Austurglugginn - 29.07.2021, Side 8
8 Fimmtudagur 29. júlí AUSTUR · GLUGGINN
til Akureyrar í gegnum Viðfjörð.
Það voru haldnar fjölmennar
samkomur á þessum árum hjá
Framsóknarflokknum í Hallormsstað
og hjá Sjálfstæðisflokknum á
Egilsstöðum. Það fór fjöldi manns á
þessar samkomur og ég man eftir því
þegar ég var yngri þá var fólkið ferjað
á vörubílum, og sat bara á pallinum
upp í Hérað, undir beru lofti,“ segir
Freysteinn.
Þar sem Norðfirðingar komust
ekki langt á bílum sínum nema frá
Viðfirði voru geymdir nokkrir bílar
í Viðfirði sem Norðfirðingar áttu.
„Það voru ófá skiptin sem fólk fékk
næturgistingu og fæði hjá okkur.
Einhverjar tekjur hafði heimilið
af slíku. Ég man eftir einu skipti
þar sem fólk var að koma í miklu
rigningarveðri af einum af þessum
samkomum af Héraði. Eitthvað voru
lækirnir erfiðir yfirferðar á leiðinni
út í Viðfjörð og rúturnar töfðust.
Báturinn kom en fór svo aftur því
aldrei komu rúturnar. Loksins skilaði
fólkið sér og ég held að þetta hafi
verið þrjár rútur, hver rúta hefur
sennilega tekið um fjörutíu manns.
Það þurfti að hýsa allt þetta fólk og
um nóttina lá það inn á gólfi hjá
okkur, í hlöðunni og hvar sem hægt
var að koma því fyrir. Það var alveg
mígandi rigning og daginn eftir
þegar fólkið þurfti að komast í bátinn
var erfitt að komast að bryggjunni
og brugðið á það ráð að nota einn
bílinn sem geymdur var í Viðfirði,
gamall herbíll, til þess að ferja fólkið
að bryggjunni,“ segir Freysteinn og
brosir.
Þó svo að vegur væri á milli
Viðfjarðar og Eskifjarðar var hann
oft torfær. „Menn fóru þetta nú
á öllum bílum en hann var nú
orðinn ófær strax á haustin. Okkar
aðalsamgöngur voru á sjó með
trillunni sem var í Viðfirði.“
Viðfjörður leggst í eyði
Viðfjörður lagðist í eyði árið 1955
þegar flutt var af Viðfjarðarbænum,
Stuðlum og Barðsnesi sem voru
síðustu bæir Viðfjarðar sem enn var
búið á. Guðríður og Guðni fluttu
að Naustahvammi á Norðfirði,
æskuheimili Guðna, ásamt börn-
unum. „Það var ekki mikið talað
um að flytja frá Viðfirði áður en sú
ákvörðun var tekin,“ segir Freysteinn
en með flutningnum var um 200 ára
búsetu ættarinnar í Viðfirði lokið.
Freysteinn segir að það hafi ekki
verið neinn tregi að fara en erfitt
er fyrir Freystein að rifja upp þá
atburði sem urðu til þess að flutt var
frá Viðfirði.
„Um nónbil í gær bárust þær
fréttir vestan úr Grundarfirði,
að þar hefði orðið hörmulegt
sjóslys. Síldveiðiskipinu Eddu
frá Hafnarfirði hvolfdi nokkrum
hundruð metrum undan landi
er ofsalegur stormsveipur skall á
skipið á mánudagsmorgun. Af 17
manna áhöfn létust 9 skipverjar. Þrír
þeirra létust úr kulda og vosbúð,“
sagði á forsíðu Morgunblaðsins 18.
nóvember árið 1953.
„Með Eddu fórust tveir bræður
frá Gerði, þeir Jósep og Sigurður
Guðmundssynir, en Sigurður var
þá reyndar búsettur í Hafnarfirði.
Þetta verður til þess að flutt er frá
Gerði árið 1954 þó það sé skráð að
það hafi verið flutt þaðan árið 1955
en það er vegna þess að einn maður
varð eftir á bænum og sá um féð,
en það var Svavar tvíburabróðir
Jóseps og bjó hann þennan vetur
hjá föðurbræðrum sínum á Stuðlum.
Með því að fjölskyldan á Gerði flutti
úr Viðfirði var einungis búið á þremur
bæjum, Viðfjarðarbænum, Barðsnesi
og Stuðlum. Fjölskyldurnar ákváðu
í sameiningu að flytja í burtu frá
Viðfirði sem lagðist þar með í eyði,“
segir Freysteinn og það leynir sér
ekki að þungbært er fyrir hann að
rifja upp hræðileg örlög nágranna
sinna. „Með því að það fækkaði
í firðinum var erfiðara að búa þar.
Kannski hefði fjörðurinn lagst í
eyði fljótlega, maður veit það ekki,
en brottflutningur þeirra setti strik
í reikninginn.“
Römm er sú taug
Freysteinn og fjölskylda hans
halda fast í ræturnar og eiga
Viðfjarðarbæinn enn. Þau gerðu
hann upp fyrir um þrjátíu árum síðan
og honum er vel við haldið. „Fyrstu
árin eftir að við fluttum reyndum
við að halda bænum við. Það endaði
þó með því að það var allt brotið
og bramlað í bænum, meðal annars
rúður brotnar innan frá sem við
vorum búin að negla fyrir. Þá gáfust
við upp á því að reyna halda honum
við,“ segir Freysteinn. „Það er svo
árið 1989 sem að Sveinn bróðir fer
að tala um að hann sé búinn að smíða
sex glugga fyrir Viðfjarðarbæinn og
spyr okkur bræðurna hvort við eigum
ekki að fara og laga húsið eitthvað
til að utan. Það var upphafið af því
að réðumst í endurbætur á húsinu.
Fljótlega vorum við búnir að taka
allt húsið í gegn. Við skiptum um alla
glugga og manni þykir merkilegt, að
þeir eru orðnir þrjátíu ára í dag en
eru eins og nýir.“
Freysteinn keypti hraðbát sem
einfaldaði mjög ferðir fjölskyldunnar
út í Viðfjörð. „Við fórum reglulega
til Viðfjarðar á bátnum og unnum
í húsinu. Fyrst löguðum við það að
utan svo það liti sæmilega út. Þá
fórum við að velta fyrir okkur hvort
það væri ekki sniðugt að taka í gegn
eldhúsið og svefnherbergi svo við
gætum sofið í húsinu og svoleiðis vatt
verkefnið upp á sig,“ segir Freysteinn.
Freysteinn segir að fjölskyldan sé
stolt af húsinu eins og það er í dag
og vonast eftir að því verði haldið
við í framtíðinni. „Við erum að vona
að einhverjir taki svo við þessu. Páll
sonur minn setti upp virkjun sem
sér bænum fyrir rafmagni, það er
alveg stórkostlegt. Þetta gjörbreytir
húsinu að vera kynt upp allt árið,
engin fúkkalykt í því eða neitt,“ segir
Freysteinn.
„Viðfjörður er enn hluti af
fjölskyldunni og hún á góðar
minningar þaðan, þó svo að ekki sé
búið þar lengur,“ segir Freysteinn
að endingu. bþb
Ljósmyndir fengnar frá Skjala-
og myndasafni Norðfjarðar –
Héraðsskjalasafninu í Neskaupstað.
Systkinin Sveinn, Ólöf og Freysteinn.
Viðfjarðarbærinn á síðari árum. Fjölskyldan hóf að gera hann upp árið 1989.
Guðríður Þorleifsdóttir, móðir Freysteins, ásamt síðari eiginmanni sínum Guðna Þorleifssyni.