Morgunblaðið - 06.08.2021, Síða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. ÁGÚST 2021
Verið velkomin
í sjónmælingu
Hamraborg 10, Kópavogi, sími 554 3200
Opið virka daga 9.30–18
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Ég skrifaði þessar sögur allar upprunalega
fyrir svona tíu árum eða svo. Þær hafa legið í
salti hjá mér þangað til í fyrra þegar ég var að
taka til í tölvunni hjá mér og grisja. Þá fór ég
yfir þær og fór svo að falast eftir útgáfu sem
varð svo raunin,“ segir Sölvi Sveinsson um til-
urð nýs smásagnasafns síns sem ber titilinn
Lög unga fólksins – Átta tilbrigði við stef.
Þetta er fyrsta skáldverk Sölva sem þó hefur
fengist við ýmiss konar skrif, ritað endurminn-
ingabók, ferðaþætti og fróðleikspistla, og er
ekki síst þekkur fyrir verk sín um íslenskt mál.
Smásagnasafnið hefur undirtitilinn Átta til-
brigði við stef og segir Sölvi það vera vegna
þess að sögurnar hverfist um sama þemað.
„Allar sögurnar fjalla með einhverju móti um
roskið fólk, svona á mínum aldri en samt af síð-
ustu kynslóð. Þetta er ekki mín kynslóð sem ég
er að skrifa um heldur sú sem er að kveðja
núna.“ Titilinn Lög unga fólksins kallast
skemmtilega á við þema sagnasafnsins.
Nýr veruleiki, nútímatækni og breytt sam-
félag blasir við þessu fólki á efri árunum og
fjalla ýmsar sögurnar um þau viðbrigði. Í einni
sögunni neitar karlmaður að fara á elliheimili
og vill þaðan af síður losa sig við kindurnar sín-
ar úr bakgarðinum. Í annarri kynnist eldri
kona litlum strák og mynda þau fallegt sam-
band þar sem ungur nemur og gamall temur.
Kennslan er þó ekki síður á hinn veginn, því
yngri kynslóðin hjálpar þeirri eldri að ná tök-
um á tækninni.
Ýmislegt út fortíðinni skýtur upp kollinum í
sögunum og ákveðinn nostalgíublær liggur yfir
þeim. „Langflest gamalt fólk sér æskuna í ein-
hverjum rómantískum hillingum. Þá er hug-
urinn búinn að vinsa úr allt sem er óþægilegt
og sér allt í silfurlitum bjarma,“ segir höfund-
urinn.
Allt í öllu í menningarlífinu í Skagafirði
Sögurnar gerast flestar í einhverjum
ónefndum kaupstað út á landi, ein gerist þó í
Reykjavík og önnur að mestu leyti austur á
Reyðarfirði. Í káputexta bókarinnar nefnir út-
gefandi að sögurnar eigi sér líklega rætur á
uppeldisslóðum Sölva sjálfs, Sauðárkróki.
Sölvi hefur í nógu að snúast þessa dagana því
annað verk eftir hann kemur út á næstu dögum
og þar spilar Sauðárkrókur stórt hlutverk. Það
er ævisaga Eyþórs Stefánssonar tónskálds
(1901-1999) og segir höfundurinn það ekki vera
tilviljun að hún komi út í ár. Eyþór hafi nefni-
lega búið alla ævi á Sauðárkróki og í ár séu ein-
mitt 150 ár liðin síðan byggð hófst þar.
„Það sem er svo merkilegt við hans feril er
það að hann átti enga skólagöngu að baki nema
barna- og unglingaskóla. Svo var hann bara
stuttan tíma hjá Páli Ísólfssyni og Emil Thor-
oddsen síðar og þá var hann orðinn fullorðinn
maður og löngu farinn að semja tónlist.“ Eftir
Eyþór liggja milli fimmtíu og sextíu lög og um
fjörutíu þeirra hafa verið gefin út. Þekktust
þeirra eru líklega Lindin, Bikarinn og Mána-
skin.
Eyþór var að sögn Sölva afar áberandi í
menningarlífinu á Sauðárkróki. „Hann var allt
í öllu í leiklist á Króknum. Alls lék hann 118
hlutverk og leikstýrði 32 sýningum fyrir leik-
félagið og líklega litlu færri fyrir önnur félög í
bænum. Síðan var hann viðloðandi kirkjusöng í
sextíu ár. Hann byrjaði að syngja í kirkjukórn-
um ellefu ára gamall og stýrði honum frá 1929
til 1972. Auk þess var hann kennari og stofnaði
tónlistarskóla. Það er óhætt að segja að hann
hafi verið allt í öllu í menningarlífi Skagfirð-
inga.“
Sjálfur þekkti Sölvi Eyþór vel. „Hann hóf
sinn búskap í foreldrahúsum mínum og það var
samgangur milli heimilanna. Þannig kynntist
ég honum og svo kenndi hann mér náttúrulega
líka.“
Sölvi situr í ritstjórn tímaritsins Skagfirð-
ingabók sem kemur út fyrir norðan nokkurn
veginn árlega og hófst vinnan að ævisögu Ey-
þórs í tengslum við það rit. „Í Skagfirðinga-
bók birtist í hverju hefti ævisaga einhvers
sem hefur sett svip á mannlífið í Skagafirði.
Ég byrjaði að skrifa æviþátt fyrir tímaritið en
sá strax að heimildirnar voru allt of miklar svo
þetta hefði sprengt þann ramma sem settur
er þar,“ segir höfundurinn.
Getur skrifað það sem honum sýnist
„Það var svolítið gaman að fást við þessi
verk hlið við hlið því að í smásögunum þá ræð
ég. Ég skrifa alveg það sem mér sýnist og
laga persónur í huga mínum eins og ég vil
hafa þær. En þegar maður er að skrifa ævi-
sögu annars manns verður maður að hlíta
heimildunum og mynda sér skoðun á mann-
inum út frá þeim og því sem hann sjálfur
gerði. Svo þetta var skemmtilegur tvíleikur ef
svo má segja.“
Hingað til hefur Sölvi einungis gefið út efni
af fræðilegum toga en snýr sér nú í fyrsta sinn
að skáldskap. „Þetta er allt öðru vísi. Þarna
ræð ég öllu en í hinu er það viðfangsefnið og
heimildirnar sem stýra ferðinni. Í skáld-
skapnum get ég skrifað það sem mér sýnist
sem kannski sést á þessum sögum. Þær eru
kannski flestar frekar raunsæislegar og fjalla
með sínum hætti um ákveðna einsemd sem
ellinni fylgir hjá mörgum en ég reyni nú að
hafa einhvern smá húmor í þessu líka.“
Sölvi er ötull bókmenntagagnrýnandi en
segir ekki erfitt að stíga hinum megin borðs
og gefa sjálfur frá sér skáldverk. „Þegar mað-
ur er orðinn roskinn eins og ég þá fylgir því
ákveðið kæruleysi. Maður má ekki taka sjálf-
an sig of hátíðlega og það hef ég heldur ekki
gert sem gagnrýnandi. Ég hef reynt að bera
virðingu fyrir verkum annarra. Þegar maður
fær bók í hendur og hefur ekki mikinn tíma til
að lesa hana, velta henni fyrir sér og skrifa
síðan um hana þá verður maður að bera virð-
ingu fyrir höfundarverkinu. Þetta er verk sem
einhver einstaklingur er kannski búinn að
leggja margra ára vinnu í og maður verður að
skrifa um það af hæfilegri virðingu. Svo getur
maður slett úr klaufunum þegar maður er að
skrifa sjálfur.“
Spurður út í áform um frekari skrif segir
Sölvi: „Ég er alltaf að skrifa eitthvað. Þegar
maður hættir að vinna þá leggst maður ekk-
ert í kör. Maður reynir að hafa eitthvað að
gera. Við erum þrír núna í ritstjórn Skagfirð-
ingabókar og segja má að í hverja bók fari um
það bil eitt ársverk hjá okkur þremur samtals.
Ég sýsla við það. Annars er ég alltaf eitthvað
að grúska og skrifa mér til ánægju og yndis.“
Morgunblaðið/Einar Falur
Frjáls „Í skáldskapnum get ég skrifað það sem mér sýnist, sem kannski sést á þessum sögum,“
segir Sölvi Sveinsson um nýútkomið smásagnasafn sitt, Lög unga fólksins.
Slett úr klaufunum í skáldskap
- Sölvi Sveinsson skrifar um roskið fólk í nýju smásagnasafni, Lög unga fólksins - Sendir einnig frá
sér ævisögu Skagfirðingsins Eyþórs Stefánssonar tónskálds - Gaman að fást við verkin hlið við hlið
Atvinna
Niðurstöður nýrrar rannsóknar
sýna að Neanderdalsmenn voru
mögulega meiri fagurkerar en talið
hefur verið. Sýnt þykir nú fram á
að þeir hafi í raun málað á dropa-
steina og bergmyndanir í spænsk-
um helli fyrir meira en 60 þúsund
árum.
Kenningin um að Neanderdals-
menn hafi borið eða sprautað rauð-
leitu litarefni á berg í Cueva de
Ardales-hellinum hefur verið um-
deild síðan hún var fyrst sett fram
árið 2018. En í skýrslunni nýju, sem
AFP-fréttaveitan segir frá, kemur
fram að talið sé að liturinn hafi ver-
ið borinn á fyrir að minnsta kosti
64.800 árum, þegar nútímamenn
höfðu ekki enn sest að í álfunni.
Vísindamenn voru áður varkárir
gagnvart fundinum á litum á berg-
inu og sögðu að mögulega gætu
litarefnin verið þar af náttúru-
legum orsökum. En nýja rann-
sóknin afskrifar það og er sagt að
líkast sé því sem efninu hafi verið
slett eða blásið á. Þá virðast litar-
efnin ekki koma úr hellinum, áferð-
in á þeim er allt önnur en í útfell-
ingum í hellinum, og er því talið
víst að þau hafi verið flutt á staðinn.
Þá hafa rannsóknirnar sýnt að
litarefnin voru borin á bergið á mis-
munandi tímum á tímabili sem náði
yfir allt að 10 þúsund ár.
„Það styður kenninguna að
Neanderdalsmenn hafi komið
reglulega í hellinn, á nokkurra ár-
þúsunda tímabili, til að setja mark
sitt á hellinn með litum,“ er haft
eftir Francesco d’Errico, einum
höfunda skýrslunnar.
Telja Neanderdalsmenn hafa mál-
að myndir á veggi hellis á Spáni
- Færðu litarefni á bergið fyrir rúmlega 60.000 árum
AFP
Litadýrð Hér má sjá hvernig litarefni hafa verið borin á bergmyndanir í hell-
inum á Spáni. Talið er að elstu „verkin“ séu meira en 60 þúsund ára gömul.