Austurglugginn


Austurglugginn - 29.07.2021, Page 11

Austurglugginn - 29.07.2021, Page 11
 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 29. júlí 11 „Mannlíf án menningar er leiðinlegt líf,“ segir Sigurður Guðmundsson listamaður sem nú er staddur á Djúpavogi í tengslum við einkasýningu sína sem opin er til 15. ágúst. Sigurður er einn af þekktustu listamönnum þjóðarinnar bæði hér heima og á alþjóðavísu. Djúpivogur er einn af fimm dvalarstöðum hans í heiminum. „Við hjónin keyptum lítið hús hér á Djúpavogi fyrir þrjátíu árum síðan. Það hús er eiginlega horfið, það er að segja drukknað í viðbyggingum,“ segir Sigurður sem nú vinnur að því að koma upp öðru húsi á staðnum, Listasafninu Ars Longa, í samvinnu við heimamenn og fleiri. „Það sér nú fyrir endann á því verki og að listasafnið verði opnað,“ segir Sigurður sem lætur þess getið að nafnið á safninu sé hálfur málsháttur á latínu sem hljóð svo í heild: Listin er löng en lífið er stutt. Eins og fram hefur komið í fréttum var nýtt útilistaverk eftir Sigurð, Frelsi, afhjúpað á Dúpavogi þann 10. júlí s.l. Það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem afhjúpaði listaverkið við hátíðlega athöfn fyrir utan Löngubúð. Útilistaverkið er tileinkað þrælnum Hans Jónatan sem er ein þekktasta sögupersóna Djúpavogs frá upphafi vega. Einkasýning Sigurðar, Alheimurinn er ljóð, var opnuð samhliða í Bræðslunni. Um er að ræða samstarfsverkefni Múlaþings, Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar – CEAC og ARS LONGA með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Austurlands. Sýningin Alheimurinn er ljóð er samansett af ólíkum verkum Sigurðar frá árunum 1969–2021. Ferill Sigurðar er fjölbreyttur og miðlarnir ólíkir en ljóðrænn tónn hefur umvafið verk hans alla tíð, hvort sem um er að ræða ljósmyndaverk, höggmyndir, teikningar, grafíkverk eða gjörninga hans. Sigurður hefur þar að auki samið tónverk, ljóð og gefið út fjórar skáldsögur. Tvær af skáldsögum hans voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Ósýnilega konan árið 2000 og Dýrin í Saigon 2010. Lögheimilið í Kína Sem fyrr segir á Sigurður, og hollensk eiginkona hans Ineke, fimm dvalarstaði í heiminum. Fyrir utan Djúpavog eru það Reykjavík, Amsterdam, Skánn og Xiamen í Kína. Sigurður segir að lögheimili þeirra sé í Xiamen, hafnarborg við Suður Kínahaf mitt á milli Hong Kong og Sjanghæ. „Við fluttum til Kína fyrir tuttugu og fjórum árum,“ segir Sigurður. „Ástæða þess var að þar í landi er unnið úr granít upp á gamla mátann. Hér á Vesturlöndum er þetta allt unnið í vélum nú til dags.“ Dæmi um kínverska handbragðið má finna í Fjöruverki Sigurðar í Reykjavík sem afhjúpað var árið 2002. „Fjöruverk Sigurðar er úr granítsteinum er fluttir voru frá námum í Svíþjóð til vinnustofu Sigurðar í Kína, þar sem þeir voru handslípaðir áður en þeir yrðu ferðbúnir til að setjast endanlega að hér í brimgarðinum við norðurströnd Reykjavíkur í svonefndri Rauðarárvík,“ segir m.a. í umfjöllun Morgunblaðsins á þessum tíma. Ferillinn nær yfir hálfa öld Sigurður fæddist á Hverfisgötunni í Reykjavík í miðri seinni heimsstyrjöldinni og verður því áttræður á næsta ári. Hann er uppalinn á Bárugötunni í Vesturbænum. Að loknu námi í Myndlistar- og handíðaskólanum (nú Listaháskóla Íslands) árið 1963 fór hann í framhaldsnám í de Ateliers í borginni Haarlem í Hollandi og settist síðan að í Amsterdam. Árið 1966 kynntist hann Fluxus hreyfingunni sem hafði mikil áhrif á hann. Ferill Sigurðar nær þannig yfir hálfa öld og gott betur en hann hefur í gegnum tíðina hlotið margar alþjóðlegar viðurkenningar. Nefna má að verk hans voru valin til sýningar er Pompidou-listamiðstöðin í París sem var opnuð 1977 og hefur hann sýnt tvisvar á Feneyjatvíæringnum. Hann hlaut Prins Eugen orðuna í Stokkhólmi 1985, DAAD styrk í Berlín 1987-88, Henrik-Steffens- Preis í Hamborg 1989 og A. Roland Holst, hollensku skáldaverðlaunin árið 2000. Verk Sigurðar eru í eigu allra helstu safna í Evrópu. Köttur í Amsterdam Aðspurður um hvort hann eigi sér uppáhalds listform af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina segir Sigurður sögu af ketti sem hann kynntist í Amsterdam. „Við hjónin fluttum eitt sinn í hverfi í Amsterdam sem minnti mjög á gömlu Blesugrófina í Reykjavík, þar sem var stundaður búskapur við nokkur húsanna,“ segir Sigurður. „Þarna var köttur sem var fyrst sá eini í hverfinu. Hann fór víða um og pissaði hér og þar til að merkja yfirráðasvæði sitt. Þegar köttunum fjölgaði svo í hverfinu varð þetta svolítið ströggl hjá honum.“ Sigurður segist sjá sjálfan sig að einhverju leyti í þessum ketti. Fyrst reyni maður allt en sníður sér svo stakk eftir vexti. „Ég hef til að mynda ekki ást á málningu þrátt fyrir að ég máli,“ segir hann. „Nútímalistamenn eru ófeimnir við að blanda saman ólíkum listformum og nýta sér þá möguleika sem þannig geta skapast,“ segir Sigurður. „Þetta er allt ferðalag hugans þar sem listaverkin eru útfærð í tíma og rúmi. Kúnstin er að læra hvað eigi saman og hvað ekki. Kötturinn hefur alltaf minnt mig á fjarlægðirnar í mínu lífi, svæðið sem ég nota við vinnu mína á milli landa og jafnvel heimsálfa sem er ekki mjög praktískt atvinnusvæði.“ Ars Longa stærsta verkefnið Fram kemur í máli Sigurðar að stærsta verkefni hans framundan sé að koma Ars Longa á koppinn. Um er að ræða alþjóðlegt listasafn sem yrði staðsett að Vogalandi 5 á Djúpavogi. „Við Þór Vigfússon höfum unnið að þessu verkefni í fimm ár með aðstoð heimamanna og sveitarfélagsins,“ segir Sigurður. Meðal þeirra sem standa að Ars Longa ásamt Sigurði og Þór eru Jóhann G. Jóhannsson, Gréta Mjöll Samúelsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Fríða Björk Ingvarsdóttir. „Þetta safn sem er sjálfseignar- stofnun verður starfrækt á ársgrund- velli eftir að það opnar, íbúum Djúpavogs og öllum Íslendingum til ánægju og yndisauka,“ segir Sigurður. FRI Sigurður Guðmundsson listamaður Mannlíf án menningar er leiðinlegt líf Sigurður við verk sitt Frelsið á Djúpavogi. Mynd aðsend.

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.