Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.07.2022, Page 10
VIÐTAL
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17.7. 2022
Komist ég ekki út að hlaupa að minnsta kosti einu sinni í viku
verð ég alveg ómögulegur.“
Hann segir ljómandi gott að hlaupa í Skerjafirðinum en einn-
ig yfir hverfalínur. Þá skiptir veðrið hann engu máli. „Ég elska
að hlaupa á veturna – helst í sem verstu veðri.“
Fjölskyldan er á leið til Noregs í frí og Úlfur hlakkar til að
taka hlaupaskóna fram þar. „Ég reyni alltaf að hlaupa á ferð-
um mínum erlendis; maður kynnist stöðunum miklu betur
þannig.“
Hann hefur haldið góðum dampi síðan hann byrjaði og
spreytti sig nýlega á hálfmaraþoni í Miðnæturhlaupi Suzuki.
„Ég hafði það af,“ upplýsir hann stoltur. „En það var ekki mik-
ill afgangur; ég var alveg á síðustu dropunum þegar ég kom í
mark. Þetta er að vísu erfiðara hlaup en Reykjavíkurmaraþon-
ið, þrír/fjórðu hlutar þess eru upp í móti, þannig að fyrst ég
komst í gegnum það þá ætti ég að lifa Reykjavíkurmaraþonið
af.“
Ekki í kappi við klukkuna
– Hefurðu sett þér markmið varðandi tíma?
„Nei, ég hleyp aldrei í kappi við klukkuna – alla vega ekki
enn þá. Það þykir ágætt að hlaupa hálfmaraþon undir tveimur
tímum. Ég yrði mjög sáttur við það en veit ekki hvort ég næ
því.“
Úlfur hleypur það reglulega að ekki hefur verið um sér-
stakan undirbúning fyrir hálfmaraþonið að ræða en hann býst
fastlega við að þurfa að búa sig betur undir sjálft maraþonið að
ári. Þá þurfi hann að æfa meira og jafnvel huga betur að mat-
aræðinu. „Þetta hefur ekki gengið svo langt enn þá en fyrir
heilt maraþon þarf maður ábyggilega að huga að fleiri þáttum.“
Innblásturinn kemur víða að og Úlfur nefnir japanska rithöf-
undinn Haruki Murakami og breska pönktónlistarmanninn Joe
Strummer úr The Clash sem dæmi. Ég verð að viðurkenna að
ég sá þann síðarnefnda ekki fyrir.
„Murakami skrifaði auðvitað bókina Það sem ég tala um þeg-
ar ég tala um hlaup og í hana hef ég leitað. Ég er til dæmis
mjög hrifinn af mataræði hans en hann fór að borða eingöngu
fisk og grænmeti. Ætli Strummer sé hins vegar ekki ólíklegasti
maraþonhlaupari sögunnar. Það var einhver auglýsingarbrella
hjá umboðsmanni The Clash að láta hann hverfa á sínum tíma
en Strummer fór alla leið með það og fór raunverulega í felur.
Búið var að ráða einkaspæjara til að finna hann, en á meðan
hann var í felum tók hann sig til og hljóp í Parísarmaraþoninu,
án þess að nokkur tæki eftir því.“
Strummer var víst frambærilegur hlaupari enda þótt hann
lifði ekki endilega heilsusamlegasta lífi í heimi. Úlfur veit þó
ekki með herkænskuna fyrir hlaup. „Hann hvíldi víst í mánuð á
undan og drakk svo 12 stóra bjóra kvöldið fyrir hlaup. Það
myndi ekki virka fyrir mig.“
Hann brosir.
Born to Run bregst ekki
Sjálfur treystir Úlfur frekar á tónlistina til að reka sig áfram.
„Sem starfandi tónlistarmaður þá hef ég ekki mikinn tíma til að
hlusta á annað en það sem ég er að fást við sjálfur. Þannig að
það er kærkomið að geta sett allt frá þungarokki yfir í klassík á
meðan ég er úti að hlaupa. Playlistinn minn er alltaf á góðu
tempói og það er nauðsynlegt að vera með almennilegan
bassa.“
– Geturðu nefnt mér dæmi um lag sem steinliggur?
„Born to Run með Bruce Springsteen. Það virkar alltaf mjög
vel enda ofboðsleg orka í því lagi. Ég reyni alltaf að hlusta á
það á lokasprettinum og helst þannig að saxófónsólóið kikki inn
akkúrat þegar ég fer yfir endalínuna.“
Úlfur spilar sjálfur á saxófón og skorað hefur verið á hann að
taka sjálfur umrætt sóló þegar hann hleypur í mark í Reykja-
víkurmaraþoninu. „Fari ég yfir milljón króna markið er sjálf-
sagt að verða við því,“ segir hann. „Verði þá eitthvert loft eftir í
lungunum!“
Knocking on Heaven’s Door með Bob Dylan er annað ómiss-
andi lag, þegar endorfínvíman hellist yfir Úlf eftir hlaup. „Til
að byrja með hlustaði ég líka á lög eins og Run to the Hills með
Iron Maiden og þemalagið úr Top Gun og þjálfunartónlistina
úr Rocky. En maður fær fljótt algjört ógeð á svoleiðis djóki.“
Leit upp til stóra bróður
Kristján Eldjárn var elstur fimm sona hjónanna Unnar Ólafs-
dóttur og Þórarins Eldjárns, fæddur 16. júní 1972. Eldjárn,
eins og vinir og vandamenn kölluðu hann, vakti ungur athygli
fyrir gítarleik sinn og náði að koma miklu í verk á stuttri ævi.
Úlfur er fjórum árum yngri og leit mikið upp til stóra bróður
síns. „Fyrst við erum að tala um íþróttir þá var hann sá eini
okkar bræðra sem sýndi einhverja viðleitni á þeim vettvangi.
Eldjárn var góður í fótbolta en hætti því alveg þegar tónlistin
tók alfarið við. Það liggur við að hann hafi fæðst með gítarinn.
Hann hafði mikil áhrif á mig og á stóran þátt í því að ég lagði
tónlistina fyrir mig; við bræður vorum raunar lengi vel sam-
ferða á þeim vettvangi. Vorum á svipuðum tíma í FÍH, ég að
læra á saxófón hjá Sigurði Flosasyni og Eldjárn á gítar hjá
Hilmari Jenssyni. Einn veturinn skiptum við meira að segja
um kennara.“
Úlfur segir Eldjárn hafa ákveðið mjög snemma að verða tón-
listarmaður sem hann gerði svo sjálfur síðar. Þar áttu þeir
bræður fyrirmynd í föður sínum sem alla tíð hefur starfað sjálf-
stætt að sinni ritlist. „Við áttuðum okkur ungir á því að þetta
væri hægt.“
– Hvernig lifir maður með því að missa bróður sinn svona
ungan?
„Það tók langan tíma að átta sig á fráfalli Eldjárns og ná ut-
an um tilfinningar sínar. Hvað þetta væri ósanngjarnt og allt
það. En það býr margt fallegt í sorginni líka. Núna, tuttugu ár-
um síðar, er maður að komast á þann stað að hugsa meira um
það hver hann var en hvað kom fyrir hann. Eldjárn hefur alltaf
haft sterka nærveru gegnum minninguna og það færir okkur
fjölskyldu hans líka styrk að geta haldið minningu hans á lofti,
sérstaklega gegnum sjóðinn. Við höfum alla tíð talað mikið um
hann og ég segi til dæmis mínum börnum frá honum nánast
eins og að hann sé á lífi. Eldjárn var mikill leiðtogi í sér, ætt-
rækinn og vinur vina sinna. Var góður að halda tengingu við þá
sem honum þótti vænt um. Maður er alltaf með hann í huga og
spyr sig í hinum ýmsu aðstæðum: Hvað hefði honum fundist?
Ég tek það samtal reglulega við hann.“
Hann þagnar stutta stund.
„Það er auðvitað blessun í þessu líka og sjálfur er ég þakk-
látur fyrir hvert ár sem ég fæ og öll mín tækifæri í þessu lífi.
Þau eru ekki sjálfgefin. Það er undarlegt til þess að hugsa að
núna er ég orðinn miklu eldri en Eldjárn var þegar hann dó.
Meira að segja Halldór, örverpið í fjölskyldunni, er orðinn
eldri.“
Var mikill húmoristi
Úlfur segir Eldjárn hafa verið mikinn húmorista og það lifi
sterkt í þeim bræðrum en Ari bróðir þeirra er einn ástsælasti
uppistandari og grínisti landsins. „Eldjárn hafði mjög beittan
húmor og það hafði áhrif á okkur alla. Ég veit að Ari lítur svo á
að hann hafi verið í læri hjá honum. Þetta er ákveðinn andi sem
maður hefur haldið í.“
Það á vitaskuld við um tónlistina líka. „Eldjárn var mjög víð-
sýnn tónlistarmaður og gaman hefði verið að sjá í hvaða áttir
hann hefði farið. Sjálfur hef ég fylgt því eftir og verið óhrædd-
ur að hugsa út fyrir rammann í minni tónlistarsköpun, taka
áhættu og fara jafnvel út í hreina ævintýramennsku. Það á við
um Halldór bróður okkar líka en hann starfar einnig við tónlist.
Fátt er skemmtilegra en að skuldbinda sig til að gera hluti sem
maður er ekki viss um að maður ráði við. Með þessu finnst mér
ég ekki bara vera að láta mína drauma rætast, heldur einnig
drauma Eldjárns.“
– Hvaðan kemur öll þessi tónlist í ykkur bræðrum?
„Úr báðum ættum. Móðuramma okkar, Anna Sigríður
Björnsdóttir, kenndi á píanó og móðurbróðir okkar, Kjartan
Ólafsson, er tónskáld. Við lærðum mikið af honum. Pabbi gefur
sig ekki út fyrir að vera tónlistarmaður en rekur þessa ást á
tónlist til Svarfaðardals, þar sem afi minn, Kristján Eldjárn
forseti, ólst upp en út frá honum og Hirti bróður hans, bónda á
Tjörn, eru margir tónlistarmenn komnir. Má þar nefna Þormóð
Dagsson, Guðlaug Jón Árnason sem kallar sig Bony Man, Örn
og Ösp Eldjárn og fleiri. Það er merkilegt hvernig þetta liggur
í ættum. Ekki bara tónlistin, heldur líka þrjóskan og ástríðan.“
Aristókrasía, Apparat og lyftur
– Hvað ertu sjálfur að sýsla núna?
„Sitt af hverju. Ég er til dæmis að koma með nýtt elektrón-
ískt efni undir merkjum hliðarverkefnis míns, Aristókrasíu.
Mun frumflytja það á Extreme Chill-hátíðinni í haust en hún er
í miklum vexti og orðin algjör suðupottur raftónlistar. Það ger-
ir manni kleift að koma fram með svona tónlist. Fyrst þegar ég
kom fram undir þessum merkjum var þetta meira blanda af
raftónlist, kvikmyndatónlist og klassík en núna er þetta meira
elektrónískt og dansvænt og undir sterkum áhrifum frá sen-
unni eins og hún var fyrir tuttugu árum, Aphex Twin, Boards
of Canada og fleirum. Það var ótrúlegt tímabil. Ég þarf að fara
að koma út síngli.“
Gamla bandið hans Úlfs, Apparat Organ Quartet, mun svo
koma saman eftir langt hlé og halda upp á tuttugu ára afmæli
fyrri plötunnar sinnar, sem bar nafn sveitarinnar, á tónleikum í
Tónabíói 26. október. „Það verður mjög virðuleg stund enda
fyrstu sitjandi tónleikarnir sem við höldum á Íslandi. Hér áður
vorum við meira á NASA, í Listasafni Íslands og slíkum stöð-
um með standandi gestum en ég er sannfærður um að stíf sitj-
andi stemning fari okkur líka vel.“
Hann brosir.
Loks nefnir Úlfur áhugavert verkefni sem er dúettinn Saxi
og Sachsi, eins konar Skafti og Skapti tónlistarinnar. „Með mér
þarna er tvífari minn, Eiríkur Stephensen; við lítum nánast
eins út.“ Þeir félagar verða á faraldsfæti í miðbæ Reykjavíkur í
ágúst og munu leika lifandi lyftutónlist fyrir gesti og gangandi í
hinum ýmsu lyftum á svæðinu. Fræg saxófónskotin lög eins
Smooth Operator og Baker Street.
Nei, þetta er ekki grín! Hér er Facebook-síða því til staðfest-
ingar:
https://www.facebook.com/Saxi-Sachsi-104619185659395
Heita má á Úlf vegna hálfmaraþonsins á slóðinni: https://
www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/2960-ulfur-eldjarn.
Úlfur Eldjárn hefur alla tíð starfað
við tónlist og kann hvergi betur
við sig en við slaghörpuna.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Morgunblaðið/ÞÖK
Fimm voru í Apparat Organ Quartet árið 2005: Jóhann
heitinn Jóhannsson, Hörður Bragason, Arnar Geir
Ómarsson, Sighvatur Ómar Kristinsson og Úlfur Eldjárn.