Morgunblaðið - 28.12.2021, Qupperneq 23
E
f það er einhver sem á skilið að
vera valin kona ársins þá er það
Rúna Sif sem tók flugið frá Bíldu-
dal til þess að bjarga mannslífi.
Eldur Elí er níu mánaða drengur
sem þurfti nýja lifur til að geta lif-
að af. Eldur Elí er sonur Bjarka Páls Ey-
steinssonar og Kristínar Gunnarsdóttur, sem
eru vinir Rúnu Sifjar og eiginmanns hennar,
Jónatans Guðbrandssonar. Síðasta sumar kom
í ljós að ef Eldur Elí fengi ekki líffæragjöf
myndi hann ekki lifa það af. Þá var hann búinn
að vera veikur í marga mánuði. Hann var lagð-
ur inn á spítala vegna lifrarbólgu sem hann
fékk af völdum veirusýkingar. Það gerði það
að verkum að hann var með skerta lifrar-
starfsemi sem getur verið mjög hættulegt.
Hvernig varð þér við þegar þú fékkst frétt-
irnar að þú værir kona ársins að mati lesenda
Smartlands?
„Mér finnst þetta mjög óraunverulegt og
stórt. Mér finnst það merkilegt og ekki eitt-
hvað sem ég hafði velt fyrir mér þegar þetta
magnaða og óvænta ferðalag hófst. Það að sjá
nafn sitt mikið til umræðu undanfarið hér og
þar, að fá þennan mikla heiður frá ykkur að
vera kosin kona ársins og fá allar þessar fal-
legu kveðjur frá fólki sem ég þekki og þekki
ekki, er mikið og stórt. En þessi saga er líka
stór og falleg. Það sem ég gerði var svo stórt
og ég skil að fólk sjái það. Þarna var lítið barn í
neyð og þurfti hjálp til að halda lífinu. Ég finn
ekki orðin yfir hversu þakklát ég er hvernig
þetta fór og að ég hafi getað hjálpað,“ segir
Rúna Sif og er hálfklökk þegar við hittumst.
Hún rekur söguna af því hvernig það hafi kom-
ið til að hún gaf hluta af sinni eigin lifur til þess
að bjarga lífi Elds Elís.
Vildi geta hjálpað
„Þegar ég heyrði fyrst af því að foreldrarnir
væru að athuga hvort þau gætu gefið honum
líffæri úr sér þá flaug það strax í gegnum huga
minn að kannski gæti ég gert það ef þau gætu
það ekki,“ segir Rúna Sif og bætir við:
„Lea Sif Valsdóttir vinkona okkar býr í
Stokkhólmi í Svíþjóð. Hún hafði farið í frí til
Gautaborgar með fjölskyldu sinni þar sem þau
hittu Kristínu sem var með eldri börnin sín, en
Bjarki komst ekki, því hann sat hjá Eldi Elí,
sem var kominn í einangrun og ástandið mjög
slæmt.
Það var einmitt í þessari ferð sem Lea gerði
sér grein fyrir hversu heilsu Elds Elís hafði
hrakað hratt og mikið, svo mjög að ekki þyrfti
að spyrja að leikslokum, ef engin lifur væri í
boði. Það mætti engan tíma missa. Á þessum
tímapunkti var vitað að foreldrar hans pöss-
uðu ekki sem líffæragjafar fyrir hann, svo Lea
vildi láta kanna hvort hún væri líklegur gjafi.
Stuttu seinna fór Lea með lest eldsnemma
frá Stokkhólmi aftur til Gautaborgar í tékk.
Ég hafði verið á næturvakt svo ég var vakandi
þegar hún var á ferðalaginu og við töluðum svo
lengi og hún upplýsti mig um allt sem hún
vissi. Bæði áður en hún fór og eftir. Þennan
laugardag sendi ég póst í sameiginlegt spjall í
vinkonuhópinn okkar og spurði Kristínu hvort
við gætum ekki líka farið í tékk hér á Íslandi,
þá tóku fleiri undir það í hópnum. Það vildu
allir gera sitt.
Síðar þennan laugardag kom í ljós að Lea
passaði ekki. Þá sendi ég skilaboð beint á
Kristínu vinkonu að ég vildi láta athuga mig.
Þetta kom frá mínum dýpstu hjartarótum og
ég fann að ég vildi gera þetta. Ég fann strax
hvað Kristín og Bjarki voru þakklát. Á mánu-
deginum voru fleiri búnir að fara í tékk og ég
var orðin óþolinmóð og fór að hringja sjálf á
Landspítalann. Ég hafði svo sterka tilfinningu
að ég þyrfti að fara í þetta tékk,“ segir Rúna
Sif.
Ertu svona næm? Finnur þú hluti á þér?
„Nei, ég held ekki, en þarna kom mjög sterk
tilfinning, maðurinn minn er hins vegar mjög
næmur og hann var með sömu tilfinningu og
ég fyrir þessu og við ræddum það. Við vorum
allan tímann bæði með sterka tilfinningu, eins
og það væri einhver að hvísla í eyrað á okkur
og segja að þetta færi vel og að ég þyrfti að
fara í þetta tékk. Við höfum reyndar nokkra í
Sumarlandinu grunaða og þá einna helst
Brynjar bróður Kristínar sem kvaddi síðast-
liðið vor, langt fyrir aldur fram vegna veik-
inda, þegar Eldur Elí var aðeins eins mánaðar
gamall. Þessi tilfinning var svo sterk og ómet-
anleg og varð til þess að við vorum samstiga
allan tímann og litum aldrei um öxl,“ segir hún
og ég veitti því athygli að bros færist yfir and-
litið þegar hún talar um eiginmann sinn. Það
er augljóst að þau eru saman í þessu.
Hvernig brást Kristín vinkona þín við?
„Vinkona mín átti ekki orð. Foreldrar mega
ekki af siðferðilegum ástæðum biðja fólk um
líffæri fyrir börnin sín, sem gerir stöðuna að-
eins erfiðari. Ég sagði við þau að ég væri tilbú-
in í þetta. Á sunnudeginum fékk ég svo símtal-
ið frá Svíþjóð að ég væri komin á listann um
líffæragjöf og var spurð allskonar spurninga.
Ég var reyndar sjálf búin að spyrja mig þess-
ara sömu spurninga í huganum, en þá hafði ég
áhyggjur af því að ég væri ekki í nógu góðu
formi og sagðist vera tveimur kílóum léttari en
ég var, en bara af því að ég hafði svo sterka til-
finningu að ég yrði að komast í þetta tékk og
þeir vildu fyrst kanna litlar og nettar konur,
því þær væru líklegri að passa fyrir Eld Elí
sem var svo lítill,“ segir hún og brosir en þá fór
af stað atburðarás sem ekki var hægt að sjá
fyrir.
Á mánudeginum lagði Rúna Sif af stað frá
Tálknafirði og yfir á Bíldudal, en þegar hún
var um það bil að leggja af stað sagði Jónatan,
eiginmaður hennar, að hún ætti að taka vega-
bréfið með.
„Jónatan sagði við mig að ég yrði að taka
vegabréf okkar beggja með og að hann kæmi
með mér til Svíþjóðar ef þetta gengi upp.
Þarna sást vel hvað hann er næmur. Hann
vissi að þetta myndi ganga upp. Ég flaug frá
Bíldudal þennan mánudagsmorgun og fór
beint í tékk í Reykjavík.“
Ástfangin í 12 ár
Rúna Sif og Jónatan eiga þrjá syni en fyrir
átti hann tvö börn af fyrra sambandi. Það er
ekki hægt að tala við Rúnu Sif nema spyrja
hana um það hvort hún hafi aldrei verið ótta-
slegin. Hvort hún hafi aldrei leitt hugann að
því að hún gæti kannski dáið sjálf í þessari
ferð frá sínum eigin börnum og fjölskyldu.
„Nei, ég hugaði aldrei á þá leið. Ég er það
líkamlega hraust að ég var aldrei hrædd um að
heilsan myndi svíkja mig. Ég var meira að
hugsa um hvað ég myndi vilja að annað fólk
gerði fyrir mig í þessari stöðu. Mér fannst þau
búin að ganga í gegnum allt of mikið og hrein-
lega komið nóg. Mér var líka bent á það í þessu
ferli að ég gæti ekki gefið mínum eigin börnum
lifur ef ég væri búin að gefa öðrum en það
truflaði mig ekki,“ segir hún og bendir á að þó
að hennar líffæri passaði fyrir Eld Elí var það
ekki merki um að hennar lifur hefði hentað
hennar eigin börnum.
Varstu aldrei hrædd um að hann myndi ekki
lifa af, að líkami hans hefði getað hafnað líf-
færagjöfinni?
„Ég var í rauninni búin að fara í gegnum
þessar hugsanir þegar Lea var á leiðinni í tékk
„ef líffærið myndi ekki virka hvernig myndi sá
sem gæfi það þá bregðast við“. Ég man þegar
við Eydís systir Bjarka sátum fyrir utan
Landspítalann báðar búnar að fara í tékk,
haldandi í vonina að önnur okkar myndi passa,
þá held ég að ég hafi náð að létta af mér og
sagði við Eydísi og Hildigunni vinkonu mína
að sá sem færi í þessa ferð þyrfti að muna það
að hvernig sem færi þá væri það ekki honum
að kenna ef þetta gengi ekki upp. Ég held að
ég hafi sagt þetta upphátt við þær til að friða
einhverja innri hræðslu. Þegar ég vissi svo að
ég væri líklegur líffæragjafi var ég sannfærð
um að þetta myndi ganga upp. Það var ekkert
annað í boði, því annars myndi hann deyja,“
segir Rúna Sif.
Sjaldan verið hressari
Það hlýtur að vera mikið álag fyrir líkamann
að láta skera af lifrinni og fara í sjö tíma
skurðaðgerð. Hvernig ertu búin að hafa það
síðan þú fórst í aðgerðina?
„Í dag eru komnir fjórir mánuðir síðan ég
fór í aðgerðina en hún fór fram 26. ágúst. Ég
finn í rauninni ekki neitt eins og staðan er
núna. Nema þá bara eins og harðsperrur, því
ég er alltaf að gera aðeins meira eftir því sem
tíminn líður og ég jafna mig meira. Ég var í
Svíþjóð í 10 daga og ég var frá vinnu í níu vik-
ur og ég er afar þakklát fyrir skilning frá
vinnuveitanda bæði hjá mér og Jónatan og líka
frá öllum kennurunum mínum í skólanum á
Ísafirði, því ég byrjaði önnina svo seint. Ég er
líka svo heppin með allt fólkið mitt og vini sem
gerðu þetta allt auðveldara. Ég fór í sjö tíma
aðgerð og er afar stolt af fallega örinu mínu
sem nær frá bringubeini niður að nafla, en ég
er með tvö falleg ör sem eru eftir strákana
mína. Tvíburastrákarnir okkar Jónatans komu
með keisaraskurði og bera báðir Elí-nafnið
sem millinafn líkt og Eldur Elí, ég kýs því
kalla þau Elí-örin mín. En um leið og ég vakn-
aði úr svæfingunni fann ég að ég myndi ná mér
að fullu. Ég jafnaði mig fljótt á keisaranum, ég
hef líka gengið í gegnum fæðingu án þess að fá
verkjalyf, ætli ég sé ekki bara með ágætis
sársaukaþröskuld,“ segir hún.
Miklu meiri tími á Tálknafirði
Rúna Sif og Jónatan hafa búið á Tálknafirði
í þrjú ár. Hann fékk starf sem aðstoðaryfirlög-
regluþjónn og ákvað að grípa tækifærið. Fjöl-
skyldan bjó áður í Njarðvík en Rúna Sif er þó
úr Reykjavík og mikið borgarbarn.
„Hann Jónatan er mikill grínisti. Við vorum
nýlega búin að byggja okkur hús í Njarðvík
þegar hann kom heim og spurði hvort ég væri
tíl í að flytja á Vestfirði með honum. Ég hélt að
sjálfsögðu að hann væri að grínast. Hann náði
þó að selja mér þessa hugmynd og rökstuddi
mál sitt með því að segja að hann yrði meira
heima. Áður vann hann langa vinnudaga.
Hann benti á að ég hefði meiri tíma til að læra
og við fjölskyldan fengjum meiri tíma saman.
Við gætum alltaf gert okkur ferðir suður til að
hitta fólkið okkar. Ég fékk meira að segja að
ákveða hvort það væri Patreksfjörður eða
Tálknafjörður og ég valdi þann síðari þar sem
yndislega mágkona mín og fjölskylda hennar
búa. Við Jónatan störfum bæði á Patreksfirði
en ætlum samt að halda okkur hér á Tálkna-
firði. Það er alger draumur fyrir börnin okkar
að alast upp á svona stað. Þetta reyndist rétta
skrefið fyrir okkur, því við höfum mun meiri
tíma með börnunum okkar og eyðum litlum
tíma í bílferðir, nema þá þegar við förum í
borgina. Ég finn í rauninni ekki fyrir því að við
séum einangruð. Við komum reglulega í bæinn
og gerum þá það sem okkur finnst skemmti-
legt eins og hitta fjölskyldu og vini okkar, fara
í leikhús og bíó og fleira í þeim dúr. Þegar við
komum í bæinn skipuleggjum við tímann vel
og reynum að nýta hann sem best. Það að hafa
flutt svona lagt í burtu er alveg stórt skref en
systir mín og fleiri hafa þó haft orð á því að ég
sé með mjög góða aðlögunarhæfni,“ segir hún
og hlær.
Ást í löggunni
Rúna Sif og Jónatan byrjuðu saman fyrir
tólf árum. Þau störfuðu bæði sem lögreglu-
þjónar en kynntust þó ekki í vinnunni heldur í
gegnum sameiginlega vini. Þau eru ástfangin
og ánægð með tilveruna. Þegar ég spyr hana
hvort hún hafi vitað það strax að hann yrði
maðurinn hennar segir hún svo vera.
„Hann er svo ótrúlega tryggur og nærvera
hans er svo góð. Hann er réttsýnn, sem mér
finnst skipta miklu máli. Ég segi alltaf að það
sé hann sem geri líf mitt betra,“ segir Rúna Sif
og segir að það hafi verið ákveðin tækifæri í
því að flytja á Tálknafjörð. Hún skráði sig til
dæmis í nám en fyrir jólin útskrifaðist hún
sem stúdent og sjúkraliði.
„Ég veit að mín hilla er heilbrigðisgeirinn og
mig langar að verða ljósmóðir. Ég byrjaði hins
vegar á því að klára sjúkraliðanám og útskrif-
aðist úr því fyrir jólin. Ég vildi vera fullviss um
að þetta væri mín rétta hilla, sem ég veit núna.
Ég stefni á að fara í hjúkrunarfræðina þegar
ég er tilbúin, nema að kerfið taki breytingum
og heimili að sjúkraliðar fari beint í ljós-
mæðranámið, þá geri ég það klárlega.“ segir
Rúna.
Hún hætti í löggunni 2010 þegar hún varð
ólétt að frumburði sínum. Starf lögreglunnar
er krefjandi og oft sér þessi stétt hlið á mann-
lífinu sem hinn venjulegi borgari sér ekki. Tel-
ur þú að árin þín sem lögreglumaður hafi mót-
að lífsviðhorf þitt og gert það að verkum að þú
varst tilbúin til að bjarga lífi barns?
„Lögregluárin mótuðu mig klárlega að ein-
hverju leyti og ég á margar góðar minningar
úr starfinu og úr lögregluskólanum. Ég eign-
aðist marga góða vini þar og kunningja. Því
miður fóru þau plön ekki eins og ég hafði hugs-
að mér. Mér fannst, og finnst enn í dag, lög-
regluskólakerfið á þeim tíma hafa brugðist
mér. Ég var sár, en það er önnur saga. Ég ber
mikla virðingu fyrir lögreglunni og hennar
störfum og hef alltaf gert. Þetta er erfitt og
krefjandi starf, sem hefði hentað mér vel, en
ætli örlög mín hafi ekki að einhverju leyti grip-
ið í taumana og ætlað mér annað. Ég er í dag
stoltur heilbrigðisstarfsmaður og fæ mikið út
úr því að hjálpa öðrum. Það er gefandi og því
fylgir mikil ábyrgð.“
Nú er nýtt ár fram undan. Hvernig verður
2022? Ertu með plön um að gefa úr þér fleiri
líffæri?
„Ég er jákvæð manneskja að eðlisfari og
trúi því alltaf að öll ár verði góð, líka árið 2022.
Vona samt að það verði rólegra, að ég muni
eiga góða tíma með vinum og fjölskyldu. Við
Jónatan höfum til dæmis verið að gæla við að
hafa síðbúið brúðkaupspartí hérna fyrir vestan
næsta sumar, en við giftum okkur hjá sýslu-
manni 17.11.17. Ég ætla líka að trúa því að
þetta Covid fari að fjara út. En af því að þú
spurðir hvort ég væri með plön um að gefa
fleiri líffæri á næsta ári, þá vona ég ekki.
Reyndar er ein sem er að vinna með mér sem
er bara með eitt nýra. Ég sagði við hana að
hún vissi af mér ef hún lenti í veseni,“ segir
Rúna Sif og hlær.
„Mér finnst þetta mjög óraunverulegt og stórt.
Mér finnst það merkilegt og ekki eitthvað sem ég
hafði velt fyrir mér þegar þetta magnaða og
óvænta ferðalag hófst. Það að sjá nafn sitt mikið
til umræðu undanfarið hér og þar, að fá þennan
mikla heiður frá ykkur að vera kosin kona ársins og
fá allar þessar fallegu kveðjur frá fólki sem
ég þekki og þekki ekki, er mikið og stórt.
Rúna Sif Rafnsdóttir og
Jónatan Guðbrandsson
ásamt sonum sínum,
Jökli Rafni, Grétari Elí og
Guðbrandi Elí.
ÞRIÐJUDAGUR 28. DESEMBER 2021 MORGUNBLAÐIÐ 23