Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2017, Blaðsíða 23
23Siglfirðingablaðið
Tormóna varð Þórdís
Þórdís Vala segir að Bragi hafi þótt
fremur óstýrilátur á unglingsárunum.
Ein var þó sú manneskja sem hann
beygði sig alltaf fyrir og hlýddi
skilyrðislaust. Það var Tormóna amma
hans. „Pabbi mat ömmu sína mikils og
vildi að ég bæri nafn hennar. Tormóna
hafði hins vegar lagt blátt bann við
því áður en hún dó að skírt yrði í
höfuðið á henni vegna þess hvað nafn
hennar var sérkennilegt. Pabbi fann
leið framhjá því sem sýnir hugkvæmni
hans. Hann hafði samband við
fræðimenn við Háskólann og fékk ráð
hjá þeim. Þeir sögðu að Tor væri sama
nafn og Þór og Móna væri svipaðrar
merkingar og dís. Þannig er nafnið
mitt Þórdís tilkomið.“
Kærleikur og virðing
Upp úr 1950 veiktist Harða af
berklum og þurfti að dveljast
langtímum saman á Kristneshæli
í Eyjafirði. Þórdís Vala segir að til
þess hafi verið tekið hvað Bragi hafi
verið umhyggjusamur í veikindum
móður hennar. „Hann fór oft að
heimsækja hana jafnt sumar sem
vetur, oft í slæmum vetrarverðum
en þá var ekki öðrum farartækjum
til að dreifa en póstbátnum. Þegar
hún var fjarri vegna veikinda sendi
hann henni bréf vikulega eða oftar.
Ég held að hann hafi skrifað henni
eitthvað á hverjum degi. Það ríkti
mikil hlýja í samskiptum þeirra alla tíð
og kærleikur og virðing. Ég minnist
þess ekki að þau hafi hækkað róminn
hvorki sín á milli eða í samskiptum
við okkur systurnar. Þau kvörtuðu
heldur aldrei yfir hlutskipti sínu þótt
mamma hefði þurft að glíma við erfið
veikindi.“
Hagyrðingur og ljóðskáld
Bragi var mjög lipur hagyrðingur og
eftir hann liggja margar lausavísur.
Einnig birtust eftir hann ljóð og
smásögur í blöðum og tímaritum. Eitt
ljóða hans, „Eins og bæjarlækurinn“,
fylgir þessari grein en það birtist í
Lesbók Morgunblaðsins.
Þórdís Vala segir að vænst þyki sér um
kvæði og þulur sem Bragi orti til eða
um dætur sínar og barnabörn. Þessi
kvæði voru gjarnan myndskreytt.
„Hann orti fallegt kvæði sem nefnist
„Mamma litla“ er hann horfði á Sirrý
leika sér að brúðu. Jón Ásgeirsson,
tónskáld og hálfbróðir pabba, samdi
lag við kvæðið og hefur það verið
sungið í útvarpið.
Þá orti hann undurfallegt kvæði til
dóttur minnar en hún heitir í höfuðið
á móður minni sem var yndisleg kona.
Kvæðið kallar hann „Vögguvísu Hörðu
litlu“. Þetta eru sex heilræðavísur og
endar hver vísa á orðunum „vertu eins
og hún amma þín...“ og svo bætir
hann við „...allra kvenna blíðust“ eða
„...allra kvenna fegurst“ allt eftir efni
hverrar vísu.
Hann samdi fallegt kvæði um Gústa
guðsmann sem nefnist „Maríuleiði“,
en það merkir að sigla góðan byr.
Hann gaf Gústa kvæðið ásamt
teikningu af bátnum Sigurvin sem
Gústi reri á.“
Bragi og Harða með dætrum sínum Systu og Sirrý. Myndin er tekin 1957 sú eina af þeim saman.