Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.01.2022, Síða 17
„þ.e. innlent framkvæmdavald varð ábyrgt gagnvart
Alþingi. Sú bjartsýni og sá framfarahugur, sem fylgdi
heimastjórninni og uppbyggingu atvinnulífsins – og
birtist ekki síst í ljóðum Hannesar Hafstein – átti
einkar vel við skapgerð Ólafs Thors.“
Trúverðugum ber
saman um manninn
Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri Morg-
unblaðsins, skrifaði ævisögu Ólafs Thors, mikið verk
og fróðlegt í tveimur bindum og til þeirra vitnar
Jakob um „að Ólafur hafi erft bestu eðliskosti beggja
foreldra – bjartsýni og hugsjónahita föður síns og
varfærni móður sinnar, Margrétar Þorbjargar.
Jakob nefnir að það hafi jafnan verið talið eitt af
mestu afrekum Ólafs Thors hversu vel honum fórst
að halda hinum stóra flokki sínum saman. Hann vitn-
ar til palladóma „Lúpusar“ (Helga Sæmundssonar):
„Teygjan í Sjálfstæðisflokknum er mikil, en þræð-
irnir liggja allir í hægri hönd Ólafs Thors, og hann
heldur fast og togar drjúgt, þegar honum þykir þess
þurfa. Meginskýringin á samheldni Sjálfstæð-
ismanna er þó vafalaust vinsældir Ólafs.“
Og Jakob hefur eftir Jóhannesi Nordal, sem var
annar af tveimur aðal efnahagsráðunautum viðreisn-
arstjórnarinnar, að Ólafur „hafi vissulega getað verið
harður í horn að taka, en hann hafi verið „óvenju-
næmur fyrir því, hvernig mönnum leið í návist hans.
Ef hann særði einhvern óvart með athugasemdum
sínum, var hann fljótur að bæta úr því með einni eða
tveimur setningum.
Jóhannes sagði Ólaf hafa verið vinnuþjark, „sérlega
töluglöggur og með afbragðs gott minni.“ Og Jóhann-
es bætti við: „Hann tók allt, sem hann fjallaði um,
föstum tökum.“ Og hann sagði enn: „ég tel hann
mesta stjórnmálamann, sem ég hef átt samstarf við,
og þann stjórnmálamanninn, sem mér hefur þótt
vænst um sem manneskju.“
Lítil saga verður stór í minningunni
Mamma og amma bréfritara leigðu í nokkur ár ris-
íbúð í fallegu og elskulegu húsi, Hólavöllum, sem var
skrásett sem Suðurgata 20. Það hús átti Ingibjörg
Guðmundsdóttir, ekkja Péturs Magnússonar, banka-
stjóra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún
var falleg kona og bráðskemmtileg. Var upp um
nokkra brekku að fara á milli húsanna númer 18 og
22 við Suðurgötu. Aðgengi að Hólavöllum var ekki
síðra frá Garðastræti á milli húsa númer 45 og 43, en
hús Ólafs Thors var númer 41. Bréfritari sá Ólaf
Thors iðulega koma til og frá heimili sínu, stundum
akandi með myndarlegum sveigjum undir stýri á
snotri Buick-bifreið sinni og stundum var rölt niður á
Austurvöll til að sjá blómsveig lagðan við stall Jóns
forseta og hlýða á ræðu Ólafs Thors.
Og óvænt fékkst svo ógleymanlegt tækifæri til að
heilsa og spjalla við foringjann og goðsögnina stund-
arkorn.
Til að gera stutta sögu langa
Þannig var að Ásgeir Pétursson sýslumaður kom til
Ingibjargar móður sinnar að Hólavöllum. Ásgeir bað
strákinn, sem þar var, að hlaupa með bréf út til Ólafs
Thors, sem hann gerði glaður, nema hvað.
Ólafur kom röltandi niður stiga sinn, hnarreistur og
brattur, með vindil í hendi í sínu myndarlega húsi og
bauð strák inn og tók við bréfinu. Spurði því næst um
nafn og hverra manna hann væri og hefur sjálfsagt
ætlað að þar færi buri Péturs og Ingibjargar. Honum
var óðamála svarað að það væri Ásta amma, sem
leigði á Hólavöllum og við með og að hún hefði verið í
Miðbæjarskólanum um leið og Ólafur sjálfur, enda
jafngömul, og að Ólafur föðurafi og Lúðvík Norðdal
læknir móðurafi hefðu báðir verið á fyrsta landsfundi
Sjálfstæðisflokksins 1929 „og ég bar út Morgunblaðið
í Barmahlíðinni“.
Tók Ólafur þessari rullu glaðlega og spjallaði hlý-
lega um efni ræðustúfsins.
Þrátt fyrir nokkuð langa endursögn og að alls ekki
sé víst að þessi „leiðtogafundur“ hafi staðið nema í fá-
einar mínútur, þá hefur, allar götur síðan, þótt miklu
betra að hann fór óvænt fram heldur en ekki. Ekki
síst eins og mál áttu eftir að þróast síðar á lífsleiðinni
fyrir sendilinn.
Hitt er sjálfsagt óvarlegt að gefa sér að hinn þátt-
takandinn á þessum „heimssögulega fundi“ hafi sett
hann á minnið og er þá skammtímaminnið sennilega
einnig innifalið. En það breytir engu. Í þessu tilviki
þarf ekki tvo til lengur.
Margir og miklir fundir hafa verið sóttir um langt
skeið og stundum um langan veg, og þó vildi maður
einna síst hafa lent í að missa af þessum, sem var þó
bara yfir í næsta hús.
Morgunblaðið/Eggert
23.1. 2022 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17