Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2017, Blaðsíða 8

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2017, Blaðsíða 8
Siglfirðingablaðið8 Þrír lýstu áhuga á að leigja búið, en ákveðið var að semja við Ólaf Jóhannsson lögreglumann um leigu til fimm ára. Tók hann við búinu, húsum, landi og flestum vélum. Auk þess keypti hann 10 kýr, 100 hænur og „Hólsjeppann“, F-27. Hann bjó hins vegar fyrst og fremst með sauðfé næstu árin. Aðrir gripir voru seldir í Skagafjörð eða þeim slátrað. Íþróttahreyfingin tekur við Þegar líða tók á leigutímann komu fram hugmyndir um að bærinn afhenti íþróttahreyfingunni á Siglufirði afnot af húsum og annarri aðstöðu á staðnum fyrir sína starfsemi. Var það tengt 50 ára afmæli kaupstaðarins. Segir í skýrslu bæjarstjóra, Stefáns Friðbjarnarsonar, á bæjarstjórnarfundi 1968 frá því að forystufólk íþróttahreyfingarinnar hafi komið á hans fund og reifað hugmyndir um að „afhenda ÍBS til eignar íbúðarhúsnæði og hlöðu (og e.t.v. fleiri eignir) á jörðinni Hóll, ásamt afmörkuðu landsvæði, með það fyrir augum að ÍBS kæmi þar upp íþróttamiðstöð“. Voru ýmsir möguleikar á nýtingu eignanna ræddir (m.a. að hlaðan yrði gerð að unglingaskemmtistað). Bæjarstjóri sagði að „þar sem þörf á búrekstri á Hóli í náinni framtíð væri hverfandi, væri vel athugandi, að eignir og aðstaða á þessum stað þjónuðu á ný jákvæðum og uppbyggjandi tilgangi fyrir bæjarfélagið...“ Varð þetta að ráði, eftir að samkomulag náðist við leigjanda um að afsala sér íbúðarhúsnæði og geymsluhúsi ásamt hluta athafnasvæðis á jörðinni. Eftir að þarfir og landsvæði höfðu verið nánar skilgreind, og öðrum hlutum búsins ráðstafað annað (tjaldstæði t.d. komið upp í Leyningi) fór afhending eigna til ÍBS fram árið 1971. Hefði mjólkurhreinsistöð skipt máli? Þó að ekki hafi allar hugmyndir sem kynntar voru vegna komu íþróttanna í Hól gengið eftir (fjósið og hlaðan voru fljótlega rifin) þá varð hin nýja aðstaða lyftistöng fyrir iðkun margra íþróttagreina í firðinum. Má þar nefna golfíþróttina, sem festi með þessu rætur á staðnum. (Nú er verið að byggja nýjan golfvöll á gömlu nýtingarlandi Hóls.) En uppbygging aðstöðunnar tók tíma og hefur fækkun fólks í yngri aldurshópunum örugglega gert íþróttahreyfingunni erfiðara fyrir um þróun og rekstur en gert var ráð fyrir. Velta má fyrir sér hvort þróun Hólsbúsins hefði getað orðið með öðrum hætti en hún varð, miðað við aðstæður. Athyglisvert er að Fljótamenn og Slétthlíðingar leituðu strax árið 1947 eftir samstarfi við Siglfirðinga um byggingu „mjólkurhreinsistöðvar“ sem seldi mjólkina og meðhöndlaði samkvæmt nýjustu tækni. Var búið að gera uppkast að samkomulagi, og áhuginn hélst, en á einhverju strandaði. Líklega hefði slík mjólkurstöð Siglfirðinga og Austur-Skagfirðinga gert mjólkurframleiðslu á þessu svæði lífvænlegri lengur en raun varð á, en hætt er við að slík starfsemi hefði samt sem áður orðið fórnarlamb í þeim sameiningar- og hagræðingaraðgerðum sem efnt var til í mjólkuriðnaði landsmanna fyrir lok aldarinnar. Rekstur Hólsbúsins var samfélags- verkefni síns tíma, sem stuðlaði að fæðuöryggi og bættri heilsu íbúa Siglufjarðar. Því verkefni lauk, en húsakostur, innviðir og ræktun lands, sem Hólsbúið gekkst fyrir, hafa nýst til annarra nytsamlegra verkefna á síðari tíma. Elín Gestsdóttir og Jóhanna Eiríksdóttir í nýrri mjólkursamsölu 1963.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.