Morgunblaðið - 01.10.2021, Side 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. OKTÓBER 2021
ferð maður sem vildi láta til sín
taka og gera samfélaginu gagn.
Jón var fæddur árið 1952, þegar
íslensk þjóð var háðari því en
aðrar þjóðir að sækja afla á mið-
in og flytja út. Hann ólst upp á
tímum þegar íslensk framleiðsla
var fábreytt, samfélagið var að
byggjast upp og leggja þurfti
hart að sér við vinnu dag og
nótt. Sú reynsla hefur án efa
mótað lífsýn hans og haft áhrif á
þá framtíðarsýn sem hann vann
að síðar meir hjá Samgöngu-
stofu, þar sem sérsvið hans voru
rannsóknir á nýtingu á repju til
framleiðslu lífrænnar olíu sem
eldsneyti á skip.
Okkar kynni hófust þegar
þegar ég var sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra og hann
kynnti fyrir mér rannsóknir sín-
ar. Þar fór maður sem var með
skýra sýn á hringrásarkerfið og
hvernig hægt yrði að nýta orku-
jurtir á sjálfbæran hátt. Annars
vegar til að takast á við lofts-
lagsvandann með ræktun repju
til að framleiða lífolíu og hins
vegar til draga úr þörf á inn-
flutningi á fóðri með tilheyrandi
eflingu á fæðuöryggi landsins.
Eða eins og Jón orðaði svo eft-
irminnilega að þetta snýst um að
finna eldsneyti í staðinn fyrir
jarðefnaolíu, eldsneyti sem við
getum framleitt sjálf og verið
óháð innflutningi.
Það lá því beinast við þegar
ég tók við embætti samgöngu-
og sveitarstjórnarráðherra að
Jón gegndi lykilhlutverki í
starfshópi með fleiri góðum sér-
fræðingum við að semja skýrslu
um ræktun orkujurta til að
framleiða lífolíu og draga úr los-
un gróðurhúsalofttegunda. Við
fengum skýrsluna í hendur á
Þorvaldseyri aðeins nokkrum
dögum áður en Jón lést. Ég fann
sterkt hvað verkefnið átti hug
hans allan, hvernig hann fékk
aðra til liðs við sig og hversu
mikil áhrif hann hafði á sam-
ferðafólk sitt. Hann var tilbúinn
til að leggja sitt af mörkum til að
bæta og auðga samfélagið.
Þannig maður var Jón Bernód-
usson. Nú er það okkar að halda
áfram, halda hugmyndum hans
á lofti og gera þær að veruleika.
Ég sendi fjölskyldu Jóns inni-
legar samúðarkveðjur.
Sigurður Ingi Jóhanns-
son, samgöngu- og
sveitarstjórnarráðherra
Íslands
óhamingju
verður allt að vopni!
Þessi fleygu orð komu mér í
hug þegar fregnin um skyndi-
legt fráfall Jóns Bernódussonar
barst mér. Jón var Vestmanna-
eyingur af bestu gerð, glaðvær
og einlægur vinur vina sinna.
Það var aldrei leiðinlegt þar sem
Jón var, sögur og hlátur sem
hafði smitandi áhrif á viðstadda.
Við Jón bundumst góðum vin-
áttuböndum ungir og höfum
haldið tryggð og vináttu okkar í
áratugi. Nokkrum dögum fyrir
andlátið sat hann broshýr á
fundi í reiðhöllinni á Gaddstaða-
flötum á fundi hjá samgönguráð-
herra, Sigurði Inga Jóhanns-
syni. Jón hafði farið fyrir
starfshópi og var búinn að af-
henda ráðherra skýrslu um
ræktun og framleiðslu úr orku-
jurtum. En unun var að hitta
Jón þarna og í lok fundar rædd-
um við margt og ákváðum að
hittast þegar hann kæmi úr
þeirri miklu för til Bandaríkj-
anna þar sem hann átti að gang-
ast undir lokaaðgerð vegna
hjartameins.
Jón kom að mörgum stórum
verkefnum sem skipaverkfræð-
ingur. Landeyjahöfn naut krafta
hans og þeir Gísli Viggósson
verkfræðingur Siglingastofnun-
ar unnu þar þrekvirki og loksins
hafa draumar þeirra ræst um
nýjan Herjólf rafknúinn og höfn
sem stenst þær væntingar sem
lagt var upp með í þetta stóra
verkefni. Oft efaðist ég um hafn-
argerðina og að þessi leið væri
raunhæf, og var þó ráðherra
kjördæmisins á þessum tíma.
Jón sagði alltaf: „Láttu okkur
um þetta, mig og Gísla frænda
þinn, og vertu þér ekki til
skammar með því að segja eitt-
hvað neikvætt opinberlega um
þessa samgöngubót Eyja-
manna.“
Það sem átti hug Jóns allan
síðustu árin var nýting repju til
framleiðslu olíu til manneldis og
sem eldsneyti. Umhverfisvernd
í siglingum og rannsóknir um
orkuskipti í skipum var eitt af
sérsviðum hans. Oft greip ég til
aldamótakvæðis Hannesar Haf-
stein þegar Jón sagði mér með
blik í augum frá möguleikum
moldarinnar og sveitanna að
rækta repju og framleiða elds-
neyti fyrir landið okkar og
skipaflotann.
Sú kemur tíð, að sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin
frjóa
menningin vex í lundi nýrra skóga.
Með Jóni er genginn góður
drengur. Hugsjónaríkur maður
sem vildi að þjóðin nyti krafta
sinna og þekkingar. Hann ólst
upp í lifandi samfélagi í Vest-
mannaeyjum með ólgu í blóði og
bros á vör og varð strax að liði í
stórum systkinahópi. Faðir Jóns
féll frá þegar hann var fimm ára
gamall og níu börn urðu föður-
laus. En Aðalheiður Jóhanna á
Borgarhól, móðir þeirra systk-
ina, gafst ekki upp. Með dugnaði
kom hún börnum sínum til
manns og mennta. Magnús
Magnússon var síðari maður Að-
alheiðar og tvö systkini bættust
í hinn stóra systkinahóp. Oft
heyrði ég Eyjamenn dást að
þrautseigju móðurinnar og
dugnaði systkinanna.
Nú kveð ég vin minn með
söknuði.
Þó að brimið sér bylti með gný,
eins og Ási í Bæ kvað og við
heyrum harmaljóð
… við brimsorfna kletta
bárurnar skvetta
hvítfextum öldum
á húmdökkum kvöldum.
Upp af húmdökkum kvöldum
og sorg rís nýr dagur og Jón
Bernódusson er og verður sól-
argeisli í minningu frændfólks
og samferðamanna. Hans er
saknað.
Jón verður lagður til hinstu
hvílu í kirkjugarði Landakirkju í
Vestmannaeyjum. Þar standa á
kirkjugarðshliðinu hin eilífu orð
okkar sem trúum: „Ég lifi og þér
munuð lifa.“
Innilegar samúðarkveðjur til
eiginkonu og dætra Jóns og
systkina.
Guðni Ágústsson.
Jón Bernódusson kom til V-
Berlínar um það leyti sem ég var
að ljúka þar námi og varð að
hverfa frá doktorsnámi. Mér er í
fersku minni hversu mikill lífs-
kraftur skein frá Jóni og það var
fjör í kringum hann. Ég átti um
þær mundir erfiða daga, en
maður eins og Jón varð mér
hvatning til að gera betur og
vildi ég ávallt vel gert hafa í góð-
um námsferli, sem þó voru
hnökrar á. Á þessum árum var
DDR sósíalískt ríki og þar var
margt erfitt að mati okkar fyrir
vestan. Við námsmenn í V-Berl-
ín fórum yfir til A-Berlínar á
Checkpoint Charley og áttum
síðkvöld fyrir austan. Þarna var
víða teflt á tvær hættur. En
hvernig gat Jóni lynt við þetta
erfiða kerfi, sem var sífellt að
minna á tilveru sína?
Ég hygg að hann hafi notað
kímnigáfu sína og notið hennar í
ríkum mæli, því að jafnvel harð-
svíraðir landamæraverðir falla
fyrir henni. Nám í DDR hefur
örugglega verið gefandi á marg-
an hátt. Námsbækur vel skrif-
aðar og þjóðin meðal öflugustu
iðnríkja heims. En margir borg-
arar hafa liðið undan einveldis-
skipulaginu sem þar var við lýði.
Ég endurnýjaði kunnings-
skapinn við Jón á Siglingastofn-
un Íslands þegar leitað var til
mín um tiltekin rannsóknar-
verkefni og með okkur tókst
ágætt samstarf og verkefnin
voru mörg mjög áhugaverð, t.d
um öryggismönnun á farskipum
en einna merkilegast var verk-
efni um eldvarnir í skipum, en
það er hygg ég að hafi verið
stærsta þýðingarverkefnið sem
ég hef unnið að með ungum ís-
lenskunema, Jóni Árnasyni. Jón
Bernódusson fylgdi þessu verk-
efni eftir af miklum áhuga og gaf
reglulega komment ef hann var
ánægður með framvinduna.
Verkefnin voru mikill vinar-
vottur í minn garð, en ég tapaði
starfi á opinberri stofnun sem
sinnti öryggismálum og vildi
vinna áfram á þeim vettvangi.
Jón starfaði á Siglingastofnun
sem fagstjóri þróunar og rann-
sókna. Hann fékk áhuga á að
finna gott eldsneyti fyrir skipa-
flotann og fann repjuolíu. Hana
mætti nota víðar. En hvernig
karakter var Jón?
Hann var ótrúlega skemmti-
legur fannst mér og brandar-
arnir hittu í mark. „Af hverju
ertu með svona ljóta húfu?“
sagði Jón eitt sinn er við hitt-
umst við Siglingastofnun og ég
vissi að húfan var ósmekkleg,
þetta var rétt. Eitt sinn kom ég
of seint á ráðstefnu og Jón
sagði: „Af hverju mættir þú ekki
síðar þegar allir eru farnir?“ Ég
mætti ýmsum takmörkunum í
mér á þessum stundum og lögð
var mikil áhersla á að hafa texta
góða á stofnuninni allri og Jón
var ávallt með aðstoðarmenn til-
tæka sem voru mjög textaglögg-
ir. Ég fékk því góða þjálfun í
fagi sem ég er góður í en lengi
má bæta sig og það hefur mér
tekist í aðalatriðum.
Við Jón ræddum ekki um póli-
tík, en hann hafði sínar skoðan-
ir. Ég hef kynnst sósíalisma
töluvert í gegnum DDR og var
andvígur honum, eins og hann
var útfærður, en fólk má hafa
skoðanir og ef það bætir líf
heildarinnar þá er það af hinu
góða.
Kæri Jón, takk fyrir sam-
veruna og margar ánægjustund-
ir og takk fyrir alla hjálpina.
Hún var afar mikils virði. Ég
sendi fjölskyldu Jóns mínar
samúðarkveðjur.
Dr. Stefán Einarsson
áhættuverkfræðingur.
Orðið ljúflingur, sem Halldór
Laxness notar í ljóðinu Frændi,
þegar fiðlan þegir, leitar á hug-
ann þegar ég sest niður til að
minnast með nokkrum orðum
Jóns vinar míns. Við hittumst
fyrst veturinn 2012 í lomberhópi
sem Helgi bróðir hans hefur
haldið utan um frá árinu 2001.
Jón kom þar í fyrstu inn sem
varamaður. Sem bridsspilara
veittist nýliðanum létt að ná tök-
um á lombernum. Við félagarnir
höfum að jafnaði „tekið slag“
aðra hverja viku yfir vetrarmán-
uðina.
Vísindamaður og eldhugi eru
líka orð sem hæfa Jóni vel. Árið
2010 gaf Siglingastofnun Ís-
lands (nú Samgöngustofa) út rit-
ið Umhverfisvænir orkugjafar
og var Jón aðalhöfundur þess.
Undirtitill ritsins var: „Ræktun
repju og nepju til framleiðslu á
lífrænni dísilolíu fyrir íslenska
fiskiskipaflotann“. Á þennan
hátt lagði Jón grunninn að því
verkefni sem hann vann síðan að
á vegum Samgöngustofu og í
samstarfi við bændur sem rækt-
uðu repju til framleiðslu á repju-
olíu (bíódísil) sem fyrirtækið
Skinney-Þinganes á Höfn í
Hornafirði prófaði á sínum tíma
að skipta út fyrir dísilolíu á einu
skipa sinna. Á árinu 2018 veittu
Samtök atvinnulífsins fyrir-
tækinu verðlaun fyrir framtak
ársins á sviði umhverfismála.
Hugmyndasmiðurinn bak við
framtakið var Jón Bernódusson.
Að tilstuðlan og hvatningu
Jóns hóf Landbúnaðarháskóli
Íslands árið 2020, eftir margra
ára hlé, rannsóknaverkefni í ol-
íujurtum. Jónína Svavarsdóttir
náttúrufræðingur sagði mér að
fyrirhuguð væri kynning á nið-
urstöðum verkefnisins til
bænda.
Að sögn Ólafs bónda á Þor-
valdseyri kom Jón á tilrauna-
verkefni hjá Isavia á Keflavík-
urflugvelli í nóvember 2020. Þar
skyldi í nokkurn tíma prófa
notkun repjuolíu í vissum hlut-
föllum á móti gasolíu á stórvirka
vinnuvél. Isavia fékk 1.000 l af
repjuolíu frá Þorvaldseyri til
verkefnisins. Ólafur sagði mér
að það hefði glatt Jón mikið að
koma þessu verkefni af stað.
Í þessum mánuði kom út á
vegum samgöngu- og sveitar-
stjórnarráðuneytisins skýrsla
sem ber heitið Ræktun og fram-
leiðsla úr orkujurtum. Jón var
annar tveggja ábyrgðarmanna
ritsins. Tillögur starfshópsins
eru rökrétt framhald af fyrra
starfi og tilraunum á þessu sviði.
Með þeim eru lagðar til aðgerðir
í sjö töluliðum. Ein helsta nið-
urstaða vinnuhópsins er „… að
eftirspurn eftir lífolíum muni
vaxa og ræktun þeirra verða
hagkvæm hér á landi“.
Haustið 2016 vorum við Sig-
rún í heimsókn hjá fjölskyldu
dóttur okkar í Berlín. Jón var þá
staddur í borginni, en þar var
hann í framhaldsnámi á árunum
1979 til 1990. Hann bauð mér í
skoðunarferð um borgina. Auk
miðborgarinnar varð m.a. fyrir
valinu Ernst Thälmann Park.
Þar gat að líta fjölmörg listaverk
og styttur af þekktum mönnum,
þ.á m. af Ernst Thälmann sem
nasistar handtóku 1933 og
myrtu í Buchenwald 1944.
Við Sigrún vottum öllum að-
standendum Jóns samúð og
áréttum hana með þriðja er-
indinu í áðurnefndu ljóði Hall-
dórs Laxness:
hann sem eitt sinn undi hjá mér
eins og tónn á fiðlustreingnum
eilíft honum fylgi frá mér
friðarkveðjur brottu geingnum.
Gunnar Guttormsson.
Jón Bernódusson eða Jón
Bern eins og hann var gjarnan
kallaður var einstakur maður.
Ég var svo heppinn að kynnast
honum fyrir allmörgum árum í
starfi hjá Siglingastofnun Ís-
lands og mynduðust fljótlega
vinatengsl milli okkar sem hafa
haldist alla tíð síðan. Alltaf var
hægt að leita til Jóns með alls
kyns málefni og spurningar,
bæði um starfstengd málefni
sem og önnur mál. Var hann
ávallt reiðubúinn að aðstoða og
miðla af sinni miklu þekkingu og
innsæi. Jón Bern var fagmaður
fram í fingurgóma í störfum sín-
um og var lítið gefinn fyrir
snobb, titlatog og hvers kyns
sýndarmennsku. Hann var
skemmtilegur, hafði mjög litrík-
an persónuleika og var gjarnan
hrókur alls fagnaðar hvar sem
hann kom.
Við Jón „funduðum“ stundum
þar sem málin voru rædd undir
fjögur augu og þá kynntist ég því
vel hvern mann hann hafði að
geyma. Var ég svo lánsamur að
geta farið með Jóni og öðrum
góðum ferðafélögum í þrjár
ógleymanlegar ferðir til Münc-
hen í Þýskalandi. Fundir okkar
og ferðir verða því miður ekki
fleiri en hver veit nema við Jón
hittumst á öðrum stað síðar.
Ég votta fjölskyldu Jóns
Bernódussonar og öðrum sem til
þekkja samúð mína.
Stefán Alfreðsson.
Fallinn er frá góður vinur
minn og vinnufélagi til rúmra
tveggja áratuga, Jón Bernód-
usson skipaverkfræðingur.
Kynni okkar hófust þegar við
hófum störf hjá Siglingastofnun
með stuttu millibili í ársbyrjun
1998. Samstarf okkar á sviði
siglingamála og öryggis sjófar-
enda var gott í hvívetna. Starfið
átti allan hug Jóns og hreif hann
aðra með sér með eldmóði sín-
um.
Jón Bernódusson var leiftr-
andi persónuleiki vopnaður góð-
um gáfum og skopskyni, orð-
heppni og mælsku. Hann var
talnaglöggur með afbrigðum og
stálminnugur. Skipti engu hvort
viðfangsefnið var á sviði sigl-
ingamála, bókmennta, alþjóða-
stjórnmála, loftslagsmála eða
sögu rokktónlistar. Hann var vel
heima í málefnum dagsins og
rökstuddi mál sitt vel með vísan í
tölur og gögn. Jón fylgdist vel
með atburðum hér heima sem
erlendis, ekki síst með því að
rýna í þýskar fréttaveitur. Oft
krufðum við Jón heimsmálin til
mergjar og ræddum málefni líð-
andi stundar jafnt sem atburði
fyrri tíma. Maður kom aldrei að
tómum kofunum hjá Jóni. Ég á
eftir að sakna morgunsamveru-
stunda okkar.
Jón Bernódusson var hrókur
alls fagnaðar á mannfundum og
naut þess að blanda geði við fólk.
Honum tókst með nærveru sinni
og hnyttni að lífga upp á dauf-
legt andrúmsloft og efna til
fjörugra umræðna og skoðana-
skipta. Umræðuefnið tengdist
oft og tíðum loftslags- og meng-
unarmálum, enda hafði Jón um
langt skeið rannsakað og kynnt
sér til hlítar orkuskipti í sam-
göngum og repjurækt til fram-
leiðslu vistvæns eldsneytis. Það
er von mín að afrakstur þeirrar
rannsóknarvinnu nýtist komandi
kynslóðum og stuðli að betri um-
gengni við náttúru landsins.
Jón Bernódusson skilur eftir
sig skarð sem seint verður fyllt.
Fjölskyldu og vinum Jóns
votta ég samúð mína.
Sverrir Konráðsson.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi
stofnuðum við gamlir skólafélag-
ar kvartett. Hann hvorki söng né
lék en hittist nokkrum sinnum á
ári og kynnti sér breytingar á
ölkráaflóru miðbæjarins. Menn
hittust átta að kvöldi og töluðu
sleitulaust til þrjú að nóttu. Nú
er einn okkar, Jón Bernódusson,
fallinn frá í kjölfar veikinda.
Á táningsárum barðist hann
Eyjamaðurinn fyrir því að Vest-
mannaeyjar yrðu sjálfstætt ríki,
auk þess sem anarkisminn var
það þjóðskipulag sem hann taldi
helst henta hér á norðurhjaran-
um. Hann lærði svo skipaverk-
fræði í Austur-Þýskalandi og
starfaði um hríð í Vestur-Berlín
að námi loknu. Á síðari árum
boðaði hann repjurækt og nýt-
ingu repjuolíu á marga vegu.
Umhverfisbarátta Jóns var svo
sannarlega af hinu góða þótt hún
gæti á stundum haft truflandi
áhrif á skipulag kvartettfund-
anna af því hann var oft boðinn
til útlanda að halda erindi um sín
hugðarmál.
Jón hallaðist að jafnaðarstefn-
unni á síðari árum en þótt hann
gæti verið rammpólitískur
dæmdi hann ágæti manna ekki
síst út frá því hvort þeir hefðu
húmoríska sýn á tilveruna. Hann
hafði gaman af því að ögra okkur
kvartettbræðrum með ólíkinda-
tali. Nú yrði að blása til fundar
því 100 ára ártíð Erichs Honec-
kers væri í næstu viku! Sá sem
fór í sleik við Brésnéff og var lít-
ill vinur anarkista og sósíal-
demókrata. En Jón vissi sem var
að ekkert er jafn óspennandi og
einróma söfnuður og gat verið
framúrskarandi advocatus dia-
boli, talsmaður andskotans, og
sett púður í samræðurnar. Allt
var betra en endurtekin orð.
Þannig lifði gamli uppreisnar-
andinn í honum og það ásamt
frjórri hugsun og eðlislægri
glaðværð gerði hann að óviðjafn-
anlegum félaga.
Okkar góði kvartett hefur nú
misst sinn 1. tenór og hljómur-
inn verður ekki jafn bjartur á
samkomum framtíðarinnar. En
við munum innra með okkur
heyra ískrandi hláturinn gegn-
um glasaglauminn.
Ragnar Sigurðsson,
Tómas R. Einarsson.
Hvað hugsar maður þegar
besti vinur manns deyr? Við Jón
kynntumst í menntaskóla. Eftir
að við hófum nám í MH tók ég
fljótlega eftir þessum bjart-
hærða dreng frá Vestmannaeyj-
um sem leigði herbergi í Eski-
hlíð. Eftir því sem leið á
skólaárin kynntumst við betur
og urðum bestu vinir. Eitt sum-
arið afréðum við að fara til
starfa í Þýskalandi. Jón réð sig
til starfa í grennd við Flensborg
og ég á eyjunni Sylt sem er ekki
langt undan. Hvort þessi sum-
arvinna í menntaskóla varð til
þess að Jón átti síðar heimili við
Flensborg skal ósagt látið.
Sumarið eftir stúdentspróf
vorum við báðir staðráðnir í að
fara til náms í Þýskalandi. Jón
sá auglýsingu í Vísi um náms-
styrk í Austur-Þýskalandi sem
hann hlaut en ég hóf nám vest-
anmegin þá um haustið. Þrátt
fyrir skiptingu landsins létum
við það ekki hindra okkur og
vorum í tíðum heimsóknum hvor
hjá öðrum eða ferðuðumst sam-
an að heimsækja vini og kunn-
ingja. Einna eftirminnilegast
slíkra ferðalaga var heimsókn til
Jóhönnu vinkonu okkar í Freib-
urg þegar litlu munaði að hæg-
genga dreifbýlislestin á leiðinni
til baka til München skildi mig
eftir allslausan á brautarstöð í
smábæ á leiðinni með aðeins fá-
eina bjóra í fanginu sem ég hafði
hlaupið út til að sækja. Ég rétt
náði inn í aftasta vagninn áður
en hann rann út af stöðinni og er
ég birtist í vagninum okkar þá
sá ég þann mesta feginssvip sem
ég sá nokkurn tíma á vini mínum
því hann áleit mig hafa misst af
lestinni. Þessi svipur stendur
mér enn ljóslifandi fyrir hug-
skotssjónum áratugum síðar.
Í Rostock kynntist Jón konu-
efni sínu Martinu. Þar gengu
þau í hjónaband og hófu búskap
í Vestur-Berlín þar sem þau
voru bæði við framhaldsnám,
Jón í skipaverkfræði og Martina
í læknisfræði. Að námi loknu
fluttu þau til Íslands og hófu þar
störf. Þar fæddust þeim dæturn-
ar tvær, Maria Laura og Jó-
hanna, báðar afar vel gerðar
stúlkur, foreldrum sínum til
ómældrar gleði og sóma. Jón
starfaði lengst af hjá Samgöngu-
stofu, nú síðast við rannsóknir á
alhliða hagnýtingu repju. Þar
vann hann brautryðjandastarf
sem mun halda nafni hans á
lofti.
Sjaldnast leið langur tími
milli þess að við hittumst til að
taka stöðu mála augliti til auglit-
is. Ef langt var á milli þá skrif-
uðumst við á og síðar hringdum,
yfirleitt nokkrum sinnum í viku,
til að leiða til lykta helstu mál
samtímans. Upp úr aldamótum
fannst okkur tímabært að rifja
upp góðar stundir á þeim slóð-
um þar sem þær gerðust og
jafnframt freista þess að skapa
fleiri. Til greina kom að fara
ferðir til Rostock, Münster,
Berlínar eða München, borg-
anna þar sem við höfðum verið í
námi. Úr varð að við fórum ár-
lega til München, dvöldum alltaf
á sama hóteli og fórum leiðangra
um borgina. Við héldum okkur í
stúdentahverfinu Schwabing og
þegar betur var að gáð þá var
það á svæði sem er ekki mikið
meira en tveir til þrír ferkíló-
metrar að stærð. Þarna rifjuð-
um við upp gamlan tíma og
skópum nýjar minningar í kunn-
ugu umhverfi sem seint munu
gleymast.
Með Jóni er genginn vinur
minn í þess orðs bestu merk-
ingu. Blessuð veri minning hans.
Bolli Héðinsson.
SJÁ SÍÐU 22