Morgunblaðið - 19.10.2021, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. OKTÓBER 2021
Nú finnur þú
það sem þú
leitar að á
FINNA.is
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þegar við Linda unnum að Íslands-
bók barnanna þekktumst við ekki
neitt fyrirfram, en í ljós kom að við
vinnum mjög vel saman,“ segir
Margrét Tryggvadóttir um samstarf
þeirra Lindu Ólafsdóttur teiknara,
en þær sendu nýverið frá sér bókina
Reykjavík barnanna – Tímaflakk um
höfuðborgina okkar þar sem stiklað
er á stóru um sögu höfuðborgar-
innar í máli sem Margrét skrifar og
myndum sem Linda vinnur.
„Við getum æst hvor aðra upp í
brjáluðum metnaði, sem er auðvitað
ekkert skynsamlegt þar sem vinnan
tekur fyrir vikið alltof mikinn tíma,“
segir Margrét kímin og ljóstrar upp
að Reykjavík barnanna sé búin að
vera í bígerð síðan 2017 meðfram
öðrum verkefnum. „Það sem er svo
gefandi og skemmtilegt í samstarf-
inu við Lindu er að hún finnur alltaf
sínar lausnir,“ segir Margrét og
rifjar upp að þær Linda hafi lagst í
miklar vangaveltur um sögutímann.
„Eitt af því sem er svo dásamlegt
við myndir Lindu í þessari bók er að
þær eru stútfullar af alls kyns fólki,
þar sem hver einasti karakter er
persóna þar sem skynja má ein-
hverja baksögu viðkomandi sem
ratar á pappírinn,“ segir Margrét og
viðurkennir að vinnan við gerð bók-
arinnar hafi falið í sér mikið púslu-
spil við að koma öllu haganlega sam-
an í eina heild. „Það var ákveðin
áskorun að vera með þematískar
opnur og á sama tíma með krónólóg-
ískt flæði,“ segir Margrét. Í bókinni
er meðal annars farið yfir það hvern-
ig náttúran hafi breyst í borg, af
hverju Reykjavík hafi orðið fyrir
valinu sem höfuðborg landsins, sagt
frá mannlífi og menningu, blokkum
og bröggum, gatnakerfi og götulýs-
ingu, skautasvellum og skolpræsum,
útsýni og útivist og öllu mögulegu
öðru sem finna má í Reykjavík.
Draugagangur og skolpkerfið
„Eðli málsins samkvæmt er sagan
framan af fyrst og fremst bundin
miðbænum. Mig langaði hins vegar
til að draga öll hverfi borgarinnar
inn í bókina og lögðum við mikið upp
úr að öll börn í borginni geti fundið
sig í bókinni og speglað sinn veru-
leika,“ segir Margrét og tekur fram
bókin sé auðvitað ætluð öllum börn-
um landsins, þar sem Reykjavík sé
höfuðborg allra. „Sjálf hef ég aldrei
búið í Reykjavík,“ segir Margrét
kímin og bendir á að hún hafi sótt
skóla og vinnu í höfuðborginni frá 16
ára aldri. „Þannig að Reykjavík er
líka borgin mín, enda hefur höfuð-
borgin skyldu að gegna sem nær út
fyrir íbúana.“ Margrét bendir á að
þemanálgun bókarinnar bjóði upp á
breiðan tíma. „Sem dæmi nær opnan
um vatnið allt frá landnámi til nú-
tímans með viðkomu í vatnsberum
19. aldar. Við erum þannig sífellt að
teygja okkur fram og til baka á opn-
um bókarinnar,“ segir Margrét og
viðurkennir fúslega að í því felist góð
áskorun sem henti þeim Lindu afar
vel. „Þegar við gerðum Íslandsbók
barnanna gerðum við bók sem við
vorum báðar mjög ánægðar með, en
ef við hefðum þekkst fyrirfram þá
hefði sú bók orðið allt öðruvísi. Þeg-
ar kom að nýju bókinni langaði okk-
ur að móta verkefnið meira saman.
Það skilaði miklu
dýnamískari
sköpunarferli þar
sem við vorum að
vinna textann og
myndirnar samhliða
og slípa efnið til.
Textinn í
Reykjavíkur-
bókinni er lengri
en í Íslandsbók-
inni og hún er
líka margfalt
efnismeiri, ekki
síst þar sem
myndirnar
segja meiri sögu í
nýju bókinni,“ segir Margrét.
Spurð hvaða kafla eða þema henni
hafi sem höfundi fundist skemmti-
legast að vinna og hvers vegna, svar-
ar Margrét: „Mér fannst mjög
margt mjög skemmtilegt. Sem dæmi
fannst mér skemmtilegt að byrja
bókina áður en fólk kom til sög-
unnar,“ segir Margrét og bendir á
að eitt af markmiðunum með bókinni
sé að „það renni upp fyrir krökkum
að hlutirnir eru eins og þeir eru af
því að einhver ákvað að þeir væru
akkúrat svona. Við getum alveg
ákveðið að hlutirnir verði einhvern
veginn öðruvísi. Markmiðið er því að
efla lýðræðisvitund lesenda með því
að gera þeim ljóst að umhverfið sem
við fæðumst inn í er ekki óbreyt-
anlegt, heldur er gerlegt að breyta
því,“ segir Margrét en í ávarpi
fremst í bókinni eru lesendur hvattir
til að hafa skoðanir á því hvernig
borgin þróist og senda borgar-
fulltrúum skilaboð um það sem er
gott og eins hvað mætti betur fara.
„Fyrir utan leiðarstefið sem felst í
breytingum og lýðræðisvitundinni
fannst mér gríðarlega spenn-
andi að skrifa um
draugagang í borg-
inni og skolpkerf-
ið,“ segir Margrét
og rifjar upp að í
fjölskyldugöngu sem
þær Linda hafi boðið
upp á í seinasta mán-
uði hafi börnin sem
mættu átt bágt með að
trúa því að í gamla daga
hafi ræsin meðfram göt-
unum verið full af skít í
skolpinu sem rann frá
húsunum og út í Tjörnina
og þaðan út í sjó.
„Skolpkerfið er hluti af
innviðum borgarinnar sem eru ekki
endilega sýnilegir, en skipta gríðar-
lega miklu máli. Vegna innviðanna
er borgin byggilegt svæði,“ segir
Margrét og bendir á að Íslendingar
hafi, í alþjóðlegum samanburði, ver-
ið seinir til að koma upp vatns- og
skolplögnum „vegna þess hvað fólki
fannst þetta dýrt,“ segir Margrét og
bendir á að borgarlínan sé hluti af
innviðum 21. aldar. „Umræðan um
lagnirnar á sínum tíma kallast þann-
ig sterklega á við umræðuna um
borgarlínuna í dag. Þetta eru auðvit-
að risavaxnar framkvæmdir, en
þetta er ekki eyðsla heldur fjárfest-
ing sem tryggir okkur betra líf og
sparar fjármuni til lengri tíma litið.“
Aðspurð segist Margrét hafa leit-
að heimilda víða í skrifum sínum.
„Heimildaskráin varð svo löng að
hún er birt sem rafrænn viðauki
undir nöfnum okkar Lindu og heiti
bókarinnar á Rafhlöðunni,“ segir
Margrét, en Rafhlaðan er rafrænt
varðveislusafn Landsbókasafns
Íslands – Háskólabókasafns á vefn-
um rafhladan.is. „Við leituðum mikið
í stórvirkið sem er Saga Reykjavík-
ur í sex bindum eftir Þorleif Ósk-
arsson, Guðjón Friðriksson og Egg-
ert Þór Bernharðsson,“ segir
Margrét og bendir á að þær Linda
hafi einnig legið yfir gömlum ljós-
myndum. „Það er heilmikil áskorun
að skrifa knappan texta því eftir því
sem textinn er styttri þeim mun
konsentreraðri eða eimaðri þarf
innihaldið að vera til þess að efnið
verði safaríkt. Ég nenni ekki að gera
þurrar bækur þar sem allt kjöt á
beinin vantar. Fjölskyldubækur
verða að tala til breiðs hóps les-
enda,“ segir Margrét sem býr að
reynslunni við gerð bæði Íslands-
bókar barnanna og Kjarvals – Mál-
arans sem fór sínar eigin leiðir.
„Ég hugsa bókina þannig að les-
endur geti opnað hana hvar sem er
og lesið smá hverju sinni. Draum-
urinn hjá mér er að krakkar upp-
götvi síðan einn daginn að þeir eru
óvart búnir að lesa alla bókina,“ seg-
ir Margrét. Spurð hvort þær Linda
séu þegar farnar að leggja drög að
næsta samstarfsverkefni, svarar
Margrét því neitandi. „Ekki enn, en
okkur langar mikið að vinna áfram
saman og munum finna okkur gott
viðfangsefni. Við grínuðumst reynd-
ar með að næsta bók yrði Suð-
vesturkjördæmi barnanna en ég
efast um að það sé góð hugmynd.“
Konur Myndin sem prýðir opnuna þar sem fjallað er um það hvernig konur hafa látið til sín taka í borginni jafnt í kosningum sem leikskólamálum.
Bráðabirgðahúsnæði Reykjavík óx ört sem þéttbýli og áratugum saman
setti húsnæðisskortur svip sinn á bæinn. Eftir hernámið voru auðir braggar
í borginni leigðir út til bráðabirgða til að hýsa fjölskyldur á hrakhólum.
„Nenni ekki að gera þurrar bækur“
- Bókin Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur býður upp á tíma-
flakk um höfuðborg landsins - „Getum æst hvor aðra upp í brjáluðum metnaði,“ segir Margrét
Morgunblaðið/Unnur Karen
Samstarf Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir á Austurvelli þar
sem myndir bókarinnar eru til sýnis fram í nóvember. Í vetrarfríinu á næstu
dögum bjóða þær upp á fjölskyldugöngu í tengslum við útgáfu bókarinnar.