Austurglugginn


Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 4

Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 4
4 Fimmtudagur 26. nóvember AUSTUR · GLUGGINN Jónas Reyni Gunnarsson þarf vart að kynna fyrir Austfirðingum. Það er þó vert að minna á að Jónas Reynir ólst upp í Fellabæ, ekki síst fyrir þær sakir að aðalsögusvið nýjustu skáldsögu hans, Dauða skógar, virðist í fljótu bragði vera Fellabær og nágrenni. Lesendur af svæðinu munu því mjög auðveldlega lifa sig inn í staðhætti og það jók vissulega á skemmtanagildið fyrir undirritaðan að geta fylgt svo vel ferðum aðalpersónunnar, Magnúsar. Magnús er tveggja barna fjölskyldufaðir, sem er þegar sagan hefst nýbúinn að missa aldraðan föður sinn. Ein aðalástæða þess að faðir hans deyr er að sökum geysimikillar rigningartíðar hefur skógur fjölskyldunnar runnið niður hlíðina sem hann stóð í og dáið, eins og titill bókarinnar gefur til kynna. Dauði skógarins er meira en faðir Magnúsar getur afborið svo hann deyr sjálfur stuttu síðar. Magnús er sjálfur sögumaður í bókinni og hann flakkar fram og til baka í tíma, þó að þráðurinn fylgi að mestu atburðunum eftir að skógurinn féll saman. Í ljós kemur að undir jarðvegi skógarins leynast sprengjur frá stríðsárunum og Magnúsi gengur illa að fá lögregluna til að gera eitthvað í málunum. En það er ekki það eina sem gengur illa hjá Magnúsi. Stoðir hjónabandsins eru ekki traustar og Magnús á erfitt með að bregðast rétt við þegar unglingssonur hans fær skólasystur sína óþægilega á heilann. Þessar aðstæður, sem undir eðlilegum kringumstæðum væru grafalvarlegar, verða grátbroslegar í meðförum höfundar. Jónas Reynir er fantaflinkur penni og það er því auðvelt að samsama sig með Magnúsi, þótt maður vilji það ógjarnan. Aftur og aftur tekur Magnús rangar, en mannlegar ákvarðanir svo lesandinn fórnar höndum í því vonleysi að geta ekki hjálpað greyið manninum. Að sjálfsögðu er svo, líkt og með byssu Tékoffs, ekki hægt að hafa sprengjur í bók án þess að nota þær og biðin eftir sprengingu er í senn óbærileg og sprenghlægileg. Eins og með síðustu skáldsögu höfundar, Krossfiska, þá er textinn hjá Jónasi ekki bara fyndinn, heldur margræður. Sterkustu þemu Dauða skógar eru dauðinn og náttúran og það er til að mynda dásamlegt þegar Magnús vitnar í bókina Sögu skóganna frá fornlífi, sem undirritaður efast um að sé til. Á köflum blandast saman draumar Magnúsar, ímyndanir hans og raunveruleikinn, en Jónasi tekst vel að tvinna þetta allt saman án þess að lesandinn missi þráðinn. Dauði skógar skilur líka eftir sig spurningar, eins og allar góðar bækur gera. Dauði skógar er dásamleg lesning sem er erfitt að leggja frá sér, nema mögulega þegar aðalsöguhetjan verður pínlega mannleg. Dauði skógar er klárlega jólabókin á Austurlandi í ár. - Árni Friðriksson Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750 • Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Friðrik Indriðason blaðamaður: frett@austurglugginn.is • Auglýsingar: Stefán Bogi Sveinsson: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Stefán Bogi Sveinsson: askrift@austurglugginn.is • Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent Leiðari Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson Bókarýni Að kunna sér hóf „Twitter er orðið stjórnlaust,“ var eitt af því sem hraut af fingrum Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, á meðan hægt en örugglega fjaraði undan möguleikum hans á endurkjöri. Miðillinn hafði merkt hverja færslu hans á eftir annarri, þar sem hann veittist að bandarísku lýðræði og spann upp sögur um svindl án þess að geta stutt þau orð neitt frekar, sem misvísandi. Um svipað leyti voru Twitter, Facebook og YouTube samstíga í að eyða út færslu fyrrum ráðgjafa forsetans þar sem hann vildi afhöfða andstæðinga sína. Við þurfum ekki að ræða hvort áköll um afhausanir og ofbeldi eigi að líðast eða þá ömurlega rökstuddar samsæriskenningar. Hins vegar má velta fyrir sér ritstjórnarlegri ábyrgð samfélagsmiðlanna. Samfélagsmiðlar hafa á undanförnum árum breytt umgjörð samfélagsumræðunnar. Þeir hafa gefið hverjum sem er tækifæri til að birta hugleiðingar sínar án nokkurrar síu. Hefðbundnir fjölmiðlar hafa alltaf fengið í hendurnar efni sem er tómt rugl og bera ábyrgð, bæði siðferðilega og lagalega, á því að halda aftur af því versta. Samfélagsmiðlarnir hafa hins vegar ekki borið þessa lagalegu ábyrgð, aðeins einstaklingarnir í löndum þar sem lög virka. Gagnrýnin hefur hins vegar leitt til þess að samfélagsmiðlarnir eru farnir að setja notendum sínum reglur og ritskoða þá. En það leiðir þá hins vegar inn á hættulegar brautir því ritskoðunin er oft ógagnsæ. Eins er ógagnsætt hvernig reglurnar eru settar. Eiga fjölmiðlarnir að setja þær sjálfir? Almenningsálitið hefur snúist gegn samfélagsmiðlunum. Fyrst þóttu þeir spennandi, opnuðu nýjar leiðir og grófu undan einræðisríkjum eins og í Egyptalandi. Í seinni tíð hafa skuggahliðarnar komið í ljós. Fólk umkringir sig endanlega já- systkinum sem virðist leiða til öfga frekar en málamiðlana og sátta í umræðu. Þá hafa komið fram rannsóknir sem tengja samfélagsmiðlanotkun við vanlíðan, kvíða, þunglyndi og svefnleysi. Áætlað er að Facebook eitt og sér standi undir 25% allrar netumferðar í heiminum. Sumir nota ekki lengur símanúmer heldur hringja og taka við símtölum gegnum undirforrit þess, Messenger. Séu viðurlög við brotum á reglum og notendaskilmálum að vísa einhverjum af miðlinum jafngildir það næstum því að klippa á símalínuna heim til hans. Tekjumódel miðlanna er eitt af því sem ýtir undir flokkadrættina. Reikniritið sýnir þér það sem er líklegast til að vekja með þér viðbrögð. Stundum er það eitthvað sem gengur fram af þér og væri í einhverjum tilfellum skynsamlegra að láta sem vind um eyru þjóta heldur en eiga þátt í að magna það upp. En á þetta lærir reikniritið og ýtir að þér meira efni sem hvetur til aukinnar neyslu þannig að hægt sé að sýna þér fleiri auglýsingar, frekar en efni sem gerir þig upplýstari. Enski háskólaprófessorinn Marcus Gilroy-Ware hefur skrifað tvær bækur út frá rannsóknum sínum á samfélagsmiðlum. Hann telur hægt sé að hafa hemil á miðlunum en ekki verði spólað til baka til þess tíma sem þeir voru ekki til. Gilroy-Ware líkir miðlunum við ruslfæði, okkur þykir það gott en það gerir okkur ekki gott. Best væri að lifa án þess en að öðrum kosti hafa hemil á freistninni. GG

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.