Morgunblaðið - 12.09.2022, Síða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. SEPTEMBER 2022
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Orkuvandinn
sem ríki
Evrópusam-
bandsins hafa komið
sér í er gríðarlegur.
Hann er vandleyst-
ur til skamms tíma
og verði ekki breytt
um stefnu verður hann vart
leystur til lengri tíma heldur.
Helstu ráð sem gripið hefur
verið til eða rætt er um að grípa
til er að ráðast gegn verðhækk-
unum á orku með verðþaki og
niðurgreiðslum og sækja á sama
tíma fé til orkuframleiðenda sem
taldir eru græða óhóflega á háu
orkuverði.
Þegar vörur vantar og ójafn-
vægi hefur myndast, hvort sem
það er orka eða annað, þá er
ráðið að auka framleiðslu, draga
úr notkun eða hvort tveggja. Það
að setja þak á verð hvetur ekki
til aukinnar framleiðslu og það
gerir ofurskattur ekki heldur.
Þakið dregur ekki heldur úr
notkuninni og hið sama má segja
um niðurgreiðslu orkunnar. Með
slíkum aðgerðum er ójafnvæginu
haldið við og afar erfitt getur
orðið að komast út úr aðgerð-
unum þegar ástandið verður aft-
ur nær því sem eðlilegt getur
talist.
Það að ætlast til að vandinn
verði leystur með því að neyt-
endur dragi úr orkunotkun er
ekki raunsætt. Þeir geta dregið
eitthvað úr henni tímabundið en
til að þeir geri það þarf orkuverð
helst að vera hátt, sem er auð-
vitað ekki æskilegt. Og þróunin
er frekar í þá átt að orkuþörf fer
vaxandi og er snjallvæðing sam-
félagsins dæmi um það, en það
fer til dæmis jafn mikil orka í að
framleiða snjallsíma og ísskáp
þó að ísskápurinn sé þúsund
sinnum þyngri. Og
fólk kaupir tíu sinn-
um fleiri snjallsíma
en ísskápa, þannig
að þessi litlu og
gagnlegu tæki eru
dæmi um hvers
vegna ástæða er til
að gera ráð fyrir vaxandi orku-
notkun, en auk þess ýtir fólks-
fjölgun í heiminum og bætt kjör
almennt mjög undir þessa þróun.
Augljóst ætti að vera að orku-
vandinn verður ekki leystur með
því að breyta engu. Íslendingar
búa svo vel að hafa mikla endur-
nýjanlega orku og verða að verja
þá stöðu eins og kostur er á og
gæta þess að leyfa engum að
laumast bakdyramegin inn í þær
auðlindir. Aðrir þurfa að nýta þá
orku sem tiltæk er. Kjarnorka í
Þýskalandi er dæmi um þetta en
mest munar um ef Bandaríkin
og fleiri ríki hætta að setja
hömlur á sig þegar kemur að
framleiðslu á gasi og öðru jarð-
efnaeldsneyti á sama tíma og
þau gera sig háð öðrum ríkjum.
Bandaríkin leita til Mið-
Austurlanda og jafnvel Vene-
súela við núverandi aðstæður í
stað þess að nýta eigin auðlindir,
sem eru ríkulegar.
Þörf er á mun meira raunsæi í
orkumálum. Þau eru of þýðing-
armikil til að hægt sé að leyfa
öfgasjónarmiðum eða skóla-
krökkum að marka stefnuna.
Velferð almennings er í húfi
þegar orkumál eru annars vegar
og þau eru einnig þess eðlis að
geta ýtt undir ólgu og ófrið.
Nægt framboð orku ætti að vera
forgangsmál en hefur ekki verið
sinnt sem slíku undanfarin ár,
sem skýrir þá slæmu stöðu sem
upp er komin. Nú er þörf á
breyttri stefnu.
Ísland stendur vel
og þarf að verja
stöðu sína, aðrir
þurfa að taka sig á}
Breytta orkustefnu
Nú eru rétt um
þrettán mán-
uðir frá því að
bandaríski herinn
hrökklaðist með
óskiljanlegum hætti
frá Afganistan og
talíbanar hirtu völd-
in á ný eftir að hafa verið úthýst í
tvo áratugi. Talíbanar reyndu að
láta umheiminn halda að þeir
væru nýir og betri menn, verstu
öfgarnar hefðu vikið og þeim væri
treystandi til að virða helstu
grundvallarréttindi.
Reynslan þetta rúma ár sýnir
að ekkert hefur breyst sem máli
skiptir. Og það sem verra er, eftir
því sem tíminn líður herða öfga-
mennirnir tökin. Ástandið í land-
inu er skelfilegt en segja má að
talíbanarnir séu svo heppnir að
augu heimsins hafa á undan-
förnum mánuðum beinst annað,
einkum að innrás Rússlands í
Úkraínu.
Fréttir af ástandinu í Afganist-
an eru því fáar, en það stafar þó
ekki aðeins af áhugaleysi um-
heimsins, talíbanarnir vinna
skipulega að því að hindra upp-
lýsingaöflun í land-
inu. Þeim er til að
mynda mikið í mun
að almenningur,
bæði innan lands og
utan, sjái ekki
hvernig stúlkur, sem
meinað hefur verið
að ganga í skóla, hafa staðið fyrir
mótmælagöngum á nokkrum
stöðum í landinu. Til að hindra að
myndir af slíkum atburðum ber-
ist út hafa útsendarar talíbana
brotið farsíma þeirra sem voguðu
sér að taka myndir og þegar þeim
þykir nóg komið af mótmælunum
eru þau leyst upp með valdi.
Vesturlönd mega ekki gleyma
því hvers konar þjóðfélag þessir
íslömsku öfgamenn hafa aftur
komið á í Afganistan. Og þau
mega ekki heldur gleyma því að
stjórnvöld í Afganistan eru ekki
aðeins við sama heygarðshornið
og áður í afstöðunni til réttinda
almennings, einkum kvenna,
heldur leyfa þau einnig að Afgan-
istan hýsi aftur hryðjuverka-
menn, eins og víg Bandaríkja-
manna á leiðtoga al Kaída sýndi
glöggt.
Öfgafullu íslamist-
arnir í Afganistan
og þolendur þeirra
mega ekki gleymast}
Kúgunin engu minni en áður
Í
dag fáum við að líta fjárlagafrumvarp
ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Þar sjáum við svart á hvítu hvaða
samfélag þeir þrír flokkar sem mynda
ríkisstjórn Íslands, Vinstri græn,
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur,
vilja byggja. Um helgina fengum við nasasjón
af raunverulegri sýn ríkisstjórnarinnar því það
er einmitt í fjárlagafrumvarpi sem pólitísk
stefna flokkanna þriggja raungerist. Ráð-
herrar hafa komið fram undanfarna daga og
sagst ætla að fresta verkefnum, hafa skatta
óbreytta en hækka krónutölu gjalda á almenn-
ing. Heildarplaggið er enn á huldu en þetta
segir okkur samt ákveðna sögu. Ríkisstjórnin
ætlar sér ekki að sækja tekjur í ríkissjóð til
hinna efnameiri heldur til almennings óháð
efnahag. Skattar verða óbreyttir en krónutölu-
hækkun er boðuð á gjöldin og þar með birtist sá vilji
flokkanna þriggja að sá sem er með 400 þúsund krónur á
mánuði borgi jafn mikið til samneyslunnar og sá sem hef-
ur 4 milljónir. Flokkarnir ætla, ef marka má orð þeirra,
ekkert að gera til að auka hér jöfnuð. Ekkert hefur verið
sagt um að hækka skatt á fjármagnstekjur eða stóreignir,
arð banka eða stórútgerða. Nei, það skal sækja fjár-
magnið til almennings óháð efnahag og eignastöðu. Þetta
er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Þau segja að fresta eigi framkvæmdum og auka hér að-
hald. Nú verður fróðlegt að sjá hvort í fjárlagafrumvarp-
inu birtist stefna ríkisstjórnarinnar að auka aðhalds-
kröfur á heilbrigðisstofnanir sem hafa verið
vanfjármagnaðar undanfarna áratugi. Það
ríkir þjóðarsátt á Íslandi um sterkt opinbert
heilbrigðiskerfi og að aukið fjármagn verði
veitt til þess. Undir það ákall skrifuðu hátt í
100 þúsund íbúar fyrir kosningarnar 2016 en
ríkisstjórnir frá þeim tíma hafa virt þetta ákall
að vettugi. Það þýðir ekkert að koma fram og
vísa í aukin útgjöld vegna heimsfaraldurs þeg-
ar rætt er um vanfjármögnun heilbrigðiskerf-
isins því það blasir við að almenn heilbrigðis-
þjónusta er og hefur verið vanfjármögnuð um
langt skeið. Flótti starfsfólks og langir biðlist-
ar einkenna stjórn þessarar ríkisstjórnar á
heilbrigðiskerfinu og ef aukið aðhald á heil-
brigðisstofnanir verður svar ríkisstjórnar í
fjárlögum næsta árs er ljóst að hennar verður
minnst í framtíðinni fyrir aukinn ójöfnuð og
vanrækslu við eina stærstu grunneiningu íslensks sam-
félags. Þau sem eiga fjármagn geta þannig sótt sér heil-
brigðisþjónustu utan landsteinanna, aðrir mega bíða.
Það er ekki nóg að segjast á tyllidögum ætla að auka
hér jöfnuð og hækka veiðigjöld eða bankaskatt þegar
ekkert slíkt er svo sett fram í fjárlögum. Með slíkum orð-
um sínum er forystufólk ríkisstjórnarinnar að beita þjóð-
ina blekkingum um raunverulega stefnu sína og sinna
flokka.
helgavala@althingi.is
Helga Vala
Helgadóttir
Pistill
Samfélag jöfnuðar?
Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingar.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
SVIÐSLJÓS
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
M
örgum Íslendingum
þótti að sér vegið þegar
danskur lakkrísfram-
leiðandi hafði uppi þær
fullyrðingar á dögunum að hann
hefði fyrstur átt hugmyndina að
súkkulaðihjúpuðum lakkrís. Johan
Bülow, sem hefur getið sér gott orð
fyrir sælgæti sitt, kvaðst hafa þróað
þessa byltingarkenndu hugmynd
sína áfram þrátt fyrir mótbárur efa-
semdarmanna. Óhætt er að segja að
þessar staðhæfingar hafi farið illa í
landsmenn enda má ljóst vera að
þær eru kolrangar. Hér á landi hafa
um áratugaskeið verið gerðar til-
raunir með að blanda saman hinum
vinsælu sælgistegundum súkkulaði
og lakkrís.
Byrjaði í kringum 1970
„Þetta hefur líklega byrjað um
1970, mögulega aðeins fyrr, og virð-
ist hafa verið bara hugmynd eða
uppátæki einhvers sem breiddist svo
hratt út,“ segir Nanna Rögnvaldar-
dóttir matreiðslubókahöfundur sem
þekkir vel til matarhefða og -sögu
okkar Íslendinga. Nanna heldur úti
hópi á Facebook sem kallast Matur
fortíðarinnar og þar spunnust upp
umræður um hvenær ástarsamband
Íslendinga og súkkulaðis og lakkríss
hefði hafist. Þeir sem lögðu þar orð í
belg könnuðust vel við að hafa vafið
lakkrísborða eða lakkrísrúllu utan
um Síríuslengju.
Sjálfsprottnar tilraunir
„Á þessum árum var nánast allt
sælgæti innlent og tilbreyting
kannski ekki mjög mikil og þarna
var eitthvað nýtt, sjálfsprottið, sem
þótti sniðugt og gott, og það sló í
gegn. Í mínu umhverfi held ég að
oftast hafi verið notaðar lakkrís-
rúllur sem var rúllað út, Síríuslengj-
an lögð ofan á helminginn og hitt svo
brotið yfir – mig minnir að það hafi
vantað 1-2 sentímetra upp á að það
passaði alveg. Sumir notuðu lakkrís-
borða, þeir eru eldri en rúllurnar en
mig minnir að þeir hafi oft verið
þurrari og þóttu ekki eins góðir,“
segir Nanna.
Síðar sáu sælgætisframleið-
endur sér leik á borði og hófu að
selja þessa tvennu saman. „Þetta
var búið að vera til í ábyggilega ára-
tug eða tvo þegar farið var að pakka
þessu saman og selja sem Eitt sett
og ég man að sumum fannst það
hálfgert svindl að ekki var lakkrís
báðum megin við lengjuna. Ég veit
ekki hvaðan hugmyndin hefur kom-
ið, man ekki eftir neinu súkkulaði-
húðuðu lakkríssælgæti á þessum
tíma en þó getur það vel hafa verið.
Hjúplakkrís frá Nóa kom eitthvað
seinna, kannski á níunda áratugn-
um,“ segir Nanna.
Eins íslenskur og
jöklarnir og álfarnir
Ekki þarf því að velkjast í vafa
um það að yfirlýsingar Danans voru
með öllu innistæðulausar. Eftir að
Guðni Th. Jóhannesson forseti Ís-
lands blandaði sér í deiluna á sam-
félagsmiðlum og sagði að súkku-
laðihjúpaður lakkrís væri eins
íslenskur og jöklarnir, álfarnir, eld-
fjöll og fossar var hann ekki lengi að
lyppast niður. Bülow viðurkenndi
á endanum að fyrirtæki hans
ætti ekki heiðurinn af því að
gera fyrst tilraunir með að
hjúpa lakkrís með súkkulaði.
Þvert á móti hefði hann orð-
ið fyrir miklum áhrifum af ís-
lenskum vörum. Nema hvað.
Bülow klykkti svo út með því
að bjóða forsetanum í heim-
sókn til sín en engum sögum
fer af því hvort hann muni
þekkjast boðið.
Minnst hálfrar aldar
saga sælgætistvennu
Í dag blása aðrir vindar um hér-
uð en fyrir hálfri öld. Nú geta
landsmenn valið úr ótal teg-
undum af sælgæti sem saman-
stendur af súkkulaði og lakkrís.
Mörgum finnst meira að segja
of langt seilst enda er farið að
troða þessari tvennu í Royal-
búðing, á popp og sitthvað
fleira. „Já, mér finnst þetta full-
langt gengið,“ segir Nanna þeg-
ar þetta er borið undir hana.
„Gott súkkulaði og góður
lakkrís er frábær blanda
og sæmilegt súkkulaði
og sæmilegur lakkrís get-
ur verið ágætis
blanda og bætt hvort
annað upp. En þeg-
ar farið er að
blanda saman
súkkulaðilíki og
lakkríslíki – eða
bara frekar lélegum
útgáfum af hvoru
tveggja – þá verður út-
koman ekki merkileg.“
Ekki alltaf
merkilegt
GAMANIÐ FARIÐ AÐ KÁRNA
Nanna
Rögnvaldardóttir
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tvenna Nú á dögum verður ekki þverfótað fyrir íslensku sælgæti sem
samanstendur af súkkulaði og lakkrís. Hér sést lítill hluti af úrvalinu.