Morgunblaðið - 23.08.2021, Side 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. ÁGÚST 2021
Svipast um í bænum
Á Sauðárkóki fór í hönd óvenju
merkilegt ár, hver viðburðurinn rak
annan bæði í atvinnumálum og
menningarlífi bæjarins sem átti 100
ára byggðarafmæli og kaupstað-
urinn í örum vexti. Í desember-
byrjun voru Sauðkrækingar 1.600
talsins og alls bjuggu í Skagafirði
4.067 manns. Króksurum hafði
fjölgað um 6% á milli ára. Fyrsti
skuttogari Skagfirðinga kom til
Sauðárkróks í janúar og hafði strax
veruleg áhrif til frambúðar á at-
vinnulíf og afkomu bæjarbúa.
Landsins
forni fjandi
lét sig ekki
vanta og 15.
febrúar rak
töluverðan
hafís inn
Fjörðinn og
fimm dögum
síðar var ís-
inn kominn að
höfninni. 30 hús voru í byggingu í
nýja hverfinu sunnan Sauðár eða á
Gólanhæðum eins og gárungar köll-
uðu Hlíðarhverfið. Húsin við Birki-
hlíð risu eitt af öðru. Einnig voru
umtalsverðar byggingafram-
kvæmdir í bænum m.a. við byggingu
nyrsta fjölbýlishússins við Víði-
grund.
Ný fyrirtæki voru stofnuð 1970
sem sköpuðu 60 störf, bærinn var í
örum uppgangi með tilheyrandi
vaxtaverkjum. Undanfarin ár hafði
atvinna verið stopul yfir vetrarmán-
uðina, en nú virtist ætla að verða
breyting til batnaðar. En bæjarlífið
var í föstum skorðum og í skjóli við
kjörbúð Kaupfélagsins við Skagfirð-
ingabraut sátu gjarnan á bekknum
Siggi Stef og Mundi Gulla og ræddu
málin. Þeir hétu fullu nafni Sigurður
Stefánsson og Guðmundur Sigurðs-
son. Mundi Gulla var smiður og
frægur fyrir dugnað sinn og hörku.
Hann reisti einn fánastengurnar
sem lengi voru á Nöfunum. Hann
hætti að vinna 78 ára. Mundi og
Hermundur sonur hans áttu hest-
hús á sjávarbakkanum og eftir því
var tekið hvað þeir voru ávallt vel
ríðandi. Stundum settist Sveinn
Guðmundsson kjörbúðarstjóri og
hrossabóndi hjá Sigga og Munda á
bekkinn og þá var glatt á hjalla.
Þessir höfðingjar settu svip sinn á
bæjarlífið. Og ef menn gengu niður
Skólastíginn og Knarrarstíginn og
fjöruleiðina bak við Áka, birtist af-
girt undraveröld. Þetta sumar
dvaldi á Króknum Ljón norðursins
eða Leó Árnason frá Víkum á
Skaga, byggingameistari, skáld og
listamaður. Hann ferðaðist gjarnan
um bæinn uppáklæddur í hesta-
kerru og puntaði heldur betur upp á
bæjarlífið á afmælisárinu. Ljónið
sagði að skáldskapurinn væri sann-
ur en svonefndur sannleikur væri
aftur á móti helber uppspuni. Á af-
mælisárinu var Hákon Torfason
bæjarstjóri. Sjálfstæðis- og fram-
sóknarmenn mynduðu meirihluta.
Bæjarstjórn Sauðárkróks skipuðu:
Halldór Þ. Jónsson héraðsdóms-
lögmaður og fulltrúi sýslumanns var
forseti bæjarstjórnar (S), Björn
Daníelsson skólastjóri (S), Erlendur
Hansen rafvirkjameistari (A), Guð-
jón Ingimundarson íþróttakennari
(F), Guðjón Sigurðsson bakari (S),
Marteinn Friðriksson fram-
kvæmdastjóri Fiskiðjunnar (F) og
Stefán Guðmundsson bygginga-
meistari (F). Erlendur Hansen
fulltrúi Alþýðuflokks sat einn í
minnihluta. Rögnvaldur Gíslason
ritaði fundargerðir bæjarstjórnar-
innar, en síðar á árinu tók við Björn
Björnsson sem seinna meir varð
skólastjóri Barnaskólans.
Halldór forseti bæjarstjórnar
sagði í viðtali við Morgunblaðið 9.
júní að ætlunin væri að stofna í
bænum Iðnskóla fyrir Norðurland
vestra og áhugi væri á að koma upp
heimavist við Iðnskólann og Gagn-
fræðaskólann. Hitaveitan var orðin
rúmlega 20 ára og stefnt á end-
urnýjun lagna. Halldór sagði að
sjúkrahúsið væri gott, væri bara
orðið of lítið og þörf á þriðja lækn-
inum. „Fólk þarf að geta búið við
sama öryggi á þessu sviði sem í
höfuðstaðnum“ mælti forseti bæjar-
stjórnar. Nýlega var gert sam-
komulag milli sjö hreppa og Sauð-
árkróks um læknamiðstöð í bænum
í samræmi við samþykkt bæjar-
stjórnarinnar frá 2. apríl um að
vinna að stofnun slíkrar miðstöðvar
í samvinnu við önnur sveitarfélög
innan Sauðárkróks læknishéraðs.
Á þessum tíma héldu fjölmargir
Króksarar kindur í nágrenni bæjar-
ins og gera enn. Blómleg hesthúsa-
og fjárhúsabyggð var austan við
Knarrarstíginn að sjávarbakkanum.
Einnig var mikið líf uppi á Móum.
Þá voru í hlutastarfi hjá kaup-
staðnum svokallaðir bæjarsmalar
sem þurftu að vera vel ríðandi og
kunnugir sálarlífi íslensku sauðkind-
arinnar. Þeirra starf var að bægja
frá sauðkindum og hrossum sem
leituðu í bæjarlandið. Á afmælis-
árinu gegndu þessu virðulega starfi
þau Ármann Kristjánsson og Ester
Guðmundsdóttir. Þau bjuggu í
Rússlandi við Kirkjutorg, en byggðu
sér síðar hús við Sæmundargötu.
Jónas Hróbjartsson frá Hróars-
dal var verkstjóri hjá bænum. Einn-
ig var Ólafur Þorsteinsson frá Vatni
verkstjóri að því best er vitað. Hann
vann áður í rörasteypu bæjarins, en
varð verkstjóri eftir það. Unglinga-
vinna var í boði hjá bænum um sum-
artímann í umsjón verkstjóra bæj-
arins. Elías B. Halldórsson listmál-
ari stjórnaði byggingu íþróttavall-
arins og hannaði áhorfendastúkuna
við völlinn. Hjá Elíasi unnu m.a.
Garðar Guðjónsson á jarðýtu og
sléttaði völlinn, Sölvi Sveinsson,
Reynir Kárason, Hannes Friðriks-
son o.fl. Um sorphreinsun a.m.k. í
neðri bænum sá Málfreð Friðriks-
son með dyggum aðstoðarmönnum
sínum, m.a. Sölva Sveinssyni og
Magnúsi Sverrissyni. Það hét þá að
vera í öskunni. Voru Sölvi og Magn-
ús lánaðir úr bæjarvinnunni einn til
tvo daga í viku til að aðstoða Malla
skó. Hvolfdu aðstoðarmennirnir úr
sorptunnum í bala sem lyft var upp
á pallinn. Líklegt er að á afmælis-
árinu hafi einnig þeir Bergur Guð-
mundsson frá Nautabúi í Hjaltadal
og Arnbjörn Jóhannsson frá Krossi
aðstoðað Málfreð í öskunni.
Guðmundur Þórðarson var þá með
kontór í plastverksmiðjunni Dúða
við Fornós þar sem slökkvistöðin er
nú til húsa. Málfreð heimsótti gjarn-
an Guðmund og var lítt ökufær á
eftir, enda báðir ölkærir menn.
Sorpið var urðað neðan við Skarð
í samnefndu gili sunnan vegar.
Svæðið var girt af en ruslið átti til
að fjúka. Algengt var að veiðibjöll-
urnar yrðu svo saddar á haugunum
að þær urðu auðveld bráð. Eitt sinn
eftir losun brunaði Malli skó á fullri
ferð niður brekkuna að Göngu-
skarðsárbrúnni, en svo óheppilega
vildi til að afturendi Chevrolet vöru-
bílsins K-29 rakst í annan brúar-
stöpulinn svo allt lék reiðiskjálfi og
mátti þá engu muna að drengirnir
héldust á pallinum. Er yfir var kom-
ið kom skóarinn í bílstjóragluggann
og sagði við þá Sölva og Magnús
sem voru rétt að byrja að jafna sig:
Það er ekki skóarinn sem er vitlaus.
Það er bíllinn sem er skakkur! Mál-
freð var annálaður hagleiksmaður.
Einhver óánægja hefur verið með
sorphreinsun því í júlí skrifuðu 300
bæjarbúar bæjarstjórninni og ósk-
uðu eftir því að sorphreinsun yrði
framkvæmd a.m.k vikulega. Í fram-
haldi velti bæjarstjórinn því fyrir
sér hvort heppilegra væri að nota
sorptunnur eða sorppoka.
Í bænum var sannarlega mikið
um að vera. Unnið var ötullega að
undirbúningi 14. landsmóts UMFÍ
og hátíðahalda í tilefni 100 ára
byggðarafmælis bæjarins. Það var
því í mörgu að snúast í sumarbyrjun
á Króknum á þessu skemmtilega
ári. Unnið var að byggingu nýs
íþróttavallar, endurbótum á sund-
lauginni fyrir landsmótið og ásamt
mörgum öðrum framkvæmdum.
Ívar Antonsson bar út póst til
bæjarbúa og var stundum kallaður
hinn beinlausi. Björn Daníelsson var
skólastjóri barnaskólans við Freyju-
götu 49. Björn var fyrirmannlegur
og naut virðingar nemenda. Kenn-
arar voru m.a Marteinn Steinsson,
Gísli Felixson, Lissý Jónsdóttir og
Þórir Stephenssen sóknarprestur.
Edda Baldursdóttir og Guðjón Ingi-
mundarson voru íþróttakennarar og
var sá síðarnefndi einnig handa-
vinnukennari. Ásgrímur skraddari
Sveinsson var húsvörður. Hann not-
aði gjarnan prik til að ýta nemend-
um undir steypibaðið eftir æfingar
við litla hrifningu nemenda.
Friðrik Margeirsson var skóla-
stjóri Gagnfræðaskóla Sauðárkróks.
Kennarar voru Björn Björnsson
stærðfræðikennari, Árni Þorbjörns-
son kenndi dönsku o. fl., Jón
Georgsson sem kenndi ensku með
ósviknum Oxford framburði, Tómas
Sveinsson, Frank Herlufsen, Hall-
dóra Hallgrímsdóttir kenndi m.a.
teikningu, Helgi Baldursson, Fið-
björg Vilhjálmsdóttir kenndi mat-
reiðslu, Guðjón Ingimundarson,
Edda Baldursdóttir, Ingólfur
Steinsson, Erla Jóhannsdóttir, Ingi-
mundur Ingimundarson og Haukur
Stefánsson er kenndi m.a. teikn-
ingu. Nýlega hafði fyrsti áfangi nýs
Gagnfræðaskóla verið tekinn í notk-
un við Skagfirðingabrautina og
áfram var haldið við byggingu skól-
ans sem jafnframt hýsti Iðnskólann.
Á afmælisárinu gátu nemendur tek-
ið landspróf í Gagnfræðaskóla Sauð-
árkróks sem þótti merkilegt. Kári
Þorsteinsson trésmiður var hús-
vörður í Gagnfræða0skólanum á af-
mælisárinu. Á Króknum hafa alltaf
búið hagyrðingar með húmorinn í
lagi. Einn góður í bænum orti um
kennarana í gagganum með kunna
vísu Bólu-Hjálmars að leiðarljósi.
Aumt er að sjá í einni lest
Inga Helga með fýlupest.
Frigga Mör með feitan hest
fullan Árna og Tóta prest.
Bær í örum uppgangi
Bókarkafli | Árið 1971 var venju fremur viðburðaríkt á Sauðárkróki, því þá fögnuðu Sauðkrækingar 100 ára byggðarafmæli, haldið var í
bænum Landsmót UMFÍ og fyrsti skuttogarinn kom til bæjarins, svo dæmi séu tekin. Í bókinni Á Króknum 1971 rekur Ágúst Guðmunds-
son þessa sögu og dregur upp mynd af bæjarlífinu með ótal sögum og myndum af þeim sem bjuggu í bænum afmælisárið.
Ljósmynd/Svanur Jóhannsson
Símaflokkur Vaskur símaflokkur Þórðar Sighvatz að störfum, f.v. Svanur Jóhannsson, Þorsteinn Andrésson, Anton Ingimarsson og Stefán Ólafsson.
Ljósmynd/Gunnar Helgason
Ljón norðursins Leó Árnason, kallaður Ljón norðursins, sést hér á spjalli
við Sigurð Magnússon, Sigga Skorr, á Landsmóti UMFÍ árið 1971.