Morgunblaðið - 01.10.2021, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. OKTÓBER 2021
Bærinn Verið að átta sig á því hvað snýr hvernig við Hafnartorg, enda nýju húsin býsna áþekk.
Eggert
Kosningaúrslitin liggja fyrir
og staðfesta öruggan stuðning
við áframhaldandi stjórnarsam-
starf flokkanna þriggja: Sjálf-
stæðisflokks, Framsóknar og
Vinstri grænna. Mikinn þátt í
þessari niðurstöðu á ótvírætt
farsæl forysta Katrínar Jak-
obsdóttur sem forsætisráðherra.
Breytingar á fylgi flokka voru á
heildina litið minni en prósentu-
tölur einar bera vott um. Góð
útkoma Framsóknarflokksins og
Flokks fólksins var eftirleikur
af hruni Miðflokksins, sem nú er nánast úr
sögunni. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum
styrk með um fjórðung atkvæða og keppi-
nauturinn Viðreisn bætti litlu við sig. Veru-
legt tap Vinstri grænna um þrjú þingsæti
frá kosningunum 2017 er minna en sýnist,
þar eð 2 þingmenn gengu til fylgis við
stjórnarandstöðuflokka og framboð Sósíal-
istaflokksins nú beindist ekki síst gegn VG.
Útkoma Samfylkingar í stjórnarandstöðu
með aðeins 9,9% fylgi sýnir lánleysi stefnu
flokksins með aðild að Evrópusambandinu
sem helsta baráttumál.
Endurnýjað stjórnarsamstarf
Eðlilegt er að stjórnarflokkarnir beri sig
nú saman um niðurstöðu kosninganna,
reynsluna af sögulegu fjögurra ára samstarfi
og ekki síst um framtíðarhorfur, þar sem
stórar áskoranir bíða, hér eins og á heims-
vísu. Covid-faraldurinn setti mark sitt á
seinnihluta síðasta kjörtímabils og er engan
veginn úr sögunni, þótt hér hafi fengist góð
viðspyrna. Loftslagsbreytingar af manna-
völdum eru nú stærsta áskorunin og þar bíð-
ur Íslands og alls alþjóðasamfélagsins ör-
lagaglíma af áður óþekktri vídd.
Málefnasamningur flokkanna frá liðnu kjör-
tímabili kallar á uppfærslu og endurmat
miðað við breyttar aðstæður og
þar er af mörgu að taka, bæði
inn á við og í alþjóðasamstarfi.
Einhver breyting á skiptingu
verkefna innan stjórnarráðsins
verður eflaust rædd. Ísland
hefur verið aðili að samn-
ingnum um EES síðan 1994 og
honum hefur fylgt innleiðsla
löggjafar frá Brussel á fjöl-
mörgum sviðum, oft án viðhlít-
andi greiningar af hálfu Alþing-
is miðað við íslenskar aðstæður.
Ör nýliðun kjörinna fulltrúa um
langt skeið á þátt í andvara- og
þekkingarleysi af hálfu þing-
heims á ýmsum lagaákvæðum sem tekin eru
upp í íslenska löggjöf í nafni EES. Tekið
skal undir sterk aðvörunarorð Arnars Þórs
Jónssonar varaþingmanns Sjálfstæðisflokks-
ins þetta varðandi, sbr. grein hans hér í
Mbl. 28. sept. sl. Á sama hátt ætti að vera
sjálfgefið að endurnýjuð ríkisstjórn dragi hið
fyrsta formlega til baka löngu úrelta umsókn
Íslands um aðild að Evrópusambandinu.
Loftslagsmálin og þörf
fjölþættra aðgerða
Lög um loftslagsmál voru sett af Alþingi
árið 2012 (nr. 70/2012) og á grundvelli þeirra
var árið 2019 bætt við ákvæðum um lofts-
lagsráð sem veita skal stjórnvöldum aðhald
og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og
markmið Íslands í loftslagsmálum. Formað-
ur ráðsins er Halldór Þorgeirsson og vara-
formaður Brynhildur Davíðsdóttir prófessor,
skipuð af umhverfisráðherra, en aðrir
fulltrúar samkvæmt tilnefningum ýmissa að-
ila til fjögurra ára í senn. Halldór hafði áður
um langt árabil unnið á þessu sviði, m.a. sem
yfirmaður stefnumörkunar hjá Loftslags-
samningi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann
frá 2015 hélt utan um samþykktir varðandi
Parísarsamninginn. Það var þannig mikill
fengur að fá hann til forystu í ráðinu á þessu
fyrsta skeiði þess. Ráðið setti í fyrra fram
aðgerðaáætlun í 48 liðum og skilaði nú ári
síðar fyrstu stöðuskýrslu og er vinna að
meira en helmingi aðgerða sögð vera komin
á framkvæmdastig. Með þessu ætti að vera
lagður góður grunnur til aðgerða, en fram-
haldið er margslungið og mest komið undir
stefnu stjórnvalda og þátttöku af hálfu fjöl-
margra hagsmunaaðila og almennings. – Ár-
legur alþjóðafundur aðildarríkja Loftslags-
samnings Sameinuðu þjóðanna – COP-26 – í
Glasgow eftir fáeinar vikur verður afar af-
drifaríkur og þar þarf ríkisstjórn Íslands að
geta kynnt skynsöm og metnaðarfull áform
af sinni hálfu
Gróðurríki Íslands –
vistvæn uppgræðsla
Í áætlunum um aðgerðir af Íslands hálfu
til bindingar gróðurhúsalofts eru endurheimt
votlendis og aukin „skógrækt“ fyrirferð-
armiklar. Hið fyrrnefnda felur í sér átak til
að fylla í framræsluskurði frá liðinni tíð, að-
gerð sem naut mikils opinbers stuðnings á
liðinni öld. Undir merkjum skógræktar er
nú fetuð svipuð slóð, að verulegu leyti með
gróðursetningu innfluttra tegunda og án
heildstæðs mats á afleiðingum þeirrar
stefnu. – Síðastliðinn þriðjudag, 28. sept-
ember, birtist hér í Morgunblaðinu grein
eftir tvo landsþekkta fyrrum starfsmenn
Landgræðslu ríkisins undir fyrirsögninni
„Er ekki löngu tímabært að stöðva gróð-
ursetningu stafafuru hér á landi?“ Þeir
benda réttilega á að stafafura, sitkagreni og
fleiri innfluttar trjátegundir séu „farnar að
sá sér af miklu afli út frá skógarreitum“ og
séu augljóslega ágengar samkvæmt al-
þjóðlegri skilgreiningu. Þetta er sannarlega
þarfleg viðvörun, sem margir hafa áður
komið á framfæri og ætti í raun að gilda
sem forsenda fyrir innflutningi tegunda í ís-
lenskt gróðurríki, trjátegundir sem og aðrar.
Landgræðslan stóð lengi fyrir dreifingu
alaskalúpínu hérlendis sem hefur reynst
vera afar ágeng planta sem þegar hefur
breytt svipmóti og lífríki stórra svæða hér-
lendis. Það er góðra gjalda vert að ofan-
greindir fyrrum starfsmenn Landgræðsl-
unnar hafa áttað sig á afleiðingum þess
afdrifaríka handahófs. Nú verða stjórnvöld,
umhverfisráðuneyti með stuðningi Loftslags-
ráðs, Náttúrufræðistofnunar og Land-
græðslu að stöðva það handahófsflan sem
Skógræktin sem ríkisstofnun hefur of lengi
staðið fyrir, oft þvert á alþjóðlegar viðmið-
anir og reynslu.
Unga fólkið, menntun og menning
Sú hraðfara þróun mannlífs og umhverfis
sem við nú erum vitni að snertir vissulega
öll aldursstig en varðar mestu fyrir unga og
óborna. Það er fólkið sem á eftir að takast á
við afleiðingar loftslagsbreytinga og á mest
undir því komið að framsýni ráði för. Staða
og þróun skólakerfisins skiptir ótvírætt
meira máli nú en áður og því þarf að leggja
við það aukna rækt. Það sama á við um ræt-
ur okkar í íslenskri menningu og fjöl-
þjóðlega sýn til samskipta og þróunar. Ég
tel þörf á að endurmeta stöðu og styrk þess-
ara þátta í stjórnkerfinu, hugsanlega ásamt
með endurskipan núverandi ráðuneytis
menntamála. Af nógu er þannig að taka fyrir
flokka og þá liðsmenn sem kjósendur hafa
treyst til áframhaldandi forystu og eins hina
sem veita þurfa lýðræðislegt aðhald.
Eftir Hjörleif Guttormsson »Eðlilegt er að stjórnarflokk-
arnir beri sig nú saman um
niðurstöðu kosninganna,
reynsluna af sögulegu fjögurra
ára samstarfi og ekki síst um
framtíðarhorfur.
Eftir Hjörleif
Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.
Afdrifaríkt kjörtímabil fram undan
Í 31. grein stjórnarskrár lýð-
veldisins stendur þetta um jöfnuð
milli flokka við úthlutun þingsæta
eftir kosningar:
„Í hverju kjördæmi skulu vera
minnst sex kjördæmissæti sem út-
hluta skal á grundvelli kosninga-
úrslita í kjördæminu. Fjöldi þing-
sæta í hverju kjördæmi skal að
öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr.
þó 5. mgr.
Öðrum þingsætum en kjör-
dæmissætum skal ráðstafa í kjör-
dæmi og úthluta þeim til jöfnunar
milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök
fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við
heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök
koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta
sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gild-
um atkvæðum á landinu öllu.“
Sjálfsagt má deila eitthvað um túlkun þessa
stjórnarskrárákvæðis – í anda þeirra Eyjólfs
Bölverkssonar og Þórhalls Ágrímssonar í Njálu.
Mér sýnist þó ljóst, að stjórnarskráin geri ráð
fyrir því að kosningalög tryggi samræmi milli
atkvæðahlutfalls flokka á landsvísu og þing-
mannatölu þeirra. Þetta kemur glögglega fram í
greinargerðum og fylgiskjölum með stjórnar-
skrárfrumvarpi sem samþykkt var 1999.
Þá var ýmsum útfærsluatriðum kosn-
ingakerfisins kippt út úr stjórnarskrá og Alþingi
falið að fjalla um þau í kosningalögum. Með því
yrði einfaldara að kippa augljósum vanköntum í
liðinn – án þess að breyta stjórnarskránni.
Frá 1987 til 2009 var þingmannatala flokka í
samræmi við fylgi þeirra á landinu öllu. Áður
hafði Framsóknarflokkur ávallt grætt á kosn-
ingakerfinu, 1-2 þingsæti frá 1959, miklu meira
áður. Hámarkið var 1931, þegar Framsókn fékk
ríflega þriðjung atkvæða en tæplega 60% þing-
manna.
Í kosningunum 2013 náðist þetta jafnvægi
milli flokka ekki. Framsókn fékk einum þing-
manni of mikið – á kostnað VG. 2016 fékk Sjálf-
stæðisflokkur einum þingmanni of mikið – á
kostnað VG. 2017 fékk Framsókn einum þing-
manni of mikið – á kostnað Samfylkingar. 2021
fékk Framsókn einum þingmanni of mikið – á
kostnað Sjálfstæðisflokks. Ekki hefur tekist að
ná markmiði stjórnarskrárinnar
fernar kosningar í röð.
Sáraeinfalt er að laga þetta með
því að fjölga jöfnunarsætum og
fækka kjördæmissætum í kosn-
ingalögum. Það getur einfaldur
meirihluti alþingismanna gert.
Síðustu átta árin hefur Alþingi
ekki lagfært þennan galla – sem
öllum hefur mátt vera ljós síðan
2013 – og margoft hefur verið bent
á. Með því sýnist mér þingið hafa
gengið gegn skýrum markmiðum
stjórnarskrárinnar og vanrækt þá
skyldu sína að laga kosningalög að breyttum
veruleika.
Stjórnarskráin leyfir misvægi milli kjör-
dæma, allt að 1:2. Á þessari öld hefur þingsæti
tvisvar verið flutt úr Norðvesturkjördæmi í
Suðvesturkjördæmi vegna þess að misvægið
varð meira en reglan leyfir. Enn ein slík færsla
verður gerð fyrir næstu kosningar.
Sumir vilja jafna alveg vægi atkvæða eftir bú-
setu – en ekki hefur verið eining um það. Stjórn-
arskráin leyfir slíka breytingu. Hægt er að jafna
þetta vægi nánast algjörlega með einföldum
meirihluta á Alþingi – með breytingu á kosn-
ingalögum. Þá yrðu þingmenn Norðvestur-
kjördæmis sex, þingmenn Norðausturkjör-
dæmis sjö, þingmenn Suðurkjördæmis 10,
þingmenn hvors Reykjavíkurkjördæmis 11 og
þingmenn Suðvesturkjördæmis 18.
Undanfarin ár hafa 35 þingmenn komið af
suðvesturhorninu, en allt til 2003 voru lands-
byggðarþingmenn í meirihluta á Alþingi. Þessir
35 þingmenn hafa ekki kosið að nota meirihluta
sinn til þess að rétta hlut suðvesturhornsins og
jafna vægi atkvæða eftir búsetu.
Um jöfnuð milli
flokka og eftir búsetu
Eftir Ólaf Þ. Harðarson
Ólafur Þ. Harðarson
» Sáraeinfalt er að laga þetta
með því að fjölga jöfnunar-
sætum og fækka kjördæmis-
sætum í kosningalögum. Það
getur einfaldur meirihluti
alþingismanna gert.
Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði
við Háskóla Íslands.