Feykir


Feykir - 07.04.2021, Blaðsíða 8

Feykir - 07.04.2021, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Finn nú í drasli mínu eftirfarandi vísu, sem mig minnir að sé eftir okkar góða vin og félaga hér áður fyrr, Hjört Gíslason. Það er betra breyskur þræll batnandi að vera, en kyrrstöðunnar kóngur sæll, sem kórónu má bera. Kannski hefur sá er orti næstu vísu verið að koma á fætur eftir góða nótt, veit því miður ekki um höfund. Brostu degi beint á mót búðu vel í haginn. Vísur góðar vekja snót verma allan daginn. Önnur vísa kemur hér, sem ég veit því miður ekki höfund að. Sendi bara kröftugt knús kátum mun það líðast þú færð kveðju þitt í hús og þakkir fyrir síðast. Lengi verður mér tamt að rifja upp í huganum vísu eftir minn góða vin, Kára frá Valadal. Einhverju sinni á kosningaári mun Kári hafa ort eftirfarandi vísur sem þá drógu dám af úrslitum í Skagafirði og þá sérstaklega á Sauðárkróki. Hulda Sigurbjörnsdóttir, ættuð frá Grófargili, var lengi búsett á Króknum og barðist hart fyrir Alþýðubandalagið í kosningum. Vikið er að henni í þessari vísu Kára. Kommar sinna klækja guldu kusu mikið rétt. Ekkert lengur er á Huldu af er fargi létt. Þegar Kári veltir fyrir sér niðurstöðu kosninganna verður þessi til: Kjöftugan ég komma sá krata óviss sigur. Íhaldið sem örmjótt strá af öfgum Framsókn digur. Einhverju sinni að loknum kosningum, og vinstri stjórn hafði verið mynduð, orti Kári: Aldrei neina færði fórn féll á lokaprófi. Verkalýðsins vesöl stjórn verri en Gylfi og Jói. Trúlega er þarna átt við Gylfa Þ. Gíslason og Jóhann Hafstein, sem þá var í forystu Sjálfstæðisflokksins. Áfram telur Kári að hægt sé að yrkja um pólitíkina og þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar klofnaði verða þessar til: Allt er klofið Ólafs lið Eysteinn burtu vikinn. Gengið sígur gapa við gömlu vinstri svikin. Einari er lífið leitt, liggur Mangi dauður. Óli Jó er ekki neitt ansi er Lúlli rauður. Vísnaþáttur 781 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Trúlega er þarna nefndur Einar Olgeirsson, sem þá mun hafa verið ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, Lúðvík var einnig þar á fleti og Magnús Kjartansson, sem þá mun hafa verið látinn. Einhverju sinni er kosningahríð hafði gengið yfir og Kára var mjög til meins gengi Framsóknarflokksins, varð þessi til: Framsókn heldur fóðursmá feyskið gamla brýnið. Leiðist mér að líta á Löngumýrar trýnið. Þegar séra Gunnar Gíslason bauð sig fram í Glaumbæjarprestakalli, þegar kosið var um sóknarprest þar, var mótframbjóðandi hans prestur að nafni Guðmundur sem þá var prestur á Barði í Fljótum og hefur sá trúlega, eftir næstu vísu að dæma, verið framsóknarmaður. Framsókn skanka flesta hristi en fljótt á hausinn skall. Gunnar hreppti, en Gvendur missti Glaumbæjarprestakall. Þorkell Jónsson frá Miðsitju starfaði í kosningum fyrir framsókn og ók meðal annars fólki á kjörstað. Fór hans starf illa fyrir brjóstið á Kára sem fékk þar yrkisefni. Frægan hefur Framsókn valið foringja í ofsóknum. Kela sem að keyrði skjalið kosninga með loforðum. Ekki tengist næsta vísa kosningum en mun ort er réttarhöld í svonefndum Baugsmálum voru nýhafin. Höfundur, okkar góði vinur og félagi hér áður fyrr, Hreiðar Karlsson. Það er ekki sama hver er hver og hversu merkilegur hann telst vera. Stóri Jón má lána sjálfum sér sem við hinir megum ekki gera. Er þessi þáttur er í smíðum er sannkallað vorveður hér á Norðurlandi og hiti nálgast 10 stig í miðjum mars. Heldur hlýtur þá að hafa farið að vænkast hagur vina Fíu frúar á Sandi sem hún yrkir svo um: Það hlýtur að fara að hlýna sögðu Hannes og drykkfelda Stína, ölið er frosið og ískalt er gosið þau suðu loks bjórana sína. Gott að enda með þessum sannleika hjá Fjallaskáldinu: Allt þó sýnist blítt og bjart blysum fyrir hvarma, innra getur manni margt megna vakið harma. Veriði þar með sæl að sinni. Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Nándin ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Ég þakka Sigríði Ólafsdóttur kærlega fyrir áskorunina og tek undir með henni. Samfélagið okkar er virkilega magnað. Ég er fullviss um að nándin skiptir hér miklu máli. Hvað er nánd? Guðbrandur Árni Ísberg gaf út bókin Í nándinni – Innlifun og umhyggja árið 2013. Nánd má lýsa sem taugafræðilegu, lífeðlislegu og tilfinningalegu ástandi, þar sem við getum verið við sjálf, sagt það sem okkur raunverulega finnst og gert það sem okkur raunverulega langar að gera. Eins og við öll vitum þá er það ekki alltaf sjálfsagt, einfalt mál. Hvað þarf til þess? Hvað getur staðið í vegi? Þegar upp er staðið eigum við margt sameiginlegt við hjarðdýrin okkar. Við höfum líka þörf fyrir að tilheyra og fylgja hópnum okkar því þar er öryggi okkar. Okkur er ekki eðlislægt að líða vel þegar við erum ein, aftengd öðrum. Hópeðlið hefur sannarlega sína kosti, en einnig galla og býður upp á flækjustig. Til dæmis getur hópdýr auðveldlega orðið að bráð félagslegra ógna og félagslegs ótta. Guðbrandur gaf út aðra bók, „Skömmin – Úr vanmætti í sjálfsöryggi“ árið 2019 en þar rekur hann tilgang og eðli skammarkerfisins – félagslega varnarkerfisins – okkar. Ég mæli eindregið með bókum hans, fyrir þann sem langar að kynnast hvað það raunverulega er að vera manneskja. Þegar hópdýrið upplifir félagslegt óöryggi og félagslegan ótta eru ýmis varnarviðbrögð í boði, sem oft snúast um að flýja hið óþægilega. Þetta er skiljanlegt en vandasamt, því við ákveðnar aðstæður viljum við jú í raun gera það sem er erfiðast að gera. Stundum viljum við gera það sem vekur upp mestu óþægindin hjá okkur af því að við vitum að það er það réttasta að gera. Ef mig langar að hjálpa vini með áfengisvanda, þá er ekki hjálplegt að rétta viðkomandi flöskuna þegar hann biður um hana. Það er um að gera að skilja orsakir og skýringar þess að einhver hegði sér á óheilbrigðan og skaðlegan hátt, en ekki réttlæta eða afsaka. Nándin og tengslin sem við búum við í þessu frábæra samfélagi okkar getur auðveldlega ýtt undir það að við forðumst. Hins vegar, ef við getum staldrað við, ef við skiljum okkar eigin eðlislægu flóttaviðbrögð, ef við þorum að ganga inn í óttann, ef við getum beitt yfirvegaðri hreinskilni og ákveðni út frá samkennd, þá þurfum við í langflestum tilfellum ekki að hafa áhyggjur af því að eyðileggja eða missa náin tengsl. Ekki ef tengslin voru náin til að byrja með. Skömmin og félagslegi óttinn sér um að forðast og fela hluti, en nándin getur leyft okkur að nálgast og mætast. Þar sem er rými fyrir að vera eins og við erum, eins ófullkomin og við getum öll verið, þar er gott samfélag. Þar sem einhver getur mætt okkur akkúrat þar sem við erum og haft orð á hlutunum eins og þeir eru, þar er virkilega gott samfélag. - Ég ætla að henda pennanum norður í dal og skora hér með á Hartmann Braga Stefánsson á Sólbakka að skrifa pistil. Sofia. MYND: EINAR RAGNAR HARALDSSON Sofia B. Krantz sálfræðingur og bóndi í Víðidalstungu 2 8 14/2021

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.