Feykir - 03.06.2020, Page 6
Magnús er giftur Karitas
Sigurðardóttur, hjúkrunar-
fræðingi frá Akureyri, og eiga
þau þrjú börn og átta barnabörn.
Hann er fæddur á Sauðárkróki
1948 og alinn þar upp til 16 ára
aldurs en fór þá í Menntaskólann
á Akureyri. Eftir skólagöngu þar
tók Magnús sig til og gerðist
kennari í Hagaskóla í ein fimm
ár áður en hann fór og lærði
veðurfræði úti í Svíþjóð en þar
bjó hann í fjögur ár áður en
hann kom heim á ný. „Ég kom
svo heim og fór að vinna á
Veðurstofunni eftir það, með
smá hléi þó, því að þetta var nú
þannig á þeim tíma, eða í
kringum 1980, að ekki fékkst
stöðuheimildir fyrir viðbótar-
veðurfræðing á Veðurstofunni.
Þá flutti ég til Akureyrar í þrjú
ár og var stærðfræðikennari við
Menntaskólann á Akureyri ´82
– ´85. Síðan flutti ég suður aftur
og fór að vinna á Veðurstofunni
og þá aðallega við veðurspár og
var þar til 1993 sem veður-
fræðingur en frá 1. janúar ´94,
og næstu 15 ár á eftir, var ég
veðurstofustjóri,“ segir Magnús.
Fljótlega eftir að Magnús hætti á
Veðurstofunni var hann farinn
að huga að útgerð en tók um
leið að sér að vera aðstoðar-
ríkissáttasemjari með Magnúsi
Péturssyni, öðrum Skagfirðingi.
Þar var hann í hlutastarfi næstu
sex árin.
Með sjóinn upp að húsi
Aðspurður hvernig það hafi
komið til að veðurfræðin varð
fyrir valinu segir hann það hafa
verið svolítið skrítna tilviljun
eins og tilvera okkar er
stundum. „Þannig var að í
desember 1974 kemur það í
fréttum að Jónas Jakobsson,
kunnur veðurfræðingur, hafi
orðið bráðkvaddur á besta aldri.
Í framhaldi af því fæ ég þá
hugmynd hvort ég eigi ekki
bara að fara og læra veðurfræði
og kanna hvort það sé ekki
sæmilegar atvinnuhorfur í því.
Ég fer og hitti menn uppi á
Veðurstofu og, til að gera langa
sögu stutta, í framhaldi af því þá
tek ég ákvörðun um að læra
veðurfræði. Við flytjum svo til
Uppsala í Svíþjóð í ágúst 75.
Þannig að það má segja að þetta
hafi allt verið svolítil tilviljun.
Ég var mikill raungreinamaður
og hafði velt fyrir mér, að fara í
verkfræði. Meira að segja sótt
um skóla til að læra
skipaverkfræði því ég var
svolítið með hugann við
sjóinn,“ segir Magnús sem
byrjaði á sjó ellefu ára gamall
árið 1959 og var þá á skaki.
Hann stundaði síðan sjóinn
nánast hvert sumar alveg fram
um tvítugt.
„Ég byrjaði með
sunnlendingi, Árna Snjólfssyni
að nafni sem flutti um tíma á
Krókinn og gerðist skipstjóri á
mb. Bjarna Jónssyni. Síðan átti
pabbi minn bát í eitt ár en næstu
þrjú sumrin þar á eftir var ég
með Agnari Sveinssyni. Sumrin
1964 og 1965 var ég með Steina
Garðars. Endaði ég hálfpartinn
Króksferilinn á því að vera á Tý,
1965, með Steina Garðars og
Nonna Jós og fleiri góðum
mönnum. Sumrin 1973 til 1975
var ég svo á skaki frá Raufarhöfn
en síðasta sjómennskusumarið
mitt 1976 var ég svo með Agnari
Sveinssyni og þá á Blátindi.
Þannig segi ég það stundum að
maður sé að verða það gamall
að hafa verið á þeim bátum sem
nú eru orðnir forngripir,“ segir
Magnús sem heldur áfram að
telja upp gamla samherja á
sjónum. „Ég var líka með Ingólfi
Sveins, Valla Jóns, Helga
heitnum Einars, Gunna Skorr,
Steina á Sauðá, Munda í
Bárunni, Sigga á Starrastöðum
og Ingimar á Miðsitju, svo ég
nefni bara nokkra sem koma
upp í hugann.“
Að alast upp á Króknum
hefur ætíð þótt gott og
skemmtilegt enda leikvöllurinn
allt frá fjalli og niður í fjöru.
Magnús segist ekki hafa viljað
alast neins staðar annars staðar
upp og sjórinn heillaði unga
manninn snemma. „Við áttum
heima á Kambinum á
Sæmundargötu þannig að í
hvert skiptið sem gerði eitthvert
verulegt brim þá gekk sjórinn
upp að húsi og það var mjög
gaman að fylgjast með því, fyrir
áhugamann um sjómennsku
eins og ég var á þessum árum.
Þannig að ég hefði ekki viljað
skipta á því og neinum öðrum
stað, satt best að segja. Enda
sæki ég í Skagafjörðinn aftur og
það er engin tilviljun að þegar
ég fæ mér bát að ég geri hann út
frá Króknum. Þetta er staður
sem ég þekki vel og miðin á
firðinum að stórum hluta til
líka.
Lítið róið í ár
Það er árið 2011 sem Magnús
og gamall skólabróðir hans úr
MA, ákveða að kaupa sér bát og
gera út frá Sauðárkróki.
Skólafélaginn hafði alltaf haft
áhuga á að fara á sjó og róa
svolítið. „Hann er prófessor í
rafmagnsverkfræði, búsettur
vestur í Ameríku, en kemur
hingað á hverju sumri og er
með mér í mánuð eða svo.
Byrjaði ég 2012 að róa héðan á
strandveiðum og hef verið að öll
sumur síðan. Ég hef ekki verið
að stunda þetta eins og
atvinnusjómaður, hvorki farið á
grásleppu né þorskanet, línu
eða önnur veiðarfæri.
Strandveiðivertíðin í ár hefur
gengið þokkalega hjá þeim sem
hafa verið að róa, alla vega betur
en oft áður. En það er svolítið
breytilegt eins og oft er á þessari
blessaðri strandveiði. Báturinn
bilaði hjá mér 21. apríl og vegna
Covid- ástandsins á
vélamörkuðum þá fæ ég ekki
nýja vél í bátinn fyrr en eftir
einhverja mánuði. Ég á allt eins
von á því að missa af þessari
vertíð en það getur verið að
rætist eitthvað úr. En ég tek því
eins og hverju öðru hundsbiti,
geri bara eitthvað annað, ég er
ekki í neinum vandræðum með
verkefni. En það hefði verið
gaman að getað verið svolítið á
sjó í sumar.“
Rökrétt að stofna nýtt félag
Magnús er sem stendur
formaður Smábátafélagsins
Drangeyjar í Skagafirði sem
stofnað var 24. janúar 2015. Á
heimasíðu Landssambands
smábátaeigenda kemur fram að
nokkrir smábátaeigendur höfðu
unnið að stofnun sérstaks félags
í Skagafirði. „Undirbúnings-
stofnfundur var haldinn 5.
janúar sl. en á honum kom fram
að verulegur hljómgrunnur var
fyrir stofnun nýs félags meðal
skagfirskra smábátaeigenda.
Ákveðið var að boða til
stofnfundar og var hann
haldinn á Sauðárkróki sl.
laugardag 24. janúar.“
Stofnfundurinn var ágætlega
sóttur, segir í fréttinni, og mikill
hugur í trillukörlum að láta til
sín taka um ýmis mál sem
tengjast nærumhverfi þeirra. Í
því skyni átti að sameina sem
flesta smábátaeigendur á
svæðinu og vinna þétt við hlið
annarra smábátafélaga. Í lok
stofnfundar var eftirfarandi
samþykkt um dragnótaveiðar í
Skagafirði. „Drangey - Smábáta-
félag Skagafjarðar skorar á
sjávarútvegsráðherra að beita
sér fyrir því að Skagafjörður
verði áfram lokaður fyrir
dragnótaveiðum.“
„Helsti frumkvæðismaður-
inn að stofnun félagsins var
Steinar Skarphéðinsson og
kannski einhverjir með honum
í því. En hann er fyrsti formaður
félagsins.
Það var starfandi hér félag
sem heitir Skalli, og er starfandi
enn, og starfsvæði þess náði frá
Siglufirði og vestur á Strandir.
VIÐTAL
Páll Friðriksson
Sjórinn hefur lengi heillað Magnús Jónsson, fv.
veðurstofustjóra, en síðustu átta sumur hefur hann
gert út strandveiðibát frá Sauðárkróki og er hann nú
formaður Smábátafélagsins Drangeyjar í Skagafirði.
Magnús segist hafa hugsað til þess að gerast
skipaverkfræðingur en örlögin höguðu málum þó
þannig að veðurfræðin varð ofan á þegar
framhaldsnámið var valið endanlega. Feykir hafði
samband við Magnús og forvitnaðist lítillega um hans
hagi og ekki síst sjómannsáhugann þar sem
sjómannadagurinn er á næsta leiti.
Magnús Jónsson, veðurfræðingur, gerir út frá Sauðárkróki
Ætlaði í skipaverkfræði
en endaði á Veðurstofunni
Magnús Jónsson á góðum degi á sjónum. Mynd úr einkasafni.
6 22/2020