Austurglugginn


Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 6

Austurglugginn - 26.11.2020, Blaðsíða 6
6 Fimmtudagur 26. nóvember AUSTUR · GLUGGINN „Það þykir mörgum skondið að skipstjóri sé með bíladellu en svona er það með mig. Ég hef ætíð haft brennandi áhuga á bílum, alveg frá því ég var strákur,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á aflaskipinu Jóni Kjartanssyni SU 111 frá Eskifirði. Við sitjum inni í stofu hjá honum með hinn ómissandi kaffisopa fyrir framan okkur. Inga Rún Beck, sambýliskona Grétars, er einnig í stofunni, situr í öðrum sófanum og vinnur. Hún lætur þess getið að hún væri sennilega áhugaverðara viðtalsefni en eiginmaðurinn. Inga Rún vinnur sem sjálfstætt starfandi fjölskyldufræðingur og vinnur nú heima við vegna COVID. Jón Kjartansson ber nafnið aflaskip með rentu enda er Grétar meðal annars þekktur fyrir að hafa undanfarin ár verið ofarlega á listum yfir einstaklinga sem greiða hæstu opinber gjöld á Austurlandi. En Grétar er einnig þekktur í plássinu fyrir að eiga tvo gullfallega fornbíla, Lincoln Continental og Ford Fairlane Victoria. Dags daglega, og til að skjótast á rjúpu eða hreindýr, notar hann hinsvegar öflugan skærrauðan pallbíl. Grétar er fæddur og uppalinn á Eskifirði, fór snemma að stunda sjóinn og sautján ára gamall var hann kominn á síldveiðar í Norðursjó. Að loknu námi í Stýrimannaskólanum árið 1979 var hann fyrst stýrimaður á tveimur skipum en 24 ára gamall var hann orðinn skipstjóri um borð í Sæljóni SU 104. Skipstjóri á Jóni Kjartanssyni í 32 ár. Grétar varð skipstjóri á Jóni Kjartanssyni árið 1988. Fyrst gamla Narfa RE, sem farið var með í tvígang til Póllands í miklar breytingar, og síðan þeim sem áður hét Hólmaborg SU. Sumarið 2017 var síðan sá sem er í dag Jón Kjartansson sóttur til Skotlands. Grétar hefur sem sé verið skipstjóri á skipi með þessu nafni í ein 32 ár. Hann á því mikla reynslu að baki á sjó, einkum á loðnuveiðum „Loðnan kemur eftir áramótin, ég er fremur bjartsýnn á það,“ segir Grétar aðspurður hvernig honum lítist á veturinn. „Mælingar á ungloðnu í fyrra benda til þess að töluvert verði af loðnu hjá okkur eftir áramót. Hún verður þarna á ferðinni fyrir norðan, það er bara að finna hana.“ Grétar segir að stóru loðnuárin upp úr miðjum síðasta áratug síðustu aldar hafi verið besta tímabilið sem hann hafi lifað á sjó svona tekjulega. „En það er líka alltaf góð tilfinning þegar vel gengur og mikið aflast. Slíkt léttir lundina,“ segir hann. Fram kemur hjá honum að undanfarin ár hafi makrílveiðarnar gengið ágætlega og að þær séu tímabil ágætra tekna hjá þeim sem stunda þær. „Ekkert síður en loðnan,“ segir Grétar. Á móti kemur að sumir túrar, svokallaðir brælutúrar, séu ekkert til að skrifa um. „Það getur verið þreytandi að sitja langtímum saman í brælu og gæftaleysi en maður verður að taka slíku með hinu góða,“ segir Grétar. Stórt olíumálverk af Jón Kjartanssyni eftir Tolla hangir á vegg í stofunni. Inga Rún segir að hún hafi sérpantað þetta verk. „Ég fékk hann til að búa til verkið sérstaklega fyrir mig en Tolli er þekktur fyrir að taka ekki á móti slíkum pöntunum,“ segir Inga Rún og er stolt af framtakinu. En mikið lá við þar sem verkið var gjöf Ingu til Grétars á sextíu ára afmæli hans. Það er hins vegar lítið olíumálverk sem Grétar keypti eitt sinn á Kúbu sem er uppáhalds málverkið hans. Verkið er af stílfærðum gömlum bandarískum kagga en slíkir bílar eru einkennismynd borga og bæja á eyjunni. Sjómennskan auðveldari en áður „Sjómennskan er orðin mun auðveldari en hún var í gamla daga,“ segir Grétar og nefnir í því sambandi að öll þessi nýja tækni- og tölvuvæðing um borð geri sjómönnum lífið léttara. „Aðbúnaðurinn um borð er líka orðinn til fyrirmyndar á þessum nýrri skipum sem bæst hafa í flotann á undanförnum tveimur áratugum,“ segir hann. Þá kemur einnig fram hjá honum að tæknin og öflugri skip en áður hafi leitt til þess að verulega hefur dregið úr viðveru sjómanna á hafi úti á stærri skipunum. „Á síðustu öld vorum við kannski á sjó þetta 300 til 320 daga á ári eða jafnvel lengur,“ segir Grétar. „Nú er „Sjómennskan er orðin mun auðveldari en hún var í gamla daga,“ segir Grétar. Mynd: FRI Þau Grétar og Inga Rún á góðri stundu. Mynd: Einkasafn. Ætíð haft brennandi áhuga á bílum - rætt við Grétar Rögnvarsson skipstjóra

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.