Austurglugginn


Austurglugginn - 16.12.2021, Qupperneq 18

Austurglugginn - 16.12.2021, Qupperneq 18
18 Fimmtudagur 16. desember AUSTUR · GLUGGINN Aðsend grein Sigfús Sigfússon og Sigfúsarstofa Sigfús Sigfússon fæddist á Miðhúsum í Eiðaþinghá árið 1855. Foreldrar hans voru Sigfús Oddsson frá Skeggjastöðum í Fellum og Jóhanna Þorsteinsdóttir frá Mjóanesi, Mikaelssonar sem var kunnur hagyrðingur, enskur í aðra ætt. Bróðir Jóhönnu var Finnur, afi Eysteins ráðherra og Jakobs prests, Rvík. Móðir Sigfúsar Oddssonar var Ingunn Davíðsdóttir úr Hellisfirði, alkunn fyrir skyggnigáfu sína, kölluð Ingunn skyggna. Fékk Sigfús snert af þeirri gáfu. Sigfús var á barnsaldri þegar faðir hans lést og var þá tekinn í fóstur af föðursystur sinni, Guðrúnu Oddsdóttur á Skeggjastöðum og Jóni Ólafssyni syni hennar, og ólst þar upp til 16 ára aldurs. Hugur hans hneigðist snemma að bóklestri, yrkingum og fræðagrúski. „Þegar ég var unglingur vandist ég mjög sögum og sögnum og rímum og fleiri þjóðfræðum. Var ég mjög notaður til að lesa sögur og enda kveða rímur,“ segir hann í formála Þjóðsagna sinna. Um tvítugt var hann nokkur ár hjá systur Jóns, Mekkínu Ólafsdóttur á Egilsstöðum í Fljótsdal sem var fróðleikskona og líka skyggn. Þar byrjaði hann að skrásetja skyggnisögur. Þá var hann ráðinn til Ameríkufarar með Árna bróður sínum en Bessi Ólafsson, frændi hans á Birnufelli, bauð þeim svo gott kaup að þeir hættu við ferðina. Verður það seint fullþakkað. Um 1880 var Sigfús byrjaður að safna þjóðsögum og munnmælum, sem smám saman varð helsta viðfangsefni hans. Nokkur næstu ár var hann í Loðmundarfirði og felldi þá hug til stúlku í Nesi en þau náðu ekki saman. Hann var alla tíð einhleypur og barnlaus, tók fræðagrúsk fram yfir heimilislíf. Sigfús var í Möðruvallaskóla 1889-91, þá um 35 ára, fékkst síðan við barnakennslu á vetrum en vinnumennsku á sumrum og átti um tíma nokkrar kindur og hest. Jafnframt vann hann skipulega að söfnun þjóðsagna um Hérað og Austfirði. Hann dvaldi oft á Eyvindará og kenndi sig við þann bæ. Útgáfur þjóðsagnanna Um 1900 var safn hans orðið 16 þéttskrifaðar bækur. Árið 1906 gerði hann fyrstu tilraun til útgáfu á því. Ætlaði Oddur Björnsson á Akureyri að gefa það út en það rann út í sandinn eins og næstu tvær atrennur í Reykjavík (Ísafoldarprentsmiðja 1912, Benedikt S. Þórarinsson 1916), þótt ýmsir landskunnir fræðimenn og rithöfundar mæltu með útgáfu og reyndu að styðja hann. Strandaði það jafnan á stærð safnsins. Árið 1914 hóf Sigfús að afrita það til að tryggja varðveislu þess. Árið 1916 missti hann sjón á öðru auga í snjóbyl á Fjarðarheiði og lá nærri að hitt færi eins. Árið 1917 sótti hann styrk til Alþingis „til að fullgera þjóðfræðasöfnun mína og búa sem bezt úr garði“. Það mun ekki hafa borið árangur. Til að liðka fyrir útgáfu fór hann 1920-21 um allt Austurland og safnaði 1400 áskrifendum. Haustið 1921 settist Sigfús að á Seyðisfirði og vann að endurritun safnsins og útgáfu. Þar voru fyrstu þrjú bindin gefin út 1922-25, fyrir atbeina Benedikts Jónassonar frá Eiðum. Árið 1928 fékk hann heimsókn Thorlev Hanas, prófessors frá Bergen, sem hafði kynnst verkum hans. Um 1930 fór hann til dvalar á Elliheimilið Grund í Reykjavík og var þar til dauðadags 6. ágúst 1935. Árið 1932 var Sigfús kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags. Tilviljun réði því að Sigfús komst í kynni við Þorvald Bjarnason kaupmann í Hafnarfirði. Þorvaldur gaf út 4. bindi sagnanna 1931 og hluta 10. bindis 1933. Afgangur safnsins, 5.-16. bindi (hefti), kom á prent hjá Víkingsútgáfunni, Reykjavík 1945-1958, sem Ragnar Jónsson í Smára stóð fyrir. Hafði útgáfan þá tekið 36 ár. Áætlað var að gefa út aukabindi með nafnaskrám, sem höfundur þessa pistils vann 1958-59, en það fórst fyrir og handritið týndist. Önnur og vandaðri útgáfa í 11 bindum (4640 bls.) kom út hjá forlaginu Þjóðsögu á árunum 1982-93. Óskar Halldórsson frá Kóreksstaðagerði ritstýrði fyrri hluta hennar, Grímur M. Helgason frá Seyðisfirði og Helgi sonur hans síðari hluta. Eiríkur frá Dagverðargerði útbjó nafnaskrár og Jón Hnefill frá Vaðbrekku samdi æviágrip. Eftir Sigfús liggja tvö kver með með eigin dulrænni reynslu, Dulsýnir I-II (1915, 1930) og tvö kvæðakver, Kappaslagur (1926) og Glámsrímur (1930). Sigfús var lipurt ljóðskáld og liggur eftir hann mikið kvæðasafn. Allmörg kvæða hans birtust í blöðum og tímaritum, einkum erfikvæði, sem hann orti fjölmörg. Grundvallarrit um sögu Austurlands Þjóðsagnasafn hans, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, er hið annað stærsta sinnar tegundar á Íslandi, og líklega hið stærsta sem einn maður hefur safnað yfir höfuð. Það er grundvallarrit um sögu Austurlands á 18.-19. öld, ótrúlegt eljuverk manns sem alltaf þurfti að strita fyrir daglegu brauði og húsnæði. Auk þess eru nokkur óprentuð handrit í Landsbókasafni, þar á meðal kvæðabók og sjálfsævisaga. Sigfús var góður sögumaður og tamdi sér sérstakan sögustíl er sumum þótti nokkuð fornlegur. Hann var sérkennilegur í háttum og til eru margar sagnir af uppátækjum hans. Sigfús var jarðsettur í Hólavalla- garði, Reykjavík. Stuðlasteinn er á leiði hans, áletraður: „Sigfús Sigfússon þjóðsagnafræðingur“. Vangamynd af Sigfúsi úr eir, eftir Ríkarð Jónsson, er í Héraðsskjalasafni, en þeir voru vel kunnugir. Sigfúsi var reistur minnisvarði 1985 við þjóðveginn hjá Miðhúsum, fæðingarstað hans, er það stuðladrangur með áfestri vangamynd Ríkarðs. Til er mynd af Sigfúsi við skriftir á Seyðisfirði, sem Vigfús Sigurðsson frændi hans tók, skýrð upp og gefin út á póstkorti af Héraðsskjalasafni, Egilsstöðum 1979. Þann 12. okt. 2007 var haldið „Sigfúsarþing“ á Eiðum, þar sem ýmsir fræðimenn af Austurlandi og úr Reykjavík héldu erindi um hann og verk hans. Þar kom fram tillaga um stofnun „Sigfúsarstofu“, er send var ýmsum aðilum til kynningar. Á 160 ára afmæli Sigfúsar 2015 var sett upp sýning í Safnahúsinu á Egilsstöðum á 8 veggspjöldum, þar sem rakin er ævi hans og starf í máli og myndum, svo og útgáfusaga þjóðsagnanna. Aðalhönnuður var Bára Stefánsdóttir, skjalavörður. Spjöldin eru í Héraðsskjalasafni. Sigfúsarstofa – Miðstöð fræða og sögu á Austurlandi Sigfúsarstofa var sett á stofn á Egilsstöðum haustið 2020, fyrir forgöngu Stefáns Boga Sveinssonar, þáverandi forseta sveitarstjórnar Héraðs. „Tilgangur hennar er að halda utan um æviverk Sigfúsar Sigfús Sigfússon. Mynd: Vigfús Sigurðsson

x

Austurglugginn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.