Feykir


Feykir - 20.05.2020, Blaðsíða 3

Feykir - 20.05.2020, Blaðsíða 3
 Heilir og sælir lesendur góðir. Höfundur fyrstu vísu að þessu sinni er Adolf J. Petersen. Mun hann hafa séð vísnaþátt í dagblaði þar sem Þingeyingar komu nokkuð við sögu. Leit ég yfir ljóðin smá las ég þau í kringum, og margt er það sem minnir á montið í Þingeyingum. Önnur vísa kemur hér eftir Adolf og leynir hann þar ekki sinni pólitísku hugsjón. Alþýðan skal færa fórn fátæk bera skaðann. En bráðum hnígur hægri stjórn hrynur undirstaðan. Held að það hafi verið í kringum árið 1975 sem talsverð umræða varð um svokallað kvennaár og jafnréttiskröfur kvenna. Mun Adolf þá hafa ort þessa: Fölna ástir, falla tár færri gleðistundir, það er krafa kvenna í ár – að karlmenn liggi undir. Kona í Reykjavík sem, því miður vildi ekki gefa upp sitt rétta nafn, svaraði og sendi Adolf þessa vísu í samúðarskyni. Fjöri sviptur fellir tár fornum siðum tryggur. Hjálparvana og vina fár verður sá er liggur. Finn í dóti mínu þessa mögnuðu hringhendu eftir ferðagarpinn og góða hagyrðinginn úr Skagafirðinum, Hallgrím Jónasson. Veit því miður ekki af hvaða tilefni hún hefur orðið til. Leigur bjóða kana klóm klækja gróða blaða. Eigur þjóðar skitnum skóm skattaóðir vaða. Einhverju sinni er haldin var árshátíð hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni, var ákveðið að efna til vísnakeppni. Fengu þeir sem ætluðu að taka þátt í henni eitt orð sem nota átti sem miðrímsorð og var þá ljóst að um var beðið hringhentan kveðskap. Veita átti þrenn verðlaun og fóru leikar svo að Andrés H. Valberg, frá Mælifellsá í Skagafirði, fékk bæði fyrstu og önnur verðlaun fyrir eftirfarandi vísur: Á skemmtifund með léttri lund lífsins bundinn hætti. Folinn skundar greitt um grund gæddur undramætti. Önnur verðlaun voru veitt fyrir þessa: Breyskur glanni brúkar kjaft bölvun kann að vinna. Hefur mannorð margra haft milli tanna sinna. Ein vísa kemur hér í viðbót eftir Andrés og er hún vel gerð hringhenda, ort þegar bjarma fór fyrir vori eftir illskeyttan vetur. Kviknar glóð við klakadranga klökknar óðum gatan hál. Geislaflóðið vermir vanga vekur ljóð í kaldri sál. Jón M. Pétursson, frá Hafnardal, er höfundur að næstu vísu. Er hún ort um 1975 en því miður man ég ekki hvaða ríkisstjórn var við völd þá. Reynist þýðleg rúmferðin hjá ræfils landstjórninni, af henni skríða óþrifin út úr flatsænginni. Á sama árabili komust á kreik nokkrar ágætar vísur þar sem höfundur vildi ekki gefa upp sitt rétta nafn. Þessi mun vera ein af þeim og ort er hann rölti eftir Austurstræti: Hér finnst eitt og annað dót ýmsu er hægt að tjalda. Götuskáldið gnæfir mót gluggum Silla og Valda. Um svipað leyti og þessi vísa varð til var kosið nýtt lið inn á svokallaðan heiðurslaunalista, í stað Þórbergs, Guðmundar Böðvarssonar og Páls Ingólfssonar. Af því tilefni orti þessi ókunni höfundur svo: Þótt þeir leggi lambaspörð létt í bólið svana, áfram standa opin skörð eftir snillingana. Hafandi í huga stefnu ákveðinnar stjórnmálahreyfingar mun þessi huldumaður hafa ort svo meinlega vísu um sleikjuhátt sem teljast má þeirra höfuðeinkenna. Þeir stefna fyrir allt og ekki neitt íslenskan þeim veldur böli þungu, og skrifa kannski kanamálið eitt en kunna síður mæðra sinna tungu. Gaman væri að heyra frá lesendum ef þeir kannast við þessar vísur. Það mun vera Björn Leví Gestsson sem er höfundur að eftirfarandi greinargerð: Konum fyrst ég kanna hjá kærleiks ystu merkin, dýpra risti og dái þá Drottins listaverkin. Eitt sinn er brást til beggja vona um maíblíðuna mun Jón Pétursson hafa ort þessa: Hefi veitt og verið stór voryl seitt í muna. Nú ég þreyttur þamba bjór þessu er leitt að una. Vitum ekki enn fyrir víst hvernig maí reynist okkur jarðarbörnum, gott samt að enda með þessari ágætu vísu Adolfs J. Petersen: Loftið kliðar ljúfum hljóm lýsir friði myndin. Allt um sviðið anda blóm undir niðar lindin. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Vísnaþáttur 760 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Breytingar ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Það eru áratugir síðan ég fermdist. Það var bjartur og fallegur dagur þegar ég stóð við altarið í Þingeyrakirkju eftir undirbúning hjá sr. Þorsteini, prófasti á næsta bæ. Það var fámennt við altarið, þá sveið að skarð var Greinarhöfundur í Tjarnarkirkju á Vatnsnesi með bikar sem Guðmundur Ketilsson fékk 1853 fyrir umbætur á leigujörð sinni frá Konunglega danska landbúnaðarfélaginu. Bikarinn gaf hann í Tjarnarkirkju og var hann um árabil notaður þar sem kaleikur. AÐSEND MYND Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum fyrir skildi. Jafnaldri sem átti að standa þarna með okkur hafði verið hrifinn burt úr þessum heimi, fyrsta dráttarvélaslysið sem ég kynntist af raun. Hafði þau sterku áhrif að vinar var saknað á fermingardegi, en varð til þess að ávallt síðar umgekkst ég hættur vélknúinna tækja af virðingu. Ég hafði lokið skyldunáminu. Á þeim árum var skyldan aðeins þrjú til fjögur ár, jafnvel aðeins fáir mánuðir á ári. Við flest fórum þó eitthvað meira í skóla en þar var ekki mikill hvati til að leggja stund á langt nám á þeim árum. Í dag er skólaskyldan í tíu ár og hvern vetur er kennt mun lengur en var í mínu ungdæmi. Mikil áhersla er lögð á að unga fólkið haldi áfram í skóla, jafnvel í mörg ár. Kostir sem standa til boða fyrir unga fólkið eru miklu fjölbreyttari í dag en í mínu ungdæmi. Það er vel. Spurning hvort námsleiði sé að verða vandamál. Ég hef hins vegar áhyggjur af því unga fólki sem ekki á kost á öðru en stunda æskunámið í mjög fámennum skólum. Ég man hvernig var að koma úr litla skólanum í túnfætinum heima í rúmlega 100 nemenda Héraðsskóla á Reykjum. Í dag þurfa margir nemendur að fara úr 20 - 50 nemenda skóla í aðra sem telja nemendur í hundraða tali. Á þeirri vegferð tapa margir áttum og týnast. Æskuárin móta unga fólkið til frambúðar. Sá sem missir fótanna á öðrum áratug sinnar ævi nær sér sjaldan á strik. Þannig flýr mörg einmana sál og villist í þéttum skógi. Hér er breytinga þörf. Hætturnar eru margar. Í mínu ungdæmi fannst mér mesta hættan af óvörðu drifskafti, í dag liggja hættur víða. Á þeim fögru en köldu vordögum sem okkur hefur mætt á þessu vori hefði margur unglingurinn átt að gangast undir sitt fermingarheit. Í upphafi þessa árs datt engum í hug á hvern hátt heimurinn gjörbreyttist frá því sem hann hefur verið hin síðari ár. Flest með allt öðrum blæ en verið hefur. Þær miklu breytingar sem á fáum vikum hafa orðið leiðir hugann að öllum þeim breytingum sem orðið hafa á mínu æviskeiði, jafnvel á líftíma þeirra sem fæddir eru á síðustu áratugum liðinnar aldar. Eitt er þó sem ekkert hefur breyst. Meginhluti unglinganna sem gengur upp að altarinu á fermingardegi gerir það alls ekki af einhverjum trúarhita. Miklu fremur af því að flestir vinirnir fermast og svo fá unglingarnir miklar og flottar gjafir. Það gerir daginn frábæran, líkt og jólin. Þar eru gjafir komnar langt úr hófi. Lítið er hugsað um hvers vegna sú hátíð er haldin. Í þessum pistli hefur mér verið tíðrætt um breytingar. Er ekki full ástæða fyrir kirkjunnar fólk að huga að róttækum breytingum. Vissulega hefur mögnuð og merk breyting orðið í einum og einum söfnuði, en heilt yfir hafa litlar breytingar orðið á kirkjustarfi um aldir. Sjálfum finnst mér Þingeyrakirkja ein fegursta kirkja landsins. Aldrei er eins dýrðlegt að koma þar og þegar kirkjan er ljósum prýdd á síðkvöldi. Þangað komu fjölmargir vinir mínir og fylltu kirkjuna á síðkvöldi og hlustuðu á Álftagerðisbræður á afmæli mínu fyrir nokkrum árum. Oftar hef ég hins vegar setið þar í fámenni á aðfangadagskvöld. Þá eru þar oftar en ekki fáir aðrir en prestur og þeir sem syngja í kórnum eða eiga þangað tengsl. Það var meira að segja fámenni þar á síðasta aðfangadagskvöldi, þó nýr prestur væri kominn. Fögur kirkja, fallegt veður og nýr kvenprestur dugðu ekki til að heilla fólk á þessu kvöldi. Er ekki breytinga þörf? - - - - - - Ég skora á Hörpu Birgisdóttur bónda og ráðunaut á Kornsá í Vatnsdal að taka pennann næst. 20/2020 3

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.