Feykir - 05.02.2020, Page 2
Yrki ég einn í sandinn,
aldan stafina þvær.
Horfnir háværir leikir,
hláturinn nú er fjær.
Fjörubyggingar fallnar,
flóðið sléttaði þær.
En sandurinn er hinn sami,
sandurinn frá því í gær.
Hafið úr botninum brýtur
björgin í fjörusand.
Bylgjurnar slípa brotin
og bera síðan á land.
Klettarnir hverfa að lokum,
en kærleikans silfurband,
bindur eilífð við eilífð,
ekkert því vinnur grand.
Þetta ljóð Hilmis Jóhannessonar er að finna í ljóðabók hans frá
2012, Ort í sandinn. Nú er Hilmir allur og langar mig að nota
leiðarann að þessu sinni til að minnast manns sem lífgaði upp
á samfélagið með gleði og gamanyrðum og gerði alla betri í
kringum sig.
Ég kynntist Hilmi fyrir rúmlega 30 árum, þegar ég var að
stíga mín fyrstu spor á leiksviði Bifrastar. Á þeim tímum var
hann fenginn til að skrifa revíur fyrir Ungmennafélagið
Tindastól og fékk hann mig til að vera með. Mér fannst hann
taka mér sem jafningja þó aldursmunurinn væri þó nokkur.
Þetta var skemmtilegur tími og Hilmir kátur og hress eins og
var hans eðli, ávallt með gamanyrði á vörum og oft í bundnu
máli. Allir andlitsdrættir tóku þátt í því að mynda breitt brosið,
ekki síst augun sem nánast ultu úr augntóftunum að manni
fannst. Hann sagði skemmtilega frá og dró ekkert undan til að
gera atburðarásina kómískari og oft var hann í því hlutverkinu
sem grínið beindist að.
Hilmir var mjólkurfræðingur að mennt, fæddur á Húsavík
en settist að á Sauðárkróki eftir búsetu í Borgarnesi. Hann var
gjaldkeri sjúkrasamlags á Sauðárkróki, síðast bókavörður við
sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Eftir það sagðist hann vera kominn
á botninn sem lægst settasti maður á Íslandi. Hann væri
nefnilega aðstoðarmaður dagmóður en þær þættu ekki hátt
skrifaðar í þjóðfélaginu, hvað þá aðstoðarmenn þeirra. Þarna
átti hann við sína hægri hönd og styrku styttu á hans ævivegi,
eiginkonuna Huldu sem starfaði lengi við að gæta barna á
Sauðárkróki. Ég gæti trúað að hún hafi átt mikinn þátt í því að
aldan máði ekki allt það sem ort var í sandinn – enda minnist
Hilmir á leikni Huldu í ritvinnslu á baki ljóðabókar sinnar og
sagðist aldrei hafa kunnað á neitt nema blýant.
Hilmir skrifaði og gaf út tvær bækur, skáldsöguna Gollar
2011 og ljóðabókina Ort í sandinn 2012. Níu leikverk sendi hann
frá sér:
Sláturhúsið Hraðar hendur, fyrst sett upp á Borgarnesi árið
1968, en seinna farandsýning leikhópsins Emelíu. Umf.
Tindastóll sýndi leikritið á Sauðárkróki árið 1978.
Ósköp er að vita þetta, samið árið 1971.
Gullskipið kemur, samið árið 1974, sýnt af Leikfélagi Akureyrar.
Karlmenningarneysla, Verkakvennafélagið Aldan setti upp á
Sauðárkróki árið 1975.
Hinn þögli meirihluti, UMFT setti upp á Sauðárkróki 1983.
Hvað helduru mar (revía), tónlist eftir Geirmund Valtýsson.
UMFT setti upp á Sauðárkróki 1988.
Það sem aldrei hefur skeð (revía), Tónlist eftir Geirmund
Valtýsson. UMFT setti upp á Sauðárkróki 1990.
Tímamótaverk, Leikfélag Sauðárkróks setti upp 1991.
Trítill, samið með Huldu Jónsdóttur, tónlist eftir Eirík
Hilmisson. Leikfélag Sauðárkróks setti upp árið 1997.
Um leið og ég þakka góð kynni af skemmtilegum karli votta
ég aðstandendum alla mína samúð.
Páll Friðriksson, ritstjóri
LEIÐARI
Ort í sandinn
Brúðuleikverkið Handbendi
Sæhjarta frumsýnt á Hvammstanga
Brúðuleikhúsið Handbendi
frumsýnir verkið Sæhjarta eftir
Gretu Clough í Félagsheimilinu á
Hvammstanga þann 11. febrúar
næstkomandi klukkan 20:00.
Sæhjarta er einleikið brúðu-
leikverk fyrir fullorðna og er það
höfundurinn, Greta Clough, sem
fer með hlutverk í verkinu.
Leikstjóri er Sigurður Líndal,
tónlist og hljóðmynd eru í hönd-
um Júlíusar Aðalsteins Róberts-
sonar og Egill Ingibergsson sér
um leikmynd og lýsingu.
Í Sæhjarta er sögð margslungin
furðusaga konu með heillandi
blöndu brúðuleiks og hefðbund-
ins leikhúss, segir í fréttatilkynn-
ingu frá Handbendi. Verkið
endurskapar og endurvekur
gömlu sagnirnar um urturnar
sem komu á land og fóru úr
selshamnum til að búa og elska
meðal manna. Verkið er ekki
ætlað börnum undir 16 ára að
aldri þar sem það inniheldur
atriði og lýsingar á kynlífi, ofbeldi
og nekt.
Sæhjarta verður einnig sýnt í
Tjarnarbíói í Reykjavík dagana
14., 19. og 27. febrúar. Sýningarnar
hefjast allar klukkan 20:00. /FE
Áburður lækkar í verði
Allt að 14,5% lækkun
Verðskrá íslenskra áburðarinnflytjenda lækkar
umtalsvert milli ára sem skýrist fyrst og fremst
af lækkun á áburði á erlendum mörkuðum. Alls
eru fimm aðilar sem flytja inn áburð þetta árið
og boða allir breytingar á verði.
Meginplöntunæringarefnin í áburði eru aðeins
þrjú: köfnunarefni (N), fosfór (P) og kalí (K) og
þarf að bera árlega á tún til þess að ásættanleg
uppskera náist. Fjölmörg önnur efni s.s. brenni-
steinn (S), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) o.fl., eru
nauðsynleg plöntum en misjafnt er eftir aðstæðum
hvort eða hversu mikið þarf að bera á af þeim, eftir
því sem fram kemur á Bóndi.is.
Nokkur verðmunur er á milli tegunda og segir
Björn Magni Svavarssonar, sölumaður hjá KS, að
munurinn liggi í þeim efnum sem í áburðinum er.
„Við höfum aðallega verið með 13 tegundir og
einnig boðið upp á kalk og skeljasand. Sá gæða
áburður sem KS selur undir nafninu Græðir, er
bæði fjölkorna og einkorna áburður.“ Að sögn
Björns Magna hefur áburðarverð lækkað hjá þeim
milli ára allt að 14,5%. Hann segir það skipta miklu
máli að geta verið í nánu sambandi við bændur
með þeirra óskir um innihald á tegundum en þeir
fylgist vel með, skoði heysýni og breyti áburðavali
ef þeir telja þess þurfa. Hann segir flesta bændur
búna að ganga frá pöntunum en von er á áburði um
mánaðamótin mars apríl. /PF
Sex bátar lögðu upp á Skagaströnd í liðinni
viku og var samanlagður afli þeirra tæp 23
tonn.
Á Sauðárkróki var landað rúmum 352
tonnum úr þremur skipum og á Hvammstanga
landaði einn bátur, Harpa HU 4, tæpum fimm
tonnum. Heildarafli vikunnar á Norður-landi
vestra var 379.764 kíló. /FE
Aflatölur 26. jan.– 1. feb. 2020 á Norðurlandi vestra
Heildaraflinn 380 tonn
SKIP/BÁTUR VEIÐARFÆRI KG SKIP/BÁTUR VEIÐARFÆRI KG
SAUÐÁRKRÓKUR
Drangey SK 2 Botnvarpa 103.467
Jóhanna Gíslad. GK 557 Lína 78.724
Málmey SK 2 Botnvarpa 169.917
Alls á Sauðárkróki 352.108
SKAGASTRÖND
Auður HU 94 Landbeitt lína 1.612
Bergur sterki HU 17 Lína 3.070
Dagrún HU 121 Þorskfiskinet 5.578
Fengsæll HU 56 Landbeitt lína 1.603
Onni HU 36 Dragnót 6.621
Sæfari HU 212 Landbeitt lína 4.229
Alls á Skagaströnd 22.713
HVAMMSTANGI
Harpa HU 4 Dragnót 4.943
Alls á Hvammstanga 4.943
MYND: HANDBENDI BRÚÐULEIKHÚS
Útgefandi: Nýprent ehf., Borgarflöt 1, Sauðárkróki | Póstfang Feykis: Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur
Ritstjóri & ábyrgðarmaður:
Páll Friðriksson, palli@feykir.is & 861 9842
Blaðamenn:
Fríða Eyjólfsdóttir, frida@feykir.is & 867 9744,
Óli Arnar Brynjarsson, oli@feykir.is | Sigríður Garðarsdóttir, siggag@nyprent.is
Áskriftarverð: 585 kr. hvert tölublað með vsk. Lausasöluverð: 720 kr. með vsk.
Áskrift og dreifing: Nýprent ehf. Sími 455 7171. Umbrot og prentun: Nýprent ehf.
Óháð fréttablað á Norðurlandi vestra - alltaf á miðvikudögum
2 05/2020