Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2015, Síða 19

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2015, Síða 19
Sjómannablaðið Víkingur – 19 Það var því sannkölluð himnasending þegar varðbáturinn Óðinn birtist fyrir austan og tóku varðskipsmenn þegar til óspilltra málanna við að sökkva duflunum og höfðu sannarlega í nógu að snúast. Þetta var eins og að sigla í berjaskyri; einn daginn náðu þeir að sökkva 26 duflum, sem var met, og í annað sinn réðust þeir að 18 duflum sem voru á innan við einnar fermílu svæði. En þetta var engan veginn hættulaust. Stundum sprungu dufl- in í stað þess að hverfa í djúpið og sprengjubrotum rigndi yfir varðskipsmenn. Þegar þeir vildu fá greidda áhættuþóknun fyrir þessa iðju sagði ríkisvaldið nei og sneri þá Óðinn stefni suður á bóginn. Þetta var í desember 1941. Ekki löngu síðar var vélbáturinn Helga frá Akureyri á slóðinni fyrir austan en vandamálið sem skipstjóri hennar stóð frammi fyrir var að hann átti annars vegar að færa flotanum á Hornafirði nauðsynjar en hins vegar að eyða duflum og skildi sá starfi sitja fyrir hinum. Þetta varð þó illa samrýmt þar sem Helga var stund- um í flutningum þegar tilkynning barst um tundurdufl og gat því ekki sinnt kallinu fyrr en eftir jafnvel einhverja daga. Senditæki innsigluð Fleiri hættur steðjuðu að íslenskum sjómönnum. Bretar gengu hart fram gagnvart flotanum, ótrúlega hart, sögðu sumir. „Það var óverðskulduð tortryggni af hálfu Breta í okkar garð,“ fullyrti aflaskipstjórinn mikli, Sigurjón Einarsson á Garðari, „sem réð því, að þeir óðu um borð í íslenzk skip og rifu úr þeim loft- skeytatækin.“ Og þegar fréttist að breskir hermenn hefðu farið um borð í tiltekinn togara og fjarlægt úr honum björgunarbát- ana, sem þóttu víst grunsamlega stórir, „fannst mörgum, að allt þetta framferði jaðraði við geðbilun, svo glórulausar voru þessar aðgerðir“, rifjaði Sigurjón upp löngu síðar.2 Að vísu skal þess getið að aðfarir Bretanna, en Sigurjón er væntanlega að vísa þess þegar þeir í september 1940 fjarlægðu loftskeytatækin úr íslenskum togurum í Fleetwood, áttu sér skýr- ingar. Skömmu áður höfðu tveir íslenskir loftskeytamenn verið að ræða saman þar sem þeir sigldu á sitt hvorum togaranum um Írlandshaf. Sagði þá annar: „Sástu þennan gráa dreka sem var að fara norður úr þarna? Mikið svakalega er hann stór þessi. Hann er frá Vesturheimi.“3 Svona mátti ekki tala á stríðstímum. Þótt Bretunum væri mikið niðri fyrir, enda áttu þeir í styrjöld og fóru halloka, sáu þeir engu að síður auman á íslensku sjó- mönnunum og skiluðu tækjunum. En ekki án skilyrða. Framveg- is urðu öll senditæki í skipum og bátum að vera innsigluð og mátti ekki nota þau nema í neyð. Þá urðu skipin að vera myrkv- uð þegar þau sigldu yfir hafið og við Englandsstrendur. Einnig var slökkt á vitum og aðrir voru ljóslitlir. Útsending veðurfrétta í útvarpi var bönnuð og varð engu þar um hnikað öll stríðsárin, sama hvað íslensk yfirvöld reyndu Öðru máli gegndi um vitana. Á þeim var slökkt í byrjun her- náms en síðar tókst að sannfæra hernámsstjórnina um mikilvægi þess að á þeim logaði ljós. Að vísu fékkst ekki leyfi til að kveikja á öllum aftur en mörgum þó. Og það var nokkur galli á gjöf Njarðar að sjómenn máttu alltaf eiga von á að slökkt væri á þeim og það án nokkurrar aðvörunar. Breyttust í manndrápsdalla En ekki dugði ekki að heyja eingöngu varnarbaráttu í þessum anda. Stríðinu fylgdi nýr voði af mannavöldum. Hvernig áttu skipin að verjast árásum? Einhvernvegin þurfti að gera stýrishús og loftskeytaklefann skotheldan. Um það voru menn sammála. 2 Sigurjón Einarsson: Sigurjón á Garðari, Reykjavík 1969, bls. 194. 3 Guðjón Friðriksson: Togarasaga Magnúsar Runólfssonar skipstjóra, Reykjavík 1983, bls. 141. En hvernig? Reynt hafði verið að steypa ofan á brúarþakið og stálklæða brúna en við það raskaðist siglingarhæfni togaranna verulega. Skipstjórinn á Júpiter, Bjarni Ingimarsson, var ekkert að skafa utan af því: „Skipið var alls ekki sjófært.“ Sigurjón á Garðari tók í sama streng: „Þegar komið var inn á Önundarfjörð, fékk steypan að fjúka af brúarþakinu. Við vildum ekki láta hvolfa undir okkur með vanhugsuðum búnaði“.4 Nú veltu menn fyrir sér öðrum ráðum. Var ekki ráð að fela Skipaskoðun ríkisins að kafa ofan í málið. Hugmyndir voru skeggræddar: Voru til dæmis uppblásin björgunarvesti betri en flothringirnir sem flotinn notaði? Mátti ef til vill gera litla björg- unarfleka úr korki er hentuðu vélbátaflotanum. Og hvernig væri nú að gera sjómönnum það að skyldu að kunna að synda? Svo er líka óþolandi hvernig brugðist er við sjóslysum hér við land, benti Vestfirðingurinn Arngrímur Fr. Bjarnason á. Í Bret- landi er haldið sjópróf „en hér á landi er það svo, að látin er nægja samhljóða skýrsla yfirmanna eða útdráttur úr dagbók.“ Svo voru settar hríðskotabyssur í togarana, þó aðeins ein í hvern. Það er kannski langsótt en ef til vill hefur þessi minning um vopnaða íslenska togara kveikt með bóndanum og alþingis- manninum, Pétri Ottesen, þá hugmynd hvort ekki væri hægt að skylda skipverja, er sigldu fram á tundurdufl, til að skjóta þau niður. Þetta var sumarið 1945, stríðið var á enda en tund- urduflahættan enn fyrir hendi. 4 Ásgeir Jakobsson: Sagan gleymir engum, Sjómennskuþættir, án útgáfustaðar 1989, bls. 14; Sigurjón Einarsson: Sigurjón á Garðari, bls. 186. Óvenjumikið af rekduflum hefur verið nú undanfarið við Austurland. Fólk í bæjum á ströndinni hefur orðið að flýja þaðan vegna sprenginga. Hafa 10-20 tundurdufl sprungið þar í flæðarmálinu. Tvö skip, Óðinn og brezkt herskip eru nú við eyðilegg- ingu tundurdufla þar eystra. Undanfarið hefur verið suðaustan stormur við Austurland og því verið óvenjumikið um tundurdufl á reki og hafa milli 20-30 dufl rekið þar á land. Fyrir síðustu helgi sprakk tund- urdufl í fjörunni hjá Hrolllaugsstöðum á Langanesi, en sá bær stendur nálægt sjó. Við sprenginguna brotnuðu allar rúður í bænum, auk þess, sem hann skemmdist á annan hátt og fjárhús á túninu hrundu, ennfremur þeyttist mikið af grjóti úr fjörunni og upp á túnið. Fólkið flýði allt úr bænum og var skammt komið, þegar tvær sprengingar urðu aftur. Mun fólk hafa flúið fleiri bæi þar eystra. Er talið að 10-20 tundurdufl hafi sprungið þar við land undanfarna daga. Tvö skip eru nú við Austfirði að eyði- leggja tundurdufl, og auk þess starfar enskur sérfræðingur að því að eyðileggja þau dufl, sem á land hafa rekið. Skip hafa verið vöruð við því að sigla í dimmviðri og að næturlagi á öllu svæðinu frá Langanesi til Hornafjarðar. Nýtt Dagblað 19. nóvember 1941. Fólk á Austurlandi flýr heimili sín vegna tundurdufla- sprenginga

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.