Austurglugginn - 02.12.2021, Síða 15
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 2. desember 15
„Kolfinnubækurnar snúast þó
um meira en unglingalífið fyrr og
nú. Það er töluverður draugagangur
í þeim líka svona til að hafa smá
spennu með þessu öllu enda sögur
um slíkt algengar á Austurlandi lengi
vel.“
Ég á þig
Hennar þriðja skáldsaga er nýkomin
út og ber heitið Ég á þig en hún
er, eins og Kolfinnubækurnar,
gefin út af bókaútgáfunni Bókstaf
á Egilsstöðum. Ekki nóg með það
heldur er ógnvekjandi forsíða Ég á
þig hönnuð af Ingunni Þráinsdóttur,
hönnuði hjá Héraðsprent, og bókin
því sem næst 100 prósent austfirsk.
Í Ég á þig er Hrönn enn að
skrifa um ungt fólk en ólíkt
Kolfinnubókunum er hér um
glæpasögu að ræða og hárin rísa á
allnokkrum stöðum við lesturinn.
Bókin fjallar um unglingsstúlkuna
Írisi Öðu sem er á ferðalagi um
landið með foreldrum sínum og
bróður þegar hjólaferð sem hún
skreppur í endar öðruvísi en ætlað
var. Inn í frásögnina blandast líka
hrottalegt morð á unglingspilti fyrir
rúmlega hundrað árum síðan.
„Ég er mjög sátt við nýju bókina.
Hún er nánast eins og ég sá hana
fyrir mér í upphafi og þeir sem hafa
lesið hana hingað til hafa lýst yfir
ánægju. Hún er auðvitað miklu,
miklu dekkri en Kolfinnubækurnar
en það eitthvað sem mig hefur
langað til að fara meira út í.“
Sækir Hrönn innblástur til
annarra rithöfunda?
Hrönn er fljót til svars aðspurð
um sína eigin uppáhalds höfunda
sem hafa haft áhrif. Mér alltaf þótt
gaman að svona spennutryllum
eins og bókunum hans Arnalds
Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur.
Alltaf verið meira fyrir spennusögur
en einhverjar rómantískar ástarsögur.
Hef einnig verið að lesa Hildi
Knútsdóttir og finnst hún mjög
skemmtilegur höfundur.
„Ég held mig nánast eingöngu
við innlenda höfunda þegar ég les
mér til gamans. Það er bara nóg af
góðum rithöfundum hér heima þó
maður æði ekki til útlanda líka. Þetta
er dálítið það sama hjá mér með
ferðalög, ég og fjölskyldan ferðumst
töluvert og undantekningarlítið
alltaf innanlands.“
Framtíðin
Aðspurð hvort hún sé þegar með
hugmyndir í kollinum fyrir fleiri
bækur í framtíðinni segir hún
allt óráðið í þeim efnum. Hún sé
vissulega áhugasöm um að skrifa
meira og hún segir kankvís að hún
sé að leika sér með ívið dekkri sögu
en hún hefur sett á blað hingað til.
„Ekki beint hryllingssögu en ég er
spennt fyrir að skrifa harðari sögur
en ég hef gert hingað til þó reyndar
sé nóg af blóði í nýjustu bókinni
minni. En mig langar lengra með þá
pælingu og hef hripað hjá mér svona
punkta. Hvort það verður að bók eða
gefið út einhvern tíma verður tíminn
bara að leiða í ljós.“
AE
Hrönn bjó um tíma á Ísafirði en hugurinn og hjartað drógu hana aftur austur á land og hvergi annars staðar vill hún vera.
Dagur dró sig áfram á
olnbogunum. Peysan hans og
buxurnar voru orðin rennandi
blaut af mosanum og kaldur
haustvindurinn næddi. Honum
var orðið ískalt. Smám saman
hurfu umhverfishljóðin og
það eina sem hann heyrði var
andardráttur hans sjálfs þegar
hann sogaði að sér loftið. Heitt,
klístrað blóðið lak ofan í hægra
augað og byrgði honum sýn.
Hann heyrði hægan hjartslátt
sinn eins og þungan trumbuslátt
inni í höfðinu. Hann fann
hvernig þrekið þvarr og sífellt
var erfiðara að dragast áfram.
Fyrir aftan hann heyrðist nú
þungt sullandi fótatak. Hann
vissi að það var árásarmaður
hans sem nálgaðist því hina þrjá
leitarmennina hafði hann ekki
séð frá því rétt eftir birtingu í
morgun er hann rauk út úr
gangnamannakofanum. Hann
gerði sér líka fulla grein fyrir því
að maðurinn hefði getað verið
löngu búinn að ná honum, hann
var bara að leika sér að því að
kvelja hann. Ekki að það væri
í fyrsta skiptið, það hafði oft
gerst áður en þetta var í fyrsta
skipti sem ofbeldið var líkamlegt.
Hann hafði svo lengi sem Dagur
mundi verið kvikindislegur við
hann en frá því pabbi dó hafði
háttarlag hans versnað svo um
munaði.
Dagur hafði þagað yfir því,
mamma hans hafði nóg á sinni
könnu þó hann færi ekki að væla
í henni vegna þess að einhver
var leiðinlegur við hann. Hann
hafði gert allt sem hann gat
til að forðast umgengni við
manninn. Hann gerði sér núna
grein fyrir því að með því að
ætla að vera fullorðinn og axla
sín vandræði sjálfur hafði hann
gert manninum auðveldara fyrir.
Það var því miður of seint að gera
eitthvað í því núna.
Úr nýjustu bók Hrannar: Ég á þig
September 1901