Morgunblaðið - 12.09.2022, Side 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. SEPTEMBER 2022
Verið velkomin
í sjónmælingu
Hamraborg 10, Kópavogi, sími 554 3200
Opið virka daga 9.30–18
Staður: 169th Street, Queens,
New York
Stund: Febrúar 2014
Ástand: Japl, jaml og fuður
Hóruhúsið í Queens
Ég ligg uppi í rúmi og japla á
súkkulaðihúðuðum möndlum frá
Kirkland. Engin af stelpunum er
heima. Við fengum helgarfrí svo ein-
hverjar þeirra fóru heim til fjöl-
skyldna sinna á meðan rest fór út á
lífið. Ég gæti ekki verið í betri mál-
um hérna.
Eftir að ég klára handfylli af
möndlum fer ég aftur inn í eldhús og
næ mér í poka af Goldfish Baked
Snack Crackers. Hvaða drasl er
þetta eiginlega? Hvernig dettur
þessum könum allur þessi ruslmatur
í hug? Jæja, þetta verður að duga.
Þetta er það eina sem hún á í tonna-
vís.
Ég klára pok-
ann. Ég fer
reyndar létt með
það. Þetta gula
fiskikex er bara
alls ekki svo
slæmt.
Þá er komið að
fórnarlambi núm-
er þrjú. Hverju
get ég stolið af
Emily? Ég veit að þær fóru allar
saman í Costco fyrir helgi svo þetta
ætti ekki að vera svo snúið í þetta
sinn þar sem nægur matur er til.
Þær buðu mér með en mér finnst
betra að fara ein út í búð. Þær halda
allar að ég sé með bæði glútenóþol
og sykursýki svo ég nenni ekki að fá
spurningar þegar eitthvað sem sam-
ræmist ekki þeirri lygi ratar í kerr-
una mína.
Ég tók ákvörðun fyrir tæpum
þremur árum um að sneiða nánast
alfarið hjá bæði hveiti og sykri, og
það gekk vel fyrst um sinn. Ég fann
hvað mér leið betur af því, ég fann
fyrir minni löngun í sætindi og
brauðmeti og ég fann mun á mér inn-
an vallar. Ég átti erfitt með að
stoppa eftir að snakkpokinn var opn-
aður svo það var bara best að halda
honum lokuðum. Á hnefanum. Mér
fannst ekkert óeðlilegt við það, þar
sem flestir sem ég umgengst hafa
sömu sögu að segja um blessaðan
snakkpokann. Mér fannst stelpurnar
sem ég bjó með ekki alveg vera að ná
þessu svo ég bjó til lygi sem ég vita-
skuld verð að viðhalda út sambúðina.
Fyrstu mánuðirnir eftir að við
fluttum allar inn saman í ágúst í
fyrra einkenndust af áreiðanleika og
samvinnu. Við létum hver aðra í friði
þegar við átti, við skiptum rými og
skápaplássi heiðarlega á milli okkar,
við sammæltumst um nýtingu sjón-
varpsrýmisins og við snertum ekki
mat hver annarrar. Nú, hálfu ári síð-
ar, er annað upp á teningnum.
Þrjár af þeim búa á efri hæð húss-
ins, þrjár í kjallaranum og ég er ein á
aðalhæðinni þar sem stofan, borð-
stofan og eldhúsið eru. Út frá eld-
húsinu er meðalstór búrskápur – í
honum bý ég.
Á þessum sex mánuðum hefur
húsið skipst upp í þrjár fylkingar;
stelpurnar á efri hæðinni, stelpurnar
á þeirri neðstu og ég og eldhúsið í
miðjunni. Það ríkir hatrammur rígur
hæðanna tveggja á milli, á meðan ég
styrki samband mitt við eldhúsið og
allt sem í því er.
Rifrildin verða svæsnari en á sama
tíma ómerkilegri með hverjum deg-
inum. Ísskápspláss, hitastig hússins
og afnot stofunnar eru dagleg við-
fangsefni sem oftast bera lítinn sem
engan árangur. Þolinmæði allra er á
þrotum. Ekki bætir því úr skák að ég
skuli vera farin að læðast í mat
þeirra allra á næturnar. Með hverri
vikunni sem líður fjölgar þessum
ferðalögum mínum að næturlagi. Nú
orðið fara þessar ránsferðir reyndar
fram á hvaða tíma dags sem er, svo
lengi sem ég er ein í húsinu eins og
núna.
Í fyrstu tókst mér að skipta
skömmtunum jafnt á milli þeirra svo
engin þeirra yrði vör við neitt. Eftir
því sem skammtarnir urðu stærri
varð ekki hjá því komist að sjá um-
merkin hjá hverri og einni. Þær
ásaka hver aðra í kross en ég ligg
aldrei undir grun; sjúklingurinn sem
má ekki innbyrða þennan ameríska
ruslmat þeirra.
Ekki skil ég hvað er að mér.
Hvernig get ég gert þetta án þess að
blikna? Hvernig get ég leyft þessu
leikriti að viðgangast? Ég byrja
hvern einasta dag á því að lofa mér
tvennu; að eiga bara hollan mat í ís-
skápnum og stela ekki mat af stelp-
unum. Ég næ undantekningarlaust
að standa við það fyrra en síðara lof-
orðið er algjörlega tilviljunum háð.
Suma daga næ ég að halda það mikið
í mér að ég get lagst á koddann með
hreina samvisku en aðra er mér það
fullkomlega ómögulegt.
Ég verð að halda áfram leitinni að
einhverju sem getur stutt mig í þess-
ari baráttu minni. Það eina sem ég
hef fundið hingað til eru sjálfshjálp-
arfundir þar sem maður þarf að trúa
á guð almáttugan til að læknast. Svo
lágt leggst ég ekki. En einhvern veg-
inn verð ég að fara að taka ábyrgð á
gjörðum mínum. Ég get ekki haldið
áfram að skvetta olíu á eld heimilis-
ins. Þetta mun enda með ósköpum.
Svo er þessi innbyrðisrígur farinn
að fréttast til strákaliðanna í skól-
anum og er það ímynd hússins ekki
til framdráttar. Þeir tóku upp á því
að kalla heimili okkar hóruhúsið í
byrjun skólaárs og hefur það nafn
fest sig í sessi. Ekki veit ég hvaðan
það gælunafn er sprottið. En það eru
strákarnir sem stjórna umræðunni
og ef þeim finnst eitthvað, þá finnst
öllum það.
Ég velti stundum fyrir mér hve
mikla virðingu þessir strákar bera
fyrir okkur en sú spurning er mér
um megn þegar þarna er komið. Ég
verð að finna lausn á matarvanda
mínum áður en ég fer að ala upp tví-
tuga fótboltapatta.
Ég næ mér í næsta skammt af
stolnum mat og byrja að gúgla. Aft-
ur. Ég bara verð að finna eitthvað
sem getur hjálpað mér.
Að mér og matnum undanskildum
er hóruhúsið í Queens tómt á þessu
laugardagskvöldi. Hér er engin ólög-
leg starfsemi í gangi (fyrir utan sak-
lausar innanhússránsferðir) og hér
verður ekki japlað á neinum í kvöld.
Ekki nema viðkomandi geti smurt
sig sykurlegi, þá skal ég hugsa málið.
Staður: Harpa, Reykjavík
Stund: Desember 2018
Ástand: Ekki hugsa
Ekki hugsa
Hann er einn af þeim sem geta tal-
að við aðra án orða. Hann á hér í
samtali við fullan sal af fólki og það
líður eins áreynslulaust áfram og
hljómarnir sem hann skapar.
Það er einhver dýpt í tónlistinni
hans sem ég væri til í að skilja. Ég
veit að hann kveikir á einhverju hjá
mér sem enginn annar tónlistarmað-
ur gerir en ég gæti ekki útskýrt það
fyrir sjálfri mér eða öðrum. Ég hef
hvorki nægan skilning á tónlist né
mannskeppnunni til að útskýra hvað
á sér stað þegar ég hlusta á lögin
hans. Enda þarf ég þess ekki. Ég
þarf ekki alltaf að geta útskýrt allt.
Ég þarf ekki alltaf að hugsa.
Ég leyfi tónunum frekar að senda
mig í annan heim. Í þessum heimi
þurfum við ekki orð. Við þurfum ekki
að sammælast um að upp þýði upp
og niður þýði niður. Við þurfum ekki
að sannfæra hvert annað um að eitt
sé rétt og annað vitlaust. Eitt af og
hitt á. Í þessum heimi eru engir
flokkar. Við streymum öll niður
sama fljótið og ekkert okkar reynir
að vera á undan hinum. Við sleppum
öll tökunum og treystum því að fljót-
ið taki okkur þangað sem við eigum
að fara, á þeim tíma sem það tekur
okkur að komast þangað.
Í þessum heimi trúir enginn á guð.
Enda lítur enginn á guð sem af eða á.
Við vitum betur. Við vitum að fljótið
ber okkur þangað sem við eigum að
fara – þegar við eigum að fara þang-
að – og það er guð. Við þurfum ekki
orð eða einstaklinga til að segja okk-
ur hvað guð vill eða er. Guð er það
mikill hluti af okkur að við þurfum
ekki að móta hann eins og leirkarl.
Leirkarl sem tekur á sig mismun-
andi myndir eftir heimshlutum. Svo
er hann ekki titlaður hann. Enda er
guð ekki karlmaður í þessum heimi –
ekki frekar en kona.
Tónarnir halda áfram að flæða út.
Hann er með þrjá fiðluleikara, einn
sellóleikara, einn trommara og nokk-
ur píanó sem hann spilar sjálfur á.
Ég skil ekki enn hvernig hann fer að
því að skapa þessa dýrð. Ég er svo
yfirmáta uppnumin og sæl að ég veit
varla hvað ég á að gera við mig.
Mig langar að gefa Ólafi Arnalds
allan heiðurinn af vellíðan minni en
ég get ekki annað en fundið fyrir
djúpstæðu þakklæti gagnvart frá-
haldinu mínu akkúrat núna. Ef ekki
væri fyrir það og það fólk sem hjálp-
aði mér á lappir aftur gæti ég ekki
fundið fyrir þessum tilfinningum
sem brjótast út þegar ég hlusta á
tónlistina hans. Ég væri annaðhvort
algjörlega dofin eða fyndi fyrir
sterkri öfundsýki gagnvart honum
og því sem hann getur skapað en
ekki ég. Svo væri ég auðvitað ekki
stödd hérna á þessum tónleikum í
Hörpu með pabba. Ég væri hvorki í
ástandi til að fara út úr húsi né hefði
ég nokkurn áhuga á að verja tíma
með pabba mínum.
Ég er enn að átta mig á því hve
mikil sturlun fylgir neyslunni. Hvað
ég breytist mikið við að innbyrða
þessi matvæli. Það er enn eitthvað í
mér sem skilur þetta ekki og efast
um eigin upplifun. Svo hjálpar það
ekki að ég er enn að mæta hjúkr-
unarfræðingum, sálfræðingum og
öðrum sjálfskipuðum sérfræðingum
sem segja mér að það sé ekkert til
sem heitir matarfíkn. Það séu bara
til sjúkdómar á borð við átraskanir
og lotuát og að ég þurfi bara að læra
að umgangast þessi matvæli á annan
hátt – og megi því alls ekki taka þau
alfarið út. Slíkt sé óheilbrigt og geti
skapað enn brenglaðra samband við
mat.
Heyrðu! Nú er ég alveg dottin út
úr þeim heimi sem ég fer í þegar tón-
list hans gleypir mig. Ég er komin
inn í gremjuna mína gagnvart sam-
félaginu sem hefur ekki getuna til að
skilja mig – ekki í dag allavega.
Kannski síðar, en það er eitthvað
sem ég get haft skoðun á seinna í
kvöld. Ég vil verja næsta klukkutím-
anum áfram með Ólafi, tónum hans
og þeim heimi sem þarfnast hvorki
orða né hugsana.
Hann hefur sjálfur lítið tjáð sig á
milli laga enda þarf hann þess ekki.
Einstaka sinnum hefur hann þó upp
raust sína og kynnir inn næsta lag.
Takk fyrir þetta. Takk fyrir.
Næsta lag sem við ætlum að spila
fyrir ykkur heitir Ekki hugsa – gjör-
ið svo vel.
Bókarkafli Í bókinni Veran í moldinni segir knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen á athyglisverðan hátt frá baráttu
sinni við matarfíkn, sem hún hefur glímt við um árabil meðfram því að stunda íþrótt sína af kappi hér heima og erlendis.
Þetta mun enda með ósköpum
Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir
Höfundurinn „Ég er enn að átta mig á því hve mikil sturlun fylgir neyslunni. Hvað ég breytist mikið við að innbyrða
þessi matvæli. Það er enn eitthvað í mér sem skilur þetta ekki,“ segir meðal annars í bók Láru Kristínar Pedersen.