Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2022, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2022, Blaðsíða 12
STRÍÐ Í EVRÓPU 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12.6. 2022 S ótsvartur reykur stígur til himins í fjarska og stórskotalið úkraínska hersins þrumar. Við nálgumst nyrsta hluta Saltivka, úthverfis borgarinnar Karkív, sem er önnur stærsta borg Úkraínu, um 40 km frá rússnesku landamærunum. Fyrir stríð bjuggu í Saltivka um 700.000 manns. Brunnar og hálfhrundar byggingar blasa við hvert sem litið er. Á eftirlitsstöð sýni ég blaða- mannaskilríki okkar og spyr hermann hvað sé að brenna. „Þeir hæfðu olíubirgðastöð áðan, en við erum að svara fyrir okkur.“ Stórskotaliðið þrumar á ný og við fikrum okkur áfram á bílnum okkar eftir vegi sem er þakinn gler- brotum og öllu því braki sem sprengingar þyrla upp. Þar sem húsveggir hafa hrunið má greina innbú fólks, bókahillur, rúm, borð og stóla. Við suma stigaganga hef- ur verið málað stórum stöfum: „Fólk“, í þeirri veiku von að íbúðablokkum yrði hlíft við árásum. Allar byggingar í hverfinu virðast hafa orðið fyrir sprengjuskaða. Við keyrum fram hjá bifreið sem á hefur verið málað: „Var- úð. Sprengjuárásir.“ Á annarri bifreið skammt frá stendur: „Óbreyttum borgurum óheimill aðgangur.“ Markmið okkar er að taka viðtal við fólk sem aldrei flúði Saltivka, fólk sem ákvað að hafast við í íbúðum sín- um eða kjöllurum þrátt fyrir umsátur rússneska hers- ins. Fólk sem hefur búið hér í þrjá mánuði án vatns í íbúðum, rafmagns og gass. Vatn er sótt í brunna og eldiviður í nálæga skóga. Matur er eldaður á heimatilbúnum glóðarkerum úr múrsteinum. Hjálparsveitir og úkraínski herinn sjá íbú- unum fyrir matvælum sem eru aðallega hjálparaðstoð frá Evrópu. Flestir hafast við í kjöllurum á nóttunni og þegar sprengjuárásir hefjast á daginn. Kjallararnir eru yfirleitt nöturlegir, kaldir og mjög rakir. Það er lágt til lofts og út um allt eru vatns- og rafmagnsleiðslur Sjálf mun ég taka mér vélbyssu í hönd Við nemum staðar fyrir framan íbúðablokk þar sem vegurinn endar í nyrsta hluta Saltivka. Ég sé konu með barminn fullan af eldiviði. Hún spyr mig hvert sé erindi okkar. Ég segi henni að við séum blaðamenn frá Íslandi. „Frá Íslandi? Þið komið langt að. Eruð þið ekki svöng? Við erum að sjóða egg og kjúklingabaunir.“ Konan heit- ir Tetjana og hefur verið ásamt eiginmanni sínum, Leo- níd, í Saltivka síðan stríðið hófst. Það kraumar í tveim pottum yfir eldstæði fyrir fram- an níu hæða íbúðablokk. Langdreginn sprengjugnýr heyrist í fjarska og Tetjana segir mér að þetta séu Grad-flaugar úr eldflaugaskotpöllum úkraínska hersins. Tetjana segist nú geta greint á milli flughersárása, loft- varnarskota, fallbyssna, sprengjuvarpa og eldflauga- skotpalla. „Aðalatriðið er að ef þú heyrir blístur þá eru sprengjur rússneska hersins að falla nálægt þér og þú hefur aðeins 2-3 sekúndur til að kasta þér til jarðar eða leita skjóls.“ Tetjana sýnir okkur sprengjuhylki úr eld- flaug rússneska hersins, einni af mörgum, sem féll ná- lægt íbúðablokkinni fyrir þrem vikum. Höggbylgjan sem fylgdi sprengdi alla glugga í blokkinni. Tetjana er 64 ára og vann sem sætabrauðsbakari áður en hún fór á eftirlaun. Hún og eiginmaður henn- ar, Leoníd, eiga þrjú uppkomin börn og sex barna- börn. Þau hafa hafst við í kjallara íbúðablokkarinnar frá fyrstu dögum stríðsins. Hún sýnir okkur kjall- arann, sem er lítur merkilega vel út miðað við þá sem við höfum séð. Það eru teppi á steyptum gólfum og tveir beddar með ábreiðum. Útvarpstæki hangir á vegg, þaðan sem fólk fékk einna helst fréttir. „30 manns höfðust við hérna í upphafi stríðs“, segir Tetj- ana mér, „en það flúðu allir næstu daga. Við höfum bú- ið hérna í 34 ár, en ég sá þennan kjallara fyrst þegar við leituðum skjóls hér þegar árásirnar hófust. Fyrst misstum við gasið, síðan vatnið og því næst rafmagn- ið.“ Helsta vandamálið er skortur á rafmagni til að hlaða farsíma. Vatn er hægt að sækja í brunn skammt frá og það er skógur í kring og því nóg af eldiviði til að elda heitan mat. „Við höfum nægan mat. Niðursoðið kjöt, bókhveiti, kæfu og súpur. Við eldum þetta utandyra á milli þess sem við hlaupum í kjallarann þegar sprengjuárásir hefj- ast.“ Hvað gerir fólk í kjöllurum undir sprengjuregni? spyr ég. „Við þegjum, hlustum og bíðum. Þögnina óttast ég mest.“ Af hverju þögnina? „Vegna þess að þá veistu ekki hvar næstu sprengjur munu falla, hugsanlega munu þær falla á þig.“ Við óttuðumst öllum stundum að íbúðablokkin myndi hrynja og við græfumst undir. Ég spyr af hverju þau hjónin leituðu ekki skjóls í neðanjarðarlestakerfi Karkív, eins og þúsundir annarra gerðu. „Þar er kalt gólf, hundruð manna að hírast, slæm aðstaða í alla staði og eilífur dragsúgur.“ Af hverju flúð- uð þið ekki til annars Evrópulands? „Börnin okkar og barnabörn flúðu til Póllands. Það var örtröð á brautar- stöðinni, bið eftir plássi í lestum tók nokkra daga. Þau sögðu okkur að það væru 300 manns í lestarvögnum sem hugsaðir eru fyrir 45 manns. Ferðin til Póllands tók 36 tíma. Síðan kostar það líka sitt að búa þar. Við viljum ekki yfirgefa okkar heimili og þvælast um útlönd.“ Ég spyr Tetjönu hvernig hugarfar hennar hafi breyst síðan stríðið hófst. Hún segist vera mun beinskeyttari og þoli ekki lengur neitt bull. Áður hafi hún látið það sem vind um eyru þjóta, en ekki lengur. „Áður fyrr blót- aði ég ekki, en núna geri ég það beint í andlitið á fólki ef það byrjar að bulla. Sérstaklega gagnvart fólki í Rúss- landi sem þykist vita hvernig við eigum að lifa.“ Hvernig leið ykkur 24. febrúar þegar árásin á Úkra- ínu hófst? spyr ég: „Við trúðum því einfaldlega ekki fram á síðustu stundu að Rússland myndi gera árás. Við heyrðum fyrst um innrásina í fréttum og horfðum bara hvort á annað í fullkomnu losti.“ Hvernig var viðhorfið gagnvart Rússlandi fyrir stríð og hvernig er það nú, spyr ég? „Við höfðum ekkert út á Rússland að setja, nema út af Krímskaga og Donbas. Við tölum sjálf rússnesku þótt við séum Úkraínumenn. Nú hötum við Rússland og Rússa. Við höfum sætt linnu- lausum árásum í þrjá mánuði og höfumst við í kjallara. Fullt af fólki í Rússlandi styður stríðið gegn okkur. Það ætti sjálft að reyna að búa í kjöllurum mánuðum saman og vera á flótta víðs vegar um Rússland.“ Hvaða ráð hefurðu í svona erfiðum aðstæðum? spyr ég: „Halda höfðinu köldu og forðast móðursýki. Það er hægt að komast í gegnum allt með allsgáðum huga.“ Tetjana segist hafa heyrt ýmsar spár um þróun stríðsins, en ef þetta muni halda lengi áfram þá taki hún sér vélbyssu í hönd og fari sjálf á vígstöðvarnar. Það er ekki hægt að halda áfram að lifa eins og þau lifa núna. Við kveðjum Tetjönu og höldum ferð okkar áfram um brunarústir Saltivka. Við sjáum hund og kött sem fylgja bílnum, sem keyrir hægt eftir holóttri götunni. Við stoppum og stígum út úr bílnum. Dýrin koma að okkur mjálmandi og veinandi. Kötturinn hljúfrar sig að okkur. Þetta eru greinilega gæludýr sem hafa verið skilin eftir. Margir flúðu með gæludýrum sínum, en mörg voru skil- in eftir. Við gefum þeim dýrafóður sem við höfðum tekið með, vitandi um ástandið á dýrum á stríðssvæðum. Dýr- in eru hungruð og éta fóðrið af áfergju. Við höldum ferð okkar áfram. Við erum að leita að fólki. Fyrir skjótan sigur! Dýrð sé Úkraínu! Á götuhorni sjáum við reyk fyrir framan blokk sem er að hálfu brunnin. Fyrir framan blokkina er stór djúpur gígur. Ég spyr mann sem stendur vígreifur með exi fyr- ir framan hana hvenær þessi sprengja hafi fallið. „Sprengja? Við erum að búa til sundlaug hérna,“ segir hann og brosir. Vladyslav heitir maðurinn og er að höggva eldivið. Það kraumar í potti og pönnu á glóðarkeri. Hann er að elda borsj og býður okkur að snæða með sér. Vladislav er 52 ára og vann fyrir stríð sem vörubílstjóri. Hann segir okkur að hann hafi ákveðið að vera áfram í íbúð Þögnina óttast ég mest Saltivka nefnist úthverfi í Karkív, sem hefur orðið illa úti í árásum Rússa. Fréttaritari Morgunblaðsins og ljósmyndari voru þar á ferð og ræddu við nokkra íbúa sem hafa látið þar fyrirberast frá því að stríðið hófst, þrátt fyrir stöðugar hremmingar og skort í skothríð og sprengjuregni. Texti: Jón Gauti Jóhannesson Myndir: Oksana Jóhannesson Tetjana „Aðalatriðið er að ef þú heyrir blístur þá eru sprengjur rússneska hersins að falla nálægt þér og þú hefur aðeins 2-3 sekúndur til að kasta þér til jarðar eða leita skjóls.“ Vladislav „Sprengja? Við erum að búa til sundlaug hérna.“

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.