Feykir


Feykir - 03.06.2020, Blaðsíða 8

Feykir - 03.06.2020, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Tómas Reykjarvíkurskáld sem á fyrstu vísu þessa þáttar. Um auðæfi mig er að dreyma árangur það lítinn ber, en aldrei vildi ég gimstein geyma í götunum á sjálfum mér. Hef verið að reyna að rifja upp og fá upplýsingar um höfund næstu vísu en ekki fengið neitt enn á hreint með það. Ill er hlutdeild örlaganna um atómskálda rímlaust fjas, að höfuðsmiður hortittanna heita skuli Matthías. Eitthvað mun hafa verið deilt um laun til skálda þegar Kristján Ólason orti svo: Þeir sem hafa aldrei átt andríkinu að fagna, verða þá að hafa hátt helst að bölva og ragna. Held að það hafi verið Guðmundur Arnfinnsson sem orti svo um raunir kunningja. Hann Simbi ók sinni Möstu sérdeilis ljótu og höstu, á lausu hann var og Lindu bauð far en Linda kvaðst vera á föstu. Oft hefur verið hér áður fyrr birst á prenti vísur eftir hinn magnaða hagyrðing Einar Andrésson, sem kenndur var við Bólu. Minnir að þessi magnaða andagift sé eftir hann. Æsku brjálast fegurð fer fjörs er stálið sprungið, hýðið sálar hrörnað er heims af nálum stungið. Þá er til þess að taka að í þætti númer 758 birti ég eftirfarandi vísu sem í dóti mínu var sögð eftir Káinn og sögð gerð um samferðamann hans: Ég sem bölva æði oft og yfir mörgu kvarta, fyrir að vera laus við Loft lofa ég guð af hjarta. Hef nú fengið þær upplýsingar að þar mun farið ógætilega með sannleikann. Vísan mun eftir Höskuld Einarsson, áður bónda á Vatnshorni í Skorradal, og ort um hest sem hann hafði þá verið með í tamningu um nokkurn tíma án þess að vera sáttur við árangurinn. Síðan skeður það að hópur ferðamanna kemur að Vatnshorni, en þar var þá, eins og kannski einhverjir sem eldri vita, vel tekið á móti öllum gestum og margir þáðu þar góðar veitingar. Voru þeir með haltan hest sem hafði slasast í girðingu og vildu endilega fá að skilja hann eftir og fá annan í staðinn hjá bónda. Voru kaupin gerð og mun þá umrædd vísa hafa orðið til. Síðar, þegar Höskuldur fór að hugleiða að kannski væri þessi vísa full gróf varð þessi til, sem sárabót fyrir Loft: Ég hitti að austan hrossakaupaskálk sem hafði af mér fagra beislaglaðinn. Með gaddavíri gamlan rifinn jálk hann greip hjá sér og lét mig hafa í staðinn. Þakka mikið vel fyrir þessar upplýsingar sem ég dreg ekki í efa að muni réttar. Víkjum þá næst að Ingólfi Ómari sem mun hafa ort svo er nálgaðist vorið: Lægir vind og léttir til ljósar myndir skarta. Veitir lyndi vonaryl veðrið yndisbjarta. Önnur vísa í svipuðum dúr kemur hér eftir Ingólf: Björt á tindum blikar sól birtu strindi gefur. Geislasindur grund og hól gullnum myndum vefur. Ein vísa í viðbót eftir Ingólf Ómar og er hún ort í tilefni af sjómannadegi. Ágjöf hræðast ei né grand ægishetjur djarfar. Aflaföngin færa á land fræknir landsins arfar. Það er Ólafur Stefánsson sem yrkir svo skringilega á vordegi: Gott er vorið grösum prýtt í garðinum stend og moka. Hef ég strákum starra snýtt - í uppsveitum er afar hlýtt, út til stranda ekkert nema þoka. Sá leyndardómsfulli og ágæti hagyrðingur Helgi Björnsson, á Snartarstöðum í Lundareykjadal, er eins og allir bændur með óþrjótandi verkefni á dögum vorsins. Afar sjaldan upp ég lít og við fáa tala, ber út moð og moka skít mjólka kýr og smala. Í miklu annríki á sauðburði mun Helgi hafa ort þessa: Tíma hef ég tæpast enn til að sinna konum. Komast aðeins ætla senn út úr fjárhúsonum. Harður tónn er í næstu vísu sem höfundur, Einar H. Guðjónsson, kallar okrarastéttina. Hún vill hlúa að sverum sjóð á silfrið trúa og fela. Þráfalt sjúga þreyttra blóð þjóðarbúi stela. Hef lengi hrifist af fjallavísum Adolfs J. Petersen. Þessi er ein að þeim sem ort er í Eyvindarveri. Þeim varð gæfugatan hál að greiðastaðinn finna. Auðnin geymir einkamál útlaganna sinna. Tel þá heppilegt, lesendur góðir, að leita til Adolfs með lokavísuna. Er þar lagleg hringhenda á ferð sem ort er eftir næturgistingu á fjöllum. Döggin vætir dalarós, dagsins mætir veldi. Rjóð á fætur röðulljós rísa af næturfeldi. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Vísnaþáttur 761 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Kæru brautskráningarnemar frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra Sveitarfélagið Skagafjörður sendir ykkur hamingju- og heillaóskir í tilefni áfangans Við þökkum samfylgdina á liðnum árum og hlökkum til að eiga samleið með ykkur sem flestum í framtíðinni 8 22/2020

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.