Austurglugginn - 02.12.2021, Side 6
6 Fimmtudagur 2. desember AUSTUR · GLUGGINN
Fyrirtækið Hecate Independent
Power (HIP) áformar byggingu
tveggja stórra vindmyllugarða
úti fyrir Austfjörðum. Alls gætu
garðarnir framleitt 2 GW af
rafmagni sem seld yrði beint til
Bretlands um sæstreng. Fulltrúar
fyrirtækisins hafa þegar rætt við
íslensk stjórnvöld og sveitarstjórnir
á svæðinu.
HIP er samstarfsverkefni hins
bandaríska Hecate Wind og breska
Independent Power Company
(IPC). Hecate Wind er hluti af stærri
samsteypu undir merkjum Hecate
sem sérhæft hefur sig í stórum
orkuverum með endurnýjanlegum
orkugjöfum, einkum sólarorku
meðan IPC hefur undanfarin
25 ár komið að orkuverkefnum,
einkum varðandi gas, víða um heim.
Verkefnið hérlendis er rekið undir
merkjum Kári Energy.
HIP var stofnað í fyrra og
skráð í Bretlandi. Samkvæmt
skráningarskjölum þess er
tilgangurinn framleiðsla, dreifing og
flutningur orku. Stjórnarformaður
þess er Sir Tony Baldry en hann
gegndi ráðherraembættum í
ríkisstjórnum breska íhaldsflokksins
í byrjun tíunda áratugarins. Hann
var meðal frummælenda á málþingi
Kára um nýtingu vindorku á hafi
úti fyrir Íslandi, sem sent var út
frá Hörpu fyrir tveimur vikum.
Af öðrum frummælendum má
nefna Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð
Gylfadóttir, iðnaðarráðherra og
breska sendiherrann Bryony
Mathew auk lykilfólks frá bæði
Hecate og IPC.
Ótrúlegur vindur
Þar á meðal var Dr. Paul Turner,
framkvæmdastjóra HIP, sem daginn
eftir kom austur á land til að ræða
við fólk á svæðinu og afla frekari
gagna. Það var ekki hans fyrsta ferð
til Íslands. „Við fjölskyldan bjuggum
áður í Arizona þar sem dóttir okkar
var í skóla með íslenskri stelpu. Við
fjölskyldan fórum í frí hingað 2018
og voru á leið í átt að Vík þar sem
móðir stúlkunnar á bústað. Við
stoppuðum í Reynisfjöru á leiðinni
og um leið og ég steig út úr bílnum
fann ég þennan ótrúlega vind,“ segir
Paul.
Hafandi unnið endurnýjanlegum
orkugjöfum, einkum vindi, í meira
en 20 ár kveðst hann strax hafa
orðið spenntur fyrir að nýta íslenska
vindinn. Hann hafi þó fljótt áttað
sig á að fáeinir Íslendingar, með alla
þá orku sem landið hefur, myndu
aldrei standa undir kostnaði af
vindmyllugarði af þeirri stærðargráðu
sem Paul hugsaði.
„Ég náði í kort og reiknaði hve
langt væri til Bretlands. Ég hélt
áfram, sótti ráðstefnur í bæði
Bandaríkjunum og Bretlandi og
talaði við sérfræðinga. Ég komst
að því að Austurland er það
landsvæði sem næst er Bretlandi
og að leiðin fyrir rafstreng er
ekki djúp, samanborið við að úti
fyrir Vestmannaeyjum eru miklir
djúpálar.“
Hann kveðst hafa haldið áfram
og leitað til íslenskra og erlendra
ráðgjafa. „Þú ert alltaf að leita að
ástæðu til að segja nei og hætta við
en við héldum áfram að haka við
atriði þótt við færum niður listann.
Það er ekki nóg að það sé hvasst einn
dag, heldur þarf stöðugan vind til að
standa undir milljarða orkuveri eins
og við leggjum hér til. Við þurfum
líka að huga að svæðum þar sem við
erum ekki fyrir fiskveiðunum.“
Kleinuhringirnir
Þessi rammi leiddi Paul og
samstarfsfólk að svæðum úti
fyrir Austfjörðum. Vindurinn og
fjarlægðin frá Bretlandi afmarkar
einkum svæði frá Hornafjarðardjúpi
austur á Hvalbaksgrunn, þótt
það teygi sig úti allt norður til
Reyðarfjarðar. Bæði úti fyrir
Reyðarfirði og á Hvalbaksgrunni
eru svæði sem Paul kallar „gatið í
kleinuhringjunum.“ „Við sjáum það
af upplýsingum að þarna er hvorki
umferð far- né fiskiskipa, farfuglarnir
virðast sveigja hjá, vindhraðinn er
stöðugur og ekki of djúpt niður á
botn,“ útskýrir hann.
HIP hefur safnað gögnum
um vindafar við Ísland úr
gervihnattagögnum frá bæði
Bandaríkjunum og Evrópu. Bæði
magn og gæði gagnanna hafa aukist
síðustu 5-10 ár. „Við sjáum þarna um
35 km/klst meðalvindhraða. Þarna er
mikill vindur, það þarf ekki að segja
neinum sem býr í nágrenninu. Við
ströndina er víða skjól og því getur
gert gæfumuninn að fara nokkra
kílómetra frá landi,“ sagði Rich
Simon, veðurfræðingur sem unnið
hefur með Hecate á ráðstefnunni
í Hörpu.
Vantar lög hérlendis
Samkvæmt upplýsingum frá
Orkustofnun hefur HIP kynnt
fyrirætlanir sínar en engin formleg
erindi hafa borist enn. Raforkuvinnsla
í sjó er utan rammaáætlunar og
reyndar er ekkert í íslenskum lögum
sem heimilar hana. Ýmsar reglur
eru þó til í nágrannalöndum auk
þess sem heimfæra má ýmislegt úr
reglum um orkuvinnslu á landi. Í
grófum dráttum er þó staðan sú að
hugmyndir HIP virðast ekki ganga
upp innan núverandi lagaramma
hérlendis.
„Við höfum rætt við bæði
iðnaðar- og forsætisráðherra auk
embættismanna og það hafa allir
tekið jákvætt í umleitanir okkar.
Við áttum fundi í júní og nú bíðum
við svara við okkar hugmyndum.
Við viljum fara í gegnum rétt ferli,“
segir Paul. Hann bendir fordæmi
frá Texas um að ráðist hafi verið í
vindorkugarð á hafi með reglum
um landi og að hægt sé að taka
upp reglur frá Norðurlöndunum
eða Bretlandi. „Ég hef trú á að
við getum lagt fram verkefni sem
uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru
í þessum löndum, ef sjálfstæður aðili
tæki það út.“ Hann varar Íslendinga
þó við að taka of langan tíma.
„Orkuiðnaðurinn breytist ört og
Bretland vill kolefnisjafna sig hratt.
Þess vegna erum við hér,“ segir hann.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir
Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar-
og nýsköpunarráðherra, sagði á
málþinginu að vindorkuvinnsla
á hafi úti hefði verið lítið rædd
hérlendis meðan ör þróun væri
í öðrum löndum. Verk sé fyrir
höndum þar sem engin sérstök
löggjöf sé til hérlendis, þótt horfa
megi til reglna af landi. Hún sagði
Kára verkefnið metnaðarfullt og því
verðskuldaði það athygli og frekari
umræður.
Hún sagði vindorkuvinnslu á hafi
nokkrum sinnum hafa verið rædda
á fundum núverandi ríkisstjórnar.
Vinna við stefnumótun um hana
hefði hafist með vinnustofu í
ráðuneytinu í september. Við hana
þurfi að líta til ýmissa þátta, meðal
annars umhverfisáhrifa.
Hvor garður um 400
ferkílómetrar
Áform HIP ganga út á að byggja upp
tvo vindmyllugarða. Hvor um sig
gæti framleitt 1000 MW (1 GW)
af orku. Til samanburðar er uppsett
afl Kárahnjúkavirkjunar 690 MW.
Kostnaðurinn er áætlaður 2,5-3
milljarðar dollara, 330-400 milljarðar
íslenskra króna á núverandi verðlagi
við einn garð. Hvor garður nær yfir
um 400 ferkílómetra svæði, ígildi
gamla Borgarfjarðarhrepps. Um 1-2
km eru á milli hverrar vindmyllu.
Þegar vindurinn lendir á spöðum
einnar aflagast hann og missir styrk.
Eftir þessa vegalengd á vindurinn
aftur orðinn eðlilegur þannig að
næsta mylla geti framleitt fullt afl.
Hver vindmylla er um 130 metrar
á hæð, frá sjávarborði upp í turn, en
síðan bætast við 110 metrar, lengdin
á spaða, upp í hæstu stöðu sem
yrði þá 240 metrar, tæplega tveir
Hengifossar.
Mesta sjávardýpi á svæðinu
er ætlað 150 metrar. Myllurnar
verða fljótandi, ekki á steyptum
undirstöðum niður á botn eins og
þekkist. Mismunandi tækni er fyrir
hendi til að halda þeim á floti en þær
Vilja virkja vindorku úti fyrir Austfjörðum
og selja til Bretlands
Orkumál
Paul Turner, framkvæmdastjóri HIP. Mynd: GG