Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.07.2021, Side 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.7. 2021
FERÐALÖG
Þ
au Jordi Haro, Ester Servat og
Jordi Cuenca voru stödd hér
á landi nýverið til að kynna
Andorra sem áfangastað fyrir ferða-
þyrsta Íslendinga. „Við viljum átta
okkur á því hvernig þið starfið og
hvernig þjóð Íslendingar eru,“ segir
Haro sem er fulltrúi ferðamálastjóra
í Andorra. „Það er mikilvægt fyrir
okkur að vita hvernig fólkið er í land-
inu sem við bjóðum til okkar svo við
getum undirbúið okkur vel. Þannig
fá gestir bestu upplifunina af An-
dorra.“
Haro segir að farið hafi verið að
skipuleggja ferðir frá Íslandi til An-
dorra árið 2019 en áætlað sé að fjölga
ferðamönnum héðan sem koma til
landsins næsta vetur. Hér á landi
býður ferðaskrifstofan Tripical upp á
ferðir til Andorra. „Okkur finnst við
eiga mikið sameiginlegt með Íslend-
ingum,“ segir Haro. „Þjóðfélagið,
menningin og hvernig ferðamanna-
iðnaðinum er háttað.“
Ekki bara skíðasvæði
Andorra er smáríki í Pýreneafjöll-
unum við landamæri Frakklands og
Spánar. Þar búa rúmlega 76 þúsund
manns á 468 ferkílómetra svæði sem
þýðir að landið er minna en svæðið
sem Reykjavík og Mosfellsbær
leggja undir sig. Höfuðborg landsins
heitir Andorra la Vella og er í rúm-
lega þúsund metra hæð yfir sjávar-
máli. Til landsins koma rúmlega 8
milljónir ferðamanna á ári hverju,
flestir þeirra frá Frakklandi og
Spáni.
Andorra er þekktast fyrir skíða-
brekkur sínar og stærstur hluti
ferðamanna kemur á veturna. „En
fólk kemur þangað líka til að versla
og njóta náttúrunnar þar sem 90% af
landsvæðinu er hrein náttúra,“ segir
Haro en góðar aðstæður eru til bæði
fjalla- og götuhjólreiða sem og fjall-
göngu á sumrin.
Þar sem landið er svo lítið og auð-
velt að fara á milli staða, segir Haro
ferðamenn geta nýtt sér allt það sem
í boði er í Andorra. Fólk skíði til
dæmis einn daginn en fari svo í versl-
unarferð þann næsta en söluskatta-
lög eru hagstæð í Andorra og því
hægt að gera góð kaup þar. Þá er
einnig að finna framúrskarandi mat-
arhefð í Andorra þar sem áhrifa frá
Frakklandi og Spáni gætir.
Finnur ekki fyrir kuldanum
Sólardagar á meðalári í Andorra eru
um 300 en því hefur skíðafólk ekki
átt að venjast á öðrum vetrar-
áfangastöðum. Þótt aðstæður séu
oftast góðar til skíðaiðkunar í brekk-
um landsins er stundum nauðsynlegt
að framleiða snjó og þannig er hægt
að tryggja að snjór sé á 68% skíða-
svæðanna frá lokum nóvembermán-
aðar út skíðatímabilið.
„Veðurfarið er mjög gott því það
eru áhrif frá Miðjarðarhafinu sem
valda því að það er mjög þurrt líkt og
hér á Íslandi og því finnur maður
ekki eins mikið fyrir kuldanum,“ seg-
ir Servat sem starfar fyrir Grandval-
ira-skíðasvæðið, eitt af þremur skíða-
svæðum landsins.
Paradís fyrir utan borgirnar
Á sumrin, eðli málsins samkvæmt, er
ekki hægt að halda skíðavæðum
landsins opnum og því hafa flestir
ferðamenn komið á veturna. Síðustu
árin hefur hins verið gert meira í því
að laða ferðamenn að landinu á sumr-
in. „Við breytum skíðabrekkum okk-
ar í fjallahjólaleiðir á sumrin,“ segir
Cuenca en hann starfar fyrir Vall-
Nord-skíðasvæðið. Hann segir mik-
inn uppgang í hjólreiðum í landinu en
tvær dagleiðir í Frakklandshjólreið-
unum þetta árið voru hjólaðar í An-
dorra, ein endaði og önnur hófst þar.
Margt annað er hægt að gera í An-
dorra á sumrin og nefnir Servat að
níu holu golfvöllur sé starfræktur á
Grandvalira-svæðinu á sumrin í ein-
stöku landslagi í um 2.000 metra
hæð.
Enginn alþjóðlegur flugvöllur er í
Andorra svo þeir sem fara þangað
komast leiðar sinnar á bíl. Ferða-
menn frá Íslandi fljúga flestir til
Barcelona, í þriggja klukkutíma fjar-
lægð, og keyra þaðan á bílaleigubíl
eða taka rútu.
„Þegar komið er út fyrir þær litlu
borgir sem eru í Andorra ertu í para-
dís,“ segir Haro og bætir við að
ósnert náttúra Andorra skapi mjög
rólegt andrúmsloft sem ferðamönn-
um líki vel við.
Mörgum skíðabrekkum Andorra er breytt í fjallahjólaleiðir á sumrin. Horft yfir bæina Soldeu og El Tarter. Þá sést Avet-brekkan þar sem skíðað er á heimsbikarmóti.
Löndin eiga mikið sameiginlegt
Til smáríkisins
Andorra ferðast nú sí-
fellt fleiri Íslendingar.
Þangað fer skíðafólk
á veturna og hjólreiða-
fólk, göngugarpar og
aðrir náttúruunnendur
á sumrin. Sólardagar
eru um 300 á ári og
landið hefur upp á
margt að bjóða.
Böðvar Páll Ásgeirsson
bodvarpall@mbl.is
Jordi Haro, að ofan til vinstri, Ester Servat, að neðan
fyrir miðju, og Jordi Cuenca, að ofan til hægri.
Andorrur, hópur kvenna sem kunna að njóta, sést hér í skíðaferð í Andorra.
Boðið er upp á skemmtilegar hjólaleiðir á sumrin í Andorra.
Ljósmynd/Grandvalira