Morgunblaðið - 25.07.2022, Síða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 25. JÚLÍ 2022
Verið velkomin
í sjónmælingu
Hamraborg 10, Kópavogi, sími 554 3200
Opið virka daga 9.30–18
Jólabarnið Jólnir
Nýtt gos gerði vart við sig annan í
jólum 1965 um 900 metra suðvestur
af Surtsey. Það var eins og ás hefði
verið dreginn úr norðaustri þaðan
sem Syrtlingur gaus, í gegnum Surts-
ey og til suðvesturs að þessari þriðju
gosstöð. Hún fékk nafnið Jólnir enda
hófst gosið á jólum. Þar gaus úr
tveimur öflugum gígum og eyjan náði
fljótlega 100 metra lengd og 50 metra
breidd. Hörð vetrarveður herjuðu á
Jólni og í janúarlok hvarf hann af
yfirborðinu í miklu óveðri. Jólnir
stækkaði svo og minnkaði á víxl og í
fimmta sinn hvarf eyjan sjónum í
nokkra daga í óveðri í lok apríl 1966.
Hún reis aftur úr hafi og áður en yfir
lauk var Jólnir orðinn 570 metrar á
lengd og náði mest 62 metra hæð.
Páll Helgason stóð vaktina og
gætti þess að enginn færi á land á
nýrri eyju á undan Eyjamönnum.
Hörð vetrar-
veður í janúar
gáfu ekki mörg
færi á að stinga
niður fæti á
Jólni. Hvað þá
að sigla á litlum
bátum út að
gosstöðvunum
þar sem eyjan
var sífellt að
hverfa í hafið, birtast aftur og stækka
og minnka á víxl. Með árvekni og eit-
ilhörðum ásetningi náði Palli að fara
með Stefáni bróður sínum á bátnum
Skutlu út í Jólni og stinga stefni báts-
ins að landi á milli lægða og brælu-
daga. Eyjan var bara gljúp og laus
aska og Palli gat lítið athafnað sig í
sykurmjúkri öskunni. Goshryðjurnar
ógnvænlegar og stórhættulegar því
aðeins voru örfá skref að kötlunum
tveimur sem hömuðust eins og and-
skotinn
Óli Gränz kominn um borð
Palli kom í Jómsborg og hitti þar
fyrir Ólaf Gränz vin sinn og sagði
honum að enn væri verið að banna
mannaferðir í Surtsey og nú líka í
Jólni. Palli var með þá hugmynd að
fara út í Jólni með tíu manna tjald
sem hann var nýbúinn að kaupa í
Vosbúð. Tjaldið var frá Seglagerðinni
Ægi í Reykjavík og hann ætlaði að
kippa nokkrum klappstólum með ef
gesti bæri að garði. Það væri upplagt
að fylgjast með gosinu í Jólni í mak-
indum inni í tjaldinu og taka myndir.
Það þurfti ekki sérstaklega mikið til
að fá Óla Gränz með í slíka ferð.
Óli hafði samband við Jógvan
Hansen sem var skipstjóri á Hrafni
Sveinbjarnarsyni VE. Óli sagði
Jógvan að til stæði að taka nokkrar
myndir af gosinu og hans hlutverk
væri að lóna með þá í kringum eyna
meðan myndir væru teknar. NEI var
ekki til í orðabók Jógvans þegar Óli
Gränz bað um greiða. Hann var líka
alveg klár á því að ferðin væri ekki
bara til að taka myndir af gosinu, það
var of gott og saklaust til að vera satt
þegar Óli Gränz átti í hlut!
Þegar þeir félagar, Óli og Palli,
mættu niður á bryggju ásamt Hjálm-
ari Guðnasyni (Hjalla á Vegamótum)
og Hlöðveri Pálssyni (Hlöbba í
Þingholti) var Jógvan búinn að setja í
gang. Hann hafði boðið þremur
Færeyingum með og allt var klárt að
leggja í ’ann. Hrafn Sveinbjarnarson
sigldi út höfnina með gúmmíbát í slefi
og lestaður af græjum um það leyti
sem flestir Eyjamenn voru að koma
heim eftir langan vinnudag.
Eyjan sprakk
Eftir þriggja tíma siglingu eru þeir
komnir á gosstöðvarnar og lóna í
kringum Jólni. Þeir eru að spá hvar
sé best að taka land. Gosin í gígunum
tveimur gengu á með hryðjum og það
var mikill djöfulgangur með drunum
og vikurspýjum í allar áttir. Milli
gíganna var sprunga þvert í gegnum
eyna, eins og hún væri að sökkva inn í
sig. Gosstrókurinn breyttist í sífellu
því gígarnir hrundu saman í hverju
stoppi og gosstrókarnir beindust
alltaf í nýjar áttir þegar gos byrjaði
aftur.
Færeyingarnir voru í stýrishúsinu
á Hrafni og leist alls ekki á blikuna.
Þeir héldu höndum yfir höfuð sér og
tóku fyrir eyrun í mesta hávaðanum.
Eyjapeyjarnir voru hins vegar
uppteknir af því að finna stað til að
taka land á eyjunni, tjalda og koma
klappstólunum í land. Óli Gränz segir
svo frá:
Við sáum vík sem okkur leist vel á
og Jógvan lónar þar mjög gætilega
að. Þeir fara að gera klárt fyrir
landtöku. Þá kemur óvænt spýja úr
gosstróknum og glóandi hraun-
bomba sem fyllti víkina sem við ætl-
uðum að taka land í. Það var alveg
ljóst að ef við hefðum verið komnir í
fjöruborðið í víkinni hefðum við allir
drepist og tjaldið og klappstólarnir
komið að litlum notum.
Hausinn á Jógvan stóð út úr
glugganum á stýrishúsinu stjórn-
borðsmegin. Honum leist ekkert á
blikuna. Félagar hans frá Færeyjum
voru sestir á gólfið og biðu örlaga
sinna. Jógvan lónar með fjörunni og
loks erum við á leið í land. Við byrj-
um á því að setja upp tjaldið svo við
getum setið inni og notið þess að
fylgjast með gosinu í skjóli. Eyjan
nötrar öll undir fótum okkar og það
eru einhver ónot í okkur. Við erum
sestir inn og byrjaðir að taka myndir
út um opið á tjaldinu. Þarna sátum
við eins og greifar á klappstólunum
og gerðum óspart grín að friðlýsing-
unni á gosstöðvunum. Það var samt
engin biðröð af fólki sem vildi koma í
heimsókn. Húmor okkar náði greini-
lega ekki til allra og var alls ekki til
útflutnings.
Við erum búnir að koma okkur vel
fyrir þegar hristingurinn í eynni
eykst og drunurnar verða ærandi.
Það er allt hreinlega að fara til and-
skotans. Stór sletta skellur á tjaldinu
sem lætur undan. Allt í kring falla
gosefni og slettur úr stróknum með
gríðarlegum hávaða yfir allt svæðið
og út á sjó. Við sprettum úr stólunum
og hlaupum í þungum og heitum
vikrinum til sjávar. Yfir okkur skell-
ur heitur gosmökkurinn og drullan
sem fyllir hann sest í föt okkar og
hár. Eyjan er hreinlega að springa í
tætlur. Við náum að ýta gúmmí-
bátnum frá og stingum okkur um
borð en einhverjir lenda í sjónum.
Við sáum ekki handa okkar skil þeg-
ar við rérum lífróður eins og brjál-
aðir menn í áttina að Hrafni Svein-
bjarnarsyni. Þar tóku Færeyingarnir
á móti okkur og drösluðu okkur um
borð. Þeir voru viti sínu fjær af
hræðslu karlagreyin. Þetta var auð-
vitað algjör fífldirfska en mikið hlóg-
um við þegar við vorum allir heimtir
úr helju og sestir í lúkarinn. Það voru
auðvitað engir venjulegir menn sem
láta sér detta annað eins í hug. Við
bættum við olíuna á kabyssunni og
tíndum af okkur blautar og drullu-
skítugar spjarirnar. Þurrkuðum svo
garmana og sátum á nærbuxunum
við lúkarsborðið og sötruðum heitt,
kolsvart og margsoðið kaffið.
Það var ekkert fararsnið á Jógvani
en bátinn rak í rólegheitum rétt við
gosstöðvarnar. Óli skellti sér upp á
dekk og mætti á nærbuxunum einum
fata í stýrishúsið. Þar stóð Jógvan við
rattið en landar hans sátu á gólfinu.
Þeir ætluðu sér að bíða næsta dags
svo þeir gætu klárað að taka myndir.
Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu
og Jógvan var beðinn að setja á fulla
ferð og koma mannskapnum heim
sem fyrst.
Á Nausthamarsbryggju beið
lögreglubíllinn. Þeir voru ábúðar-
miklir lögreglumennirnir, Pétur pól
og Óskar pól í Stakkholti, og sjálfur
yfirlögregluþjónninn, Stebbi pól.
Eftir skýrslutöku á lögreglustöðinni
fór hver til síns heima að hitta eigin-
konur og börn.
Gosinu í Jólni lauk 10. ágúst og í
lok september var eyjan lítið annað
en hvalbakur sem braut yfir á fjöru
en hvarf með öllu á nokkrum vikum.
Sjónarspil náttúrunnar er svo
stórkostlegt að mannshugurinn, hvað
þá mannshöndin og tíu manna tjald
frá Seglagerðinni Ægi og klappstólar
mega sín lítils þegar eyja rís úr hafi
og hverfur á níu mánuðum.
„Eyjan er hreinlega að springa í tætlur …“
Bókarkafli Surtseyjargosið sem hófst 14. nóvember 1963 hafði mikil áhrif á Vestmannaeyinga eins og rakið er í bókinni Strand í
gini gígsins, en í henni er svaðilförum tengdum Surtseyjareldum lýst, til dæmis þegar ungir Eyjamenn horfðust í augu við dauð-
ann í Surtsey, Syrtlingi og Jólni þegar þeir stigu þar á land fyrstir Íslendinga. Ásmundur Friðriksson tók bókina saman, en í henni
rifjar Friðrik Ólafur Guðjónsson frá Landamótum einnig upp minningar um fjölskrúðugt mannlíf í Vestmannaeyjum fyrri ára.
Ljósmynd/Gísli Vigfússon
Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson
Gos Tilkomumikið gosið í Jólni sem
hófst annan í jólum 1965. Jólnir átti
erfitt uppdráttar og hvarf í óveðrum.
Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson
Svaðilför farin Félagarnir Hjálmar Guðnason (Hjalli á Vegamótum) og
Ólafur Gränz tjölduðu með Páli Helgasyni í Jólni en það fór ekki vel.
Kort/Guðmundur Ó. Ingvarsson
Sjónarspil Afkvæmi Surtseyjarelda urðu alls fjögur: Surtsey, Surtla, sem
aldrei náði að verða eyja, Syrtlingur og Jólnir, sem hvarf á níu mánuðum.
Eldar Skagaröst KE við
Jólni skömmu áður en gos-
inu lauk 10. ágúst 1966.