Morgunblaðið - 22.08.2022, Blaðsíða 10
10 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 22. ÁGÚST 2022
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Fjölbreytnin í atvinnulífi hér er
mikil og landið liggur þannig að
hér eru miklir möguleikar til
vaxtar og framþróunar. Íbúafjölg-
un er jöfn en hefur verið hæg en
með slíku vandað til verka í stöð-
ugri uppbyggingu og framþróun,
sem fylgir kröfum tímans,“ segir
Stefán Broddi Guðjónsson, nýr
sveitarstjóri í Borgarbyggð.
Í kosningunum í maí sl. vann
Framsóknarflokkur þar meiri-
hluta í sveitarstjórn og í kjölfarið
var kallað til Stefáns og honum
boðið starf sveitarstjóra. Hann
kom til starfa 1. júlí, um líkt leyti
og íbúar í sveitarfélaginu urðu
4.000, sem eru talsverð tímamót. Í
hendur helst svo að þegar fólki
fjölgar þarf sveitarfélagið að
bregðast við með aukinni þjón-
ustu og uppbyggingu. Fram-
vindan er stöðug.
Mikið umleikis og
atvinnuástand gott
Borgarfjörður var allt annað
samfélag en nú þegar Stefán
Broddi ólst þar upp. Hann flutti
eins árs með foreldrum sínum í
Borgarnes árið 1972 og átti þar
heima eða var þar viðloðandi vel
fram á þrítugsaldur. „Ég man
þennan stað áður en Borgarfjarð-
arbrúin var byggð – hvað þá að
komin væru göng undir Hvalfjörð
eða uppbyggðir hér vegir um alla
sveitir. Sú var líka tíð að afurða-
stöðvar í landbúnaði og þjónusta
við sveitirnar voru burðarásinn í
atvinnulífi í Borgarnesi, starfsemi
sem nú fer miklu minna fyrir,“
segir sveitarstjórinn.
„Núna er Borgarfjöður að
stærstum hluta orðinn eitt sveit-
arfélag – í atvinnulífinu hér telja
mest þjónusta og ýmis þekkingar-
starfsemi, svo sem tveir háskólar.
Einnig eru hér stór iðnaðar- og
verktakafyrirtæki sem starfa á
landsvísu. Þá er ferðaþjónustan
stór atvinnugrein og þarf margs
með. Hér eru stór fyrirtæki í
þeirri grein og í Borgarfirði öll-
um eru ríflega 2.000 sumarhús.
Hér er mikið umleikis og atvinnu-
ástand gott.“
Tímabær uppbygging
Borgarbyggð er víðfeðmt
sveitarfélag; nær frá Haffjarðará
í Hnappadal upp á Arnarvatsheiði
og fram að Seleyri við Hafnar-
fjall. Byggðin er dreifð um sveitir,
sveitabæir og þéttbýliskjarnar á
Bifröst, í Reykholti, á Kleppjárns-
reykjum og Hvanneyri. Nærri
2.200 manns búa í Borgarnesi.
„Hér í Borgarnesi eru ýmis
verkefni í deiglunni. Fram undan
er ákvarðanataka um frekari upp-
byggingu íþróttamannvirkja, en
til skoðunar er knattspyrnuhús,
gervigras og stækkun íþrótta-
húss. Uppbygging íþróttamann-
virkja er tímabær en hún mun
auðvitað kosta sitt. Við erum að
kostnaðarmeta valkosti og fjár-
hæðir ráðast af því hvaða skref
verða stigin,“ segir Stefán
Broddi.
Steinum velt við við
gerð nýs aðalskipulags
Annað þessu tengt er að nú
er fram undan hjá sveitarstjórn
að endurskoða aðalskipulag sveit-
arfélagsins. Þar verður öllum
steinum velt við og stefna til
langrar framtíðar mótuð. Þannig
segir Stefán Broddi að í Borgar-
byggð hafi ekki verið nægt fram-
boð af lóðum fyrir íbúðir, sem
hægt hafi á fjölgun íbúa. Við því
eigi nú að bregðast, áfram er ver-
ið að byggja í Bjargslandi og til
lengri tíma er horft til íbúabyggð-
ar við Borgarvog í Borgarnesi.
Einnig þurfi að skoðast hvaða
möguleika flutningur þjóðveg-
arins t.d. niður fyrir byggðina
býður.
Í samstarfi við fasteigna-
þróunarfélagið Festi er svo að
hefjast hugmyndavinna að þróun
Brákareyjar í Borgarnesi. Þar
eru nú gömul verksmiðju- og iðn-
aðarhús sem eru úr sér gengin.
Endurbygging þeirra eða að reisa
ný hús og mannvirki á svæðinu
verður nú tekið til skoðunar.
„Bryggjuhverfi eða svæði þar
sem gömlum atvinnuhúsum er
fengið nýtt hlutverk eru heitir
reitir í fasteignaþróun í dag. Slík
þróun á sér stað um allan heim og
í Brákarey eru miklir möguleikar
þar sem í sjálfu sér allt kemur til
greina. Sterkar sögulegar teng-
ingar svæðisins við Egilssögu
gefa því mikið vægi. Þá hafa Mýr-
arnar verið nefndar sem staður
fyrir varaflugvöll – og þann kost
tel ég að skoða ætti vel.“
Börnin komast
12 mánaða á leikskóla
Árleg peningavelta Borgar-
byggðar er um fimm milljarðar
króna. Í rekstri sveitarfélagsins
er fræðsluhald stærsti kostnaðar-
liðurinn og tekur um helming út-
gjalda. Grunnskólar eru tveir,
Grunnskólinn í Borgarnesi og svo
Grunnskóli Borgarfjarðar sem
starfræktur er á Kleppjárns-
reykjum, Hvanneyri og Varma-
landi. Leikskólanir eru fimm;
tveir í Borgarnesi og þrír í dreif-
býlinu.
„Já, miðað við umræðuna, t.d.
í Reykjavík, er staðan í leikskóla-
málum hér góð. Börn komast í
leikskóla eins árs. Hér í Borg-
arbyggð hefur tekist að byggja
upp mjög góða leikskóla og
reyndar held ég að skólastarf í
Borgarbyggð sé mjög glæsilegt
og það nær til allra skólastiga,“
segir sveitarstjórinn.
Samskipti við íbúa mikilvæg
Stefán Broddi segir að þeir
tæpu tveir mánuðir sem liðnir eru
frá því hann tók við sveitarstjóra-
starfinu hafi verið mjög lærdóms-
ríkur tími. Eitt sé að lesa gögn,
setja sig inn í mál og átta sig á því
hvernig kerfið virkar og hjólin
snúast. „Samskipti við fólkið eru
síðan mjög stór hluti og mikil-
vægur þáttur af starfi sveitar-
stjórans. Að undanförnu hef ég
heimsótt vinnustaði sveitar-
félagsins og held því áfram á
næstunni, nú þegar starfsemi
skóla hefst. Einnig er mikilvægt
að hafa góð tengsl við íbúana, sem
reka sín erindi eftir ýmsum leið-
um og oft óformlegum. Einn vill
fá skipulagi breytt, annar talar
um skólamálin og aðrir þurfa
leyfi fyrir framkvæmdum og þá
þarf að hlusta á sjónarmiðin og
svo stundum beina þeim í form-
legan farveg. Að fólk láti sig mál í
nærumhverfi sínu varða er afar
mikilvægt.“
Bryggjuhverfi í Brákarey, bygging íþróttamannvirkja og flugvöllur á Mýrunum eru mál til skoðunar í Borgarbyggð
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarstjóri Ég man þennan stað áður en Borgarfjarðarbrúin var byggð – hvað þá að komin væru göng
undir Hvalfjörð eða uppbyggðir vegir um allar sveitir, segir Stefán Broddi um breytingar á svæðinu.
Möguleikar til vaxtar og framþróunar
- Stefán Broddi Guðjónsson
fæddist árið 1971. Hann er með
BA-gráðu í stjórnmálafræði frá
Háskóla Íslands og próf í verð-
bréfaviðskiptum. Áður en hann
tók við starfi sveitarstjóra
starfaði hann í um tuttugu ár á
fjármálamarkaði, m.a. í sex ár
sem forstöðumaður greining-
ardeildar Arion-banka.
- Var fyrr á árum í blaða-
mennsku og vann við útvarp,
auk þess að starfa á vettvangi
Samtaka sveitarfélaga á Vest-
urlandi. Eiginkona Stefáns
Brodda er Þuríður Anna
Guðnadóttir hjúkrunarfræð-
ingur og eiga þau þrjá syni.
Hver er hann?
Borgarnes Uppbygging íþróttamannvirkja er nú til
umræðu sbr. óskir og viðhorf íbúa í því sambandi.
Dreifbýli Rætt er um hugsanlegan flugvöll á Mýr-
um, á víðlendi fjarri fjöllum. Mynd af bænum Ökrum.
Kvikmyndin The Beast, sem Baltas-
ar Kormákur leikstýrði, var í 2. sæti
á lista yfir þær kvikmyndir sem
fengu mesta aðsókn í norðuramer-
ískum kvikmyndahúsum um helgina.
Kvikmyndin er talin hafa aflað
11,6 milljóna dala tekna, jafnvirði
rúmlega 1,6 milljarða króna, frá
föstudegi til sunnudags. Í efsta sæti
var teiknimynd, Dragon Ball Super:
Super Hero, en tekjur af sýningu
þeirrar myndar námu 20,1 milljón
dala.
Ljón á veginum
Kvikmyndin The Beast, sem kvik-
myndafyrirtækið Universal fram-
leiddi, fjallar um mann sem hefur
nýlega misst eiginkonu sína og fer til
Suður-Afríku ásamt tveimur dætr-
um sínum til að heimsækja æsku-
stöðvar konunnar. Í ferðinni gerir
ljón eitt þeim lífið leitt og lenda þau í
miklum hremmingum. Breski leik-
arinn Idris Elba leikur aðal-
hlutverkið.
„Þetta er svaka hasar og ofboðs-
leg spenna en undirtónninn er líka
falleg fjölskyldusaga,“ sagði Baltas-
ar um myndina við Morgunblaðið í
vor.
Kvikmyndin var að mestu tekin
upp í Suður-Afríku, í Limpopo-
héraði í grennd við Kruger-
þjóðgarðinn í norðausturhluta lands-
ins.
Kvikmynd Balt-
asars var í 2. sæti
- Aflaði 11,6 milljóna dala tekna
AFP
Frumsýning Baltasar Kormákur og helstu leikarar í kvikmyndinni the Beast þegar hún var frumsýnd í New York.