Austurglugginn - 15.04.2021, Blaðsíða 7
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 15. apríl Nemendaskýrslur finnast
Goddur hefur undanfarið hálft
annað ár verið á rannsóknarstyrk
hjá Rannís við m.a. að kortleggja
feril Stefáns og áhrif hans á myndlist
og hönnun hérlendis frá aldamótum
1900 og langt fram á öldina.
„Fyrir tilviljun komumst við
að því að Stefán hélt nákvæmar
nemendaskýrslur, ekki bara í eigin
skóla, heldur einnig hinum tveimur
sem hann kenndi við,“ segir Goddur
og bætir því við að þar sé að finna
ýmis athyglisverð nöfn.
Meðal þeirra sem lærðu hjá Stefáni
og urðu síðar landsþekktir listamenn,
og finna má í nemendaskýrslunum,
eru Gunnlaugur Blöndal, Jóhannes
Sveinsson (Kjarval), Jón Engilberts,
Sigríður Zoega, Ósvaldur Knudsen,
Guðjón Samúelsson síðar
húsameistari ríkisins, Ríkarður
Jónsson og Guðmundur frá Miðdal
faðir Errós.
„Þetta æxlaðist svo þannig að
Ríkarður Jónsson, nemandi Stefáns,
hefur alltaf verið talinn helsti
útskurðarmeistarinn hérlendis á
síðustu öld, einkum vegna verka hans
í kringum Alþingishátíðina 1930,“
segir Goddur. „Þegar sú hátíð er
haldin var tæpur áratugur frá láti
Stefáns þannig að hann og orðstír
hans datt einhvern veginn á milli
þilja.“
Líður best á Austfjörðum
Goddur hefur dvalið árlega á
Austfjörðum undanfarna áratugi.
Hann orðar þetta þannig að hann
sé fæddur fyrir norðan, ættaður að
vestan, búi fyrir sunnan en árið sé
ónýtt ef hann eyði ekki hluta af því
fyrir austan þar sem honum líði best.
Meðal tengsla Godds við Austfirði
er LungA skólinn en hann hefur
verið viðloðandi starfsemi hans
og LungA hátíðarinnar nánast frá
upphafi fyrir tveimur áratugum
síðan.
Goddur er fæddur á Akureyri og
ólst þar upp. Hann segir að báðir
foreldrar sínir séu Vestfirðingar sem
fluttust til Akureyrar.
„Ég kynntist lítið öðrum krökkum
á Akureyri nema þeim sem áttu
einnig foreldra að vestan. Allar
heimsóknir á Akureyri voru til
annara fjölskyldna eða einstaklinga
frá Vestfjörðum,“ segir Goddur.
Goddur nam við grafík- og
nýlistadeild Myndlista- og
handíðaskólans (nú Listaháskóli
Íslands) frá 1976-79. Hann rak síðan
galleríið Rauða húsið á Akureyri
næstu árin á eftir auk annarra starfa.
„Ég fór svo í nám til Kanda og dvaldi
þar í ein fimm ár eða fram til ársins
1991,“ segir Goddur.
Í Kanada nam Goddur grafíska
hönnun við Emily Carr College
of Art and Design í Vancouver
og starfaði síðan sem grafískur
hönnuður hjá ION design í þeirri
borg.
Það var svo árið 1991 að Goddur
flutti aftur til Akureyrar. Á næstu
árum kom hann á námi í grafískri
hönnun við Myndlistarskólann
á Akureyri og varð deildarstjóri í
grafískri hönnun við Myndlista- og
handíðaskóla Íslands til loka skólans
1999. Goddur vann að stofnun
hönnunardeildar við Listaháskóla
Íslands og var deildarstjóri í grafískri
hönnun frá upphafi. Hann var ráðinn
prófessor í grafískri hönnun við LHÍ
árið 2002.
Goddur segir að hann hafi fengið
fullan styrk frá Rannís til að skrifa
um íslenska myndlistarsögu og það
sé aðalverkefni hans þessa stundina.
Saga Stefáns Eiríkssonar sem hér
var rakin er hluti af því verkefni.
Heiðarbýlingurinn Stefán sem
lagði grunnin að myndlist 20. aldar
á Íslandi. Þess má svo geta í lokin að
Kjarval lýsti því yfir í viðtali frá 1949
að skóli Stefáns Eiríkssonar hefði
verið besti skólinn sem hann gekk í,
1910, en að hann hafi ekki vitað það
fyrr en eftir dvöl í skólum erlendis.
Að öðru leyti starfar Goddur sem
sem myndlistarmaður og hönnuður
ásamt kennslu og vinnur mikið að
hönnun fyrir menningarstofnanir.
FRI
Stefán Eiríksson ásamt velgerðarkonu sinni Soffíu Emilíu Einarsdóttur
Fyrstu hlutabréf Eimskips voru hönnuð og teiknuð af Stefáni.
Goddur ræðir um Stefán á fyrirlestri í Óbyggðasetrinu.
Forláta askur sem Stefán skar út og er nú til sýnis á Þjóðminjasafninu.