Austurglugginn - 16.12.2021, Side 4
4 Fimmtudagur 16. desember AUSTUR · GLUGGINN
Á jóladag verða 170 ár liðin
frá vígslu Kirkjubæjarkirkju í
Hróarstungu. Hún er næstelsta
kirkjan í Austurlandsprófastsdæmi
– aðeins Skeggjastaðakirkja í
Bakkafirði er fáeinum árum eldri
– og með elstu timburkirkjum
landsins.
Guðshús hefur raunar staðið mun
lengur á Kirkjubæ, líkt og nafn
staðarins bendir til, jafnvel allt frá
upphafi kirkjuskipanar í landinu, að
því er talið er, og prestssetur var þar
um aldir. Síðasti prestur á staðnum
var sr. Sigurjón Jónsson, en eftir að
hann lét af embætti árið 1956 var
sókninni lengi þjónað frá Eiðum en
undanfarin ár frá Egilsstöðum.
Kirkjan sem nú stendur á
Kirkjubæ er einkar vandaður og
reisulegur helgidómur með mikið
menningarsögulegt gildi, fjölsótt af
ferðafólki. Nokkrum sinnum á ári
fara þar fram guðsþjónustur og aðrar
kirkjulegar athafnir, sem jafnan eru
vel sóttar af sóknarfólki og fleirum.
Hlé yfir sláttinn
Kirkjubæjarkirkju lét sr. Jón
Þorsteinsson þáverandi prestur á
staðnum reisa. Sem yfirsmið fékk
hann frænda sinn, Jón Jónsson frá
Vogum í Mývatnssveit (Voga-Jón),
sem þá var nýkominn úr smíðanámi
í Kaupmannahöfn. Var kirkjan
reist árið 1851 og unnu sjö menn
rösklega að smíðinni það ár, að átta
vikna hléi yfir sláttinn undanskildu.
Byggingunni lauk skömmu fyrir jól
og kirkjan var svo vígð á jóladag
þetta sama ár, 1851.
Þrátt fyrir góð rekaítök
Kirkjubæjar var megnið af timbrinu
í kirkjuna keypt af sjö seljendum,
mest þó frá Vopnafirði. Til stóð að
það timbur yrði flutt á Ker, sem
er lending undan Landsenda við
norðanverðan Héraðsflóann. Ekki
reyndist það þó unnt vegna illviðra
og var timbrinu því skipað upp
í Fagradal en menn úr sókninni
drógu það á sjálfum sér yfir fjallið
að Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð.
Kirkjunni hefur í gegnum tíðina
verið vel við haldið. Á níunda áratug
síðustu aldar fóru fram nokkuð
umfangsmiklar endurbætur á henni,
og í framhaldinu viðgerðir innandyra,
með tilstyrk Húsafriðunarnefndar.
Voru endurbæturnar í umsjá Auðuns
H. Einarssonar smíðakennara,
undir leiðsögn Þórs Magnússonar
þjóðminjavarðar og Harðar
Ágústssonar listmálara. Var þá, til
að mynda, ásjóna kirkjunnar færð
aftur til síns upprunalega dökka litar,
sem æ síðan er eitt af sérkennum
hennar. Lauk öllum viðgerðum
fyrir 150 ára afmæli kirkjunnar árið
2001. Á undanförnum árum hafa
svo hjónin Kristjana Agnarsdóttir
og Snorri Guðvarðsson, málarar á
Akureyri, komið í nokkur skipti og
unnið að málningarvinnu innandyra
í kirkjunni af mikilli list.
Kaþólska varðveitt í
hönnuninni
Eitt af sérkennum Kirkjubæjarkirkju,
sem forðum var helguð Maríu
Guðsmóður, er að þar er enn
varðveitt forn, kaþólsk hefð, í formi
þilsins sem skilur að framkirkjuna og
kórinn, sem fyrr á öldum afmarkaði
hið allra helgasta rými hinna vígðu
þjóna. Kórþil þetta var þó að nokkru
fjarlægt á 20. öld.
Kirkjubæjarkirkja á margt góðra
gripa og ber þar fyrstan að nefna
predikunarstólinn, sem er talinn vera
smíðaður skömmu eftir siðaskipti
og vera elsti predikunarstóll, sem
enn stendur í kirkju hérlendis.
Á honum eru myndir af Davíð
konungi úr Gamla testamentinu,
postulunum Pétri og Páli, Lúkasi
guðspjallamanni, og dönskum
konungshjónum frá 16. öld, Friðriki
II og Soffíu drottningu hans.
Altaristafla kirkjunnar, sem
sýnir Krist upprisinn birtast
Maríu Magdalenu við gröfina, er
olíumálverk eftir Anker Lund frá
árinu 1894. Koparkertastjakar á
altari eru frá 19. öld en skreyttir
ljósahjálmar úr kopar frá fyrri hluta
18. aldar. Kaleikur og patína úr
silfri eru sömuleiðis dýrgripir, taldir
vera frá lokum 18. eða upphafi 19.
aldar. Skírnarskálin er eftir Ríkarð
Jónsson útskurðarmeistara, frá 1951.
Altarisdúk saumaði Gunnhildur
Björnsdóttir í Heiðarseli og gaf
kirkjunni 1970.
Hljóðfæri kirkjunnar, sem er
norskt frá Brödrene Torkildsen,
er hið upphaflega frá 1891. Fyrsti
organistinn var Jón Snorrason í
Dagverðargerði en hann lést árið
1894.
Kirkjubæjarkirkja var guðshús
íbúa í Jökulsárhlíð jafnframt
Hróarstungu uns kirkja reis í
Hlíðinni (að Sleðbrjót) 1927.
Þorgeir Arason
(Heimildir: Hjörleifur Stefánsson
og Lilja Árnadóttir: Kaflar um
Kirkjubæjarkirkju í ritinu Kirkjur
Íslands. 24. bindi (2015). Vigfús
Ingvar Ingvarsson: Kirkjur og
kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi
(2011).)
Kirkjubæjarkirkja í 170 ár
Tímamót
Kór Kirkjubæjar- og Sleðbrjótskirkju á æfingu fyrir messu á Kirkjubæ. Organistinn og
kórstjórinn, Jón Ólafur Sigurðsson, leikur á hið upprunalega hljóðfæri Kirkjubæjarkirkju frá
1891. Mynd: Þorgeir Arason
Útsýni til Dyrfjalla úr kirkjugarðinum. Mynd: Þorgeir Arason
Kirkjubæjarkirkja og sáluhlið. Mynd: Þorgeir Arason
Kirkjubæjarkirkja á síðsumri 2021. Mynd:
Þorgeir Arason