Austurglugginn - 02.12.2021, Qupperneq 2
2 Fimmtudagur 2. desember AUSTUR · GLUGGINN
Héraðssaksóknari hefur ákært
ríflega fertugan karlmann fyrir
fjölda afbrota, meðal annars
tilraunir til manndrápa, gegn
barnaverndarlögum, vopnalögum
og eignaspjöll. Maðurinn gekk
berserksgang í götunni Dalseli á
Egilsstöðum í lok ágúst.
Maðurinn er ákærður fyrir tilraun
til manndráps fyrir að hafa þar farið
inn í hús með það að markmiði að
ráða húsráðanda bana. Sá var ekki
heima en í staðinn miðaði maðurinn
haglabyssu að tveimur sonum hans
sem voru heima. Þeir flúðu út í skóg.
Maðurinn skaut af bæði skammbyssu
og haglabyssunni í húsinu. Áður
hafði hann beint skammbyssu að
sambýliskonu sinni á heimili þeirra.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir
tilraun til manndráps með að hafa
skotið úr haglabyssu að tveimur
lögreglumönnum sem voru í skjóli
á bakvið bíl sem lagt var fyrir
framan húsið í Dalselinu. Hluti
þeirra skota hafnaði í íbúðarhúsi
á móti. Þá er manninum gefið að
sök að hafa beint byssu sinni að
öðrum lögreglumannanna þar sem
hann hafði leitað skjóls á bakvið
lögreglubíl.
GG
Skógræktin og nýsköpunarfyrirtækið
Yggdrasill Carbon ehf. (YGG)
skrifuðu í síðustu viku undir viljayfir-
lýsingu um fyrirhugaða samvinnu
varðandi skógræktarverkefni til
kolefnisbindingar. Skógræktin og
YGG hafa átt í samstarfi síðustu
misseri en með yfirlýsingunni er
það formfest.
YGG vinnur að því tryggja vottun á
kolefnisbindingu skógræktar. Meðal
þeirra vottunarstaðla sem unnið hefur
verið með er Skógarkolefnisstaðall
Skógræktarinnar. „Við höfum átt
í miklum samskiptum við YGG
síðustu árin, fyrst eigendur og
nú síðustu misseri starfsfólkið,
og sjáum að félagið er að leggja
áherslu á langtímahugsun og
vönduð vinnubrögð. Það er mikil
þörf fyrir þekkingarfyrirtæki á
þessu sviði á Íslandi og tækifærin
eru spennandi,“ sagði Þröstur
Eysteinsson, skógræktarstjóri.
Skógræktin og YGG vinna að
verkefnum um nýskógrækt og
nýtingu kolefnisbindingar í eldri
skógum. „YGG ætlar sér að vera
leiðandi fyrirtæki þegar kemur að
kolefnisbindingarverkefnum, hvort
sem það er á sviði landnýtingar,
tækniframfara eða með öðrum
hætti. Skógrækt skipar þar mjög
stóran sess, enda tækifæri á því sviði
mikil á Íslandi og hliðaráhrif slíkrar
starfsemi almennt mjög jákvæð,“
segir Björgvin Stefán Pétursson,
framkvæmdastjóri YGG.
GG
Veira sem valdið getur sjúkdómnum
blóðþorra í laxi (ISA) hefur greinst í
eldislaxi úr sjókví Laxa fiskeldis við
Gripalda í Reyðarfirði. Stöðin var
einangruð og öllum fiski úr kvínni
slátrað um helgina. Búið er að senda
sýni erlendis til staðfestingar.
Tvær útgáfur eru til af ISA
veirunni. Önnur, skaðlaus, er talin
þrífast í umhverfi allra laxa en önnur
veldur sjúkdómi og jafnvel dauða
fiska. Athuganir hófust hjá Löxum
eftir óeðlilega mikil afföll. Talið er að
skaðlausa veiran geti stökkbreyst, er
það talið gerast í 0,7% tilvika.
Illkynja veiran hefur fundist víða í
eldi erlendis en ekki áður hérlendis.
Hún berst ekki í fólk og síðast þegar
hún kom upp, í Færeyjum fyrir fimm
árum, var fiskur úr nálægum kvíum
nýttur til manneldis.
Fiskurinn sem fargað er vegna
veirunnar verður mulinn og fluttur
til Noregs þar sem hann verður
notaður í áburð. Til stendur að slátra
öllum fiski úr kvíunum við Gripalda
og hvíla svæðið þar til tryggt þykir að
veiran sé horfin úr umhverfinu þar.
GG
Eina tilboðið frá
Héraðsverki
Héraðsverk á Egilsstöðum átti
eina tilboðið í gerð sjóvarna
á Eskifirði og Norðfirði, sem
opnuð voru nýlega. Annars
vegar er um að ræða 250
metra langa vörn við gamla
frystihúsið í Neskaupstað, hins
vegar endurbyggingu varna við
Strandgötu á Eskifirði á um
95 metra kafla. Héraðsverk
bauð 36,8 milljónir, 32,5% yfir
kostnaðaráætlun sem var 27,8
milljónir. Verkinu á að vera lokið
15. júní á næsta ári.
Samþykkja aftur
skipulag á Eskifirði
Eigna-, skipulags- og
umhverfisnefnd Fjarðabyggðar
hefur samþykkt að nýju breytingu
á skipulagi við Lambeyrarbraut á
Eskifirði þannig að gatan verði
vistgata og ný íbúðarlóð bætist
við. Úrskurðarnefnd umhverfis-
og auðlindamála úrskurðaði
skipulagið ógilt þar sem ekki
hefði verið rétt verið staðið að
svörun athugasemda þegar það
var upphaflega samþykkt í vor.
Á síðasta fundi voru lögð fram
svör við fjórum athugasemdum
sem bárust, en málsmeðferð
skipulagstillögunnar var
endurupptekin frá þeim tíma
sem frestur til athugasemda
rann út.
Haldið til haga
Í umfjöllun Austurgluggans
þann 18. nóvember sl. um
jarðgangakosti á Austur-
landi í nýrri samantekt Vega-
gerðarinnar var misritað að
göng undir Berufjarðarskarð
og Breiðdalsheiði myndu
stytta leiðina milli Egilsstaða
og Djúpavogs um 15 km. Hið
rétta er að þau myndu stytta
leiðina um 60 km, miðað við
núverandi legu þjóðvegar nr. 1,
þótt hún yrði eftir sem áður ögn
lengri en yfir Öxi. Styttingin á
leiðinni milli Breiðdalsvíkur og
Djúpavogs er hins vegar 15 km.
MOLAR
Grunur um blóðþorra í eldi Laxa í Reyðarfirði
Skógræktin og Yggdrasill Carbon í samstarf
Ákærður fyrir fleiri en eina tilraun til
manndráps
Við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Standandi frá vinstri: Hilmar Gunnlaugsson lögmaður
og stjórnarformaður YGG, Ingibjörg Jónsdóttir, land- og umhverfisfræðingur og verkefnisstjóri
hjá YGG. Sitjandi: Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Björgvin Stefán Pétursson,
framkvæmdastjóri YGG. Mynd: Skógræktin
Frá eldissvæðinu við Gripalda. Mynd: GG