meira að segja götuskiltin voru í boði Coca-Cola. Kók var hér loks- ins að springa út eins og á Íslandi á eftirstríðsárunum en hafði verið ófáanlegt í gömlu Sovétríkjunum. Öðru máli gegndi um Pepsi. Saga Pepsi í Rússlandi er löng og flókin. Árið 1959 var bandarísk vörusýning opnuð í Moskvu og Richard Nixon varaforseti Banda- ríkjanna kom til að vera við- staddur. Hann og Krústjoff aðalrit- ari tóku til við að deila um kosti og galla kapítalisma í samanburði við kommúnisma og Krústjoff var orð- ið svo heitt í hamsi að honum var gefið Pepsi að drekka. Að sögn kunni hann því vel, svo vel raunar að sagan um töfradrykkinn sem hressti við aðalritarann breiddist út og Sovétmenn vildu ólmir komast í meira. Nú voru góð ráð dýr. Þar sem rúblan var óvíða gjaldgeng ut- an heimalandsins var brugðið á það ráð að bjóða vöruskipti. Loks árið 1972 fannst lausnin. Skipt var á vodka og Pepsi á genginu lítri á móti lítra, því af vodkanum áttu Rússar alltént nóg. Stolichnaya varð í kjölfarið vinsælt í Bandaríkj- unum og Pepsi í Sovétríkjunum. Eða allt þar til á hnignunartíma 9. áratugarins. Vodkabrugg var um tíma bannað af umbótasinnanum Gorbatsjov sem varla aflaði honum mikilla vinsælda. Það eina sem Sovétmenn áttu þá til skiptanna voru hergögn og var Pepsi Co. boðinn skerfur af Rauða flotanum. Þetta varð að ráði og Rússar fengu ropvatnið góða fyrir andvirði þriggja milljarða dollara en Pepsi fékk í staðinn sautján kafbáta, beitiskip, freigátu og tundurspilli. Um tíma var Pepsi Co. sjötta stærsta flotaveldi heims en líklega var léttir fyrir keppinautanna hjá Kók að það ástand varði ekki lengi. Flotanum var bráðlega siglt til Sví- þjóðar þar sem hann var mulinn í brotajárn. Pétur mikli hafði eitt sinn ráðist á Eystrasaltslendur Svía til að geta byggt þar rúss- neskar flotastöðvar og með þessu má segja að ákveðnum hring hafi verið lokað, Svíar hafi seint og um síðir hefnt fyrir missi Eystrasalts- landanna með því að láta Rússa- flota í endurvinnsluna fyrir hönd Pepsi. Moskva var eins og önnur veröld en Pétursborg minnti fremur á niðurnídda ítalska stórborg við fyrstu sýn. Hallirnar, og þær voru ófáar, höfðu séð glæstari stundir en borgin sjálf iðaði af lífi. Öllu ægði saman, það var eins og allir straumar vestursins hefðu flætt yfir í einu og rækjust nú á. Á einu götuhorni var rokkabillíband í fullri Elvis-múnderingu að spila, á því næsta breikdansarar í besta eitís- stíl, vinna þurfti upp hálfa öld á nokkrum árum. Djasspíanóleikarar spiluðu undir teknótónlist og ung- lingar röppuðu yfir balalækur, allt var leyfilegt. 1999 hefði hæglega getað orðið Rússlandsárið, allt frá náminu í Helsinki og kynnunum við Júlíu og loks ferðalaginu til Rússlands sjálfs, áður en snúið var aftur til ævilangrar grámyglu í Reykjavík. En bréfið frá Júlíu breytti öllu. Lífið leitaði í annan farveg, Rúss- land yrði partur af lífi mínu hér eftir en ekki endilega á þann hátt sem vonast var eftir. Við Júlía héldum áfram að hitt- ast í almenningsgörðum Helsinki- borgar aldamótasumarið 2000, drukkum hvítvín í Kaivopuisto, fór- um á útisafnið í Seurasaari. Hlut- irnir þróuðust hægt en í þetta sinn var samskiptum haldið áfram eftir að ég fór heim um haustið. Ég var farinn að vinna á grillinu hjá Aktu Taktu sem jafnaðist hvergi á við Toppmyndir í Vesturbænum frekar en flest önnur störf sem ég hef sinnt síðan. Líklega var allt eins gott að reyna að klára háskólann. Sem háskólanemi eina ferðina enn tókst mér eftir áramót að kom- ast aftur til Finnlands, aftur sem skiptinemi í Rússlandsfræðum. Þetta seinkaði útskrift nokkuð en meiri skriður komst á önnur mál. Við Júlía vorum víst opinberlega byrjuð saman og helst hefði ég vilj- að vera áfram í Finnlandi en tókst ekki að ná inntökuprófinu í Háskól- ann í Helsinki á sænsku. Ég varð að snúa aftur heim og starfaði á Vistheimili barna um sumarið og kláraði loks sagnfræðina veturinn eftir. Vonandi tækist mér nú að flytja til Finnlands varanlega. Allt gekk vel í fyrstu, ég fékk vinnu sem skipaþrifamaður hjá Silja Line en sambandið við Júlíu gekk ekki alveg sem skyldi. Hún hafði einnig lokið námi og ætlaði loksins að láta drauminn rætast og flytja til Rússlands. Það varð úr að við fórum saman til Pétursborgar þetta sumar, 2002. Þrjú ár höfðu liðið síðan ég var síðast í Rússlandi og ekki var að sjá að borgin hefði mikið breyst þó Pétursborgarinn Pútín væri kom- inn til valda í Moskvu. Margt var enn með sovésku fyrirkomulagi þar sem markmið vinnu var ekki endi- lega að koma sem mestu í verk heldur að allir hefðu eitthvað að vinna við. Í sumum matvörubúðum pantaði maður vörurnar hjá einum starfsmanni, sá næsti afhenti þær og sá þriðji tók við greiðslu. Ætli þeir séu ekki allir horfnir í dag. Rússar brosa almennt ekki til ókunnugra, enda þykir það hin versta hræsni að brosa til fólks án þess að meina það. Og afgreiðslan er ekki alltaf eins og maður hefði kosið. Við fengum okkur ís við Gri- boedov-síkið hjá Blóðkirkjunni, sem byggð var á þeim stað þar sem Alexander 2. keisari var myrt- ur. Afgreiðslukonan afgreiddi ann- an ísinn, fékk sér svo sígarettu og spjallaði við vinkonuna um stund þar til hún afgreiddi hinn með semingi. Mér fannst þetta á sinn hátt sjarmerandi og skárra en að verið boðið að eiga góðan dag af manneskju sem svo meinar ekkert með því. Við Júlía kynntum okkur sumar- hallirnar í grennd við borgina, Púshkin og gosbrunnana í Peterhof og Yussupov-setrið í miðbænum þar sem Raspútín var myrtur með nokkrum erfiðismunum. Sumarið leið hratt, allt of hratt, þar til kom að hinu óhjákvæmilega. Árnar voru teknar að kvíslast hvor í sinn far- veginn. Vetrarsíkið við Vetrarhöll- ina þykir einhver rómantískasti staður borgarinnar. Það var hér sem Liza drekkti sér í óperu Tsjæ- kovskís um Spaðadrottninguna. Og það var hér sem hringur af fingri Júlíu og kveikjari sem hún hafði gefið mér hurfu ofan í. Því var lokið. Skipt á Pepsi og Rauða flotanum Bókarkafli | Undir lok síðustu aldar var Valur Gunnarsson, sagnfræð- ingur, rithöfundur og blaðamaður, við nám í Rússlandsfræðum í Finnlandi og fór loks yfir landamærin til Rússlands, í fyrsta sinn af mörgum. Síðan hef- ur hann búið í Eistlandi og Rússlandi og heim- sótt flest hinna fyrrver- andi Sovétríkja. Bókin Bjarmalönd er afrakst- urinn af þessari dvöl og ferðalögum, fræðistörf- um og greinaskrifum undanfarinna 20 ára. Morgunblaðið/Eggert Rússlandsfróður Valur Gunnarsson hefur heimsótt flest lönd sem tilheyrðu Sovétríkjunum.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.