Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.08.2021, Side 10
ÓLYMPÍULEIKARNIR
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.8. 2021
meiðsli á leikunum en of snemmt að segja til
um hvort það sé af völdum brautarinnar.
Hátt hitastig og mikill raki hefur gert hlaup-
urum í þolgreinum á við 5.000 og 10.000 metra
hlaup erfitt fyrir á leikunum. Þess vegna verð-
ur maraþon ekki hlaupið í Tókýó heldur í borg-
inni Sapporo, norðarlega í Japan. En aðstæður
eins og í Tókýó geta verið góðar fyrir þá sem
keppa í greinum þar sem náð er hámarksákefð
í stuttan tíma.
Hitinn gerir íþróttamönnunum kleift að
vera bæði mjúkir og heitir þegar greinin hefst.
Talsvert auðveldara er fyrir vöðvþræðina að
dragast hratt saman þegar þeir eru heitir en
kaldir og lofthitinn hjálpar til á því sviði. Það
er líklega engin tilviljun að í hlaupum frá 100
metrum upp í 1.500 metra hafa flest met verið
sett í júlí og ágúst, þegar hitinn er sem hæstur
á norðurhveli jarðar. Það sama hefur verið upp
á teningnum í hoppunum og til marks um það
má nefna að Mike Powell setti núgildandi
heimsmet í langstökki á heimsmeistaramótinu
í Tókýó árið 1991 og í sömu keppni, sem fór
fram í ágúst, stökk Carl Lewis þriðja besta
stökk sögunnar.
Saga lyfjamisnotkunar
Auðvitað mun lyfjamisnotkun ávallt bera á
góma þegar um ræðir stórbætingu á heims-
metum eða persónulegum metum. Ítalinn
Marcell Jacobs setti Evrópumet þegar hann
hljóp á 9,80 sekúndum í úrslitum 100 metra
hlaups karla á leikunum á sunnudag. Hann
hljóp í fyrsta sinn 100 metrana á undir 10 sek-
úndum í maí á þessu ári en hann einbeitti sér
að langstökki þar til árið 2018. Nokkrir keppi-
nauta hans í 100 metra hlaupinu viðurkenndu
eftir hlaupið að þeir vissu ekki hver hann væri.
Það væri galið að saka Jacobs um svindl ein-
ungis vegna þess að hann hefur tekið miklum
framförum síðasta árið en efasemdaraddir
munu alltaf vera uppi þegar um bætingar eins
og hans er að ræða. Þótt tækninni við lyfja-
prófanir fleygi fram gerir hún það einnig við
lyfjamisferli og sagan er því miður ekki með
frjálsíþróttafólki í liði.
Florence Griffith Joyner tók skyndilegum
framförum árið 1988. Fyrir það ár átti hún
best 10,96 í 100 metra hlaupi og 21,96 í 200
metra hlaupi. 1988 setti hún heimsmet í 100
metra hlaupi, 10,49 sekúndur, og 200 metra
hlaupi, 21,34 sekúndur. Enginn hefur komist
nálægt þessum metum fyrr en á leikunum nú
þegar Elaine Thompson-Herah hljóp á 10,61
sekúndu og setti ólympíumet í 100 metra
hlaupi og hljóp 200 metrana á 21,53 sekúndum,
næstbesta tíma sögunnar.
Eru flestir sammála um að Joyner hafi verið
með óhreint mjöl í pokahorninu og margir sem
segja met hennar ekki gilda því næsta víst sé að
hún tók frammistöðubætandi lyf þótt það hafi
ekki verið sannað. Þá ákvað hún skyndilega að
hætta í febrúar 1989, aðeins 29 ára gömul, sem
er vatn á myllu efasemdaraddanna.
Líklega ekki hreint
En efasemdir um heiðarleika íþróttamanna
eru ekki einskorðaðar við hlaupabrautina.
Sundmaðurinn Ryan Murphy fékk þrjú gull á
leikunum í Ríó fyrir fimm árum, þar á meðal í
200 metra baksundi. Á leikunum í Tókýó þurfti
hann að láta sér silfur lynda í greininni á með-
an hinn rússneski Evgeny Rylov vann gullið.
„Ég veit ekki hvort það var 100 prósent
hreint,“ sagði hann um sundið, „og það er
vegna atvika sem hafa átt sér stað í fortíðinni.“
Átti Murphy þá við þá einkennilegu stað-
reynd að Rússland var sett í bann frá alþjóð-
legum íþróttaviðburðum í fjögur ár árið 2019.
Bannið fengu Rússar fyrir að hafa stundað það
ítrekað í mörg ár að skipta út sýnum fyrir önnur
til að hjálpa íþróttamönnum að svindla. Var
lyfjamisferlið, sem snerti meira en 1.000 íþrótta-
menn, sérstaklega víðtækt á vetrarólympíuleik-
unum sem haldnir voru í Sochi í Rússlandi 2014.
Síðan bannið var sett hafa Rússar barist fyr-
ir því að fá því létt. Var bannið, sem alþjóða-
lyfjaeftirlitið (WADA) setti landið í, stytt um
helming í desember og síðar var slakað á kröf-
um á rússneska íþróttamenn sem hyggjast
taka þátt í Ólympíuleikunum. Er niðurstaðan
sú að Rússar eru fleiri á leikunum nú en í Ríó
þótt þeir keppi undir merkjum rússnesku ól-
ympíunefndarinnar en ekki Rússlands.
Samkvæmt núverandi mynd bannsins mega
rússneskir keppendur sem ekki hafa gerst sek-
ir um lyfjamisferli keppa á leikunum en rúss-
neski fáninn og þjóðsöngurinn eru bannaðir. Þá
má aðeins birta skammstöfun nefndarinnar,
ROC, við nöfn keppenda þótt leyfilegt virðist að
segja fullt nafn hennar í töluðu máli í kynn-
ingum á leikunum. Lið geta meira að segja
keppt undir nafni ROC á leikunum. Sem dæmi
vann lið nefndarinnar til gullverðlauna í liða-
keppni kvenna og karla í fimleikum.
Forstjóri lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, Trav-
is Tygart, hefur kallað bannið farsa enda hafi
það í raun engar afleiðingar fyrir Rússa í för
með sér. Bann sem hefur lítið sem ekkert að
segja er svo auðvitað ólíklegt til að fæla Rússa
eða aðrar þjóðir frá því að stunda skipulagt
lyfjamisferli í framtíðinni.
Spurningar um sanngirni hafa því vaknað og
margir íþróttamenn, líkt og Murphy, hafa
sagst óvissir um hvort þeir sem þeir keppa á
móti séu með forskot á þá vegna ólöglegrar
lyfjanotkunar. „Það dregur úr manni andlegan
styrk að æfa allt árið vitandi það að maður
muni synda í sundi sem líklega er ekki hreint,
þannig er það nú bara,“ sagði Murphy.
Illa farið með Semanya
Þessi tvö mál sem fjallað hefur verið um hér
að ofan og snerta sanngirni í íþróttum eru þó
fjarri því eins viðkvæm og flókin og þetta
hér. Hin átján ára Christine Mboma frá
Namibíu nældi sér í silfurverðlaun í 200
metra hlaupi á leikunum í Tókýó vikunni.
Jafnaldra hennar og landa, Beatrice Masil-
ingi, lenti í sjötta sæti í sömu grein. Frábær
árangur en er hvað mest áberandi fyrir þær
sakir að Mboma og Masilingi var meinuð
þátttaka í sinni bestu grein, 400 metra
hlaupi.
Ástæðan er sú að í ljós kom í júlí að þær
stöllur mældust með of hátt gildi náttúrulegs
testósteróns í blóði sínu. Því mega þær ekki
keppa í 400, 800 eða 1.500 metra hlaupi nema
þær taki lyf til að minnka testósterónmagn í
líkamanum.
Bannið á sér upphaf í máli Caster Semenya
sem Alþjóðafrjálsíþróttasambandið fór illa
með árið 2009 þegar hún varð heimsmeistari í
800 metra hlaupi. Var hún sett í kynpróf án
þess að hafa hugmynd um hvað væri verið að
prófa og síðar lak sambandið niðurstöðum
prófanna. Kallaði Semenya atvikið „mest nið-
urlægjandi upplifun í lífi mínu“.
Í ljós kom að Semenya er intersex, þ.e.
hvorki með leg né eggjastokka og innvortis
eistu. Vegna þessa er hún með meira
testósterónmagn en aðrar konur og hefur því
forskot á þær að sögn sambandsins. Hún hefur
því um tvennt að velja; minnka testósterón-
magn í líkama sínum eða reyna fyrir sér í öðr-
um hlaupum.
Um tíma tók Semenya lyf til að minnka
magn hormónsins en gekk ekki sem skyldi í
hlaupunum. Seinna ákvað hún að áfrýja
ákvörðun Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins til
Alþjóðaíþróttadómstólsins (CAS) en hafði ekki
erindi sem erfiði. Hún hefur frá því henni var
meinuð þátttaka í 800 metra hlaupi án lyfja
reynt fyrir sér í bæði 200 og 5.000 metra hlaupi
en ekki komist á stórmót.
Íþróttahreyfing í bobba
Ástæða þess að sett er bann við keppendum
með of hátt testósterónmagn í kvennaflokki
áðurnefndra hlaupagreina er að sögn Alþjóða-
frjálsíþróttasambandsins sú að í þeim greinum
séu niðurstöður hvað skýrastar. Fylgni sé milli
testósterónmagns og frammistöðu í þessum
greinum auk þess sem intersex konur hafi ver-
ið fleiri meðal þeirra bestu en eðlilegt gæti tal-
ist í gegnum tíðina. Hefur þó verið sett spurn-
ingarmerki við af hverju konum með mikið
testósterónmagn hafi þá ekki einnig verið
meinuð þátttaka í greinum eins og sleggju-
kasti og stangarstökki þar sem rannsóknir
sýna að meira magn hormónsins gefi forskot.
Þetta bann við of miklu testósterónmagni er
tilraun sambandsins til að gefa konum með
dæmigert magn testósteróns færi á að keppa á
jafnréttisgrundvelli. Eiga þær þar með ekki að
lenda í að eiga ekki möguleika gegn annarri
konu því hún er með mun hærra magn horm-
ónsins í líkama sínum. En um leið er þá verið
að refsa konum eins og Mboma og Masilingi
fyrir hvernig þær eru af náttúrunnar hendi.
Enginn kallaði eftir því að sundkappanum
Michael Phelps yrði bannað að keppa á Ól-
ympíuleikunum því hann væri með svo langar
hendur nú eða hlaupurum frá Kenýu því þeir
búa í meiri hæð yfir sjávarmáli en aðrir.
En við skiptum ekki keppni upp eftir handa-
lengd í sundi eða hæð yfir sjávarmáli í hlaup-
um líkt og við gerum með kyn. Svo virðist sem
testósterónmagn sé það besta sem við höfum
til að greina þar á milli (þótt ófullkomið sé) og
reynt er að draga einhvers konar línu á milli
kvenna og karla.
Konur eins og Caster Semenya falla, með
tilliti til testósterónmagns, á milli kvenna- og
karlaflokks og hefur það gert íþróttahreyfing-
unni erfitt fyrir. Svo virðist sem sama hvaða
ákvörðun sé tekin þá fari einhver illa út úr því.
Ef Semanya er leyft að keppa í 800 metra
hlaupi missir líklega einhver kona af verðlaun-
um því hún hefur ekki jafnhátt testósterón-
magn. En eins og staðan er í dag missir Sem-
anya (og aðdáendur hennar) af því að láta ljós
sitt skína á hlaupabrautinni þrátt fyrir að hafa
ekkert rangt gert.
Þetta er því miður afleiðing þess að skipta
keppni upp í tvö kyn og ætla að draga skýra línu
þar á milli. Sumir falla ekki inni í dæmigert mót
karls eða konu og íþróttir hafa ekki verið skipu-
lagðar með þetta fólk í huga. Málið mun líklega
verða enn meira áberandi á næstu árum enda
mikil umræða um réttindi transfólks, þá sér-
staklega transkvenna, til þess að taka þátt í
íþróttum. Á að leyfa transkonum sem hafa
gengið í gegnum kynþroskaskeið líkt og karl-
menn að keppa meðal kvenna þrátt fyrir að búa
yfir meiri styrk en aðrar konur eða á að meina
þeim þátttöku vegna kynvitundar þeirra? Eða
verður einhver allt önnur lausn fundin?
Hin átján ára gamla Christine Mboma
fagnar silfurverðlaunum sínum í 200
metra hlaupi. Henni var meinuð þátt-
taka í 400 metra hlaupi vegna of mik-
ils testósterónmagns í líkama sínum.
AFP
’
Konur eins og Caster Seme-
nya falla, með tilliti til
testósterónmagns, á milli
kvenna- og karlaflokks og hefur
það gert íþróttahreyfingunni
erfitt fyrir. Svo virðist sem
sama hvaða ákvörðun sé tekin
þá fari einhver illa út úr því.
Rússar fagna gulli í liðakeppni karla í fimleikum þrátt fyrir að þjóðin hafi verið í banni frá al-
þjóðlegri íþróttakeppni í fjögur ár árið 2019. Ekki eru allir alls kostar sáttir við málið.
AFP