Morgunblaðið - 16.09.2022, Page 21

Morgunblaðið - 16.09.2022, Page 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. SEPTEMBER 2022 Við kynntumst Helgu þegar við mættum, hver af annarri, á okkar fyrstu frjálsíþrótta- æfingu sem börn og unglingar. Helga, sem hafði alist upp á frjálsíþróttavellinum enda dóttir þjálfaranna, var alltaf tilbúin að vera nýliðunum innan handar. Við æfðum saman fimm til sex daga vikunnar öll unglingsárin í stórum og þéttum hópi ÍR-ung- linga. Við hlupum, stukkum og köstuðum, hlustuðum á 50 Cent og Kanye West í lyftingaklefan- um, grilluðum sykurpúða og fór- um í kubb á kastvellinum í Laug- ardal. Þá horfðum við oftar en góðu hófi gegnir á Eurotrip, tjölduðum á flestum tjaldstæðum (og ekki tjaldstæðum) á Suður- landi, byrjuðum morgna í bú- staðaferðum á Nóakroppi með mjólk og enduðum marga góða daga í Fjóluhvamminum. Áður en vinkonurnar fóru að tínast úr frjálsum upp úr tvítugu stofnuð- um við kjaftaklúbb og hittumst reglulega. Það var gott að eiga Helgu að sem samferðakonu, góð í gegn, hæglát og hógvær en allt- af til í „flipp“ og stemningu, á sinn snjalla og yfirvegaða hátt. Helga var samkvæm sjálfri sér og hvíldi vel í eigin skinni. Hún átti það til að hlusta lengi af at- hygli án þess að leggja mikið til málanna, en koma svo með hnytt- ið og úthugsað innlegg sem hitti naglann á höfuðið. Hún var minn- ug á fólk, atburði og samtöl og okkur í saumaklúbbnum finnst sameiginlegt minni okkar hafa snarskroppið saman nú þegar við getum ekki lengur treyst á að Helga muni öll smáatriðin frá síð- ustu tveimur áratugum. Helga var óhrædd við að fylgja hjartanu og gera það sem hana langaði til, þótt það væri ekki endilega eftir bókinni. Meðfram læknisfræðinni vann hún á Byggðasafni Hafnarfjarðar og átti þaðan margar góðar minn- ingar. Eftir tveggja ára vinnu sem læknir á Landspítalanum safnaði hún saman sumar- og vaktafríum og fór í Hússtjórnar- skólann í Reykjavík. Þar blómstraði Helga, vandvirk, með gott auga fyrir fegurð og veigraði sér ekki við að taka „all nighter“ með prjónana þegar þannig bar við. Þetta áhugamál áttu þau Gummi saman og voru bæði tvö snillingar í höndunum. Helga fór á pólskunámskeið, sinnti lækna- störfum í Perú og Úganda, fór í brúðkaup í mörgum heimsálfum og var dugleg að borða ís og njóta lífsins. Helga var einstök vinkona, góð móðir, sannur íþróttamaður, af- burða námsmaður og læknir. Heimurinn er fátækari án Helgu og munum við sárt sakna þess að vera umvafðar nærveru hennar. Fjölskyldan í Fjóluhvammi var samheldin og Gummi og Helga voru búin að búa sér og auga- steininum henni Iðunni Lilju gott og fallegt heimili í Vesturbænum. Nú í haust stóð fyrir dyrum nýr og spennandi kafli lífsins við nám og störf í Svíþjóð. Guðmundi Magnúsi, Iðunni Lilju, Þórdísi, Þráni, Hönnu og Möggu frænku sendum við inni- legustu samúðarkveðjur við ótímabært fráfall Helgu. Ásdís Eva, Ásdís, Birna, Hrafnhild Eir, Sandra og Sara Björk. Elsku Helga mín. Það er svo erfitt að ná utan um það að sjá þig aldrei aftur, aldrei aftur heyra í þér. Það eru þessi orð Helga Þráinsdóttir ✝ Helga Þráins- dóttir fæddist 14. júlí 1989. Hún lést 6. september 2022. Útför hennar fór fram 15. sept- ember 2022. „aldrei aftur“ sem mér þykja svo sár og ósanngjörn. Svo- leiðis á ekki að segja um vinkonu sína þegar við erum rétt þrítugar og allt fal- lega lífið fram und- an. En hlýjar og góð- ar minningar ylja núna og þær eru margar. Fyrsta minning mín af þér spilast í huga mínum þessa dagana. Ég sé okk- ur ljóslifandi fyrir mér, þú með síðu fléttuna þína í Pocahontas- hjólabuxunum og ég með þver- toppinn í glansandi bleikum hjólabuxum, á minni fyrstu frjálsíþróttaæfingu hjá ÍR. Ég spyr hvort þú þekkir einhvern, þú neitar því og þá finnst mér auðvitað það eina rétta að við verðum bara vinkonur. Þar með var það ákveðið. Þarna fyrir næstum 25 árum varð til falleg og sérstök vinátta. Hvernig við urð- um vinkonur lýsir þér svo vel, elsku Helga. Þú varst svo hlý og góð og með ofsalega fallega og rólega nærveru. Það var aldrei neinn út undan hjá þér, aldrei gert upp á milli og öllum tókstu opnum örmum. Ég vissi það þarna níu ára gömul að þetta væri vinátta til að rækta og við ræktuðum hana svo sannarlega saman í gegnum lífið. Það er svo ósanngjarnt að lífi þínu sé lokið og að við getum ekki ræktað vináttuna áfram saman. Við sem ætluðum að verða gaml- ar saman og rokka elliheimilis- vistina. Ætluðum að vera mestu gellurnar og svakalegustu vill- ingarnir. Sögðum alltaf að sú hlið okkar myndi koma fram um átt- rætt. Helga, ég lofa að finna gell- una og villinginn í mér fyrir okk- ur báðar. En ég lofa líka að halda í litla lúðann og nördið sem var stór partur af okkar æsku og unglingsárum. Helga mín, það var enginn eins dyggur talsmað- ur þess að vera eins og maður er og þú varst sko sannarlega eins og þú varst og enginn var eins og þú. Minningarnar verða mikilvæg- ari og sterkari héðan í frá og mik- ið vildi ég að ég hefði stálminnið þitt og gæti rúllað í gegnum allar okkar stundir saman eins og góða og langa bíómynd. Það væri erfitt en mikið væri það gaman líka. Ég myndi staldra við nokkra kafla í sögunni okkar, því sagan okkar spannar svo mörg stór og mik- ilvæg augnablik í lífi mínu og allt- af varst þú þar, elsku vinkona. Helga, væntumþykjan sem líð- ur um mig núna er sterk, en á sama tíma svo sár. Þú varst mér mikilvæg vinkona og mér þykir, og mun ávallt þykja, svo vænt um þig og okkar vináttu. Minning um einstaka konu og vinkonu mun lifa í okkur sem sitjum eftir. Ég mun halda sögum þínum lifandi því þær eru of fallegar, flottar og fyndnar til að þær gleymist. Ið- unn Lilja mun sko fá að kynnast mömmu sinni í gegnum sögurnar þínar. Þú varst svo stolt af dóttur þinni og hún skal sko sannarlega einnig fá að vera stolt af mömmu sinni. Elsku Helga, takk fyrir vinátt- una, lífið, hláturinn og gleðina. Þú skilur eftir stórt tómarúm í hjarta mínu og huga en ég veit að minningarnar munu með tíman- um fylla upp í tómarúmið. Ég mun aldrei gleyma hvað þú varst ómetanleg vinkona. Elsku Iðunn Lilja, Gummi, Þórdís, Þráinn, Hanna og Magga. Hugur minn er hjá ykkur á þess- um sáru og erfiðu tímum. Soffía. Hvað lífið getur verið ósann- gjarnt, var eitt hið fyrsta sem við hugsuðum þegar við fengum hringingu frá dóttur okkar mánudagskvöldið 5. september þar sem hún sagði okkur hvað hefði komið fyrir Helgu Þráins- dóttur, hennar bestu vinkonu og dóttur góðra vina okkar, Þórdís- ar og Þráins. Við kynntumst Helgu og henn- ar fjölskyldu fyrir um 25 árum, þegar dætur okkar hófu að æfa frjálsar íþróttir hjá ÍR, undir stjórn Þórdísar og Þráins. Mjög góður vinskapur tókst strax með Soffíu dóttur okkar og Helgu og hélst hann mjög náinn alla tíð síð- an. Einnig tengdumst við hjónin fjölskyldunni í Fjóluhvamminum góðum vinaböndum og áttum mörg góð og skemmtileg ár með- an á frjálsíþróttaiðkun stúlkn- anna stóð. Ferðuðumst við víða um landið á frjálsíþróttamót með þeim og öðrum ÍR-fjölskyldum og upplifðum mörg skemmtileg mót og viðburði. Rifjum við til dæmis reglulega upp þegar stelpurnar voru að keppa á ung- lingalandsmóti í Stykkishólmi í úrhellisrigningu og þar var spjót- kastskeppni í gangi hjá þeim en þar sem Helga var aðallega að keppa í hlaupum og hástökki fór spjótið ekki alltaf rétta leið og faðir hennar fylgdist vel með eins og alltaf og þegar hann sá hvað kastið yrði stutt var kallað hátt: „Helga, gerðu ógilt“ og hún gerði það. Eftir að íþróttakeppnum stelpnanna lauk heimsótti Helga okkur þó nokkuð oft og til dæmis meðan á saumaskap á upphlut hennar stóð, þá notaði hún saumavél Svanhildar mikið til þess verks. Einnig buðum við henni nokkrum sinni í heitt slátur sem henni þótti lostæti. Eftir að Helga giftist nágranna okkar úr Reykásnum, Guðmundi Magnúsi, kíktu þau stundum í heimsókn til okkar þegar þau voru í nágrenn- inu hjá tengdaforeldrum hennar og þótti okkur það mjög gaman og ekki síst eftir að Iðunn Lilja fylgdi með í heimsóknunum síð- ustu tvö árin. Við sendum Guð- mundi Magnúsi, Iðunni Lilju, Þráni, Þórdísi og öðrum ættingj- um okkar innilegustu samúðar- kveðjur á þessum erfiðu tímum. Felix Sigurðsson, Svanhildur Hauksdóttir. Kveðja frá svæfinga- og gjörgæslulæknum á Landspítala Við sjáum, að dýrð á djúpið slær, þó degi sé tekið að halla. Það er eins og festingin færist nær og faðmi jörðina alla. Svo djúp er þögnin við þína sæng, að þar heyrast englar tala, og einn þeirra blakar bleikum væng, svo brjóstið þitt fái svala. Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt, svo blaktir síðasti loginn. En svo kemur dagur og sumarnótt, og svanur á bláan voginn. (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi) Við kveðjum með þessu fallega ljóði Davíðs eina af okkar yngstu starfsfélögum sem féll skyndilega frá í blóma lífsins. Helgu þekkjum við síðan haustið 2017, þegar hún hóf störf sem sérnámslæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans. Það varð okkur fljótt ljóst að hér fór alveg einstök ung kona. Öll hennar störf ein- kenndust af fagmennsku og ná- kvæmni. Hún var fljót að tileinka sér nýjan starfsvettvang og var sérstaklega handlagin sem kom sér vel í okkar sérgrein. Helga var dagfarsprúð og ljúf í viðmóti við alla sem hún mætti, bæði sjúk- linga og samstarfsfólk. Öll sáum við upprennandi frábæran sér- fræðilækni í Helgu og glöddumst yfir áformum hennar um sérnám erlendis. Það fór þó á annan og óskiljanlegan veg. Það er með miklum söknuði og hlýhug sem við kveðjum Helgu hinstu kveðju og varðveitum minningu hennar í hugum okkar. Guðmundi, eigin- manni Helgu, Iðunni Lilju, dóttur hennar, og aðstandendum öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Kári Hreinsson, Sigrún Ásgeirsdóttir, Katrín María Þormar. Í dag kveðjum við Helgu Þrá- insdóttur lækni, sem var skyndi- lega kölluð frá okkur í blóma lífs- ins. Við starfsfólk Barnaspítala Hringsins kynntumst Helgu fyrst þegar hún kom til okkar sem fimmta árs læknanemi við Háskóla Íslands. Að loknu emb- ættisprófi í læknisfræði, vorið 2015, tók kandídatsárið við og vann Helga þá um tíma á Barna- spítalanum. Þá vaknaði áhugi hennar á barnalækningum fyrir alvöru og hóf hún sérnám í grein- inni hjá okkur árið 2019. Þess má geta að sérnámið í barnalæknis- fræði hafði fengið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda nokkru áður, þannig að Helga var meðal þeirra fyrstu sem hóf formlegt sérnám í greininni hér á landi. Helga stóð sig einstaklega vel sem sérnámslæknir. Það sem einkenndi hana umfram annað var hversu dagfarsprúð og þægi- leg í samskiptum hún var. Hún var vel að sér í fræðunum, en hógvær og flíkaði því ekki hversu vel lesin hún var. Deildarlæknar Barnaspítalans minnast Helgu með hlýju og virð- ingu. Hún var mjög hjálpleg og iðulega tilbúin að hlaupa undir bagga og taka aukavaktir þegar veikindi eða önnur forföll voru í hópnum. Hún hafði góða nærveru og jákvætt viðhorf, sem er dýr- mætur eiginleiki á vinnustað þar sem álagið getur verið mikið og mikilvægt að vinnuandi sé góður. Þau minnast hennar einnig fyrir blítt geðslag, greind og aga. Helga hafði metnað fyrir hönd hópsins í heild frekar en sjálfrar sín. Sérnámslæknar á Barnaspít- alanum geta þurft að taka þátt í endurlífgun og öðrum bráðaat- vikum, einkum á bráðamót- tökunni, vökudeildinni og við fæðingar. Við þær aðstæður naut Helga sín vel og var til þess tekið hversu örugg og yfirveguð hún var undir þeim kringumstæðum. Því kom það ekki á óvart þegar hún kom að máli við mig og sagð- ist hafa ákveðið að fara í sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækning- um barna. Stefndi hún á sérnám í Svíþjóð og bað mig um að skrifa með sér meðmælabréf, sem var mér bæði ljúft og skylt. Ég er sannfærður um að hún hefði orð- ið afburðalæknir á því sviði, hefði henni enst aldur til. Við starfsfólk Barnaspítala Hringsins vottum Guðmundi Magnúsi, Iðunni Lilju og öðrum aðstandendum Helgu okkar dýpstu samúð. Þórður Þórkelsson. Bráð veikindi og andlát Helgu Þráinsdóttur eru reiðarslag og mega orð sín lítils. Helga hefur unnið með okkur á Barnaspítala Hringsins síðustu ár við góðan orðstír. Hún naut sín vel í lækn- isstarfinu sem hún sinnti af kunnáttu, samviskusemi, ánægju og hlýju. Henni var umhugað um skjólstæðinga sína og var mjög vel liðin af samstarfsfólki. Ekki barst hún á en aldrei féll henni verk úr hendi. Hún var ætíð traustsins verð. Við minnumst góðrar konu og samstarfsfélaga með söknuði og trega. Fjölskyldu Helgu og vinum sendum við barnalæknar við Barnaspítala Hringsins innilegar samúðar- kveðjur. Mikill er þeirra missir. Judith Amalía Guðmundsdóttir. Mig langar að minnast elsku Helgu í nokkrum orðum. Ég kynntist Helgu fyrir 10 árum. Eft- ir B.S.-verkefni við læknadeild, ákvað Helga að halda áfram í meistaranám í sameindalíffræði hjá mér, samtímis því að vera í fullu læknanámi. Ég vissi vel af Helgu því að ég þekkti foreldra hennar í gegnum frjálsar hjá ÍR þar sem hún æfði auðvitað sjálf í mörg ár. Helga var ákaflega vandvirk, hún skipulagði tilraun- irnar til hins ýtrasta áður en hún framkvæmdi þær, búin að hugsa fyrir öllu. Helga var ekki mikið fyrir að trana sér fram en hún var dugleg að taka þátt í margs konar viðburðum við Lífvísindasetur, hélt fyrirlestra um verkefnið sitt, sótti um rannsóknarstyrki, tók vel á móti nýjum nemum auk þess að taka þátt í ýmiss konar glensi og gríni. Hún var mjög vel liðin með- al kollega – allir voru jafningjar í hennar augum. Kollegarnir á Líf- vísindasetri hugsa til hennar með hlýju. Þeir fengu góð ráð hjá verð- andi lækninum um allt mögulegt, enda meiri hjartagæsku ekki hægt að finna hjá einni mann- eskju. Helga útskrifaðist með glæsibrag vorið 2019 eftir einstak- lega flotta meistaravörn. Ég hugsaði oft hvort Helga hefði leyst leyndardóm sólarhringsins. Hún virtist hafa snúið á hann og náð að lengja hann upp í 30 stund- ir hjá sér persónulega. Hún var alltaf með eitthvað á prjónunum á meðan náminu stóð, fór heimsálf- anna á milli – til Afríku og Suður- Ameríku til að vinna á spítölum fyrir fólk sem minna mátti sín, tók pólskunámskeið við HÍ til þess að skilja betur pólskumælandi fólk á spítalanum, fór í Hússtjórnarskól- ann til að læra betur um heimilið og lífið – Helgu var ekkert óvið- komandi. Þótt ung væri að árum, hafði hún upplifað ótrúlega margt sem jók um leið sjálfstraust henn- ar. Helga hafði þægilega nær- veru. Hún var alltaf svo yfirveguð, alveg sama hve mikið var að gera. Hún var alger gullmoli. Það var gott að tala við Helgu. Hún var al- mennt ekki skrafhreifin en gat látið gamminn geisa þegar við spjölluðum saman á skrifstofunni, sá skondnar hliðar á ýmsu en dæmdi fólk aldrei. Hún var ótrú- lega stolt af systur sinni og sagði frá ævintýrum hennar í Banda- ríkjunum. Rannsóknarhópurinn fór saman á ráðstefnu í Oxford sama vor og Helga kláraði. Hún var valin úr hópi nemenda til að halda erindi sem hún gerði með myndarbrag. Þetta var eftir- minnileg ferð í góðum félagsskap. Með Helgu í för var Gummi, eig- inmaður Helgu, og var ánægju- legt að sjá hvað þau pössuðu vel saman. Ég hitti Helgu í sumar með fallegu dóttur þeirra, Iðunni Lilju, þar sem Helga var upptekin við að sækja um sérnám og skoða hvers konar doktorsnám stæði henni til boða. Hún var í þann mund að leggja heiminn að fótum sér. Það er þyngra en tárum taki að kveðja þig, elskulega Helga. Ég votta fjölskyldunni mína dýpstu samúð á þessari erfiðu stundu. Gullmolinn okkar mun halda áfram að skína skært með- al okkar sem kynntumst Helgu. Guðrún Valdimarsdóttir. Í mínum huga varstu ekki bara amma mín heldur einnig besta vin- kona, ég á svo margar minn- ingar um þig og efst í huga mér er þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér eins vel og ég gerði. Upp kemur minning frá því að ég er 6-7 ára gömul að burðast með ferðatösku á JFK- flugvelli, hlaupandi á eftir flug- freyju sem fór svo hratt yfir að ég átti erfitt með að halda í við hana. Ég hafði flogið í fylgd frá ✝ Jóhanna L. Vil- hjálmsdóttir Heiðdal fæddist 26. ágúst 1936. Hún lést 10. ágúst 2022. Útför Jóhönnu fór fram 2. sept- ember 2022. Íslandi til New York og þú flogið á móti mér frá Or- lando þar sem þú bjóst þá og man ég enn gleðina og létt- inn við að sjá bros- ið þitt sem lýsti upp flugstöðina loksins í mann- mergðinni, saman flugum við svo heim til þín. Það var draumi líkast að vera í stóru Ameríkunni með þér, upplifa allt það sem landið hafði upp á að bjóða og kynnast vin- um þínum, sem tóku mér eins og fjölskyldu, enda varst þú ein af þeim manneskjum sem öllum líkaði við og áttir skemmtileg- an, góðan og náinn vinahóp. Önnur minning kemur upp þar sem ég, þú, Walter og Bjarni erum í Disney World að fara bakdyramegin í Magic Mountain, vinsælasta rússíban- ann á þeim tíma. Þú nefnilega fattaðir að við þyrftum ekki að bíða jafn lengi í röð ef þú værir með og í hjólastól þó að þú þyrftir nú ekki að vera í slíkum stól, en þvílíkur snillingur! Við komumst í öll tækin sem okkur langaði í og þú lést þig hafa það að dröslast með þrátt fyrir að eiga pottþétt að vera að passa upp á veika hjartað þitt. En svona varst þú í hnot- skurn, elskaðir að gleðja aðra og lagðir þig alltaf alla fram svo öllum liði vel og væru glaðir. Fjölskyldan var þér allt og voru ófá matarboðin og veislurnar haldnar til að hóa öllum saman, njóta samverunnar og matarins þíns, sem var sá allra, allra besti! Þegar ég var 17 ára flutti ég út til þín í sex mánuði, ég átti mér þann draum að ganga í skóla erlendis og úr varð að ég fékk að vera hjá þér en fljót- lega eftir að ég byrjaði í nám- inu runnu á mig tvær grímur, ég fann mig engan veginn í skólanum og upplifði mig á allt öðru þroskastigi en skólasystk- ini mín. Ég s.s. vildi hætta og herti mig upp til að segja þér hvernig mér liði og í staðinn fyrir að verða reið eða von- svikin með þetta ráðvillta barnabarn þitt hlustaðir þú af einlægni og skildir líðanina mína, gerðir svo gott úr mál- unum eins og þér einni var lag- ið. Sá tími sem við áttum saman þessa sex mánuði er mér afar dýrmætur og mun minningin um þessa stórkostlegu konu sem þú varst að eilífu lifa í minningabankanum, öll ævin- týrin sem ég upplifði með þér, ferðalögin, þykjustuverslunar- ferðirnar okkar, draugurinn á svölunum sem þú varst reyndar alveg handviss um að væri nú bara hann afi Jói að passa upp á okkur, allar skemmtilegu sög- urnar þínar, og góðu heilræðin, fyrir mér er þetta gull í hjartað. Elsku amma, það er sárt að kveðja en ég efast ekki um að við munum hittast aftur þegar sá tími kemur í sumarlandinu og að þangað til munir þú vaka yfir okkur. Takk fyrir allt elsku amma mín, þú einfaldlega varst best! Þín Jóhanna. Jóhanna L. Vilhjálmsdóttir Heiðdal

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.