Austurglugginn - 26.04.2013, Blaðsíða 10
10 AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 26. apríl
Regnboginn er bandalag áhugafólks um
sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun.
Hvers vegna sjálfstæði Íslands? Með
viðræðum þeim sem nú eru í gangi við
ESB er aðlögun íslenska stjórnkerfis-
ins hafin af fullum krafti og mútufé
streymir til landsins. Reynt er að telja
okkur trú um að þetta sé lýðræðislegt
ferli og þjóðin hafi að lokum síðasta
orðið en það er blekking. Fái lands-
ölumenn Samfylkingarinnar og þess
sem eftir er af VG, auk ýmissa smærri
taglhnýtinga þeirra, að fara sínu fram
verður ekki kosið um aðildarsamning-
inn sjálfan fyrr en þeim þyki vindar
blása þannig að aðild verði mögulega
samþykkt. Ég hef að vísu enga trú á að
sú stund sé skammt undan, en þeim er
líka alveg sama þótt það dragist því
að á meðan heldur aðlögunin áfram.
Þegar á endanum verður svo kosið er
líklegt að litlu skipti hvort aðildin
verður samþykkt eða ekki, við verðum
komin inn í ESB að öllu leiti nema að
nafninu til.
Það er því löngu tímabært að fram
komi stjórnmálaafl sem hefur sjálf-
stæði Íslands sem aðalbaráttumál því
margt fleira hangir á spýtunni en hin
dapurlega Evrópuvegferð núverandi
ríkisstjórnar. EES-samningurinn
sem misvitur stjórnvöld síns tíma
tróðu upp á þjóðina án þess að spyrja
hana álits hefur líka margt að geyma
sem skerðir möguleika okkar til að
grípa til ráðstafana sem nauðsynlegar
eru farsæld þjóðarinnar til skemmri
og lengri tíma. Í krafti EES-samn-
ingsins vildu okkar miklu „vinir“ í
ESB láta íslenska skattgreiðendur
borga hluta þess mikla tjóns sem varð
í hruninu og þurfti dómsúrskurð til
að hafa þá og raunar íslensku ríkis-
stjórnina líka, ofan af því.
Þar skall hurð nærri hælum og
ekki ástæða til að hætta á fleira
slíkt. Við þurfum einfaldlega að
taka EES-samninginn upp, eins og
heimilt er að gera og Norðmenn velta
nú fyrir sér, og semja upp á nýtt um
ýmis atriði hans.
Ég hef oft talað um að fara þurfi í
viðgerðir á mikilvægum lagabálkum
sem frjálshyggjan hefur eyðilagt á
undanförnum áratug, s.s.
jarða- og ábúðarlögum,
vegalögum, vatnalögum,
samkeppnislögum o.fl.
Þótt fitjað hafi verið upp
á sumu af þessu á síðasta
kjörtímabili varð árang-
urinn lítill, enda var ein-
strengingsleg markaðstrú
við stjórnvölinn hjá hinni
svokölluðu vinstri stjórn þegar á
reyndi og ekki má gleyma því að
EES-samningurinn er yfirleitt mjög
hamlandi fyrir allar aðgerðir hins
opinbera, nema ívilnanir til stóriðju
að því er virðist.
Norðmenn eru þó aðilar að EES
eins og við en hefur eigi að síður
haldist uppi að stunda markvissa
byggðastefnu með sterku inngripi
hins opinbera, t.d. með búsetu-
skyldu á jörðum og fleiri gagn-
legum aðgerðum. Kannski er EES-
samningurinn sjálfur ekki stærsta
vandamálið því hann má sveigja og
beygja, þetta er sjálfsagt ekki síður
spurning um vilja og að við séum
ekki alltaf að reyna að vera kaþólskari
en páfinn í að framfylgja því reglu-
verki sem platað hefur verið inn á
okkur af þjóðum ESB, þótt þeim
sjálfum detti ekki í hug að gera það
heima fyrir.
Ég held að staðan í hinum dreifðu
byggðum landsins, ekki síst í okkar
kjördæmi, sýni að tími sé kominn
til að fara í öflugt byggðaátak og
það þarf fyrst og fremst að beinast
að því að efla það sem þegar er fyrir
í sveitunum og þorpunum. Í ferða-
þjónustu liggja einnig miklir mögu-
leikar og endurskoða þarf afstöðu
hins opinbera til þessa mikilvæga
atvinnuvegar, en hún hefur verið
vægast sagt blendin fram að þessu.
Í sjávarútvegsmálum má vel nota
strandveiðikerfið, sem Jón Bjarnason,
einn af forystumönnum Regnbogans
á nú að ég tel, mestan heiður af, til
markvissra, sértækra byggðaaðgerða
auk þess sem efla þarf það í heild
sinni. Þennan málaflokk þarf svo að
nálgast í heild frá „nýju“
sjónarhorni, síðasta ríkis-
stjórn gerði í raun lítið
annað en hræra í þeim
potti, enda a.m.k. annar
ríkisstjórnarflokkurinn án
stefnu í þessum málum.
Það sem ég meina með
nýju sjónarhorni er ein-
faldlega það að ganga
verður strax í upphafi út frá þeirri
staðreynd að þjóðin sættir sig ekki
við og mun ekki í framtíðinni sætta
sig við að veiðiheimildir séu fyrn-
anlegar og veðsetjanlegar eignir
útgerða, hvort heldur stórra eða
smárra. Og hvort sem útgerðar-
mönnum líkar betur eða verr þá
kemur henni það við. Fiskimiðin eru
samkvæmt skýru lagaákvæði sam-
eign allrar þjóðarinnar. Út frá þessu
sjónarhorni þarf svo að nálgast það
markmið að sjávarútvegsfyrirtækin
búi við sæmilegt rekstraröryggi og
geti borgað af sínum lánum. Í land-
búnaðarkerfinu er einnig sjálfsagt að
miða við þetta því að það er næstum
enn fáránlegra en að fyrna megi og
veðsetja veiðiheimildir að hið sama
gildi um rétt til framleiðslu afurða
og/eða fjárstuðnings úr sameigin-
legum sjóðum.
Í atvinnumálum í heild leggur
Regnboginn áherslu á sjálfbærni og
það felur m.a. í sér að best sé að eign-
arhald atvinnufyrirtækja sé sem mest
í heimabyggð þeirra eða þá hjá ríki/
sveitarfélögum. Erlent eignarhald á
fyrirtækjum í stórum stíl getur leitt
til þess að atvinnulífið verði mjög
langt frá því að vera sjálfbært og
þess sjást mörg sorgleg dæmi víða
um heim. Hverfa þarf frá stórfyrir-
tækjavæðingu í afurðavinnslu land-
búnaðar, en leggja þess í stað áherslu
á fjölgun og sérhæfingu afurðastöðva,
vörugæði og upprunatengingu og fer
þessi áhersla mjög vel saman við átak
til eflingar byggðar.
Það er vissulega undarlegt
að sú ríkisstjórn sem kallaði sig fyrstu
hreinu vinstristjórnina skyldi mest
lítið gera til að bylta um því úr sér
gengna séreignarkerfi íbúðarhús-
næðis sem er að tröllsliga fjárhag
svo margra hér á landi. Eins og það
hefði þó verið lúsauðvelt að reisa
leigumarkaðinn úr öskunni með því
að gera einfaldlega Íbúðalánasjóði
skylt að bjóða allar íbúðir í sinni eigu
til útleigu gegn sanngjarnri leigu,
annaðhvort fyrri eigendum sínum
eða öðrum. Það er heldur betur holur
hljómur í loforðum stjórnarflokk-
anna nú, korteri fyrir kosningar,
um að efla leigumarkaðinn. Líklega
máttu þeir ekki vera að því fyrr vegna
anna sinna við að koma okkur inn í
ESB og við að breyta stjórnarskránni
til að auðvelda þann gjörning.
Mun álitlegra en sú flata niður-
færsla húsnæðisskulda sem ýmsir
lofa og er óhemju kostnaðarsöm og
að mestu leyti ótæk leið, er að breyta
vísitöluviðmiðun húsnæðislána frá
neysluvísitölu til byggingarvísitölu,
jafnvel alllangt aftur í tímann. Með
því yrði dregið mjög úr meintum
verðbólguhvetjandi áhrifum verð-
tryggingar á lánum. Skynsamlega
útfærð verðtrygging lána er hins
vegar ekki af hinu vonda því án
hennar getur orðið mikil tilfærsla
eigna í þjóðfélaginu, eins og gerðist
á áttunda áratug síðustu aldar.
Það hefur mjög verið stundað af
valdsmönnum þessa heims að halda
því, annaðhvort með ofsa eða fagur-
gala, að þegnum sínum að það sé
örugglega best fyrir þá að ráða sér
ekki sjálfir. Regnboginn er stjórn-
málaafl sem hafnar þessari lygi með
öllu, sama hvaðan hún kemur, og vill
setja fullveldi okkar til frambúðar í
öndvegi enda er það okkar dýrasta
auðlind. Þeir flokkar sem í framboði
eru, aðrir en þeir alltof mörgu sem
beinlínis eru með á stefnuskrá sinni
að farga bæði efnahagslegu og laga-
legu fullveldi okkar, eru tvístígandi
í þessum efnum og virðast hika við
að taka eindregna afstöðu með sjálf-
stæði landsins.
Framboð okkar er seint fram
komið og hefur átt á brattann að
sækja í skoðanakönnunum hingað
til. En þrátt fyrir það fer því fjarri að
atkvæði sem greitt er Regnboganum
sé á glæ kastað. Framboðið hefur á
að skipa öflugu fólki, bæði í þessu
kjördæmi og öðrum, og hefur bæði til
þess alla verðleika og á til þess góða
möguleika, með ykkar hjálp, ágætu
kjósendur, að ná umtalsverðum
árangri á laugardaginn kemur.
Það að standa vörð um sjálfstæði
landsins og efla sjálfbæra þróun eru
ekki hástemmd loforð um inni-
stæðulausar ávísanir heldur fast-
mótuð stefna sem við í Regnbog-
anum ætlum okkur að standa við og
leggja sem mælikvarða á öll okkar
orð og verk. Við höfum fulla trú á því
að í slenskir kjósendur muni virða það
við okkur og gefa okkur möguleika
til að komast til áhrifa. Og það er eins
víst og að öllum þykir vænt um regn-
bogann þegar hann sést á himinsins
bláa boga eftir rigningatíð að allir eru
velkomnir undir Regnbogann okkar
í komandi kosningum. X – J.
Þorsteinn Bergsson,
Unaósi, Fljótsdalshéraði
(skipar 2. sætið á lista Regnbogans
í Norðausturkjördæmi)
Framboðsfundur á Egilsstöðum
21. apríl 2013
Þorsteinn Bergsson
Sauðfjárbóndi
Annað sæti í NA.
Stöðvum aðlögunarferlið
Í pakkanum er ekkert
nema afsal fullveldis og
yfirráðaréttar yfir
auðlindum.
Gefum Íslandi óskorað
fullveldi í sumargjöf.
Þorsteinn Bergsson