Austurglugginn


Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 8

Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 8
8 Fimmtudagur 26. nóvember AUSTUR · GLUGGINN Héraðsbúinn Björg Björnsdóttir sendi nýverið frá sér sína fyrstu ljóðabók, Árhringur – ljóðræna dagsins. Bókin byggir á verkefni Bjargar þar sem hún skrifaði eina ljóðrænu á dag í heilt ár. Veðurfarið og náttúruöflin eru meðal þess sem hefur haft mikil áhrif á ljóðagerð Bjargar. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af að skrifa. Síðustu ár hefur það ágerst að mig langar að finna skrifum mínum farveg en mér gekk það misjafnlega. Ég prófaði ýmislegt en fann ekki alveg réttu leiðina. Árið 2017 fékk ég að lesa yfir MA ritgerð æskuvinkonu minnar frá Egilsstöðum, Herborgar Eðvaldsdóttur, úr Listaháskólanum. Hún fjallaði um hvernig væri hægt að nota flæði í listsköpun. Flæðið er hugsað þannig að þú ert ekki með neina fyrirfram ákveðna hugmynd, heldur reynir að láta efniviðinn eða það sem þú hefur fyrir framan þig ráða ferðinni, til dæmis innan tveggja tíma. Þessi aðferð á að örva hugmyndavinnu og sköpunina. Ég hreifst af þessu því ég var vön að leggja af stað með ákveðinn ramma þegar ég var að skrifa og vita hvar ég vildi enda,“ segir Björg. #ljóðrænadagsins Björg ákvað því að setja sér það markmið að á hverjum degi í heilt ár myndi hún skrifa eina ljóðrænu út frá því sem henni kæmi í hug þann daginn og birta á Twitter undir myllumerkinu #ljóðrænadagsins. Innlegg á samfélagsmiðlinum máttu ekki vera lengri en 140 slög, en sú lengd var reyndar tvöfölduð fljótlega eftir að Björg hófst handa þann 6. nóvember 2017. „Mér fannst mjög spennandi að þurfa að halda mig innan þessa forms en hafa samt pláss fyrir myllumerkið. Markmiðið var alltaf að komast af stað með markvissum hætti í skapandi ferli. Fyrstu dagana tók ég þessu mjög alvarlega, frá því ég vaknaði um morguninn þar til ég fór að sofa um kvöldið var ég að hugsa um ljóðrænuna, breyta og laga. Síðan sjóaðist ég. Þá gat ég átt ljóðrænuna eftir þegar ég var komin upp í rúm. Ég lokaði augunum og hugsaði um hvernig dagurinn hefði verið, svo greip maður eitt orð eða mynd sem sat eftir í huganum og reyndi að semja um hana.“ Sveiflurnar í veðrinu og umhverfinu Síðasta ljóðrænan birtist 5. nóvember 2018. „Þangað til sagði ég engum frá því hvers vegna ég væri að þessu en það sem var mjög gaman var að ótrúlega margir og ótrúlegasta fólk vék að mér orði þar sem ég var ferðinni og þakkaði mér fyrir. Á þorrablótinu á Egilsstöðum var þetta kallað „ljóðræpa dagsins“ sem mér fannst mjög skemmtilegt. Þegar ég loks upplýsti hvernig þetta væri til komið hafði Páll Valsson, útgáfustjóri hjá bókaforlaginu Bjarti, samband og gaf mér undir fótinn með að gera meira með ljóðrænuna. Mér fannst það mjög spennandi.“ Þá hófst vinnan við að koma ljóðunum í bókarform því Björg vildi ekki birta ljóðrænurnar eins og hún hafði skrifað þær á Twitter. „Þær voru misgóðar og misáhugaverðar – eins og lífið er,“ segir Björg. Hún safnaði öllum ljóðrænunum saman og fór að lesa þær yfir. „Það voru gegnumgangandi þemu, sem komu mér sumpart á óvart. Þessir hlutir sem við höfum aðgang að alla daga; árstíðirnar, veðrið, náttúruöflin, fuglarnir, kindurnar og fólkið – höfðu mest áhrif á hvað rataði á blað. Það er greinilegt að umhverfið hér hefur mikil áhrif á mann. Við sem búum úti á landi erum kannski meðtækilegri fyrir sveiflum í veðri og umhverfi. Og það sem var svo merkilegt var að þetta kallaðist oft á við það sem bærðist innra með manni.“ Upp úr ljóðrænunum vann Björg eitt ljóð fyrir hvern mánuð. „Stundum tók ég línur beint upp úr ljóðrænunum, en stundum greip ég frekar hugmyndina og vann með hana.“ Þessi 12 ljóð sem nefnd eru eftir gömlu íslensku mánaðaheitunum mynda þann kafla sem kallast „Ár“ og að sögn Bjargar gætu margir hér eystra þekkt umhverfið. Snæfellið er víða merkjanlegt í þessum ljóðum, sem og Egilsstaðanesið til dæmis. Ég þurfti líka stundum að kljást við Pál með orðalag. Hann vildi til dæmis breyta því þegar ég skrifaði „fyrir Heiðarendann.“ Ég útskýrði fyrir honum að svona væri talað í kringum mig og gaf mig ekki með það.“ Hringrás kynslóðanna Hún taldi þessi ljóð þó ekki duga til að fylla heila bók og hélt því áfram. Úr varð seinni hluti bókarinnar sem heitir „Hringur.“ „Hann fjallar í raun um sömu hluti en er innblásinn af hringrás kynslóðanna. Ef árstíðirnar eru eilíf hringrás sem vindur fram, sama hverju á gengur, þá er það eins með kynslóðirnar. Þær koma og fara. Mér hefur alltaf þótt gaman að skoða trjáhringi og jarðlög þar sem maður getur séð söguna, hvort árið hafi verið gott eða ekki. Ég held að við séum líka með svona árhringi innra með okkur.“ Ljóðið Hringur ber með sér að vera ljúfsár kveðja til ástvinar, sem er faðir Bjargar, Björn Þór Pálsson, sem lést árið 2012. „Hann glímdi við Alzheimer síðustu árin og þeir sem þekkja til þess að vera aðstandandi slíkra einstaklinga vita að það getur verið erfið upplifun. Það getur verið mjög erfitt þegar einstaklingur sem maður telur sig þekkja út og inn, í raun hverfur manni. Þessi innblástur frá föður mínum tengist vel inn í þessa kynslóðahugsun. Æviskeiðunum er oft líkt við árstíðir. Pabbi átti afmæli 22. desember, hann sagði alltaf að sólin hefði tekið að skína daginn sem hann fæddist. Hringurinn byrjar á jólum og endar á jólum. Mér fannst þessi rammi henta vel.“ Á ýmsu gekk síðan á lokaspretti útgáfunnar. „Bókin átti fyrst að koma út í apríl en þá geisaði covid- faraldurinn og við ákváðum að gefa okkur betri tíma. Ég held að þegar uppi er staðið höfum við frestað útgáfuhófinu þrisvar. Ég hafði orð á því við Pál að kannski væri almættið að segja mér eitthvað,“ segir Björg og kímir. Vinsæl meðal Íslendinga erlendis En hvaða skoðun sem almættið kann að hafa á bók Bjargar þá hefur hún fengið góðar viðtökur meðal almennra lesenda og bókagagnrýnenda. „Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að segja frá henni bæði í Kiljunni og Fréttablaðinu. Það er ekki sjálfgefið að maður nái í gegn þegar maður er ekki í höfuðborginni. Bókin hefur selst jafnt og þétt. Bjartur hefur boðið upp á að senda bækur hvert á land sem er án endurgjalds og ef fólk vill fá áritaðar bækur þarf forlagið fyrst að senda mér eintökin, ég skrifa inn í og sendi svo aftur. En ég vil endilega árita fyrir þá sem vilja og hef satt best að segja mjög gaman af því. Ég er að verða búin að árita á fjórða hundrað bóka og er á föstu með Póstinum; ég fer þangað reglulega með bókapakka! Síðan er ótrúlega mikið um að fólk, sem annað hvort býr erlendis eða er að senda ættingjum erlendis, panti bókina. Lengst hefur bókin ferðast til Ástralíu. Þeir sem kaupa bækurnar í slíkt segja mér að þeim finnist svo mikið Ísland í henni. Ég held að það séu veðra- og náttúrulýsingarnar sem eru svo stór hluti af daglegu lífi okkar Íslendinga. Við tengjum það við fósturjörðina.“ En þótt þetta sé fyrsta bók Bjargar þá verður þetta vonandi ekki sú síðasta. „Ég er að vinna að skáldsögu. Ég vona að það taki mig ekki 50 ár að klára hana.“ GG Björg Björnsdóttir með nýútkomna ljóðabók sína, Árhringur. Mynd: GG Árhringur Ljóðin misjöfn eins og dagarnir

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.