Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2017, Blaðsíða 25
25Siglfirðingablaðið
Sumir eiga sér drauma
Bragi var að mestu sjálfmenntaður
en eflaust hefði þessi fjölhæfi maður
farið í langskólanám nú á tímum.
„Foreldrar mínir höfðu bæði hæfileika
til náms en þeim stóð það ekki til
boða. Pabbi skrifaði og talaði góða
ensku. Einnig var hann vel að sér í
norsku og þýddi meðal annars úr því
máli. Í einu kvæða pabba segir að
sumir eigi sér drauma. Hann talaði þó
aldrei um drauma sína en ég held að
þeir hafi komið fram í áhugamálum
hans.“
Þörf á yfirlitssýningu
Hér hefur verið drepið á margt
það helsta í lífi og starfi Braga
Magnússonar. Þórdís Vala segir að
enn sem komið er hafi verk Braga,
ritsmíðar og teikningar, ekki verið
tekin saman í heild. Full þörf sé á því
og gera jafnframt verk hans aðgengileg
fyrir þá sem áhuga hafa.
„Pabbi var byrjaður að safna verkum
sínum saman en lauk því ekki. Hann
hafði gengið frá yfir 100 skopmyndum
í möppu og nafngreint alla þá sem þar
eru. Hann hafði einnig lesið nokkur
kvæði sín inn á segulband. Við eigum
bókina Glettur og kvæði og teikningar
eru einnig víða til hjá ættingjum og
afkomendum. Sumt af þessu hefur
birst á prenti. Við höfum líka fundið
ljóð eftir hann á lausum miðum. Það
væri við hæfi að efna til yfirlitssýningar
á verkum pabba á Siglufirði og
vonandi tekst að koma því í kring,“
segir Þórdís Vala.
Efri röð frá vinstri: Þórir Konráðsson,
Vilhjálmur Sigurðsson, Sveinbjörn
Tómasson, Björgvin Bjarnason, Jónas
Ásgeirsson, Geiri Gústa. Miðröð frá
vinstri: Jón Skaftason, Alfreð Jónsson,
Jóhannes Hjálmarsson, Jóhann Möller.
Neðsta röð frá vinstri: Bragi Magnússon,
Jón Engilbert Sigurðsson, Stefán
Skaftason.
Sundlaug Siglufjarðar, vígsla, talið
frá vinstri neðri röð: Snorri Jónsson,
Jóhannes Jónsson, Helgi Sveinsson,
Bragi Magnússon, Jósef Flóventsson,
Helgi Hallsson. Frá vinstri aftari röð:
Henning Bjarnason, Heiðar Pétursson,
Skarphéðinn Guðmundsson, (Heddi)
Arnold Bjarnason, Vigfús Guðbrandsson
og Jón Hallsson.
Ég kem af fjallinu
inn í föla birtu rökkursins
af fjallinu
úr hvítri kyrrð þagnarinnar
úr bjarma sólarinnar
inn í blátt ljósið
við bæjarlækinn
sem hjalar
og hjalar.
Eins og bæjarlækurinn
Hjalaðu við mig
hljótt eins og
bæjarlækurinn.
Leggðu svala hönd þína
á heitt enni mitt
meðan ég hverf inn í mjúkan
svartan faðm
svefnsins.
(Bragi Magnússon.
Ljóðið birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1996.)